Þjóðhyggjan sigraði

Lágstemmdri kosningabaráttu með löngu fyrirséðum úrslitum lauk með sigri þjóðarinnar. Kosningaþátttakan er um 70 prósent sem ber lýðræðisást þjóðarinnar fagurt vitni.

Meginþorri þjóðarinnar telur skyldu sína að mæta á kjörstað og nýta atkvæðisrétt sinn í vali á þjóðhöfðingja þótt nánast hafi verið um sjálfkjör að ræða. Aðeins þjóð meðvituð um fullveldi sitt og sjálfstæði sýnir slíkan þegnskap.

Göngum glöð inn í sumarnóttina.


mbl.is Hlakkar til næstu fjögurra ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi er ekki fyrir börn

Maðurinn er fæddur frjáls, en hvarvetna er hann í hlekkjum, skrifaði Rousseau um miðja 18. öld og var fyrirboði byltinga næstu tveggja alda. Þegar sá frönskumælandi skrifaði var gefið að fullorðnir réðu fyrir samfélögum en ekki börn og unglingar. 

Á hinn bóginn: maðurinn er ekki fæddur frjáls heldur ósjálfbjarga. Án hjálpar deyr maðurinn við fæðingu. Eftir fæðingu tekur við uppeldi þar sem ábyrgð og frelsi haldast í hendur.

Quentin Skinner, einn áhugaverðasti hugsuður samtímans, endurlífgar frelsishugmynd sem er eldri en náttúruspeki Rousseau. Frelsi er að vera óháður öðrum vilja en sínum eigin, segir Skinner með vísun í aðgreiningu Rómverja á frjálsum mönnum og þrælum. Frelsi krefst vilja, sem verður til með þroska. 

Ráðandi skilningur, nánast frá dögum Rousseau, er að frelsi sé að ,,gera það sem ég vil" án afskipta annarra. Eini fyrirvarinn er að maður gangi ekki á rétt annarra til að gera það sem þeir vilja. Á seinni tímum gagnast þessi útgáfa frelsisins helst ábyrgðalausu frekjunni sem með hávaða og látum þrengir andrými þeirra ábyrgu og hófsömu. 

Hvað gerir maðurinn, eftir að hann verður sjálfbjarga og með eigin vilja, gjarnan á milli tektar og tvítugs eða þrítugs? Jú, allur þorri manna leitar í hjónaband. Hjónaband gerir manninn háðan maka sínum. Makar bera gagnkvæma ábyrgð á sér og sínum.  Tapaður maki þýðir glataðan lífsvilja fyrir margan manninn.

Maðurinn leitar í ófrelsið, skv. skilgreiningu Skinner,  af fúsum og frjálsum vilja. Ástæðan liggur í augum uppi. Maðurinn er ekkert án samfélags við aðra menn. Fyrsta samfélagið sem sjálfbjarga maður leitar í er makasamband. Vinasamband barna og unglinga er lærdómsferill að markmiðinu - finna lífsförunaut.

Ýmsa menningarsjúkdóma samtímans má rekja til þess að við höfum gleymt aðgreiningunni á milli þeirra sem eru börn og fullorðnir, ósjálfbjarga og sjálfbjarga. Einstaklingsútgáfan af frelsishugmyndinni, spyrt saman við hugmynd Rousseau um að maðurinn sé fæddur frjáls, tröllríður húsum þar sem frelsið er allt en ábyrgðin engin.

Það þykir við hæfi að ósjálfbjarga börn kenni þeim fullorðnu að bjarga heiminum. Víst er það öðrum þræði fyndið. Meinið er að þegar ósjálfbjarga og ábyrgðalausar frekjur ráða ferðinni endar leiðangurinn oftast illa.

 

 

 


Bloggfærslur 27. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband