Vísindi og mótsögn Menóns

Vísindamenn ,,sam­mælt­ust" um að maðurinn hafi ekki komið til Ameríku fyrr en undir lok síðustu ísaldar, fyrir um 11500 árum, segir í viðtengdri frétt. Voru ,,aðrar kenn­ing­ar að mestu leyti af­skrifaðar sem óáreiðan­leg­ar og hættu forn­leifa­fræðing­ar að leita merkja um und­an­fara."

Vísindalegri aðferð, eins og hún er í reynd, er þarna ágætlega lýst. Það er haft fyrir satt sem vísindamenn sammælast um hverju sinni, á grundvelli gagna. Menn hætta að leita að gögnum sem vefengja viðurkennd sannindi.

Í samræðu Platóns, Menón, er þekkingarleit kynnt sem mótsögn. Maður leitar ekki að því sem maður veit hvað er. Ef maður leitar að því sem maður ekki veit hvað er þá finnur maður það ekki.  

Tilgátur í vísindum brúa bilið milli þess sem vitað er og þess sem er óþekkt, ekki vitað. Vaninn er sá að gögn finnast, oft fyrir tilviljun, - menn voru jú ekki að leita - sem ekki samrýmast viðteknum sannindum. Úr verður tilgáta: maðurinn kom fyrr til Ameríku en áður var haft fyrir satt.

Öll vísindi eru þessu marki brennd. Þau eru þekking með fyrirvara. Vísindin eru aðferð en ekki niðurstaða.   

 


mbl.is Til Ameríku miklu fyrr en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. júlí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband