Laugardagur, 3. júní 2017
Grínistinn og n-orðið
Niggari er neikvætt orð um þeldökka, sem einu sinni voru kallaðir svertingjar, þar áður negrar, á tímabili afrískir-ameríkanar en núna oftast litaðir. Í flokk litaðra fara allir sem ekki eru hvítir á hörund, eins og hvítt sé ekki litur.
Bandarísk stjórnmálaumræða er að nokkrum hluta í höndum grínista, eins og víða í vestrænum heimi. Grínistinn Bill Maher er frjálslyndur og gagnrýninn á trú, bæði kristna og múslímska. Hann er hvítur en kallaði sjálfan sig ,,heimilis-niggara" en það orð var notað um þeldökka sem unnu á heimilum hvítra á dögum þrælahalds, til aðgreiningar frá þeim sem þræluðu á akrinum. ,,Heimilis-niggari" er tvöföld neikvæðni, vísar bæði til hörundslitar með gildishlöðnu orðalagi og hins að viðkomandi sé undirgefnari en hversdagslegur þeldökkur á akrinum.
Krafist er að Bill Maher verður sviptur vinnunni sem atvinnugrínisti hjá HBO. Niggari er orð sem enginn sómakær lætur sér um munn fara í hálfkæringi. Aðeins er leyfilegt að ræða orðið í samhengi við orðsifjafræði, líkt og hér er gert.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 3. júní 2017
Vald með lágstaf og óákveðnum greini
Valdið á Íslandi er ekki með hástaf og ákveðnum greini. Valdinu er dreift á marga, bæði einstaklinga, stofnanir og félagasamtök.
Ástráður Haraldsson lögmaður þekkir ólíka kima valdsins. Eins og margir aðrir valsar á hann milli einkareksturs og opinberra starfa og verður ekki fátækari fyrir bragðið.
En vitanlega hljómar það mun betur að ,,lenda í slag við valdið" heldur en að horfast í augu við að stundum fær maður ekki allt sem maður vill - jafnvel þó maður kunni öll versin í valdabraskinu.
![]() |
Ekki gaman að lenda í slag við valdið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. júní 2017
Stórar hugmyndir og sterkir leiðtogar
Evrópusambandið er stór hugmynd í tilvistarvanda, skrifar George Soros. Loftslagsvá af mannavöldum er önnur stór hugmynd í tilvistarvanda. Jafnvel varkár maður eins og Joseph E. Stiglitz splæsir lífshættu loftslagsváarinnar við aðra hugmynd í hættu, sem er alþjóðhagkerfið.
Soros nefnir sterka leiðtoga aðalandstæðinga Evrópuhugmyndarinnar og þeir eru allir forsetar; Pútín í Rússlandi, Erdogan í Tyrklandi, el-Sisi í Egyptalandi og Trump í Bandaríkjunum. Stiglitz nefnir aðeins einn, en sá er líklega sterkastur af þeim sterku - Trump.
Tilvistarvandi stórra hugmynda er ekki bundinn við vesturlönd. Um 20 prósent jarðarbúa, 1,6 milljarður múslíma, burðast með hugmyndina um að spámaður á Arabíuskaga hafi á ármiðöldum fengið uppskrift af jarðlífinu frá guði. Múslímar eiga enga sterka leiðtoga og vandræði þeirra eru því meiri, samanber ástandið í miðausturlöndum.
Í nettengdum heimi, þar sem ódæði í Kabúl er stórfrétt í Reykjavík fáeinum augnablikum síðar, er eftirspurn eftir stórum hugmyndum sem útskýra heimsástandið. Fólk vill skilning á tilverunni og stórar hugmyndir ramma einstaka atburði í heildstæða mynd.
En það er líka eftirspurn eftir sterkum leiðtogum sem líklegir eru til að breyta ófremdarástandi í eitthvað bærilegra.
Sameiginlegt sterku leiðtogunum, sem nefndir eru hér að ofan, er að þeir standa ekki fyrir stórar hugmyndir. Pútín og Erdogan gæta rússneskra og tyrkneskra hagsmuna. El-Sisi valdar innanlandsástandið í Egyptalandi. Jafnvel Trump er aðeins með takmarkaða hugmynd: make America great again.
Stórar hugmyndir þurfa spámann. Án Jesú væri kristni neðanmálsgrein í sífelldum ófriði ættbálka fyrir botni Miðjarðarhafs. Lenín og Stalín gerðu kommúnisma að heimshreyfingu. Litli maðurinn með frímerkjaskeggið braut Evrópu undir eina hugmyndafræði fyrir miðja síðustu öld.
Við sitjum uppi með stórar hugmyndir í lífshættu, sterka leiðtoga en engan spámann. Ráðlegging Voltaire er nærtæk, um að í viðsjálum heimi ættum við að rækta garðinn okkar. En minnumst þess að Voltaire veitti ráðið í aðdraganda frönsku byltingarinnar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)