Greind, gervisiðferði og leiði

Gervigreind tekur stórstígum framförum. Ásgeir Ingvarsson tekur saman nýlega áfangasigra gervigreindar sem skrifar fullboðlegar námsritgerðir framhaldsskólanema, e.t.v. fræðimanna, og skapar list á við hvern menningarfrömuð á ríkislaunum.

Styttist í, að því er virðist, að fræði og sköpun verði fremur framleiðsla forrita en lista- og fræðimanna. 

Gervigreindin nær sér vel á strik en verður þó aldrei í stakk búin að þroska með sér dómgreind, að skilja muninn á réttu og röngu. Taki gervigreind siðferðilega afstöðu yrði það ávallt á forsendum forritara - sem hlýtur alltaf að vera mennskur.

Vaknar þá spurningin hvort mennsk dómgreind sé eitthvað til að hrópa húrra fyrir. Maðurinn er breyskur og lætur blekkjast, telur það rétt sem er rangt. Forrituð dómgreind hefði þann kost að vera fyrirsjáanleg, sem mennska útgáfan er ekki.

Í 19du aldar skáldsögu Óskars Wilde, Myndin af Dorian Gray, heldur söguhetjan æsku sinni og fegurð á meðan portrett hennar á striga eldist og gránar. Innan tíðar verður hægt að setja saman brúðu, sem lítur út eins og mennsk og býr að gervigreind. Brúðan væri portrettið af Dorian Grey: óbreytanleg og eilíf í æsku sinni. Dómgreind gervimennskunnar væri jöfn og stöðug, hún breytti aldrei rangt - að gefnum forsendum, auðvitað.

Hér virðist komin uppskrift að Paradísarheimt á henni jörð. Í stað breyskrar mennsku spígsporuðu um grænar grundir vammlausar brúður gæddar gervigreind.

Í sögulok skáldsögu Wilde gefst söguhetjan upp á fullkominni tilveru og fyrirfer sér. Líkt gæti farið með Paradísarheimt gervigreindar. Lífsleiði yrði henni að aldurtila. Mistökin eru sérgrein mannsins. Án mistaka blasir við fullkominn leiði.

(Ofanritað gæti verið texti skrifaður af gervigreind sem óttast eigin tilveru).

 

 

 


Bloggfærslur 18. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband