Gulli skilur ekki utanríkismál

Þjóðríki sem vill gera sig gildandi á alþjóðavettvangi þarf að eiga tvennt, herafla og peninga. Bandaríkin eru stórveldi enda eiga þau hvorutveggja. Noregur á peninga og skipti máli um tíma í deilum múslíma og Ísrael fyrir botni Miðjarðarhafs.

Gulli utanríkis skilur ekki málaflokkinn sem hann fer með í nafni íslenska lýðveldisins þegar hann telur Ísland skipta máli í óöld á Filippseyjum þar sem eiturlyf eru aflvakinn. Utanríkismál fara illa með dómgreind stjórnmálamanna. Ingibjörg Sólrún ætlaði Íslandi sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það endaði í tárum.

Ísland á hvorki her né peninga til að þumlunga heimsmálum hingað eða þangað. Þjóðríki eiga sér ekki hugsjónir, aðeins hagsmuni. Íslenskir hagsmunir eru að fullvalda þjóðin búi í lýðfrjálsu landi. Gulli utanríkis þarf að skilja á milli eiturlyfjastríðs í Asíu og krafna ESB um ítök í orkumálum Íslands. Að reyna að hafa áhrif á annað er tilgangslaust föndur en hitt er alvörumál sem (enn) er í íslenskum höndum.

Ef Gulli vill breyta heiminum ætti hann að fara að fordæmi Sollu forvera og ráða sig í þjónustu erlendra ríkjasamtaka. Hann er liðtækur þar, eins og dæmin sanna.


mbl.is „Við munum ekkert hvika“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB eyðileggur samheldni þjóða

Bretar standa ekki saman í Evrópumálum líkt og þeir gerðu í Napoleónsstríðum á 19. öld og í þýsk-evrópsku stríðunum tveim á síðustu öld. Elítan í Bretlandi gekk ESB á hönd að stórum hluta og berst fyrir hagsmunum sambandsins þrátt fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2016 þar sem Bretar kusu að yfirgefa ESB.

Vinnulag ESB er að eyðileggja samheldni þjóða með því að kljúfa þær í andstæðar fylkingar. Aðferðina notuðu Rómverjar á sínum tíma með árangri og kallast hún að deila og drottna.

Evrópuþjóðir á nýlendutímanum hygluðu völdum ættbálkum meðal Afríkuþjóða til að stjórna almenningi. Sárin frá nýlendutímanum eru ekki enn gróin í Afríku.

Bretar, líkt og í fyrra og seinna stríði, treysta á Bandaríkin að leysa sig úr viðjum Meginlands-Evrópu. Væntanlegur forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, mun biðja Trump forseta ásjár vegna Brexit.

Íslensk augu, sem lesa niðurlægingu Breta, hljóta að horfa með hryllingi til þess að ESB er um það bil að gera Ísland að orkunýlendu. Elítan í Sjálfstæðisflokknum gekk fyrir ESB-björg og reynir að telja þjóðinni trú um að sjálfstæði sé ósjálfstæði. Hvorki Boris né Farage er að finna í Sjálfstæðisflokknum. Leiguþýin eru sviplaus eins og embættismennirnir í Brussel. Við eigum þó leiðtoga sem áður hefur bjargað þjóðinn úr ógöngum. Sá fer fyrir Miðflokknum.


mbl.is Styðja flokkinn fari Bretland úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband