Bótaflokkar, leti og lífshamingjan

Atvinnulausir kjósa fremur að fá bætur frá ríkinu en ráða sig í vinnu, kemur fram í Kastljósþætti á RÚV.

Hver er skýringin?

Jú, það eru bótaflokkar á alþingi sem tala fyrir því sjónarmiði að þeir sem nenna ekki að vinna skuli fá rífleg framlög úr sjóðum almennings.

Bótaflokkarnir segja boðskapinn ekki berum orðum. En þeir segja í einn stað að fólk sem á eitthvað á milli handanna sé líklega spillt, stundi arðrán á vinnandi fólki eða sé beinlínis glæpahyski. Í annan stað aumingjavæða bótaflokkarnir samfélagið með skilaboðum um að allir eigi voða bágt að vera á lífi. Nema þeir efnuðu, sem eru líkast til þjófar.

Bótaflokkarnir þrífast ekki í tómarúmi. Í vælumenningunni eru rök færð fyrir því að alþjóð lifi eymdarlífi. Svo dæmi sé tekið af handahófi þá var pistill í RÚV um að loftslagsbreytingar yllu andlegri vanlíðan. Efni pistilsins er rakinn þvættingur. Á landnámsöld var hlýrra en í dag og menn bæði nenntu og gátu en grenjuðu ekki í fósturstellingu undir súð. 

Pistillinn er hannaður, skrifaður og fluttur í þeim tilgangi að fólk segi: æi, loftslagsbreytingar eru mig lifandi að drepa. Ég ætla bara að vera heima undir sæng og bíða eftir atvinnuleysisbótum til að endurnýja Netflix-áskrifina.

Kosningabarátta stendur yfir í sumar. Bótaflokkarnir verða með allar klær úti að koma tvíþættum boðskap á framfæri. Í fyrsta lagi að Ísland sé ónýtt og í öðru lagi að fólk eigi bágt. Í september, þegar við göngum til kosninga, eigum við að spyrja okkur hvort við viljum aumingjavæða Ísland eða líta björtum augum til framtíðar og fækka bótaflokkum á alþingi. Látum ekki bótaflokka stela af okkur lífshamingjunni.


Bloggfærslur 28. maí 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband