Föstudagur, 26. október 2018
Stéttabaráttan afhjúpar veikleika ASÍ
Foringi Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári Egilsson, er um sextugt og fann það út að hægt væri að gera sig gildandi í hálfdauðri hreyfingu launafólks. Félagi Sólveig Anna í Eflingu er ekki beinlínis unglingur og Drífa varla Rauðhetta - þótt ekki sé nema fyrir orðbragðið.
Sameiginlegt þessum þrem og nokkrum öðrum er herskátt orðbragð þar sem stéttabarátta er miðlæg. Um Gunnar Smára þarf ekki að fjölyrða. ,,Ritsnillingurinn" var bæði í vinnu hjá auðmönnum og sjálfur atvinnurekendi, áður en hann datt niður áður sósíalisma. Sólveig segist fædd róttæk dóttir Jóns Múla og Ragnheiðar Ástu. ,,Borgarastéttin verður tjúlluð ef henni er ógnað," er yfirskrift viðtals við formann Eflingar í Mannlífi í dag. Drífa talaði um ,,auðvaldsdekur" þegar hún hætti í Vinstri grænum vegna ríkisstjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.
Þar sem enginn unglingur er í hópnum má gefa sér að róttæknin er ekki bernskubrek ungs fólks sem veit ekki betur.
Ísland er stéttlaust land, það er jafnlaunaland og land jafnréttis. Háskólamenntaðir kennarar ná varla meðallaunum ASÍ-félaga. Engar forsendur eru fyrir stéttabaráttu. Hverju sætir róttæknin?
Verkalýðshreyfingin er þjökuð af félagslegum doða. Fáir gefa sig í trúnaðarstörf og kosningaþátttaka er innan við tíu prósent. Stjórnmálaflokkar nenna ekki lengur að tryggja stöðu sína í hreyfingunni. ASÍ-forystan gjammar að ríkisstjórninni en ráðherrar benda á að Samtök atvinnulífsins eru viðsemjendur, ekki ríkisvaldið.
Verkalýðshreyfingin er moldrík. Verkalýðsrekendur hafa gætt þess á síðustu árum að tryggja sér prósentur í kjarasamningum þegar þeir semja um lágmarkskaup vinnandi fólks. Launþegum er skylt að greiða þjónustugjöld til verkalýðsfélaga, 0,7 prósent eða meira af heildarlaunum. Digrir sjóðir kalla á umsýslu og þar er mörg matarholan. Verkalýðsrekendur eiga líka aðgang að stjórnarsetu í lífeyrissjóðum þar sem feitan gölt er að flá.
Harðsnúinn kjarni sósíalista og róttæklinga, sem stýrir núna stærstu ASÍ-félögunum, makar krókinn um hríð en getur ekki beitt sér af neinu viti í landsmálum. Í pólitískri umræðu er engin eftirspurn eftir róttækni verkó. Vinstri grænir náðu sögulegum sáttum við Sjálfstæðisflokkinn og Samfylking hugsar aðeins um ESB og evru.
Þegar harður veruleikinn mætir verkalýðsrekendum við samningaborðið eftir áramót verður pípið um stéttabaráttuna löngu gleymt. Fólk lifir ekki á slagorðum, nema skrifstofulið verkó - það fær sinn hlut á þurru.
![]() |
Drífa: Róttækni er hressandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 26. október 2018
ASí hluti af samfélaginu eða í stríði við það?
ASÍ þarf að gera upp við sig hvort hreyfingin sé hluti af íslensku samfélagi eða vilji bylta því með átökum.
Drífa Snædal fékk stuðning frá Eflingu, eins stærsta félagsins innan ASÍ, til að verða forseti. Eflingu stjórna sósíalistar sem sjá stéttaóvini í hverju horni og fara með gífuryrðum og dólgshætti að þeim sem ekki vilja samfélagsófrið.
ASÍ hefur vitanlega ekki styrk til að umbylta samfélaginu. En fyrirsjáanleg misbeiting verkfallsvopnsins og sjálftaka útvaldra úr sjóðum verkalýðsfélaga kallar á að alþingi endurskoði lög um stéttafélög.
Löngu áður en komið er að þeim tímapunkti er þó líklegast að hófstillta fólkið, sem er meirihluti launþega, yfirgefi ASÍ-félögin í hrönnum. Það ferli er þegar hafið.
![]() |
Drífa Snædal kjörin forseti ASÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 26. október 2018
Skattur, þegnskapur og leynd
Við borgum skatt til samfélagsins enda er það sameign okkar. Aðildin að þessari sameign getur ekki verið leyndarmál.
Þeir sem mótmæla því að upplýsingar um skattgreiðslur einstaklinga liggi frammi gera það á þeim forsendum að hægt sé að reikna út uppgefnar tekjur fólks út frá skattgreiðslum. Rökin eru þau að tekjur séu einkamál fólks.
Hér skýtur skökku við. Eigur fólks eru opinberar, t.d. húseignir og bílar, og hægt að nálgast þær upplýsingar. Hlutafélög eru skráð opinberlega og stífar kröfur um að upplýsingar skuli liggja frammi um hverjir eiga hvað í skráðum félögum.
Hvers vegna ættu upplýsingar um skattgreiðslur að vera leyndarmál? Sennilegasta svarið er að sumir borga minna til samneyslunnar en þeir ættu að gera og vilja ekki að upp komist. En það er óvart ekkert einkamál þegar svindlað er á samfélaginu. Það er opinbert mál.
![]() |
Gefur ekki upp hver fékk skattskrána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)