Mánudagur, 5. janúar 2015
Kjarnorkusprengja á Þýskaland
Sókn Þjóðverja gegn innrásarliði bandamanna veturinn 1944 til 1945 í gegnum Ardennafjöll var örvæntingarfull tilraun Hitlers að snúa stríðsgæfunni sér í hag. Innrás bandamanna sumarið 1944 á meginlandið skyldi hrundið og þeir reknir til sjávar, líkt og Þjóðverjum tókst í leifturstríðinu í maí 1940 er Bretar voru umkringdir í Dunkirk.
Sagnfræðingurinn Karl-Heinz Frieser er sérfræðingur í þýskri stríðssögu. Hann segir í viðtali að Hitler sjálfur skipulagði Ardennasóknina og byggði þar á Schliffenáætluninni frá fyrra stríði. Fyrst átti að reka heri bandamanna úr Frakklandi og Belgíu en síðan að flytja stærsta hluta þýska hersins á austurvígstöðvarnar og stöðva sókn Rauða hersins í Póllandi.
Ardennasókn Þjóðverja byrjaði vel en rann út í sandinn. Þýsku skriðdrekarnir, sem áttu að bera meginþunga sóknarinnar, voru með bensín til 60 km aksturs en leiðin til Antwerpen í Belgiu var 200 km en þangað var stefnt til að kljúfa her bandamanna. Þýsku skriðdrekunum var ætlað eldsneyti úr birgðum bandamanna. ,,Blitzkrieg ohne Benzin" stöðvaðist um jólin 1944.
En ef, og þetta er stórt ef, Þjóðverjum hefði tekist að hrekja innrásarher bandamanna til sjávar veturinn 1945 hver hefðu viðbrögð bandamanna orðið? Karl-Heinz Frieser gefur þetta svar:
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að svara þeirri spurningu: fyrstu kjarnorkusprengjunni hefði þá ekki verið varpað á Hiroshima heldur þýska borg.
Saga í viðtengingarhætti er áhugaverð pæling.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. janúar 2015
30 - 70 pólitíkin
Sjálfstæðisflokkurinn er að verða hæglætisíhald og gæti orðið kjölfestan í íslenski pólitík með 30 prósent fylgi. Þau 70 prósent sem eftir eru skipta sköpum hvort hér ráða ferðinni hófsöm borgaraleg öfl eða sambræðsla einsmálsflokka á vinstri kantinum.
Framsóknarflokkurinn er í lykilstöðu undanfarið sem umræðuvaki stjórnmálanna. Flokkurinn er með burði til að tvöfalda skoðanakönnunarfylgið þegar kemur að kosningum, einmitt vegna þess að framsóknarforystan gefur tóninn í umræðunni.
Samandregið: hófsöm hægriöfl eru í þokkalegum færum að halda meirihluta sínum á alþingi, en vinstribræðingurinn er engu að síður hættulegur andstæðingur.
![]() |
36,6% styðja ríkisstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 4. janúar 2015
Albaníu-Ásdís og Sjálfstæðisflokkurinn
Ásdís Halla Bragadóttir óskaði sér að íslenska heilbrigðiskerfið yrði líkara því albanska. Hún fékk vettvang hjá Samtökum atvinnulífsins fyrir þennan boðskap.
Albanía er það ríki í Evrópu og Asíu sem mismunar mest þegnum sínum m.t.t. heilbrigðisþjónustu. Ef Ásdís Halla fær einhverju ráðið verður íslenska heilbrigðiskerfinu breytt þannig að efnafólk fær læknisþjónustu, þeir efnaminni litla sem enga og einkafyrirtæki í heilbrigðisgeiranum græða samtímis á tá og fingri.
Ásdís Halla er skráð og númeruð í Sjálfstæðisflokkinn, var m.a. bæjarstjóri flokksins í Garðabæ. Ef Sjálfstæðisflokkurinn sér framtíð Íslands aðra en Albaníu ætti flokkurinn að halda sér í fjarlægð frá Ásdísi og albanska módelinu í heilbrigðisþjónustu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 4. janúar 2015
ESB-umóknin 2009; umboðslaus og löngu úrelt
ESB-umsóknin sem alþingi samþykkti 16. júlí 2009, án þess að bera undir þjóðina, var ekki um aðild að ESB eins og það er í dag.
Umsóknin, sem aðeins fékkst samþykkt með því að þingmenn greiddu atkvæði þvert um hug sinn, var til að bjarga Íslandi úr kreppu. Enda hét það svo í máli ESB-sinna að umsóknin ein myndi skapa hér stöðugleika.
ESB er breytt frá árinu 2009 og mun breytast enn meira á næstu misserum og árum ef bandalagið og gjaldmiðill þess halda velli. Jafnvel eindregnir ESB-sinnar viðurkenna að sambandið stendur á krossgötum.
Íslendingar eiga að óska Evrópusambandinu velfarnaðar í risavöxnum verkefnum næstu ára. En við eigum að afturkalla umboðslausu ESB-umsóknina frá 2009 hið snarasta.
![]() |
Aðildarumsóknin á byrjunarreit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. janúar 2015
Merkel ræður ferðinni í Grikklandi
Kanslari Þýskalands segir - nafnlaust, vel að merkja - að ef Grikkir kjósa til valda vinstraframboðið Syriza verði þeim varpað úr evru-samstarfinu. Merkel kanslari er áhrifamesti stjórnmálamaður Grikklands án þess að einn einasti grískur ríkisborgari hafi kosið hana.
Grikkir ganga til kosninga í lok janúar. Syriza er stærsta stjórnarandstöðuaflið og er mótfallið samkomulagi grískra stjórnvalda við þríeykið svokallaða (ESB, Evrópska seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn) sem leggja þungar byrðar á grískan almenning vegna kostnaðar við að bjarga efnahag landsins.
Syriza krefst niðurfellingu skulda, en þær eru 175 prósent af þjóðarframleiðslu, og betri kjara frá þríeykinu.
Merkel lítur svo á að komist Grikkir einhliða upp með að ákveða skilyrði fyrir björgun grísks efnahags muni það skapa fordæmi fyrir önnur evru-ríki sem standa höllum fæti. Og á endanum sætu Þjóðverjar uppi með reikninginn.
Engin fordæmi eru fyrir því að reka land úr evru-samstarfinu, sem 19 af 28 ESB-ríkjum standa saman að.
Einn af þekktari hagfræðingum Þýskalands, Peter Bofinger, varar við því að Grikkjum verði vísað á dyr enda gæti það leitt til upplausar alls evru-samstarfsins.
Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, veðjar einmitt á þann ótta Evrópusambandsins að evru-samstarfið allt komist í uppnám ef Grikkir hverfa þaðan.
Hvort heldur Merkel hefur rétt fyrir sér, að Grikkir skapi slæmt fordæmi með því að fá stórfellda niðurfellingu skulda, eða Tsipras, að evru-samstarfi þoli ekki útgöngu Grikklands, þá auglýsa þau bæði þennan afgerandi ókost evru-samstarfsins: sameiginlegur gjaldmiðill útilokar fullveldi viðkomandi ríkja.
Aðild Grikkja að evrunni felur í sér að orð kanslara Þýskalands skipta mun meira máli en nokkur þau orð sem mælt eru af munni grískra stjórnmálamanna. Grískt lýðræði er kómedía.
![]() |
Íhugar að sparka Grikkjum úr evrusamstarfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. janúar 2015
Einar Kára gengur í Framsókn
Varaformaður Vg, Björn Valur Gíslason, fullyrðir að Framsóknarflokkurinn sé búinn að eignast DV. Með því að Einar Kárason rithöfundur og margstimplaður samfylkingarmaður er kominn á DV hlýtur Einar að vera orðinn framsóknarmaður, samkvæmt rökleiðslu varaformannsins.
Hræringarnar í kringum DV og uppgangur fjölmiðlaveldis, sem Björn Ingi Hrafnsson er skrifaður fyrir en Jón Ásgeir stendur á bakvið, er mest viðskiptapólitískur en minna flokkspólitískur.
Viðskiptapólitískur veruleiki málsins er sá að 365-miðlar eru úr sér gengin viðskiptahugmynd. Helstu tekjupóstar 365-miðla eru áskriftarsjónvarp og fríblaðaútgáfa. Áskriftarsjónvarp er dautt eftir tilkomu efnisveitna á netinu. Fríblaðaútgáfa þrífst á auglýsingum sem óðum færast á netmiðla.
Fjölmiðlahluti 365-miðla hverfur inn í samsteypu auðmanna ásamt DV og Eyjunni-Pressunni. Varaformaður Vg fær hland fyrir hjartað, ekki vegna fákeppni auðmanna á fjölmiðlamarkaði, heldur sökum þess að hann óttast að vinstriflokkarnir missi spón úr aski sínum. Maður stórra hugsjóna, hann Björn Valur.
![]() |
Einar Kárason ráðinn á DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 3. janúar 2015
Stöð 2; heimska og fátækt
Áskrift að Stöð 2 kostar kr. 8.490 á mánuði. Áskrift að Netflix kostar þúsund krónur á mánuði. Hafi maður ekkert við tímann gera annað en að horfa á sjónvarp er hægt að kaupa áskrift að hulu fyrir annan þúsundkall en samt átt sex þúsund og tæpar fimmhundruð í afgang.
Heimskan dýpkar og fátæktin eykst ef maður kaupir sportpakka Stöðvar 2 á kr. 13.990 til að horfa á fótbolta. Það er hægt að horfa ókeypis á fótbolta á netinu.
Ársáskrift að sportpakkanum leggur sig á tæpar 170 þúsund krónur. Maður þarf að vera með vel yfir 200 þúsund krónur í laun fyrir skatta til að hafa efni á þeirri heimsku; þetta er meira en atvinnuleysisbætur í heilan mánuð.
Stöð 2 verður að geyma áskriftarlista sinn í læstri hvelfingu; ef listinn kemst í umferð er mannorð margra í hættu.
![]() |
Þúsund króna hækkun á Stöð 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 2. janúar 2015
Neikvæðni og græðgi; Samfylking og Baugur
Svavar Alfreð Jónsson hittir naglann á höfuðið eins og oft áður:
Hin gráðuga sál er óseðjandi og þess vegna er hún aldrei ánægð með neitt. Græðgin lýsir sér í stöðugri ófullnægju. Mettur maður og sáttur er ekki lengur gráðugur. Eigi að viðhalda græðginni þarf að pumpa upp neikvæðnina og halda jákvæðninni í skefjum.
Samfylkingin er höfuðból neikvæðninnar á Íslandi og Baugur græðgisvæðingar; Samfylkingin þáði stórfé frá Baugi og þar með er staðfest hringrás græðgi og neikvæðni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 2. janúar 2015
RÚV og forsetaframboð Jóns Gnarr
Jón Gnarr stefnir á forsetaframboð 2016. Hann situr nú við skriftir, ætlar að gefa út bók næstu jól og birtast í sjónvarpsþáttum í aðdraganda forsetakosninganna.
Ef RÚV kaupir sjónvarpsþætti Jóns tekur ríkisfjölmiðillinn með beinum hætti þátt í stjórnmálum.
Ríkisfjölmiðill sem tekur beinan þátt í stjórnmálum getur ekki verið á framfæri almennings.
![]() |
Jón Gnarr skrifar handrit sjónvarpsþátta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 2. janúar 2015
4 ógnir fyrir tilvist ESB
Fjórar tilvistarógnir steðja að Evrópusambandinu: flóttamannavandinn, vandræðin með evruna, deilur við Rússland og vöxtur stjórnmálaflokka sem andsnúnir eru Evrópusambandinu. Á þessa leið hljómar greining 18 ungra þýskra blaðamanna sem sóttu heim ólíka hluta ESB.
Blaðamennirnir reka vefsíðu, generation seperation, til að koma á framfæri upplýsingum um stöðu mála í Evrópusambandinu. Meðal áherslupunkta eru atvinnuleysi i Suður-Evrópu, einkum hjá ungu fólki; á Ítalíu virkar ekkert nema mafían. Evran heldur uppi atvinnuleysi og er með ríkisfjármál Suður-Evrópu í spennitreyju.
Í Austur-Evrópu er staðan önnur. Þar reka deilurnar við Rússa smáríkin við Eystrasalt í faðm Evrópusambandsins. Litháar taka upp evru til að bindast traustari böndum Vestur-Evrópu en ekki vegna ágætis gjaldmiðilsins.
Stóraukinn flóttamannastraumur til Evrópu er byrði á þjóðarútgjöldum móttökuríkja og skapar þjóðfélagsástand ótta og upplausnar sem öfgaöfl notafæra sér.
Bretland er á leiðinni úr Evrópusambandinu. Áhrifin af brotthvarfi Breta eru ekki fyrirséð en þó má slá föstu að fordæmið eykur á lausungina á meginlandinu.
Þýsku blaðamennirnir sjá fátt jákvætt í spilunum fyrir Evrópusambandið árið 2015 enda tröllauknar áskoranir sem sambandið stendur frammi fyrir.
Íslendingar mega prísa sig sæla að vera ekki þátttakendur í vandræðagangi Evrópusambandsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)