Móteitur við ESB-sósíalisma

Sigur Íhaldsflokksins og David Cameron er móteitur við ESB-sósíalisma og til muna betra framlag til evrópskra stjórnmála en uppreisnarfólkið í Aþenu, skrifar aðalritstjóri Die Welt.

Breski Íhaldsflokkurinn er gagnrýninn á Evrópusambandið og telur valdheimildir Brussel alltof miklar í innanríkismálum aðildarríkja. Íhaldsflokkur efnir til þjóðaratkvæðagreiðslu að tveim árum liðnum um það hvort Bretar skuli vera aðildarríki Evrópusambandsins eða ekki.

Fram að atkvæðagreiðslunni mun Cameron, með sterkt umboð breskra kjósenda, semja um nýja skiptingu valdheimilda milli ESB og aðildarríkja.

Aðalritstjóri Die Welt telur að Angela Merkel kanslari Þýskalands eigi til muna meiri samleið með Cameron en ýmsum starfsbræðrum sunnar í álfunni sem óska sér þýskra fjármuna en ekki þýskrar ábyrgðar (bloggari umorðar ritstjórann).

Líklegt er að ríki eins og Pólland, Svíþjóð og Finnland eigi samleið með Þýskalandi og Bretlandi að auka einstaklingshyggjuna í Evrópusambandinu og draga að sama skapi úr sósíalismanum.


mbl.is Tíundaði kosningaloforð íhaldsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll skuldar Steingrími J. afsökunarbeiðni

Formaður Samfylkingar, Árni Páll Árnason, segir á forsíðu Fréttablaðsins í dag að hann vilji norræna velferð á Íslandi. Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. var kynnt til sögunnar í Norræna húsinu 10. maí 2009 undir merkjum norrænnar velferðar.

Steingrímur J. Sigfússon þáverandi formaður Vinstri grænna var aðalhöfundur að yfirlýstu heiti Jóhönnustjórnarinnar; norræna velferðarstjórnin.

Árni Páll og félagar hans í Samfylkingunni laumuðu á hinn bóginn tifandi tímasprengju í farangur velferðarstjórnarinnar sem var ESB-umsóknin.

Árni Páll fær ekki hvorttveggja í senn, norræna velferð og aðild að Evrópusambandinu. Allir sem kunna eitthvað smávegis í sögu vinstristjórnmála á Íslandi vita þetta. Árni Páll ætti fyrir hönd Samfylkingar að biðja Steingrím J. afsökunar á tímasprengjunni.

Annað mál og sjálfstætt athugunarefni er hvernig í veröldinni því víkur við að formaður flokks jafnaðarmanna á Íslandi kunni ekki muninn á grískum harmleik og norrænni velferð.


Útflutningur á íslenskri einfeldni

Opinbert fé er notað að kynna íslenska múslímatrú á Feneyjartvíæringnum. Raunar er listamaðurinn svissneskur og ekki með nein tengsl við Ísland, en trúgirni virðir ekki landamæri. Blaðafulltrúi uppákomunnar er íslenskur prófessor.

Blaðafulltrúinn kveðst aldeilis hissa á að einhverjir þarna í Feneyjum óttist að vandræði kunni að hljótast af mosku í kaþólskri kirkju. Hann er heimaalinn og veit ekki betur en að öll dýrin í trúarskóginum séu vinir.

Menntamálaráðherra getur verið stoltur af framlagi Íslands og hlýtur að skreppa til Feneyja, svona á milli þess sem hann sinnir erindum þjóðarinnar í Kína.

 


mbl.is Munnlegt leyfi fyrir moskunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brussel misþyrmir Samfylkingunni

Í stað þess að afgreiða Ísland út af borðinu í eitt skipti fyrir öll sem umsóknarríki ætlar Evrópusambandið að aftengja ónýtu samfylkingarumsóknina frá 16. júlí 2009 hægt og rólega fram eftir áratugnum.

Í hvert skipti sem frétt berst frá Brussel um að stakur þáttur í umsóknarferlinu sé trosnaður þá veldur það Samfylkingunni hneisu enda minnir sérhver fréttin á stærstu glópsku íslenskra utanríkismála frá miðri þrettándu öld.

Evrópusambandinu er fyrirmunað að taka snöggar og afgerandi ákvarðanir, um það eru mýmörg dæmi. Samfylkingin geldur þess en öðrum er það áminning að halda brusselvaldinu fjarri landhelgi Íslands.


mbl.is Ísland tekið af boðslista ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbyggðin hugsar um launafólk, ekki pólitík

Verkalýðsfélög á landsbyggðinni standa ekki fyrir annarri pólitík en að semja um laun fyrir sína félagsmenn. Við þær aðstæður er hægt að semja eins og verkalýðsfélagið Framsýn á Húsavík sýnir fram á með verkum sínum.

Hér fyrir sunnan er verkalýðsforystan á kafi í pólitík og ætlar sér án umboðs að taka fram fyrir hendur lögmætra stjórnvalda í málefnum sem koma kjaramálum ekkert við.

