Leitin að sakleysi Jóns Ásgeirs

Jón Ásgeir, kenndur við Baug, var hvað djarftækastur útrásarmanna. Engu eirði hann, hvorki voru bankar, fjölmiðlar, byggingavöruverslanir né prentsmiðjur, hér heima og í Englandi, óhultar fyrir ásælni Baugsstjórans. Lífeyrissjóðir voru í skotlínunni, þeim var gert að skaffa hlutafé ellegar fá samkeppni frá máttarvaldinu.

Að ekki sé talað um orðspor stjórnmálamanna sem lögðu stein í götu unga athafnamannsins. Þeirra beið ekkert annað falsfréttir og útskúfun af hálfu Baugsmiðla. Ítök Jóns Ásgeirs í samfélaginu voru slík að heil ríkisstjórn var skírð í höfuðið á veldi hans: Baugsstjórnin 2007. Ári seinna knúði hrunið dyra og á einni nóttu varð óskabarn auðjöfursins að hrunstjórninni. 

Strax eftir hrun flutti Jón Ásgeir inn viðskiptafélaga frá Bretlandi til að kaupa íslensk verðmæti á slikk.

Útgáfu bókar um sakleysi Jóns Ásgeirs seinkar. Skal engan undra. Það er djúpt á sakleysi Seltirningsins. Mjög djúpt.


mbl.is Útgáfu Málsvarnar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar seinkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlát barns sem fóður fyrir skelfingu

Kínaveiran og umræðan um hana eru tveir aðskildir heimar í þeim skilningi að skelfingin í umræðunni er stórum meiri en heimild er fyrir í staðreyndum.

Veiran er hættuleg, já. Sóttarvarnir, já. Skelfing, nei.

Í viðtengdri frétt er sagt frá andláti barns í Noregi af völdum veirunnar. Fyrsti ,,barnadauðinn í Noregi" segir í fréttinni. Barnið var með undirliggjandi sjúkdóm, ótilgreindan.

Skelfingarumræðan krefst sérstakra helgisiða. Forsætisráðherra Noregs og aðrir ráðherrar senda foreldrum samúðarkveðjur. Hvað ætli mörg börn deyi í Noregi á ári hverju án þess að fyrirmenni sendi aðstandendum samúðarkveðjur?

Þyngra er en tárum taki þegar barn deyr. En því miður gerist slíkir sorgaratburðir í mannlífinu, oftast af völdum slysa eða sjúkdóma.

Kínaveiran mun, þegar upp er staðið, ekki breyta stóru um andlát á ári hverju. Hlutfall þeirra sem deyja er, góðu heilli, það lágt.

Skelfingarumræðan á hinn bóginn er vís með að hafa margvísleg áhrif og þau jafnvel langvarandi. Almennt má segja um skelfingu er að hún er ónotaleg tilfinning sem skerðir dómgreind. Samfélag ótta og ímyndaðra hamfara er ekki eftirsóknarvert.


mbl.is Barn lést af völdum Covid í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimssýn, ESB-flokkar og stjórnarskráin

ESB-flokkar á alþingi, Samfylking og Píratar,  standa að frumvarpi um stjórnskipunarlög. Í umsögn Heimssýnar er vakin athygli á því að frumvarpið gerir ráð fyrir að einfalt verði fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.  

Í öllum þeim tilvikum sem tilgreint er að aukinn meirihluta þurfi er um að ræða afturkræfar ákvarðanir eða ákvarðanir sem vart munu skipta sköpum fyrir Íslendinga.  Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir auknum meirihluta í uppskrift frumvarpsins að inngöngu Íslands í Evrópusambandið í 113. grein. Þar er þó um að ræða ákvörðun sem mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, er að draga til baka.  Ósamræmið er hér himinhrópandi, en væri auðvelt að leysa með því að bæta við 113. grein ákvæði um að ¾ hluta Alþingis og þjóðarinnar þyrfti til að samþykkja valdaframsal á borð við aðild að Evrópusambandinu, eða öðrum samningum sem þar gætu fallið undir.  Óháð því frumvarpi sem hér er lagt fram væri slík málsmeðferð eðlileg. 

Hvorki er þetta lýðræðislegt né heiðarlegt, segir Heimssýn í umsögn sinni.


Bloggfærslur 19. nóvember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband