Fimmtudagur, 6. júlí 2017
Trump: herskáir múslímar arftakar kommúnista
Fyrsta ræða Trump Bandaríkjaforseta í Evróputúr var í Póllandi. Hann sagði guð og kristni hafa frelsað Pólverja frá kommúnisma. Í beinu framhaldi í ræðunni sagði Trump að heimsbyggðinni almennt og vesturlöndum sérstaklega stafaði núna hætta af herskáum múslímum.
Guardian segir ræðu Trump þjóðernissinnaða en það segir aðeins hálfa söguna. Hann talaði fyrir vestræn gildi andspænis öfgum kommúnisma og pólitískri hugmyndafræði múslíma.
Hópurinn í kringum Trump aðhyllist kenninguna um stríð siðmenninga, þar sem vestræni heimurinn tekst á við múslíma. Kenningin kom fyrst fram fyrir um hundrað árum en fékk endurnýjaða lífdaga með grein Samuel P. Huntington eftir lok kalda stríðsins.
Vestræn gildi sigruðu kommúnisma í kalda stríðinu. En næsta ógn vestrænna lífshátta kemur frá trúarmenningu múslíma - út á það gengur kenningin um árekstur siðmenninga.
Frjálslyndir vinstrimenn halda fram annarri kenningu um þróun mála eftir að kalda stríðinu lauk. Sú kenning mælir fyrir yfirburðum fjölmenningar.
Frjálslyndir vinstrimenn standa höllum fæti. Fjölmenningin er dauð hugmynd. Það er ástæðan fyrir því að frjálslyndir vinstrimenn keppast við að mála Pútín og Rússland sem helstu ógn vesturlanda. Þetta afturhvarf til kalda stríðsins fékk töluvert högg þegar Trump var kjörinn forseti.
Frjálslyndir vinstrimenn svörðu með áróðursherferð um að Trump væri leiksoppur Pútín. Af því leiðir verður Trump að sýnast harður í horn að taka í samskiptum við Rússa. Ræða Trump í Póllandi gagnrýndi Rússa, t.d. vegna Úkraínu-deilunnar. En augljóst er að Trump telur höfuðandstæðinginn vera herskáa múslíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 6. júlí 2017
Fjölkvæni í þágu kvenna
Umræða um fjölkvæni er fyrirsjáanleg. Hún verður á forsendum kvenna en ekki karla. Konur eru jafnt og þétt að komast í forræðisstöðu í samfélaginu. Gamla hjúskaparformið, milli tveggja einstaklinga, hentar ekki í framtíðinni.
Konur eru í afgerandi meirihluta í háskólanámi á meðan karlar afmenntast. Nær tvöfalt fleiri konur en karlar eru í háskólanámi. Náið samband er á milli menntunar og mannaforráða í samfélaginu. Eftir fáeina áratugi verða konur almennt í betri stöðu en karlar m.t.t. tekna og valda.
Konur á framabraut þurfa fleiri en einn karl til að sinna þörfum sínum. Nú þegar má lesa fréttir í viðlesnum fjölmiðlum um að konur ,,yngi upp" til að mæta breyttum aðstæðum. Næsta skrefið er að horfast í augu við þá staðreynd að einn karl er konunni ekki nóg.
Líkleg þróun er að kona ná sér í karl á meðan hún er í háskólanámi. Hann sér um húsverkin og vinnur kannski launavinnu meðfram við ræstingar eða önnur ófaglærð störf. Eftir útskrift þarf konan á öðrum karli að halda til að láta sjá sig úti á meðal fólks. En hún gefur ekki frá sér húskarlinn, sem sinnir mikilvægu hlutverki. Nýi maðurinn þjónar félagslegri stöðu konunnar og er til skrauts á meðan húskarlinn heldur heimilinu í starfhæfu ástandi.
Til að koma fyrirkomulaginu í höfn þarf vitanlega að breyta viðhorfum í samfélaginu og lögum um hjúskap. En það verður ekkert mál - konur verða ráðandi álitsgjafar og í meirihluta á þingi og í ríkisstjórn.
Í grófum dráttum verður veikara kyninu skipt í tvo flokka: skrautkarla og húskarla.
![]() |
Ekki standi til að lögleiða fjölsambönd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 6. júlí 2017
Trump klýfur Evrópu - helvítisheimsókn í Hamborg
Áður en Trump Bandaríkjaforseti mætir á G20-fundinn í Hamborg fer hann til Póllands þar sem hann fær höfðinglegar móttökur - miklu betri en í Vestur-Evrópu. Pólverjar eru framarlega í aðdáendaklúbbi Trump.
Frjálslyndir og vinstrimenn í Vestur-Evrópu vara við að Póllandsheimsókninni. Guy Verhofstadt, fyrrum utanríkisráðherra Belgíu og talsmaður frjálslyndra á Evrópuþinginu, segir Trump reyna að kljúfa Evrópusambandið. Í Póllandi, og einnig Ungverjalandi, eru við völd ríkisstjórnir sem ekki eru frjálslyndum vinstrimönnum í Vestur-Evrópu að skapi.
Pólsk og ungversk stjórnvöld neita að samþykkja kvótaflóttamenn frá Evrópusambandinu. BBC segir frá tilburðum Pólverja að setja saman ríkjasamstarf 12 ríkja frá Eystrasalti suður til Króatíu og austur til Svartahafs. Þjóðernishyggja fremur en fjölmenning yrði ríkjandi þema í slíku samstarfi.
Trump talar fyrir þjóðernishyggju og stillir henni upp sem valkosti við vestræna hnignun í líki fjölmenningar. Víða í Austur-Evrópu er þetta stef efst á vinsældarlistum.
Í Vestur-Evrópu er annað hljóð í strokknum. Spiegel segir að mótmælendur í Hamborg boði í upphafi G20-fundarins til aðgerða undir slagorðinu ,,Velkomin til helvítis". Fjölmenningin kallar hlutina réttum nöfnum, hún má eiga það.
![]() |
May ræðir við Trump í Hamborg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)