Föstudagur, 7. ágúst 2015
Rangt mat utanríkisráðuneytisins á Úkraínudeilunni
Utanríkiráðuneytið leggur rangt mat á Úkraínudeiluna og í framhaldi eru teknar rangar ákvarðanir um stuðning Íslands við viðskiptabann Bandaríkjanna og ESB á Rússa.
Í vetur var tekin saman greining á Úkraínudeilunni sem rétt er að endurbirta í ljósi umræðunnar
Evrópusambandið með Nato sem hernaðarvæng víkkuðu út áhrifasvæði sitt í austur og innbyrtu Eystrasaltsríkin, Pólland, Rúmeníu og Búlgaríu. Rússum stafaði ógn af þessari útþenslu og létu vesturlönd vita skýrt og ákveðið að öryggishagsmunum Rússlands væri ógnað með útþenslu ESB og Nato í austur.
John J. Mearsheimer rekur útþenslu ESB/Nato skilmerkilega í grein í Foreign Affairs og leggur ábyrðina á Úkraínudeilunni alfarið á herðar vesturveldanna.
Evrópa er í stríði í Úkraínu, skrifar fyrrum utanríkisráðherra Þýskalands, Joschka Fischer. Þegar sambandssinnar eins og Fischer nota orðið ,,Evrópa" eiga þeir við Evrópusambandið.
Úkraína var leið Napoleóns og Hitler inn í Rússland á tveim síðustu öldum. Engin rússnesk stjórnvöld gætu liðið að Úkraína yrði ESB/Nato-ríki með þeirri ógn sem sú staða yrði fyrir öryggishagsmuni Rússa.
Evrópusambandið er hallt undir landvinninga í austri enda vegur það upp á móti upplausnarástandinu innan landamæra ESB þar sem evru-kreppan klýfur samstöðuna. Í augum manna eins og Fischer og ýmissa álitsgjafa er vandamálið á hinn bóginn Pútin og hann gerður að hálfgerðum brjálæðingi.
Ófriðurinn í Evrópu verður ekki leystur í bráð. Deila ESB/Nato við Rússa í Úkraínu verður báðum aðilum dýrkeypt. Þjóðverjar eru óðum að átta sig á því að vopnavæðing úkraínskra stjórnvalda leysir ekki vandann heldur eykur hann.
Úkraínudeilan er dæmigerð valdastreita stórvelda. Ísland á ekki aðild að þessari deilu og ætti ekki að taka afstöðu til deilenda.
Utanríkisráðuneytið er undir hæl ESB-sinna. Aðalsamningamaður Össurar Skarphéðinssonar fyrrv. utanríkisráðherra, sem fór fyrir misheppnuðustu og dómgreindarlausustu diplómatíu sögunar frá Gamla sáttmála að telja, var gerður að ráðuneytisstjóra af Gunnari Sveini Bragasyni, sitjandi utanríkisráðherra. Gunnar Bragi fékk ekki kosningu til að auka vægi ESB-sinna í stjórnsýslunni.
Undir stjórn Gunnars Braga og ESB-sinna í ráðuneytinu var skrifað vísvitandi óskiljanlegt bréf um afturköllun ESB-umsóknar Íslands. Mistökin í tengslum við Úkraínudeiluna eru sömu ættar: ráðuneytið tekur hagsmuni ESB fram yfir íslenska hagsmuni.
Til að bjarga pólitískri framtíð sinni þarf Gunnar Bragi utanríkisráðherra að skipta um ráðuneytisstjóra um leið og hann tekur Ísland af lista þeirra þjóða sem styðja viðskiptabann á Rússa.
Fimmtudagur, 6. ágúst 2015
Hiroshima, Auschwitz og lærdómurinn
Sumarið 1945 fréttist af tveim iðnvæddum fjöldamorðum. Í skjóli stríðsins deyddu Þjóðverjar gyðinga og minnihlutahópa í milljónavís með nútímaskipulagi. Helför gyðinga heitir eftir þýska heitinu á pólska bænum sem hýsti stærstu dauðafabrikkuna, Auschwitz.
Seinni iðnvæddu fjöldamorðin eru kennd við japönsku borgirnar Hiroshíma og Nagasaki. Bandaríkjamenn smíðuðu vopn sem trompaði öll önnur og beittu þeim til að knýja Japani til uppgjafar.
Við viljum trúa því að heimurinn breyttist eftir fréttirnar af Auschwitz og Hiroshima. Að sumu leyti varð breyting. Nasisma, sem hugmyndafræði, var úthýst á byggðu bóli. Hugmyndin um algild mannréttindi fékk meðbyr. Kjarnorkuvopn leiddu til kapphlaups sigurvegara seinna stríðs, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, undir skammstöfuninni MAD (mutually assured destruction). Með þeim formerkjum var kjarnorkuvopnum ekki beitt í ófriði.
Annað er óbreytt. Fjöldamorð eru framin í Evrópu, sbr. Srebrenica. Fyrir botni Miðjarðarhafs er viðvarandi stríðsástand, sem byggir á gagnkvæmu hatri frændþjóða og nágranna, hebrea og araba. Af framferði stórveldanna að ráða, bæði í Úkraínu, þar sem Bandaríkin og ESB ýfast við Rússa, og Suður-Kínahafi, þar sem Kína og Japan hnykla vöðvana, virðist sem lærdómurinn um fánýti stríða sé óðum að gleymast.
Siðvit mannsins vex ekki í hlutfalli við tæknilega getu hans að fremja óhæfuverk.
![]() |
Fullkomin tortíming |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 5. ágúst 2015
Amerískur kapítalismi betri en ASÍ
Forstjóralaun í Bandaríkjnum eru uppi á borðinu og launabil fyrirtækjanna sömuleiðis, segir í frétt Viðskiptablaðsins.
Alþýðusamband Íslands, sem í gegnum lífeyrissjóðina á stóran hlut í stærstu fyrirtækjum landsins, segist ekki geta mótað stefnu um forstjóralaun og ekki heldur gert launakerfið gagnsærra.
Um þetta var bloggað hér sl. haust
Ein aðgerð, sem ASÍ gæti beitt sér fyrir, er að setja saman launavísitölu forstjóra sem myndi endurspegla launaþróun þeirra. Ef lífeyrissjóðir settu sem skilyrði fyrir hlutabréfakaupum að forstjóri og e.t.v. millistjórnendur tækju þátt í launavísitölunni yrði ekki vandamál að setja saman slíka vísitölu.
Launavísitala forstjórann myndi þjóna því hlutverki að fylgjast með launaskriði á æðstu stöðum og vera aðhald á forstjóragræðgi sérstaklega en einnig á innistæðulausar launahækkanir almennt.
Til hliðar við launavísitöluna ætti ASÍ að berjast fyrir jafnlaunavístölu fyrirtækja sem mældi muninn milli hæstu og lægstu launa. Jafnlaunavísitalan myndi upplýsa um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, hvort þau hygluðu stjórnendum á kostnað almennra starfsmanna. Í orði kveðnu segir ASÍ berjast fyrir hagsmunum þeirra launalægstu. Jafnlaunavísitalan myndi gagnast þeim mest.
Það er klént, svo ekki sé meira sagt, að amerískur kaptítalismi skuli gera betur en Alþýðusamband Íslands þegar kemur að gagnsæju launakerfi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 5. ágúst 2015
Vinstriflokkar í hlekkjum hugarfarsins
Vinstriflokkarnir eru í samkeppni um fylgishrun sem ekki sér fyrir endann á. Róttækasti flokkurinn, Vinstri grænir, kemur illskást út með 10,2 prósent fylgi. Mið-vinstriflokkarnir, Samfylking og Björt framtíð, skrapa botninn með 9,6 og 4,4 prósent fylgi.
Þegar þrír vinstriflokkar hrynja samtímis er nærtækt að leita að sameiginlegri skýringu. Flokkarnir stóðu saman að ríkisstjórn Jóhönnu Sig., þar sem Björt framtíð var með óbeina aðild.
Viðskilnaður ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. við efnahagskerfið var með ágætum. Hér var lítið atvinnuleysi og hagvöxtur. Uppgjörið við bankaglæpina, þar sem auðmenn voru dregnir fyrir dóm, var í góðri sátt við þjóðina.
Hörðu málin, sem oft eru vinstriflokkum skeinuhætt, efnahagsmál og dómsmál, voru í prýðilegu lagi. Skýringa á hrikalegri stöðu vinstriflokka hlýtur að vera að leita í almennu viðmóti þeirra gagnvart kjósendum.
Eitt meginþema sameinar Samfylkingu, Vinstri græna og Bjarta framtíð. Þetta meginþema var ráðandi í pólitískri umræðu þessara flokka á liðnu kjörtímabili og er enn í forgrunni.
Ónýta Ísland heitir meginþema vinstrimanna frá hruni. Undir þessu þema ætluðu vinstriflokkarnir að gerbylta lýðveldinu. Við áttum að fá nýja stjórnarskrá, ganga í Evrópusambandið og grunnatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegur, skyldi stokkaður upp.
Vinstrimenn lætur betur að gagnrýna en byggja upp. Slagorðið ónýta Ísland gagnaðist til að auka samheldni vinstriflokkanna, sem sögulega eru ósamstæðir, en það hjálpaði þeim ekki við að útlista hvað ætti að taka við ónýta ástandinu. Vinstrimenn buðu ekki upp á jákvæða framtíðarsýn, aðeins svartnætti í baksýnispeglinum.
Þjóðin fékk ekki annað að heyra frá vinstrimönnum en að hér væri allt í kaldakoli. Strax eftir hrun voru margir sem trúðu að Ísland væri ekki á vetur setjandi - hér yrði að gera grundvallarbreytingar til að í landinu væri búandi.
En reynslan sýndi og sannaði að öll meginkerfi lýðveldisins virkuðu. Krónan og fullveldið sáu til þess að efnahagskerfið rétti út kútnum hratt og vel; dómskerfið starfaði í þágu réttlætisins, menntakerfið tók við unga fólkinu sem hrökklaðist af vinnumarkaði og heilbrigðiskerfið skilaði sínu. Jafnvel fjármálakerfið, sem var stóra meinsemdin, stöðvaðist ekki þótt bankarnir yrðu gjaldþrota.
Veruleikinn afhjúpaði að slagorðið 'ónýta Ísland' átti ekki við nein rök að styðjast. Hrunið sýndi fram á veikleika í stefnumótun eftir að útrásin skekkti valdajafnvægi milli atvinnulífs auðmanna annars vegar og hins vegar opinberra aðila. En þessa veikleika var hægt að leiðrétta án byltingar í stjórnskipun og hrunið sjálft leiðrétti valdajafnvægið - auðmenn urðu hornkerlingar á einni nóttu.
Vinstrimenn geta ekki rifið sig frá eigin skilgreiningu um ónýti lands og þjóðar. Ósigur vinstriflokkanna í kosningunum 2013 var ekki nýttur til að endurskoða hugarfar sem sannanlega er úr takti við veruleikann. Á nýju kjörtímabili reyna vinstriflokkarnir að mynda bandalag við lýðskrumshópa á Austurvelli sem koma saman til að mótmæla einu í dag og öðru á morgun. Fáeinar hræður á Austurvelli, sem kallast á við fylgisfátæka vinstriþingmenn í málþófi, gera ekki annað en að auglýsa hve vinstriflokkarnir eru úr taki við þjóðina.
Í einni setningu er vandi vinstriflokkanna eftirfarandi: kjósendur hafna stjórnmálaflokkum sem ekki treysta þjóðinni.
![]() |
Píratar með 35% fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. ágúst 2015
Fjölmiðlanauðgun - hagsmunir hverra?
Nauðgun er glæpur gegn einstaklingi. Rannsókn á slíkum glæp fer ekki fram í fjölmiðlum heldur á vettvangi og stofnunum, þar sem heilbrigðistarfsfólk, lögregla og réttargæslumenn koma við sögu.
Réttarkerfið dæmir hvort tiltekin kynferðisleg samskipti fólks sé nauðgun. Málsmeðferðin í dómskerfinu er hlutlæg og formleg eins og vera ber í réttarríki.
Engin rök hafa komið fram í umræðunni, um hvort meint nauðgunartilfelli skuli rata í fjölmiðla nokkrum dögum fyrr eða síðar, sem renna stoðum undir þá kröfu fjölmiðla að þeir fái upplýsingar um meintar nauðganir um leið og þær berast á borð lögreglu. Á hinn bóginn eru ríkir rannsóknahagsmunir sem mæla með því að lögregla fái réttmætt svigrúm til að vinna sína vinnu án þess að vera í beinni útsendingu fjölmiðla.
Ef það er svo, sem sumir halda fram, að umræða um nauðganir sé í þágu fórnarlamba nauðgana, þá er ekkert sem bannar fórnarlömbum nauðgana, bæði meintra og dæmdra, að stíga fram, undir nafni eða í skjóli nafnleysis, og segja sína sögu. Fjölmiðlar birta slíkt efni reglulega.
Hlutverk lögreglu er fyrst og fremst að komast til botns í þeim málum sem berast inn á hennar borð. Hvort fjölmiðlar fái upplýsingar nokkrum dögum fyrr eða síðar er aukaatriði.
![]() |
Það hefði verið betra að bíða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 4. ágúst 2015
Víkingafræði á Íslandi
Víkingaöldin stóð frá um 800 til 1200 og heitir svo sökum þess að bændur á Norðurlöndum gerðu útrás í vestur, suður og austur. Þeir settust að þar sem áður var byggð, t.d. Írlandi, Englandi, Frakklandi, Eystrasaltslöndum og Rússlandi. Einnig náum þeir óbyggð lönd eins og Færeyjar, Ísland og Grænland.
Ritaðar heimildir um víkingaöldina eru mestar og bestar á íslensku.
Víkingafræði með íslenska sagnaarfinn sem undirstöðu ætti að kenna hér á landi.
![]() |
Bjóða upp á víkinganám í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 4. ágúst 2015
Félagsauður, launaójöfnuður og pólitík
Bandaríkin gefa tóninn í pólitískri umræðu á vesturlöndum. Um aldamótin síðustu kom út bók þar í landi um hnignandi félagsauð. Bowling alone eftir Robert Putnam skóp fræðasmiðjur vestan hafs og austan um tapaða félagslega samkennd vestrænna samfélaga.
Fimmtán áður síðar er Putnam enn á ferðinni með pólitíska stefnubók, - um launaójöfnuð í þetta sinn. Bókin Our kids, the american dream in crisis gerir launaójöfnuð að samfélagsóvini númer eitt.
Kynningin á bókinni, bæði hjá Putnam sjálfum, og samstarfsmönnum hans ber öll einkenni þess að nú skal launaójöfnuður settur á pólitíska dagskrá.
Launaójöfnuður í Bandaríkjunum hólfar tekjuhópa í efnahagslegar stéttir. Himinn og haf skilur að efstu og neðstu stéttirnar. Annars staðar í heiminum, til dæmis á á Norðurlöndum, og Íslandi sérstaklega, er ekki sá launamunur að fólk skiptist í stéttir sem eiga nánast ekkert sameiginlegt. Framhaldskólakennari á Íslandi er í sama launaflokki og Meðal-Jóninn á ASÍ-taxta. Börn ófaglærðra ganga í sama skóla og börn prófessora hér á landi.
Engu að síður munum við heyra á næstunni margt um voðalegan skaða íslenskan sem hlýst af því að ekki séu allir með sömu launin. Bandaríkin vísa veginn í pólitískri umræðu og bylgjan um launaójöfnuðinn er rétt að rísa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 3. ágúst 2015
Trú, menning og manndráp
Heimspeki býr ekki til trú, aðeins reynslan getur það í hægu ferli og sársaukafullu. Setningin er á bls. 12 í bókinni Philosophy: an introduction sem kom fyrst út í seinna stríði og endurútgefin 1971.
Trú verður til með reynslu kynslóða og þjónar því hlutverki að gera lífinu merkingu. Á hverjum tíma í sérhverju samfélagi er viðmið um trú. Á vesturlöndum gildir í dag veraldarhyggja sem leyfir hverjum einstaklingi að tileinka sér hvaða lífsskoðun sem vera skal, þó þannig að lífsskoðunin skaði ekki aðra eða takmarki valkosti þeirra. Þessi veraldarhyggja er trú í merkingunni hér að ofan; uppsöfnuð speki í hægu og sársaukafullu ferli.
Morð er ekki viðurkennd tjáning á lífsgildum á vesturlöndum. Fyrr á tíð voru manndráp leyfileg í nafni trúar. Íslendingasögur eru frásagnir um samfélag þar sem manndráp vegna heiðurs fjölskyldu voru sjálfsögð. Rómversk kristni skipulagði hermannamunka, riddara, til að herja á múslíma í landinu helga og víðar.
Hernaður með tilheyrandi manndrápum var sjálfsagður þáttur í evrópskum stjórnmálum fram að fyrri heimsstyrjöld. Orð Clausewitz um að stríð væri framhald stjórnmála með öðrum verkfærum var viðtekin stjórnviska á vesturlöndum fram yfir 1900.
Tvær heimsstyrjaldir breyttu afstöðu vesturlandabúa til stríðsdrápa. Stríð var ekki lengur samþykkt nema sem ill nauðsyn. Vestrænar hugmyndir um mannréttindi eru útskýrðar í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna þar sem segir fyrstu grein að ,,allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum" og í þriðju grein að ,,allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi."
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er með rætur í frönsku byltingunni 1789. Það tók sem sagt yfir 150 ára hægt og sársaukafullt ferli að fá almenna vestræna viðurkenningu á algildum mannréttindum.
Vestræn saga frá menningu manndrápa til mannhelgi fór ofan garð og neðan hjá múslímum. Múslímaríki skrifa ekki upp á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Múslímaríki afneita veraldarhyggju vesturlanda með því að gera sérstaka mannréttindaskrá um múslímsk mannréttindi.
Kairó-yfirlýsingin um mannréttindi múslíma er jafnframt yfirlýsing um að vestræn veraldarhyggja er ósamrýmanleg múslímskri menningu. Tvö dæmi: konan er sett skör lægri en karlmaðurinn (gr. 6) og tjáningarfrelsið skal víkja fyrir sharía-lögum múslíma sem m.a. gera guðlast að dauðasök (gr. 22).
Fram yfir miðja síðustu öld var óveruleg hreyfing á fólki frá ríkjum múslíma til vesturlanda. En þegar múslímar tóku að flytja til vesturlanda tóku þeir með sér trú og menningu sína.
Vestræn mannhelgi, eins og hún er skilgreind í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, er ekki viðurkennd í menningarheimi múslíma sem er með mörg útibú á vesturlöndum.
Manndráp eru þegar orðin nokkur vegna þess arna. Eins og bandaríska inngangsbókin í heimspeki minnir á er trúarferlið hægt og sársaukafullt. Allmargir eiga enn eftir að týna lífi að ófyrirsynju á altari ólíkra menninga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 3. ágúst 2015
Vantrú á evru-svæðinu
Verðfall í grísku kauphöllinni er enn eitt dæmið um vantrú á framtíð evrunnar. Án verulegra breytinga á stjórnkerfi Evrópusambandsins mun evran ekki halda velli.
ESB-sinnar í Evrópu, t.d. Jean Pisani-Ferry, spyrja hvort hægt sé að bjarga evrunni.
Stutta svarið er, já, en þá þarf til verulega aukin miðstýring á fjármálakerfum þeirra 19 ríkja sem búa við evru sem lögeyri.
Evrópusambandið telur 28 ríki. Stóraukin efnahagsleg miðstýring á 19 af 28 ríkjum ESB myndi í reynd kljúfa Evrópusambandið.
Og klofningur eykur ekki tiltrú á Evrópusambandinu og evrunni sem gjaldmiðli.
![]() |
Viðskipti hófust með látum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 2. ágúst 2015
Kjósendur fela sig á bakvið Pírata
Við hrunið varð trúnaðarbrestur milli stjórnmálakerfisins og almennings. Stjórnmálaflokkur er enn ekki búnir að ná tiltrú kjósenda. Stór hópur kjósenda, nærri þriðjungur, vill ekki gefa upp stuðning við neinn hefðbundinn stjórnmálaflokk.
Píratar þjóna því hlutverki að bjóðakjósendum skjól til að atast í reglulegum stjórnmálaflokknum. Með því að segjast kjósa Pírata segir fólk pass í pólitík.
Píratar eru stjórnmálaafl án annarra skoðana en að mótmæla. Og þriðjungi kjósenda hentar sú staða á milli kosninga.
![]() |
Píratar enn stærstir í könnunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)