Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 23. febrúar 2025
Stefán fór á bakvið stjórn RÚV, upplýsti ekki um Þóru
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri leyndi stjórn RÚV að hann hefði átt í samskiptum við lögreglu í byrjun janúar 2023 um málefni Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks. Hann reyndi einnig, með lögfræðiáliti, að koma sér undan því að veita lögreglu upplýsingar. Samskiptin við lögreglu leiddu til að Þóra var látin fara frá RÚV.
Stefán fékk upplýsingabeiðni frá lögreglu 4. janúar 2023 um símanúmerið 680 2140. Það er númerið á Samsung símanum sem notaður var til að afrita síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Símann hafði Þóra Arnórsdóttir keypt í apríl 2021, rétt áður en skipstjóranum var byrlað og síma hans stolið. Stefán svaraði með tölvupósti 11. janúar eftir að lögreglan ítrekaði upplýsingabeiðnina. Stefán fékk aðstoð lögfræðings og komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingar yrðu ekki veittar. Niðurlag tölvupósts útvarpsstjóra er afgerandi neitun að veita lögreglu upplýsingar: ,,Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að fallast á upplýsingabeiðnina, enda uppfyllir hún að okkar mati ekki lagaskilyrði."
Daginn eftir hafði Stefáni snúist hugur. Óvíst er hvað olli sinnaskiptum útvarpsstjóra sem bæði er lögfræðimenntaður og fyrrverandi lögreglustjóri. Kannski hefur Stefán notað tengsl sín í kerfinu, spurst fyrir á bakvið tjöldin og áttað sig á að honum væri ekki stætt á að neita upplýsingagjöf í rannsókn lögreglu á sakamáli. Ellegar væri hætta á að hann yrði sjálfur kallaður til yfirheyrslu, annað tveggja sem sakborningur eða vitni.
Í tölvupósti 12. janúar 2023 sagði hann símann notaðan af Kveik og að Þóra Arnórsdóttir gæfi upplýsingar ,,munnlega" um notkun símans. Stefán ákveður, ef til vill í samráði við Þóru, að ekkert skuli fréttast af málinu innan veggja RÚV. Hann ákveður jafnframt að halda leyndu fyrir stjórn RÚV að Þóra sé undir lögreglurannsókn fyrir að hafa tekið við stolnum síma, sem fékkst með byrlun.
Næsti stjórnarfundur RÚV eftir samskipti útvarpsstjóra og lögreglu var 25. janúar 2023. Á stjórnarfundum leggur útvarpsstjóri fram minnisblað og fer yfir helstu viðfangsefni stofnunarinnar frá síðasta fundi. Fundir eru að jafnaði mánaðarlega. Þann 25. janúar sagði hann m.a. frá dómsmálum sem RÚV á aðild að en ekki orð um að starfsmaður RÚV sé undir lögreglurannsókn fyrir alvarleg afbrot. Ekkert er sagt um upplýsingabeiðni lögreglu sem eindregið bendir til að stjórnandi á RÚV sé beinn aðili að byrlunar- og símamálinu. Stefán hafði þegar grafið sér djúpa holu. Ári áður, í febrúar 2022, hafði hann, ásamt Heiðari Erni fréttastjóra, gefið út sérstaka traustsyfirlýsingu til Þóru. Það hefði verið vandræðalegt fyrir útvarpsstjóra að útskýra fyrir stjórn RÚV og öðrum að hann gerði mistök með traustsyfirlýsingunni árið áður. Útvarpsstjóri kaus að ljúga með þögninni.
Stefáni ber skylda til að upplýsa stjórn RÚV um formleg samskipti við aðrar ríkisstofnanir, einkum og sérstaklega þegar um er að ræða sakamálarannsókn á yfirmönnum RÚV. Án þessara upplýsinga getur stjórn RÚV ekki sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu.
Stefán losaði sig við Þóru í byrjun febrúar 2023, stuttu eftir að upp komst að hún hafði keypt Samsung síma til að afrita síma Páls skipstjóra. Snubbótt fréttatilkynning var gefin út 6. febrúar. Þóra hafði verið 25 ár á stofnunni og ritstjóri Kveiks frá upphafi. Ef allt væri með felldu hefðu tímamótin verið nýtt til að fara yfir afrekaskrá Þóru og Kveiks. Fáorð fréttatilkynning var látin nægja. Það mátti ekki vekja athygli á skyndilegu brotthvarfi ritstjóra Kveiks. Fólk gæti farið að spyrja og krefjast skýringa.
Á næsta fundi stjórnar RÚV, þann 22. febrúar 2023, leggur Stefán fram minnisblað, samkvæmt venju. Ekki orð um Þóru. En útvarpsstjóri tekur fram að Þröstur Helgason hætti sem dagskrárstjóri Rásar 1 komandi mánaðarmót. Í starfsaldri er Þröstur ekki hálfdrættingur Þóru. Starfsmannamál millistjórnenda eru sem sagt á dagskrá, en ekki þegar Þóra á í hlut. Það mátti ekki ræða skyndileg starfslok Þóru, þá hefði þurft að ræða sakamálið. Útvarpsstjóri ætlaði að þegja sig og RÚV frá byrlunar- og símamálinu.
RÚV er opinber stofnun. Stefáni ber skylda að upplýsa stjórnina um mikilsverð málefni. Að millistjórnandi sé undir lögreglurannsókn vegna alvarlegs sakamáls er augljóslega eitthvað sem Stefán á að greina stjórninni frá. Upplýsingabeiðni frá lögreglu sem leiðir til þess að stjórnandinn lætur af störfum fyrirvaralaust staðfestir að mikilsvert málefni er á ferðinni.
Stefán brást skyldum sínum sem útvarpsstjóri. Með þögninni laug Stefán útvarpsstjóri kalt og yfirvegað að stjórn RÚV. Í öllum stjórnum stofnana og fyrirtækja hefur slík framkoma forstjóra afleiðingar.
![]() |
Hringurinn þrengist um Efstaleiti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22. febrúar 2025
Óánægja á RÚV með byrlunarvörn Stefáns útvarpsstjóra
Stjórnarmenn RÚV eru ekki sáttir með að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri gefi ekki kost á viðtölum vegna byrlunar- og símamálsins. Starfsfólk ríkisfjölmiðilsins furðar sig á þögn útvarpsstjóra. Stefán er andlit RÚV og á að svara fyrir starfsemina á Efstaleiti. En Stefán er á flótta eins og sakamaður. Til að lægja öldurnar sendi Stefán tölvupóst til starfsmanna í gær. Tölvupósturinn sýnir mann sem hefur málað sig út í horn.
Vísir gerir skil tölvupósti útvarpsstjóra. Samkvæmt endursögninni lýtur eina efnislega athugasemd útvarpsstjóra við fréttaflutning Morgunblaðsins síðustu daga að símanúmerinu 680 2140. Um það segir Stefán: ,,Umrætt númer var hins vegar skráð árið 2018, þvert á það sem kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins." Er Stefán var í samskiptum við lögreglu, í janúar 2023, hafði hann ekki í frammi þessa mótbáru, eins og vikið verður að hér að neðan.
Tilfallandi fjallaði um Samsung-síma með símanúmerinu 680 2140 fyrir tveim árum:
Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypti Samsung síma í apríl 2021 og skráði á hann númerið 680 2140 í sama mánuði. Síminn er sömu gerðar og sími Páls skipstjóra sem hefur númerið 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf á númerunum tveim. Til afritunar var nauðsynlegt að hafa síma sömu gerðar og skipstjórans, Samsung. Símarnir eru lagðir saman og afritunarforrit er ræst. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur.
Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021, stuttu eftir símakaup Þóru. Nýr ónotaður sími með símanúmer líkt númeri skipstjórans beið á Efstaleiti. Ráðabruggið lá fyrir. Aðeins átti eftir að byrla og stela.
Í tölvupósti til RÚV-starfsmanna í gær talar Stefán útvarpsstjóri aðeins um símanúmerið sjálft en ekki Samsung-símann sem Þóra keypti í apríl, rétt fyrir byrlun skipstjórans. Símanúmerið 680 2140 kann að hafa verið skráð 2018 en Samsung-síminn var keyptur í apríl 2021. Til að afrita síma skipstjórans þurfti Samsung-síma, samskonar og skipstjórinn notaði. Afritunin fór fram á símtæki, ekki símanúmer. Stefán afvegaleiðir með því að tala aðeins um símanúmerið en ekki símtækið sjálft.
Vitneskja um hvernig síma skipstjórinn notaði gat ekki komið frá neinum öðrum en þeim sem voru í nánum kynnum við hann. Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra hefur játað að hafa byrlað eiginmanninum, stolið síma hans og afhent Þóru Arnórsdóttur á Efstaleiti.
Í samskiptum við lögreglu 12. janúar 2023 segir útvarpsstjóri: ,,Þetta símanúmer mun vera notað af Kveik." Í sömu samskiptum vísar Stefán á Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks til að upplýsa lögreglu. Fyrir tveim árum vissi Stefán hvað klukkan sló. En hann gerði ekkert til að upplýsa málið. Þóra var kölluð í yfirheyrslu og tilfallandi bloggaði um skýrslugjöfina:
Í yfirheyrslu lögreglu bar Þóra því við að Samsung síminn hafi verið notaður til samskipta við heimildamenn Kveiks. En símanúmerið er hvergi skráð heldur leyninúmer. Enginn gat hringt í númerið með fréttaskot eða upplýsingar. Þá var ekki mikið hringt úr símanum í apríl. Reikningurinn fyrir mánuðinn er upp á 692 kr.
Þóra varð sakborningur í lögreglurannsókn í febrúar 2022, ári áður en samskiptin voru, sem rakin eru hér að ofan. Stefán útvarpsstjóri hélt verndarhendi yfir henni. Hann og Heiðar Örn fréttastjóri sendu frá sér yfirlýsingu um að Þóru hefði verið heimilt að taka við stolnum gögnum sem fengust með byrlun. Þessi yfirlýsing stendur enn, hefur hvorki verið afturkölluð né útskýrð. Þóra birti enga frétt á RÚV með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Fréttir birtust aftur samtímis í Stundinni og Kjarnanum morguninn 21. maí 2021. Unnið var eftir skipulagi, aðgerðamiðstöðin var á Efstaleiti.
Útvarpsstjóri og fréttastjóri öxluðu ábyrgð á ritstjóra Kveiks með sérstakri yfirlýsingu og sú ábyrgð er enn i gildi. Stefán útvarpsstjóri reynir að hlaupast undan ábyrgðinni, segir afbrot og siðleysi á Glæpaleiti vera trúnaðarmál.
Eftir að upp komst, í janúar 2023, að Þóra hafði keypt Samsung-síma fyrir byrlun var Þóra látin fara frá RÚV. Engin útskýring, aðeins fáorð tilkynning. Stefán vildi ekki lengur Þóru á RÚV en gaf engar útskýringar, upplýsti ekkert. Í tölvupósti núna í gær til starfsmanna RÚV þykist Stefán ekkert vita hvernig það æxlaðist að hann hélt Þóru sakborningi í eitt ár, frá febrúar 2022 til febrúar 2023, en lét hana svo fara umyrðalaust. Stefán áttaði sig, ekki seinna en í janúar 2023, að starfsmenn RÚV áttu aðild að alvarlegum glæp. En ekki hvarflaði að útvarpsstjóra að upplýsa málavöxtu, hann einfaldlega losaði sig við fólk. Áður en Þóru var varpað útbyrðis á Efstaleiti höfðu Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Helgi Seljan axlað sín skinn vegna byrlunar- og símamálsins.
Stefán útvarpsstjóri lék ýmsa biðleiki til að tefja rannsókn lögreglu og þæfa málið. Eftir fyrstu fyrirspurn um símann með númerið 680 2140 þurfti lögregla að ítreka fyrirspurnina og þá bar Stefán fyrir sig lögfræðiálit um að hann mætti ekkert segja. Rétt eins og hann fullyrðir núna að honum sé óheimilt að tjá sig um aðild starfsmanna að lögbrotum og siðleysi. Stefán tók einnig þátt i, með Þórði Snæ Júlíussyni og Aðalsteini Kjartanssyni, að skálda kæru til lögreglu um að skipstjórinn hefði hótað þeim ofbeldi. Kæran var lögð fram til að afvegaleiða umræðuna um byrlunar- og símamálið, eins og kom fram í umfjöllun Morgunblaðsins. Útvarpsstjóri lagði lag sitt við siðlausa blaðamenn, eins og bæði fyrr og síðar.
Byrlunar- og símamálið þarf að upplýsa. Allir sjá það nema Stefán útvarpsstjóri og blaðamennirnir sem eiga hlut að máli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 21. febrúar 2025
Morgunblaðið til bjargar blaðamennsku
Í bráðum 4 ár liggur byrlunar- og símamálið eins og mara á íslenskri blaðamennsku. Allt að sex til átta blaðamenn og þrír fjölmiðlar, með RÚV í fararbroddi, áttu aðild að byrlun, þjófnaði og afritun á síma. Fjölmiðlar sögðu fáar fréttir og tóku iðulega upp hanskann fyrir félaga sína á RÚV, Stundinni og Kjarnanum. Núna í febrúar ákveður Morgunblaðið að gera skil stærsta og alvarlegasta hneyksli íslenskrar fjölmiðlasögu. Heiðarleg blaðamennska á sér bandamann.
Umfjöllun Morgunblaðsins byggir á gögnum úr lögreglurannsókn sem var hætt, en ekki felld niður. Í yfirlýsingu lögreglu í haust kemur fram að brotið var á Páli skipstjóra Steingrímssyni, honum var byrlað, síma hans var stolið og símtækið afritað á RÚV. En þar sem blaðamenn voru ,,ósamvinnuþýðir" og höfðu eytt gögnum tókst ekki að sýna fram á hvaða blaðamenn frömdu tilgreind afbrot. Þáverandi eiginkona skipstjórans hefur játað að byrla, stela og færa Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV síma skipstjórans 4. maí 2021.
RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Það gerðu aftur Stundin og Kjarninn samtímis 21. maí 2021, 17 dögum eftir að Þóra tók við síma skipstjórans og afritaði á símtæki sem hún keypti fyrir byrlun. Samráð RSK-miðla gekk út á að glæpurinn var framinn á Efstaleiti en afurðin flutt með leynd á Stundina og Kjarnans til birtingar. Heiðarlegir fjölmiðlar afla sér ekki frétta með þessum hætti.
Tilfallandi hóf að skrifa um byrlunar- og símamálið í nóvember 2021. Eftir nokkurra daga þögn frá blaðamönnum RSK-miðla birtust sama daginn, þann 18. nóvember, breiðsíður á Stundinni og Kjarnanum gegn tilfallandi skrifum. ,,Svar við ásökun um glæp," er fyrirsögnin hjá Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans sparaði ekki stóru orðin í Kjarnanum. ,,Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar," var yfirskrift málsvarnarinnar.
Síðar áttu bæði Þórður Snær og Aðalsteinn eftir að stefna tilfallandi fyrir dóm og krefjast bóta upp á nokkrar milljónir króna. Blaðamennirnir kalla það ,,kælingu" þegar þeir fá á sig málssókn, en þeim finnst sjálfsagt að herja á bloggara og tjáningarfrelsi hans.
Þórður Snær gerðist óopinber talsmaður RSK-blaðamanna. Tæpu ári eftir greinina um glæp í höfði tilfallandi Páls kom enn skýrari afneitun frá Þórði Snæ, sem nú er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar: Sagan af manninum sem ekki var eitrað fyrir og blaðamönnum sem valdið vildi kæla. Ásamt afneitun á bláköldum staðreyndum slær ritstjórinn þann tón að lögreglurannsókn á byrlun og stuldi sé ofsóknir á hendur blaðamönnum. Lögreglan var sökuð um annarlegar hvatir. ,,Tvö ár af kælingu vegna glæps sem aldrei var framinn," skrifar Þórður Snær fyrir einu ári og hafði þá sjálfur ,,kælt" bloggara með málssókn.
Fréttir og fréttaskýringar Stefáns Einars Stefánssonar í Morgunblaðinu síðustu daga staðfesta að það sem tilfallandi sagði um byrlunar- og símamálið er satt og rétt. Það sem Þórður Snær og Aðalsteinn hafa sagt um málið er meira og minna ósatt.
Blaðamannafélag Íslands hefur staðið meðvirka vakt með blaðamönnum RSK-miðla og skipulega reynt að afvegaleiða umræðuna og taka undir fáheyrð sjónarmið að lögreglan sé óheiðarleg með rannsókn á alvarlegum afbrotum. Sigríður Dögg formaður BÍ skrifar í Blaðamanninn í desember 2022, ,,Aðgerðir gegn blaðamönnum, aðför að tjáningarfrelsi." Þar klappar hún sama stein og Þórður Snær, að lögregla ofsæki blaðamenn án réttmætrar ástæðu. Í sama tölublaði Blaðamannsins er sagt frá að Aðalsteinn og Þórður Snær fái verðlaun fyrir aðild sína að byrlunar- og símamálinu. Stéttafélag verðlaunar skúrka til að fegra ásýnd þeirra gagnvart almenningi. Verðlaunablaðamenn stunda ekki afbrot, blekkingu og siðleysi eru skilaboð BÍ.
Annað dæmi um vinnubrögð blaðamanna og stéttafélags þeirra er að siðreglum BÍ var breytt fyrir tveim árum til að minnka vernd þeirra sem eiga um sárt að binda og komast í kast við fjölmiðla. Þáverandi varaformaður BÍ, sjálfur Aðalsteinn Kjartansson, hafði forystu um að fella úr gildi siðareglu sem veitti andlega veikum vernd gegn ágangi blaðamanna.
Íslensk blaðamennska var komin í sorpflokk er Morgunblaðið tók til við að fjalla um byrlunar- og símamálið. Blaðamenn á öðrum fjölmiðlum þegja enn um glæpi og siðleysi í eigin röðum. Þeir þjóna öðrum hagsmunum en faglegri og heiðarlegri blaðamennsku. Sigríður Dögg á BÍ er líka mállaus. Sennilega upptekin að ganga frá skattframtalinu sínu.
![]() |
Starfsfólk RÚV huldi slóðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 20. febrúar 2025
Trump og trúarvakning vinstrimanna
Trúlausir vinstrimenn fylkja sér um vígða menn sem gagnrýna Trump. Um daginn var átrúnaðargoðið biskup í Washington og núna norskur prestur, sbr. viðtengda frétt. Trúarvakning vinstrimanna er krampakennt viðbragð við heimspólitískri umpólun. Heilbrigð dómgreind felldi af stalli vók-heimsku.
Lítið dæmi íslenskt. Hér á Íslandi eru foreldrar spurðir af Skólapúlsinum hvort barnið þeirra sé ,,stelpa, strákur eða annað." Barn getur ekki verið annað en strákur eða stelpa. Það getur ekki verið hani, köttur, krummi, hundur eða svín. Afmennskun mannsins ber ekki kristilegu hugarfari vitni.
Trump bakaði sér reiði vinstrimanna með forsetatilskipun um að kynin séu aðeins tvö.
Í tilefni af forsetatilskipun Trump senda heildarsamtök launþega á Íslandi, Kennarasamband Íslands meðtalið, frá sér yfirlýsingu, að áeggjan Samtakanna 78. Fyrsta málsgreinin:
Heildarsamtök launafólks taka undir kröfu Samtakanna 78 um að íslensk stjórnvöld fordæmi tilskipun Bandaríkjaforseta um tvö kyn.
Djúpheimskan í yfirlýsingunni afhjúpast með einni spurningu. Ef kynin eru fleiri en tvö, hvað eru þau þá mörg? Hvorki Kennarasambandið né forysta annarra launþegasamtaka og heldur ekki Samtökin 78 geta svarað barnslega einfaldri spurningu. Hvað eru kynin mörg? En samt eru mannréttindi í húfi þegar forseti Bandaríkjanna staðfestir óyggjandi sannindi. Ranghugmyndir, ekki frekar en hugmyndir almennt, eiga mannréttindi. Maðurinn á mannréttindi og hann er aðeins til í tveim kynjum.
Stórt dæmi útlenskt. Evrópuelítan hittist í Frakklandi í vikunni á neyðarfundi. Tilefnið? Jú, Trump boðar frið í Úkraínu en Evrópuelítan heimtar meira stríð. Örútgáfa elítunnar á Íslandi, Þorgerður Katrín utanríkis, tekur undir. Enn er ekki nóg drepið í Garðaríki. Síðan hvenær er kristilegt að hámarka mannfall og eyðileggingu?
Sannkristinn prestur, Dietrich Bonhoeffer, andæfði helstjórn nasista í Þýskalandi fyrir miðja síðustu öld og galt með lífi sínu. Bonhoeffer sagði heimsku verri en illsku. Heilbrigður einstaklingur þekkir illskuna fyrir það sem hún er. Heimskan er lævísari. Hún sýnist þrungin viti fái hún nægilega marga ábekinga. Fólk hefur samúð með smælingjum á klafa ranghugmynda. Aumingjagæsku er umbreytt í fylgisspekt við vitfirringuna. Samlandi Bonhoeffer og samtíðarmaður, Göbbels, kenndi að endurtekin fáviska verður sannleikur, séu nógu margir um endurtekninguna. Eðjótin fengu byr í seglin á lýðnetinu. Ranghugmyndir urðu viðtekin sannindi í stafrænni síbylju.
Trump er andskoti vinstrimanna af þeirri einföldu ástæðu að afhjúpaði heimssýn fólksins sem kallar sig gott en gerir illt. Andlegir leiðtogar góða fólksins eru imbar með háskólapróf.
Raunsæir hægrimenn sjá ekki í Trump spámann eða endurborinn messías. Maðurinn er 78 ára og dauðlegur eins og við hin. Afrek Trump er að hann í Bandaríkjunum smíðaði meirihluta undir þeim formerkjum að nóg væri komið af hálffasískri hugmyndafræði sem kallast vók. Bandaríkin eru upphaf vóksins - en líka endalok.
![]() |
Of margir drukkið Trump-eitrið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 19. febrúar 2025
Þóra stefndi byrlara til Finns Þórs saksóknara
Í Morgunblaðinu í gær er sagt frá samskiptum Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar. Morgunblaðið birtir hluta samskiptanna sem fóru fram 24. ágúst 2021. Byrlunar- og símamálið hófst þá um vorið þegar eiginkonan byrlaði skipstjóranum, stal síma hans og færði Þóru til afritunar. Lögreglan á Akureyri fór með rannsóknina enda skipstjóranum byrlað í höfuðborg Norðurlands.
Síðsumars 2021 var lögreglurannsóknin enn á frumstigi. Blaðamenn höfðu veður af rannsókninni og vildu freista þess að flytja hana frá lögreglunni á Akureyri til héraðssaksóknara í Reykjavík. Blaðamennirnir töldu eiginkonunni, sem er alvarlega andlega veik, trú um að rannsóknin á henni tengdist Namibíumálinu og vildu að hún gæfi sig fram við héraðssaksóknara í Reykjavík í þeirri von að byrlunar- og símamálið yrði sameinað Namibíumálinu. Eini samnefnari Namibíumálsins og byrlunar- og símamálsins er að blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru upphafsmenn í báðum tilvikum.
Tilfallandi fjallaði um samskipti Þóru og byrlara Páls skipstjóra fyrir hálfu öðru ári:
Úr símanum 680 2140 var Þóra í reglulegum samskiptum við þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra. Hún er andlega veik, hefur tvisvar verið nauðungarvistuð á sjúkrastofnun, talin sjálfri sér hættuleg og öðrum. Eiginkonan sá um byrlun og símastuld í samráði við blaðamenn.
Blaðamenn urðu þess áskynja sumarið 2021 að lögreglurannsókn væri hafin. Skipstjórinn hafði kært málið 14. maí þá um vorið.
Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins enda var Páli byrlað á Akureyri. Þóra og samstarfsmenn hennar á RSK-miðlum fengu veiku konuna til að banka upp á hjá héraðssaksóknara í Reykjavík í þeirri von að forræði rannsóknarinnar flyttist þangað og yrði sameinað Namibíumálinu svokallaða.
Sá sem fer fyrir Namibíumálinu hjá héraðssaksóknara er Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari. Bróðir hans, Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður er einn fimm sakborninga RSK-miðla. Plottið gekk út á að Finnur Þór myndi fella niður lögreglurannsóknina.
Sumarið 2021 var rannsókn enn á frumstigi. Enginn hafði verið yfirheyrður, hvorki eiginkona skipstjórans né blaðamenn. Þar af leiðir var enginn kominn með stöðu sakbornings í málinu. Eiginkonan var sú fyrsta sem boðuð var í yfirheyrslu og það var ekki fyrr en 5. október 2021. Blaðamenn töldu að þeir gætu bjargað sér fyrir horn með því að rannsókn málsins flyttist til héraðssaksóknara þar sem Finnur Þór er fyrir á fleti.
Veika konan, forrituð af blaðamönnum, mætti óboðuð til héraðssaksóknara 10. september 2021 til að tjá sig um Namibíumálið og Samherja. Allar upplýsingar um þau mál hafði eiginkona Páls vitanlega fengið frá blaðamönnum enda hún aðeins tengd Samherja með hjónabandi við skipstjóra hjá útgerðinni. Ekki það að blaðamenn reyndu ekki að fá hana til verka. Í lögregluskýrslum eru samskipti sem sýna að heimsókn veiku konunnar til aldraðrar móður Þorsteins Más forstjóra Samherja var rædd. RSK-liðum er ekkert heilagt.
Lögreglufulltrúi tók á móti eiginkonu skipstjórans 10. september 2021 og kallaði til annan starfsmann embættisins, mögulega var það Finnur Þór eða undirmaður hans. Konunni hafði verið sagt að tilkynna að hún hefði upplýsingar um Namibíumálið sem hún vildi koma á framfæri. Það átti að vera tilefnið til að færa forræði rannsóknar á byrlun og símastuldi suður yfir heiðar.
Lögreglufulltrúinn sem tók á móti konunni skrifaði skýrslu, dagsett 14. mars í ár, 2023, þar sem hann greinir frá heimsókn konunnar. Þar segir að þáverandi eiginkona skipstjórans hafi verið ,,í mjög miklu andlegu ójafnvægi. Hún óð úr einu í annað og grét mikið."
Eiginkonan var buguð, fárveik andlega og undir stöðugum ágangi blaðamanna sem spiluðu á ranghugmyndir hennar um lífið og tilveruna. Héraðssaksóknari gat ekki notað játningar eiginkonu Páls sem rök til að taka yfir málið og sameina það Namibíumálinu.
Af Finni Þór er það að frétta að hann hætti hjá héraðssaksóknara og gerðist dómari við héraðsdóm Reykjavíkur. Þegar einni angi Namibíumálsins, réttarstaða Örnu McClure kom til kasta héraðsdóms, gerði Finnur Þór allan dómstólinn vanhæfan. Heilir 24 dómarar urðu vanhæfir á einu bretti - sennilega Íslandsmet. Finnur Þór varð að segja sig lausan frá dómarastörfum og var fluttur til í stjórnkerfinu, stýrir núna rannsókn á Súðavíkursnjóflóðinu. Samkrull embættismanna og blaðamanna sem láta lög og siðareglur lönd og leið er meinsemd sem grefur undan réttarríkinu.
Byrlunar- og símamálið heldur áfram að eitra samfélagið, fjórum árum eftir að það hófst. Þeir sem mest vita um málið þegja þunnu hljóði. Þeir eru: Þóra Arnórsdóttir nú á Landsvirkjun, áður ritstjóri Kveiks, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Heimildinni, áður á Stundinni og RÚV, Þórður Snær Júlíusson áður ritstjóri Kjarnans en nú framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. Það er í þeirra höndum að upplýsa hvernig það atvikaðist að blaðamenn RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, hófu samstarf við andlega veika konu sem vann óhæfuverk í þágu blaðamanna og fjölmiðla þeirra.
![]() |
RÚV og Stundin með puttana í símanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 18. febrúar 2025
Evrópa vill stríð, Trump frið
Herská ESB-Evrópa og Ísland, ef marka má Kristrúnu og Þorgerði Katrínu, vilja halda áfram stríði í Úkraínu. Ekki er nóg drepið, limlest og eyðilagt. Meiri hörmungar þarf til að fullnægja drápsfúsri ESB-Evrópu og væntanlegri hjálendu. Trump Bandaríkjaforseti boðar á hinn bóginn frið. Rússar eru tilbúnir í viðræður við Trump en hvorki við ESB-Evrópu né Selenskí, umboðslausan Úkraínuforseta.
Tvær meginástæður eru fyrir stríðslyst ESB-Evrópu. Í fyrsta lagi að víkka út ytri landamæri meginlandsklúbsins með Brussel sem höfuðborg. Í öðru lagi að þétta raðirnar. Fátt eykur meira samheldni og samræmt göngulag Evrópusambandsins en sameiginlegur óvinur - Rússland.
Trump er ekki haldinn Rússafóbíu og lítur ekki svo á að Pútín stefni á heimsyfirráð, líkt og Brussel-klíkan gerir. Bandaríkjaforseti segir Úkraínustríðið tilgangslaust, mannslífum og verðmætum sé fórnað til einskins. Sjónarmið ESB-Evrópu og Íslands er að stríðið þjóni göfugum pólitískum tilgangi.
ESB-elítan vonaðist til að á öryggisráðstefnunni í München um liðna helgi myndu Bandaríkin og ESB-Evrópa stilla saman strengina. Símtal Trump og Pútín fyrir ráðstefnuna sló á þær væntingar. Ræða Vance varaforseta Bandaríkjanna á sjálfri ráðstefnunni gerði úti um allar vonir að ESB-Evrópa og Bandaríkin yrðu samstíga að leysa Úkraínudeiluna. Evrópa, sagði Vance, hefur tapað grunngildum sínum. Evrópskar árásir á tjáningarfrelsið heima fyrir er meiri ógn við frelsi og velsæld álfunnar en Rússland.
Gagnólík heimssýn skýrir staðfest hyldýpi á milli Trump-Ameríku og ESB-Evrópu. Trump viðurkennir að heimsbyggðin sé ekki einpóla með Bandaríkin sem æðsta yfirvald. Sitjandi Bandaríkjaforseti ætlar að ná samstöðu og gagnkvæmum skilningi með Rússlandi, og síðar Kína, um hvernig skynsamlegast sé að haga málum. Komist á eðlileg samskipti milli Bandaríkjanna og Rússlands veikist Kína sjálfkrafa eru óskráð undirmál Trump-stefnunnar í nýjum margpóla heimi. Í stað einpóla heims verður til þríveldi. Kjörstaða Bandaríkjanna er að deila og drottna í þríveldinu.
Það var sjálfur Pútín sem árið 2007, fyrir 18 árum, einmitt á öryggisráðstefnunni í München, varaði við einpóla heimi. Þegar Pútín talaði í München fyrir 18 árum var Trump að reyna fyrir sér í sjónvarpsseríu sem hét Lærlingurinn. Hér heima var Kristrún nýfermd og Þorgerður Katrín upptekin að semja um kúlulán sem hún ætlaði aldrei að borga. Stöllurnar halda engu að síður að þær kunni utanríkispólitík og binda sitt trúss, og Íslands, við hornkerlinguna í Brussel.
Einfalt er að útskýra heimssýn Brussel-klíkunnar. Einpóla heimur þar sem Bandaríkin eru sykurpabbi ESB-Evrópu. Heimsmyndin hrundi um liðna helgi í beinni útsendingu í München. Í lok ráðstefnu grétu fullorðnir menn í ræðustól er sykurpabbinn yfirgaf samkvæmið og skellti á eftir sér hurðinni.
Sjónarhorn Trump er að Úkraína sé smámál sem þarf að afgreiða áður en varanlegar breytingar verða á heimsskipan, sem í grunninn var ákveðin í lok seinna stríðs og viðhaldið af vestrinu eftir lok kalda stríðsins. Trump er raunsæismaður, ekki hugsjónavingull með dagdrauma um ímyndaðan heim. Ekki frekar en að trúir að kynin séu þrjú, fimm eða seytján. Evrópu-elítan er hinsegin, Trump veruleikinn.
Trump kemur úr heimi viðskipta. Hann er með varaáætlun, verði ekkert af samkomulagi við Rússa um lok Úkraínustríðsins. Varaáætlunin gerir ráð fyrir að Bandaríkin eignist náttúruauðlindir og innviði Úkraínu, landið verði í raun hjálenda Bandaríkjanna, og stríðið haldi áfram með auknum tilstyrk frá Washington. Í samanburði við varaáætlunina um Úkraínu er Gasa-yfirtaka Bandaríkjanna hjóm eitt.
Rússum er kunnugt um varaáætlun Trump. Pútín virðist hafa fengið þau skilaboð frá Trump að Rússar megi halda herteknu svæði, um 20% af Úkraínu, auk Krímskaga, og að Úkraína verði ekki Nató-ríki. Vitað er að Rússar hafa augastað á tveim stórum borgum sem eru í grunninn rússneskar, Ódessa og Karkhív. En þeir fá þær ekki, samkvæmt Trump-áætluninni. Rússar vita þó að lofi Bandaríkin að enginn bandarískur hermaður verður sendur til Úkraínu að gæta friðar er skilið eftir valdatóm sem hermenn ESB-Evrópu geta ekki fyllt. Rússar verða með svigrúm til að auka áhrif sín eftir að friður kemst á.
Stærsti ávinningur Rússlands verða ekki landvinningar eða Nató-bann á Úkraínu. Heldur hitt að Rússar fá aftur sæti við háborð stórveldanna, viðskiptaþvingunum verður aflétt. Og ekki leiðist Pútín að sjá ESB-Evrópu meðhöndlaða sem sveitarómaga.
Niðurstaða friðarviðræðna Trump og Pútín er ekki komin. Selenskí Úkraínuforseti virðist telja málið útkljáð. Hann flaug í gær til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og undirritaði víðtækan samning um að úkraínskt fé, sem einu sinni var vestrænt, fái heimilisfestu fjarri vígaslóð og yfirvofandi rússneskum friði.
![]() |
Lavrov: Þátttaka Evrópu tilgangslaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 17. febrúar 2025
Byrlunarmálið lesið afturábak
Fyrsta opinberun byrlunar- og símamálsins er morguninn 21. maí 2021. Stundin og Kjarninn birtu samtímis efnislega sömu fréttina um meinta ófrægingarherferð tveggja starfsmanna Samherja á hendur blaðamönnum og fjölmiðlum. Fréttirnar eru keimlíkar, sjá hér og hér, og vísa í sömu gögn, fengin úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar.
Þennan morgun, 21. maí 2021, var enginn annar fjölmiðill með þessa frétt, aðeins Stundin og Kjarninn. Hvernig geta tveir ótengdir fjölmiðlar setið einir að sömu fréttinni? Svarið er einboðið. Þriðji aðili skipulagði birtingu fréttanna. Í frétt Kjarnans er viðurkennt að þriðji aðili útvegaði fréttina og að lögbrot hafi verið undanfari:
Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið...
Í viðtengdri frétt Morgunblaðsins segir að skipulagið hafi verið svo nákvæmt að daginn fyrir birtingu hringdu blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans í Pál skipstjóra um sama leyti:
Símtölin voru með tíu mínútna millibili og eftir þau skundaði Páll rakleitt á lögreglustöð og gaf nýja skýrslu í málinu.
Blaðamennirnir sem hringdu í skipstjórann voru Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum. Símtölin voru aðeins til að uppfylla formskilyrði, tala við skipstjórann sem blaðamenn ásökuðu um að vera foringja skæruliðadeildar Samherja.
Hver útvegaði Aðalsteini annars vegar og hins vegar Þórði Snæ fréttina? Þáverandi eiginkona skipstjórans er andlega veik. Hún hefur játað að hafa farið með síma skipstjórans þann 4. maí 2021 og afhent símann Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks til afritunar á Efstaleiti. Eftir afritun var síma skipstjórans skilað á sjúkrabeð hans.
Þóra vissi fyrirfram að sími skipstjórans var væntanlegur. Fyrir byrlun og stuld hafði Þóra keypt síma samskonar og skipstjórans, af gerðinni Samsung. Hvernig vissi Þóra að Páll skipstjóri notaði Samsung-síma? Nú, vitanlega, Þóra var í samskiptum við eiginkonu skipstjórans áður en byrlun og stuldur fóru fram þann 3. maí 2021.
Þegar Þóra keypti Samsung-símann var Aðalsteinn Kjartansson undirmaður hennar á Kveik. En 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun, tilkynnti Aðalsteinn á Facebook að hann væri hættur á Kveik. Ekki þó hættur í ,,rannsóknablaðamennsku". Eftir hádegi var tilkynnt að Aðalsteinn væri orðinn blaðamaður á Stundinni, sem systir hans Ingibjörg Dögg ritstýrði.
Blaðamenn skipta ekki um starf í hádeginu, þannig gerast hlutirnir ekki hjá fjölmiðlum og yfirleitt ekki á vinnumarkaði. En það bráðlá á að Aðalsteinn færi af Kveik/RÚV yfir á Stundina rétt áður en Páli skipstjóra var byrlað og síma hans stolið. Búið var að ákveða að Aðalsteinn yrði skráður höfundur fréttarinnar í Stundinni. Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson voru skráðir höfundar þeirrar útgáfu fréttarinnar sem birtist í Kjarnanum. Allir þrír fengu blaðamannaverðlaun fyrir að taka við frétt frá RÚV og birta sem sína eigin.
Málsatvik rekin afturábak frá 21. maí 2021, þegar fyrstu fréttir birtust með vísun í gögn úr síma skipstjórans, sýna að atburðarásin var skipulögð. Áður en skipstjóranum var byrlað 3. maí voru komin á samskipti milli byrlara og blaðamanna. Miðstöð aðgerða var á RÚV. Hvorki blaðamenn né yfirstjórn RÚV hafa gert grein fyrir aðild sinni að byrlunar- og símamálinu. Er ekki kominn tími til að málið verði upplýst? Hér er í húfi traust og trúverðugleiki blaðamannastéttarinnar annars vegar og hins vegar ríkisfjölmiðilsins.
![]() |
Játaði byrlun og aðkomu fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 16. febrúar 2025
Tapað tjáningarfrelsi í Evrópu og á Íslandi
Evrópa hefur misst sjónir á eigin grunngildum og berst við ímyndaða ógn frá Rússum. Tapað tjáningarfrelsi er meiri ógn fyrir almenning í Evrópu en sú hætta sem stafar að Rússlandi.
Á þessa leið mæltist J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna á öryggisráðstefnu í München. Allir bjuggust við að Vance talaði um ytri ógnir, s.s. Rússlands og e.t.v. Kína. En, nei, varaforsetinn tók dæmi af Svíþjóð, Englandi, Belgíu og Skotlandi þar sem frjáls tjáning er skert ef ekki bönnuð til að þóknast sérhagsmunum.
Í Evrópu, sagði Vance, nota menn hugtök eins og hatursræðu og upplýsingaóreiðu til að kæfa frjálsa tjáningu. Eftir að hafa rætt hörð kjör frjálsrar orðræðu í Evrópu ræddi Vance útlendingamál í álfunni, einkum innflutning á múslímskri trúarmenningu, og tilraunum til að kæfa andóf gegn rangri stefnu stjórnvalda. Ræðan er ekki nema um 18 mínútur. Ræða Vance er mál málanna í Evrópu þessa helgi. Ef einhver skyldi halda að Trump forseti sé annarrar skoðunar en varaforsetinn þá styður Trump boðskap Vance.
Ísland hefur smitast af Evrópuelítunni sem vill setja frjálsri umræðu harða kosti í málaflokkum sem elítan gerir að sínum. Mannlíf hefur eftir Samtökunum 78 að fimm einstaklingar hafi verið kærðir til lögreglu fyrir að gagnrýna lífsskoðunarfélagið með einum eða öðrum hætti.
Ákæruvaldið ákvað að taka mark á kærum Samtakanna 78 í stað þess að henda þeim í ruslið. Tilfallandi bloggari er einn þeirra sem er ákærður af ríkisvaldinu í kjölfar kæru Samtakanna 78. Allt að tveggja ára fangelsi eru viðurlögin og fjársekt í ofanálag. Tilfallandi gerði grein fyrir ákærunni í bloggi:
Með ákærunni hlutast lögreglan til um opinbera umræðu frjálsra borgara um samfélagsleg málefni. Lögreglan tekur að sér í verktöku fyrir Samtökin 78 að þagga niður í þeim sem andmæla lífsskoðunarfélaginu og sértrúarboðskap þeirra í leik- og grunnskólum.
Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að lífsskoðunarfélag eins og Samtökin 78 kæri mann og annan. Orðið er frjálst - líka til að skrifa kærur. Annað og alvarlegra mál er að ríkisvaldið, ákæruvaldið, tekur upp á því að ákæra einstakling fyrir að hafa skoðun. Ríkissaksóknari, æðsti handhafi ákæruvaldsins, á ekki að stunda nornaveiðar í þágu lífsskoðunarfélags. Málfrelsið er hornsteinn annarra mannréttinda. Fari tjáningarfrelsið forgörðum á Íslandi er fokið í flest skjól frjálsra borgara.
Mál tilfallandi er komið lengst af þeim fimm er sæta ákæru fyrir rangar skoðanir. Ég mun mæta fyrir héraðsdóm Reykjavíkur í lok mánaðarins til að svara fyrir þær sakir að hafa andmælt starfsemi Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum. Öðrum þræði grátbroslegt, hinum þræðinum harmleikur lýðræðisríkis þar sem ákæruvaldið misþyrmir frjálsri orðræðu.
![]() |
Vance hvatti Evrópu til að breyta um kúrs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 15. febrúar 2025
Heiðar Örn segir ósatt, Stefán afvegaleiðir
Á Facebook segir Heiðar Örn fréttastjóri RÚV framburð fyrrum eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar um það að hún hafi afhent RÚV síma skipstjórans sé ,,á reiki". Heiðar Örn segir ósatt. Framburður konunnar er ekki á reiki, heldur stöðugur. Í skýrslu lögreglu segir orðrétt:
Framburður sakbornings sem afhenti fjölmiðlum símann hefur verið stöðugur allan tímann sem rannsóknin hefur staðið um að hann hafi afhent fjölmiðlum símann og þar hafi síminn verið afritaður.
Ósannindi á Facebook toppar Heiðar Örn með því að neita að svara spurningum Morgunblaðsins. Blaðamaður sem svarar ekki spurningum fjölmiðils er ekki á góðum stað, líkist sjómanni sem neitar að fara í róður.
Morgunblaðið bað Stefán útvarpsstjóra um viðtal en hann neitaði. Í skriflegu svari afvegaleiðir útvarpsstjóri umræðuna um aðkomu RÚV að byrlunar- og símamálinu. Hann skrifar:
Fyrir liggur jafnframt að ríkissaksóknari hefur staðfest niðurstöðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra um niðurfellingu rannsóknar málsins hvað varðar meint brot núverandi og fyrrverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins, auk annarra fjölmiðlamanna, gegn friðhelgi einkalífs
Lögreglurannsókn leiddi í ljós að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks tók við síma skipstjórans 4. maí 2021. Mánuðinn áður hafði Þóra keypt Samsung-síma, sömu gerðar og skipstjórans. Stefán staðfesti við lögreglu tilvist símans en fór leynt með upplýsingarnar gagnvart stjórn RÚV. Þóra vissi með fyrirvara að sími skipstjórans var væntanlegur til afritunar á RÚV. Þóru valdi á afritunarsímann númerið 680 2140, númerið á síma skipstjórans er 680 214X. Aðeins munar síðasta tölustaf. Er Páli skipstjóra var byrlað 3. maí 2021 beið á Efstaleiti samskonar sími og hans með nauðalíkt númer.