Tímabært er að verkalýðsforystan á landsvísu taki sér Framsýn á Húsavík til fyrirmyndar og beini starfsþrekinu að kjarasamningum en ekki landsstjórninni.


mbl.is Klöppuðu fyrir nýjum samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nábýlið, metingurinn og sjálfshatrið

Íslendingar búa betur en flestar þjóðir heims. Á mælikvarða hagvísa erum við lánsöm og aðrir þættir s.s. lífslengd og ungbarnaheilbrigði setja okkur í efstu sæti á heimsvísu.

Samt unum við ekki sátt og rjóð við okkar hlut. Nábýlið ýtir undir metnað, sem sumpart stælir fólk til átaka að sækja til sín réttmæta sneið þjóðarkökunnar, en getur orðið að dómgreindarlausum yfirgangi.

Annað atriði sem slær á þjóðarhamingjuna er sjálfshatrið sem sumir næra með sér. Hatrið á sér persónulegar skýringar en er varpað yfir á samfélagið. Sjálfshatrið býr oft í pennaliprum. Á dögum bloggs og netmiðlunar flæðir hatrið óhindrað fram í umræðunni.


mbl.is Skuldir heimilanna hafa lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er lélegt að fá 670 þús. kr. í mánaðarlaun?

Geislafræðingar hjá ríkinu eru með 670 þús. kr. í mánaðarlaun, ljósmæður eru með 700 þús. kr. Hvorttveggja eru heildarlaun.

Meðallaun ASÍ-fólks eru eitthvað um 530 þús. kr. á mánuði.

Hvorki 530 þús. á mánuði og enn síður 670 þús. eru léleg laun.

Launaumræðan er á villigötum þar sem hálaunastéttir heimta hærri laun og stefna okkur í efnahagslega kollsteypu.

 


mbl.is Meðaldagvinnulaun frá 406 - 536 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríski vandinn er vandi ESB í hnotskurn

Grikkir töldu sig eiga efni á lífskjörum sem fást með þýskum vöxtum og grískri framleiðni. Þannig höguðu Grikkir sig í áratug. En svo kom að skuldadögum, eftir lánsfjárkreppuna 2008. Síðan eru Grikkir í varanlegri gjörgæslu.

Öll ríki Evrópusambandsins eru að baki sjónarmiði þýska fjármálaráðherrans að Grikkir eyði um efni fram og verði að skera upp ríkisfjármálin, lækka lífeyrisgreiðslur og hemja önnur útgjöld.

Grikkir svara á móti að þeir séu fullvalda þjóð sem hagi fjármálum sínum í samræmi við grískan þjóðarvilja, eins og hann birtist í kosningum.

Þar stendur hnífurinn í kúnni. Til að evran virki og þar með ESB verða aðildarríki sambandsins að aftengja lýðræðið heima fyrir og fallast á forræði Brussel í ríkisfjármálum.

Grikkland er vagga vestræns lýðræðis. Fyrir 2500 árum ræddu aþenskir heimspekingar og borgarar hvert væri heppilegasta stjórnarfyrirkomulagið. Engum datt í hug það fyrirkomulag að ákvörðunarvald yfir brýnustu samfélagsmálum skyldi flutt sem lengst frá heimahögunum.

Þegar valdið í málefnum samfélagsins er gert útlent, brýst út ófriður. Það segir sig sjálft.


mbl.is Skref í átt að lokasamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan og heimsgjaldmiðlarnir

Um 20 seðlabankar á heimsvísu standa í gjaldmiðlastríði þar sem þjóðlönd og heimsálfur keppast við að ná forskoti í innbyrðis samkeppni. Nouriel Roubini gerir myntstríðið að umtalsefni.

Gjaldmiðlar eru miskunnarlaust notaðir til að verja útflutningsstöðu viðkomandi gjaldmiðlasvæða. Roubini vekur athygli á að summa halla og afgangs allra útflutningsríkja er núll. Þegar eitt ríki, eða gjaldmiðlasvæði, skilar afgangi í utanríkisviðskiptum er það á kostnað annarra.

Auðveldast er að ná samkeppnisforskoti í gegnum lækkun gjaldmiðils. Stórar þjóðir og smáar reyna hvað þær geta til að haga skráningu sinna gjaldmiðla sér til hagsbóta.

Yfirstandandi gjaldmiðlastríð minnir okkur á mikilvægi þess að búa við eigin gjaldmiðil. Án krónunnar værum við undirorpin útlendum hagsmunum sem taka ekki mið af íslenskum efnahagsstærðum.

 

 


Stjórnmálin bjarga okkur frá verkföllum

Stjórnmálin eru eina haldreipi þjóðarinnar andspænis samfélagsóreiðunni sem verkalýðsforystan boðar. Í stjórnmálum er staðan þessi gagnvart verkföllum:

a) Ríkisstjórnarflokkarnir eru einhuga um að hafna verðbólgusamningum.

b) Stjórnarandstaðan þorir sig ekki að hræra; vinstriflokkarnir vegna þess að þeir eru ekki með neitt fylgi og Píratar eru ekki með neina stefnu.

Verkalýðsforystan er ekki í neinum færum að breyta stjórnmálastöðunni. Þegar rennur upp fyrir verkalýðsforystunni að hún tapar umræðunni og að tapið verður því meira sem verkföll dragast á langinn þá verður samið.


mbl.is Stefnir í 70.000 manna verkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband