ESB rifnar í sundur, spurningin er hvernig

Frakkar eru komnir á fremsta hlunn að sprengja upp Evrópusambandið, skrifar Roger Bootle, í Telegraph eftir stórsigur andstæðinga ESB í Evrópuþingskosningum. Ef Frakkar falla útbyrðis verða Þjóðverjar að treysta á bandalag við Breta, er einn af fjórum framtíðarútgáfum ESB, sem Die Welt skrifar um.

Undir þessum kringumstæðum velja leiðtogar Evrópusambandsins nýjan forseta framkvæmdastjórnarinnar, - en það er ígildi forsætisráðherra ESB. Til að auka lýðræðislegt lögmæti ESB var kjósendum í Evrópu sagt að oddviti þess bandalags sem fengi flest atkvæði í Evrópuþingskosningunum hreppti embættið. Samkvæmt því ætti Jean-Claude Juncker að fá embættið en hann er oddviti miðhægribandalagsins, sem er stærst á Evrópuþinginu.

Juncker er stækur sambandssinni. Cameron, forsætisráðherra Breta, verður á ná tilbaka valdheimildum sem Brussel hefur sölsað undir sig ef það á að vera nokkur von til að Bretland verði áfram aðili að Evrópusambandinu. Juncker er of mikill sambandssinni til að gefa nokkurn afslátt af valdheimildum ESB. Og þess vegna getur Cameron ekki samþykkt lýðræðislega kjörinn eftirmann Barrroso í stól forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Evrópusamband 28 þjóðríkja þar sem 18 ríki búa við sameiginlegan gjaldmiðil mun ekki halda velli nema fáein ár enn. Uppgjör er óumflýjanlegt.


mbl.is Bretar gætu sagt skilið við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrifasismi skilgreindur

Framsóknarflokkurinn er höfuðandstæðingur vinstrimanna. Það sést á reiðiþrungnum pistlum manna eins og Karls Th. Birgissonar og Illuga Jökulssonar. Vegna hatursáróðurs vinstrimanna gegn Framsóknarflokknum skrifaði Eva Hauks eftirfarandi

þá er skoðanakúgun eitt skýrasta merki fasisma og meira lagi kaldhæðnislegt að berjast gegn rasisma með fasisma.

Vinstrimenn missa sig í skoðanakúgun sökum þess að þeir eru sannfærðir um andlega yfirburði sína og fyrirlíta skoðanir annarra. 

 

 


Framsókn bætti sig, Samfylking tapaði

Framsóknarflokkurinn bætti flestum sveitarstjórnarfulltrúum við sig í nýafstöðum kosningum og Samfylking tapaði flestum fulltrúum. Framsókn fór úr 45 fulltrúum í 49. Samfylking tapaði heilum sjö fulltrúum, var með 42 en fór niður í 35.

Í samantekt RÚV, þar sem þessar tölur eru fengnar, eru yfirburðir Sjálfstæðisflokksins staðfestir. Flokkurinn er með 120 sveitarstjórnarfulltrúa, bætti við sig þrem í gær.

Björt framtíð er stærri en VG á þennan mælikvarða, með 11 fulltrúa á móti níu.

Niðurstaða: vinstriflokkarnir eru enn í lægð og kosningasigur hægriflokkanna á síðasta ári er staðfestur.


mbl.is Árangur ríkisstjórnarinnar hafði áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustsyfirlýsing á stjórnmálakerfið

Eftir hrun riðaði stjórnmálakerfið til falls. Fylgi við dáraframboð Besta flokksins í Reykjavík 2010 sýndi fullkomið vantraust á starfandi stjórnmálaflokkum. Í kjölfarið reyndu ýmsir hópar að gera út á óánægða kjósendur, sbr. fjölda framboða við síðustu þingkosningar.

Í síðustu þingkosningum virtist hætta að fjara undan stjórnmálakerfinu sem heild. Eina nýja stjórnmálaaflið sem náði teljandi árangri var Björt framtíð, sem stofnuð var af tveim starfandi þingmönnum, Guðmundi Steingríms og Róberti Marshall, og er almennt viðurkennd sem útibú Samfylkingar.

Niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna í gær staðfestir að háflæði óánægju með rótgrónu flokkana er liðið hjá. Björt framtíð festir sig í sessi en önnur framboð nýbreyti skoruðu lítt eða ekki.

Ríkisstjórnarflokkarnir mega vel við una. Sjálfstæðisflokkurinn fær góða kosningu í nærfellt öllum sveitarfélögum utan höfuðborgarinnar þar sem Framsóknarflokkurinn er sigurvegarinn

Vinstriflokkarnir vonuðust til að fá aukið lögmæti á landsvísu en varð ekki kápan úr því klæðinu. Með því að þrír vinstriflokkar bítast núna um sama fylgið er hætt við að gamalkunnar innbyrðiserjur vinstrimanna láti á sér kræla.

Lítil kosningaþátttaka er til marks um að stórir kjósendahópar eru sáttir við pólitíkina og finnst ekki nauðsynlegt að láta til sín taka. 

Stjórnmálakerfinu er ætlað að bjóða kjósendum upp á valkosti í kosningum. Íslenska stjórnmálakerfið virkar, það sýndu kosningarnar í gær.


mbl.is D-listi stærstur nema í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn leiðir endurreisn hægristjórnmála

Án Framsóknarflokksins réðu vinstrimenn ferðinni í íslenskum stjórnmálum. Vinstrimenn eru með forræði í umræðunni og flokkar þeirra njóta góðs af. Styrkur vinstrimanna eflir samfylkingardeild Sjálfstæðisflokksins.

Samfylkingardeild Sjálfstæðisflokksins var komin með neitunarvald í flokknum, samanber ESB-umsóknina. Hótanir samfylkingardeildarinnar gerðu forystu Sjálfstæðisflokksins veika í hnjánum og ESB-sinnum var fært á silfurfati oddvitasætið í Reykjavík.

Án Framsóknarflokksins væri vinstripólitík allsráðandi í stjórnmálum. Ólíkt því sem áður var þá eru það ekki efnahagsmál sem skipta mestu máli við að skipta fólki í flokka. Samfylkingin er iðulega meiri frjálshyggjuflokkur í efahaghagsmálum en Sjálfstæðisflokkur.

Afdrifarík deilumál í seinni tíma stjórnmálum, t.d. afstaðan til ESB, stjórnarskrármálið og núna mosku-málið eru ekki deilur um peninga - heldur um grundvallarafstöðu til þess hvernig Ísland eigi að líta út. Í þeim deilum er Framsóknarflokkurinn bjargvættur borgaralegra gilda andspænis sauðasósíalisma vinstrimanna.

 

 


mbl.is Sveinbjörg þakkaði fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV stærsti tapari kvöldsins

Bilað tölvukerfi og gestir í beinni útsendingu í sjónvarpssal sem ekki hafa áhuga á pólitík.

RÚV er stærsti tapari kvöldsins.


Stórsigur Framsóknarflokksins

Með tíu prósent fylgi, skv. fyrstu tölum, er Framsóknarflokkurinn sigurvegari borgarstjórnarkosninganna. Samfylkingin tapar á hatursáróðrinum, fær rétt 30 prósent fylgi en mældist með um 37 prósent stuðning fyrir nokkru.

Sjálfstæðismenn munu ekki halda því fylgi sem þeir fá skv. fyrstu tölum og enda líklega með 23-25 prósent, sem er heldur skárri útkoma en á horfðist.

Moska verður ekki byggð í Sogamýri.


mbl.is Samfylking með sex menn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögul mótmæli gegn skoðanakúgun

Hatursáróður vinstriflokkanna gegn Framsóknarflokknum sérstaklega fælir kjósendur frá þátttöku í kosningum. Tilraunir vinstrimanna til skoðanakúgunar náðu nýrri lægð með skopmynd í Fréttablaðinu.

Oddviti VG í Reykjavík lét það út úr sér að Framsóknarflokkurinn ætti ekki heima í borgarstjórn og álitsgjafar eins og Egill Helgason sökuðu frambjóðendur Framsóknarflokksins um rasisma vegna moskumálsins.

Líkur eru á að einhverjir stuðningsmenn vinstriflokkanna sitji heima í þöglum mótmælum gegn skoðanakúgun.

 


mbl.is Kjörsókn í Reykjavík lakari en síðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvenfyrirlitning vinstrimanna: Sveinbjörg múslímavædd

Vinstrimenn sýna Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík sem múslímakonu sem eigi ekki erindi í stjórnmál. Vinstrimenn birta myndir af Sveinbjörgu í múslímakufli og skrifa texta sem segir að hún og framboðið sé ,,eitur" sem enginn vill nálgast.

Kjósendur í Reykjavík eiga tvo raunverulega kosti: að kjósa bandalagsflokka kvenfyrirlitningar eða Framsóknarflokkinn.


mbl.is Sveinbjörg kaus í Laugardalshöllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamlegt sjálfsmorð Sjálfstæðisflokksins

Dásamlega Reykjavík, slagorð Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni, spilaði beint upp í hendurnar á  Degi B. og sitjandi meirihluta vinstrimanna. Ef Reykjavík er dásamleg þá er engin ástæða til að breyta til. Misheppnað slagorð skipti þó ekki sköpum.

Fyrirsjáanlegt afhroð Sjálfstæðisflokksins í borginni er rökrétt afleiðing af veiklyndri forystu flokksins sem heykist á því að framfylgja sjálfsstæðisstefnunni eins og hún er samþykkt á vettvangi flokksins. ESB-sinni var leiddur til oddvitasætis í höfuðborginni til að friðþægja litlum minnihlutahópi innan flokksins.

ESB-sinninn Halldór Halldórsson bauð upp á afsláttarstefnu í meginmálum, t.d. flugvallarmálinu, í takt við afsláttarstefnuna sem forysta flokksins fylgir í ESB-málinu. Halldór vildi að það yrði kosið um framtíð flugvallar í Vatnsmýri, rétt eins og hann vill kosningu það um hvort ESB-umsóknin verði afturkölluð eða ekki.

Hvorttveggja í flugvallarmálinu og ESB-umsókninni liggur fyrir eindreginn vilji almennings. Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að virkja þennan vilja og kemur fyrir sjónir kjósenda eins og sannfæringarlaus gufa.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði sjálfum sér í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Með slagorðinu ,,dásamlega Reykjavík" átti að fiska á miðum Bjartar framtíðar sem ræktar ímyndina um allir séu góðir við alla og aldrei komi til þess að gera upp á milli ólíkra valkosta. En Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jómfrú í íslenskum stjórnmálum og passar ekki í skó kósí-stjórnmála Bjartrar framtíðar.

Sjálfstæðisflokkur málamiðlana og eftirgjafar er slappur og sauðalegur. Fylgið tætist frá flokknum til hægri þar sem snarpur Framsóknarflokkur sýndi málefnalega stefnufestu, t.d. í flugvallarmálinu, og tók óhikað afstöðu í umdeildum málum, samanber deiluna um mosku í Sogamýri. Fylgi Sjálfstæðisflokksins lak einnig til vinstri þar sem ímyndin af dásamlega Degi B. passaði vel við borgarstjórastólinn.

Staða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður staða flokksins á landsvísu ef forystan heldur áfram afsláttarpólitík og eftirgjöf gagnvart hávaðasömum minnihlutahópi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband