Útlendingar, alþjóðahyggja og þjóðfrelsi

Óeirðirnar í Bretland hófust er innflytjandi frá Afríku drap þrjár barnungar stúlkur í Southport. Die Welt telst hófstillt miðhægri þýsk útgáfa. Þar segir um mótmælin:

Þeir sveipuðu sig enskum fánum og öskruðu ,,við viljum endurheimta landið okkar", gerðu umsátur um moskur, kveiktu í bílum og verslunum.

Yfirskrift umfjöllunar Die Welt er að óeirðirnar í Bretlandi sýni afleiðingar misheppnaðrar útlendingastefnu.

Ríkjandi útlendingastefna vesturlanda síðustu áratugi er að taka við innflytjendum. Stefnan samræmist ráðandi alþjóðahyggju, sem í grunninn segir íbúa jarðkringlunnar heimsborgara er hafi búseturétt hvar sem þeim hentar á byggðu bóli. Alþjóðahyggjan heggur að rótum þjóðríkjareglunnar, sem mælir fyrir rétti þjóða til eigin ríkis.

Alþjóðahyggjan lítur svo á að þjóðir séu úrelt fyrirbæri. Heimsborgarinn í alþjóðaþorpinu er framtíðarsýnin. Tilraunir til að umskapa einstaklinga í anda hugmyndafræði eru ekki nýjar af nálinni. Í Sovétríkjunum sálugu var hinn sósíalíski maður fyrirmyndin, góðgjarn, vinnusamur og yfirvaldinu hlýðinn. Að ekki sé talað um eldri trúarhugmyndir um ,,rétta" útgáfu að manninum.

Tilfellið er að mennskan er ekki við eina fjölina felld. Samfélagsskipan manna tekur í sögulegu samhengi ávallt mið af hvað telst rétt og eftirsóknarvert annars vegar og hins vegar hvað sé illt og andstyggilegt. Siðir og lög samfélagsins byggja á þessu grunnatriðum. Ekki hefur tekist að finna sniðmát siða og laga sem öllum henta. Tunga, saga og menning skilgreina samfélög. Úr þeim jarðvegi sprettur samfélagsgerðin. Af þessari ástæðu er þjóðríkið skásta skipulag mannsins.

Í þjóðríkinu er ekki um að ræða frelsi alþjóðahyggjunnar, þar sem hver má haga sér eftir hvaða siðum og háttum sem vera skal, heldur setur þjóðhyggjan almennan ramma um frelsi einstaklinga og leggur til yfirvald, lögreglu og réttarkerfi, sem gætir m.a. að frelsi eins verði ekki öðrum áþján. 

Alþjóðahyggjan vinnur með ímyndun af einstaklingi og samfélagi sem ekki vinnandi vegur er að skapa í raunheimi. Þjóðhyggjan, á hinn bóginn, er raunsærri. Forsendan er að tungumál, saga og menning móti mannlífið. Frelsi byggt á þjóðhyggju er mögulegt; frelsi reist á alþjóðahyggju þýðir óeirðir.


mbl.is Allt verði gert til að ná fram réttlæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimildin þegir um Þórð Snæ

Staksteinar Morgunblaðsins ræða brotthvarf annars ritstjóra Heimildarinnar, Þórðar Snæs Júlíussonar:

Raun­ar vek­ur at­hygli að Heim­ild­in virðist ekki einu sinni hafa frétt af þessu tveim­ur dög­um síðar, eng­in frétt verið þar sögð um frá­hvarf rit­stjór­ans og nafn hans enn í hausn­um. Það hlýt­ur að vera til marks um eitt­hvað.

Tilfallandi ræddi um yfirlýsingu Þórðar Snæs, um starfslok, og hefur beðið eftir að ritstjórn Heimildarinnar láti svo lítið að segja tíðindin og jafnvel setja brotthvarfið í samhengi við hvert útgáfan stefnir. Ritstjórar móta áherslur fjölmiðla. En það heyrist hvorki hósti né stuna frá Heimildinni.

Eftir situr hinn ritstjórinn, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, systir Aðalsteins sakbornings. Hennar ritstjórnarstefna er það sem á norrænu er kallað sósíalpornógrafí, gengur út á að klæmast á samfélagsmálum. 

Þórður Snær er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Frá haustinu 2021 hefur ritstjórinn fyrrverandi á nokkurra vikna fresti skrifað í Heimildina að hann sé saklaus af málinu. En aldrei hefur hann útskýrt málavöxtu, hvernig það atvikaðist að stolin gögn úr síma Páls skipstjóra, fengnum með byrlun, rötuðu í frétt sem Þórður Snær er skráður höfundur að og verður honum til ævarandi skammar, hvað sem líður afgreiðslu réttarkerfisins.

Síðustu tvö skiptin sem Þórður Snær tjáði alþjóð sakleysi sitt voru ekki á vettvangi Heimildarinnar. Í júní sagðist ritstjórinn saklaus á X (Twitter) og í júlí á Facebook. Tvær skýringar eru helstar á því að Heimildin birtir ekki útskýringar ritstjórans á eigin sakleysi. Í fyrsta lagi að Heimildin, þ.e. meðritstjóri Þórðar Snæs og stjórn útgáfunnar, hafi ekki talið það þjóna hagsmunum fjölmiðilsins að klifa á sakleysi sakbornings. Í öðru lagi að Þórður Snær hafi ekki talið það þjóna sínum hagsmunum að birta málsvörnina í Heimildinni.

Facebook-tilkynningin sem hann sendi frá sér á miðvikudag síðast liðinn er fáorð um ástæður starfsloka ritstjórans. Að þögn Heimildarinnar sjálfrar um brotthvarfið viðbættri má vera ljóst að skýringarnar þola ekki dagsins ljós. Ekki frekar en aðild Heimildarmanna að byrlunar- og símastuldsmálinu.

Í byrjun sumars voru fjórir blaðamenn á ritstjórn Heimildarinnar með stöðu sakbornings: Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Þórður Snær. Ingi Freyr tilkynnti í sumar að hann væri á leið til RÚV, og sennilega mættur þar til starfa. Fimmti á ritstjórn tengdur byrlunar- og símastuldsmálinu er Helgi Seljan. Hann var á RÚV þegar Þóra Arnórsdóttir keypti Samsung-síma í apríl 2021, sem notaður var til að afrita síma skipstjórans í byrjun maí sama árs.

Sagan um blaðamenn, byrlun og afritun birtist ekki í Heimildinni þótt þar innanhúss séu allar þær heimildir sem þarf til að upplýsa málið. Á blaðamannamáli kallast þetta að sitja á stórfrétt. Fjölmiðill sem situr á stórfrétt um eigin málefni er ekki í góðum málum. Svo vægt sé til orða tekið. 

 


Hatursmaður Pútín vill að Selenskí gefist upp

Alexander Stubb Finnlandsforseti er harðlínumaður, nánast Rússahatari. Pútín og Rússar skilja aðeins valdbeitingu, segir Stubb fyrir tveim árum í ítarlegu eintali um Úkraínustríðið. Til að skilja Pútín, segir sá finnski, verður maður að kynna sér sögu Péturs mikla, Katrínar miklu og Stalín. ,,Ég hef hitt Pútín, hann hatar vestrið," segir Stubb fyrir tveim árum þegar Úkraínustríðið var hafið en lítt komið á rekspöl.

Á stjórnmálaferli sínum hitti Stubb Pútín oftar en einu sinni og margan annan úr röðum forystumanna Kremlar. Stubb er alþjóðasinni, hefur verið æðstur ráðamanna í Finnlandi, utanríkis-, fjármála- og forsætisráðherra, og gengt veigameiri stöðum í alþjóðakerfinu - er sem sagt treyst af efri lögum alþjóðaelítunnar. Og, já, Stubbs á ættir að rekja til Kirjálahéraðs sem Sovétríkin hirtu af Finnum í seinna stríði.

En hvað gerir Stubbs núna í ágúst 2024? Jú, hann leggur til að Selenskí gefist upp fyrir Pútín og Rússum. Ekki segir sá finnski það hreint út en meiningin er uppgjöf klædd í friðarsamninga. Uppgjöf er að gefa Rússum eftir úkraínskt land, segir Selenskí. Þið verðið að gefa eftir land til Rússa, segir finnski forsetinn.

Hér má gera langa sögu stutta. Ástæðan fyrir uppgjöf Stubb fyrir hönd Selenskí og Úkraínu er að staðan á vígvellinum er gjörtöpuð. Stubb er vel læs á hernaðarstöðuna í Úkraínu. Hún er töpuð vestrinu. Nú er að semja til að eitthvað verði eftir af Úkraínu, sem vestrið gæti haldið lífi í svo að landamærin við Pólland komist ekki í uppnám. Að ekki sé talað um landamæri Ný-Nató ríkisins Finnlands. Kirjálahéraðið og afdrif þess eru í huga forseta Finnlands en ekki lengur heilaga vestræna bandalagið sem má ekki gefa tommu eftir af áhrifasvæði sínu á landamærunum við Rússland.

