Þriðjudagur, 14. desember 2021
Kjarninn og Stundin þjófsnautar í glæpnum gegn Páli skipstjóra
Útgáfurnar Stundin og Kjarninn birtu í morgunsárið 21. maí fréttaskýringar úr gögnum stolnum úr snjallsíma Páls skipstjóra Steingrímssonar þrem vikum áður. Birtingartími var skipulagður af þriðja aðila. Páll var meðvitundarlaus á gjörgæslu þegar síma hans var stolið.
Í rammagrein í Kjarnanum, sem fylgir fréttaskýringunni, segir:
Í svari sem Arnar Þór Stefánsson, lögmaður á Lex, sendi fyrir hönd Samherja síðdegis í gær kom fram að fyrir lægi að þau gögn sem umfjöllun Kjarnans byggir á hafi fengist með innbroti í síma og tölvu Páls Steingrímssonar, starfsmanns Samherja. Páll hafi kært innbrotið og meðferð gagnanna til lögreglu fyrir fáeinum dögum þar sem málið bíði lögreglurannsóknar.
Í framhaldi skrifar ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson: ,,Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið..."
Stundin gerir ekki sambærilega grein fyrir hvernig útgáfan komst yfir stolin gögn. Í Stundinni segir ,,Samskipti sem Stundin hefur séð sýna hvernig..." og ennfremur ,,Í skráningarupplýsingum skjala sem Stundin hefur skoðað kemur fram að Arna eða í það minnsta tölvan hennar sé höfundur þeirra." (Arna er lögfræðingur Samherja, innsk. pv)
Þriðji aðilinn sem úthlutaði Stundinni og Kjarnanum gögnin getur ekki verið annar en RÚV. Engir aðrir en starfsmenn RÚV hafa í senn yfirsýn yfir málið og fagkunnáttu til að brjótast inn í síma Páls, sækja gögnin og lesa úr kóða sem upplýsir frumútgáfur skjalanna. RÚV var svo umhugað að fá ,,rétta" fréttaskýringu að Aðalsteinn Kjartansson var sendur á Stundina 4 dögum áður en síma Páls var stolið, gagngert til að vinna úr stolnu gögnunum.
Töluverð vinna er lögð í að rekja einstök skjöl, sbr. það sem segir um skráarupplýsingar skjala í umfjöllun Stundarinnar. Á Glæpaleiti er það ekki einn starfsmaður sem hefur séð um úrvinnslu, líkt og útvarpsstjóri vill vera láta, heldur tveir eða þrír.
Fyrir liggur bein játning ritstjóra Kjarnans að útgáfan sé þjófsnautur. Kringumstæðurök hníga öll í þá átt að sama gildi um Stundina. Höfuðsökin liggur þó á Glæpaleiti. Þar voru aðgerðir skipulagðar, útfærðar og tímasettar.
Lögreglurannsókn á eitrun Páls skipstjóra og stuldi á snjallsíma hans er svo gott sem lokið. Ákærur verða gefnar út um eða eftir áramót. Og enn er ekki auglýst eftir fréttastjóra RÚV.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)