Þóra varð sakborningur í lögreglurannsókn í febrúar 2022. Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri birtu af því tilefni yfirlýsingu þar sem viðurkennt er að Þóra hafi tekið við símanum. Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, líkt og staðfest hefur verið í dómum Hæstaréttar og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá er ljóst að hafi gögn að geyma efni, sem eiga erindi til almennings og varða mál, sem styr hefur staðið um í þjóðfélaginu, er fjölmiðlum rétt að fjalla um slíkt, jafnvel þótt um sé t.d. að ræða einkagögn sem fjölmiðlum eru fengin. Ríkisútvarpið og starfsmenn þess hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi í sínum störfum, enda grundvallarþáttur í lýðræðisþjóðfélagi, sem virða verður í hvívetna. (feitletr pv)
Réttlæting útvarpsstjóra og fréttastjóra RÚV á viðtökunni á stolnum síma er að gögnin eigi erindi til almennings. En RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans, heldur flutti fréttirnar yfir á Stundina og Kjarnann til birtingar. Í yfirlýsingunni er ekkert fjallað um hvort fréttamönum sé heimilt að leggja á ráðin um að síma sé stolið. En með því að Þóra vissi með fyrirvara að sími skipstjórans var væntanlegur mátti hún vita að síminn yrði tekinn ófrjálsri hendi.
Hvort Þóra vissi að skipstjóranum yrði byrlað, til að hægt væri að stela símanum, er opin spurning. Víst er að skipulagið gekk út á að stela símanum og afrita og síðan skila símanum aftur til skipstjórans sem lá meðvitundarlaus á gjörgæslu.
Stefán útvarpsstjóri og Heiðar Örn fréttastjóri þora ekki að svara spurningum Morgunblaðsins. Þeir óttast sannleikann í byrlunar- og símamálinu.
![]() |
Neita að tjá sig um byrlunarmálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 14. febrúar 2025
Trump gefur Pútín Evrópu
Eftir 90 mínútna samtal við Pútín Rússlandsforseta hringdi Trump í Selenskí forseta Úkraínu í fáeinar mínútur. Á milli Trump og Pútín var samtal, Selenskí fékk niðurstöðu. Heimurinn er í höndum Trump og Pútín, skrifar Telegraph. Smávegis ýkjur, vitanlega, líkt og fyrirsögnin hér að ofan, en keyrir heim tvö kjarnaatriði.
Í fyrsta lagi að Trump og Pútín eru sammála að forsetar Bandaríkjanna og Rússlands geta einir leitt til lykta Úkraínustríðið, aðrir eru í aukahlutverkum. Heimsfjölmiðlarnir taka undir sjónarmiðið og þar með verður sannfæring tveggja forseta viðurkennd staðreynd alþjóðastjórnmála.
Í öðru lagi gefur Trump Pútín frjálsar hendur í Evrópu. Ekki til að leggja undir sig álfuna, eins og sumir halda að hann vilji, heldur til að tryggja lögmæta rússneska öryggishagsmuni. Í því felst að hvorki verður Úkraína Nató-ríki né verða bandarískir hermenn sendir til að gæta víglínunnar í fyrirséðu vopnahléi, á meðan friðarsamningar standa yfir. Úkraína fær ekki bandaríska hervernd í einu eða öðru formi. Trump breytir ráðandi stefnu Bandaríkjanna frá lokum seinna stríðs. ESB-Evrópa er ekki lengur kjarnasvæði hvað bandaríska öryggishagsmuni áhrærir. Grænland og Ísland eru það á hinn bóginn og kannski má telja Bretland þar með, en bara kannski.
Úkraína er fyrsta fórnarlamb breyttrar varnarmálastefnu Bandaríkjanna. Ráðandi öfl í Úkraínu gerðu landið að verkfæri til að Bandaríkin og ESB-Evrópa gætu fært út áhrifasvæði sitt í austur, líkt og gert var með stækkun Nató eftir fall járntjaldsins fyrir rúmum 30 árum. En nú hafa Bandaríkin ekki lengur áhuga. ESB-Evrópa hefur ekki bolmagn til að halda útrásinni í Úkraínu gangandi og verður að láta í minni pokann. Undanhaldin lýkur ekki við vesturlandamæri Úkraínu, áhrif Rússa munu vaxa í Austur-Evrópu almennt.
Í fyrirsjáanlegri framtíð, sennilega næstu áratugi, verður höfuðverkefni ESB-Evrópu að semja við Rússa um sameiginlega tilvist á meginlandi Evrópu. ESB-Evrópa og Rússland eru ólíkar útgáfur evrópskrar siðmenningar. Sú fyrri er frjálslynd og alþjóðleg en sú seinni íhaldssöm og þjóðleg. Sjálf Bandaríkin voru til skamms tíma frjálslynd og alþjóðleg. Svo kom Trump.
Ógjörningur er að segja til um hvernig fer með samskipti ESB-Evrópu og Rússland næstu ár og áratugi. Hinu er hægt að slá föstu að Ísland á ekkert sameiginlegt með afdrifum ESB-Evrópu gagnvart Rússlandi. Nema, vel að merkja, við sitjum uppi með ríkisstjórn hér á landi sem stefnir Íslandi inn í ESB. Valkyrjur í heiðni völdu hverjir skyldu vopndauðir á vígvellinum. Kristrún, Inga og Þorgerður Katrín velja að fullveldi Íslands skuli vopndautt í Brussel. Áríðandi er að koma í veg fyrir þá fyrirætlan.
Friði er ekki náð í Úkraínu. Símtal Pútín og Trump gefur vonir um að styttist í að bræðraþjóðirnar láti af vopnaskaki sem kostað hefur að minnsta kosti milljón manns lífið, tvær milljónir eru örkumla og enn fleiri milljónir hafa flúið heimkynni sín.
Úkraínustríðið á rætur í hugmyndafræði sem ofmat vestrænan styrk og vanmat rússneska seiglu. Gráglettni örlaganna er að hugmyndafræðin hrynur til grunna þegar tveir forsetar koma sér saman um að hún sé röng.
![]() |
Trump hringdi í Pútín: Hefja viðræður án tafar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)