Ræman, eintal Stubb, sem vísað er í hér að ofan, er samfelld gagnrýni á helsta talsmann raunsæis í alþjóðastjórnmálum, Bandaríkjamannsins John Mearsheimer. Eftir tveggja ára stríð glittir í raunsæi hjá þeim finnska. Einhver í gyðingahatursráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar ætti að vekja athygli ráðherra á sinnaskiptum Stubb. Vítin eru til að varast. 

   


mbl.is Nýr forseti Finnlands: Þurfum brátt að hefja friðarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trans og kvennaíþróttir

Karl sem gerist kona slær að jafnaði 2,5 sinnum þyngri högg en konur. Karl sem á litla möguleika í hnefaleikum í karlaflokki á sigurinn vísan í kvennaflokki. Þetta gildir einnig í öðrum einstaklingsgreinum s.s. frjálsum íþróttum, lyftingum og sundi sem og í liðsíþróttum eins og knattspyrnu, handbolta og körfu. Karlar hafa einfaldlega náttúrulegt forskot á konur.

Karla búa að meiri líkamsmassa en konur. Forskot karla kemur fram á kynþroskaaldri og helst út ævina.

Allt ofanritað eru þekktar staðreyndir. Þær eru m.a. til umræðu í spjalli Unherd við sænskan vísindamann.

Hvers vegna leyfist að karlar í kvengervi etji kappi við konur?

Jú, það er transið.

Transfræðin kenna að kyn sé valkvætt. Karlar geti að vild orðið konur og konur karlar. Undir formerkjum einstaklingsfrelsis megi ekki banna karla, sem segjast transkonur, að keppa í kvennaflokki.

Engin kona getur valið að verða sterk á við karl. Stúlka getur ekki valið að taka út kynþroska sem drengur. Það er líffræðilegur ómöguleiki. Í transinu eru konur jaðarsettar. 

Sumt í lífinu er ekki valkvætt, kyn og aldur til dæmis. Almenn skynsemi á í vök (eða öllu heldur vók) að verjast í umræðu staðleysu, lyga og blekkinga.  

Íslenskir femínistar hafa ekki, svo tilfallandi hafi eftir tekið, goldið varhug við að kvennaíþróttir líði undir lok með transvæðingunni. Ástæðan gæti verið að femínistarnir treysta á heiðarleika karla sem gerast konur. En það rímar ekki við þá mynd sem femínistar draga upp af körlum almennt og yfirleitt. Freki karlinn í kvengervi á stuðning femínista vísan. 


mbl.is Umdeildur bardagi á Ólympíuleikunum vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimildin gafst upp á gaslýsingu Þórðar Snæs

Alræmdasti gaslýsari íslenskrar blaðamennsku, Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, axlaði sín skinn í gær. Trúr orðsporinu gaslýsti Þórður Snær í starfslokafærslu á Facebook; nefndi ekki einu orði að hann væri sakborningur í alvarlegasta refsimáli í sögu íslenskra fjölmiðla, byrlunar- og símastuldsmálinu.

Ferill Þórðar Snæs á Kjarnanum/Heimildinni spannar 11 ár. Á miðjum þeim tíma útskýrði Þórður Snær sérgrein sína í leiðara sem ber heitið Gaslýsing og birtist haustið 2017. Gefum ritstjóranum orðið:

Tæknin sem beitt er kall­ast á ensku gaslight­ing, eða gas­lýs­ing, og er þekkt póli­tískt bragð. Í henni felst að neita stans­laust allri sök, afvega­leiða, setja fram mót­sagn­ir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll auka­at­riði og hanna nýja atburða­rás eftir á sem hentar mál­stað þess sem er að verja sig.

,,Tilgangurinn," útskýrir Þórður Snær, er að fá almenning ,,til að efast um eigin dóm­greind." Ritstjórinn er þaulæfður í aðferðinni.

Byrlunar- og símastuldsmálið hefst 3. maí 2021. Páli skipstjóra Steingrímssyni er byrlað, síma hans stolið til afritunar. Áður en byrlun fór fram var búið að kaupa síma, samskonar og skipstjórans, til glæpurinn gengi hratt og snurðulaust fyrir sig. Eftir afritun á RÚV var símanum skilað á sjúkrabeð Páls, sem lá meðvitundarlaus í öndunarvél.

Tæpum þrem vikum eftir byrlun, stuld og afritun, 21. maí, birta Stundin og Kjarninn samtímis keimlíkar fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Í fyrirsögnum beggja miðla kom fyrir orðasambandið ,,skæruliðadeild Samherja." Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson voru höfundar fréttarinnar í Kjarnanum en Aðalsteinn Kjartansson er skráður höfundur Stundarfréttarinnar.

Tilfallandi, meira fyrir tilviljun en einbeittan ásetning, bloggaði fyrst um málið 2. nóvember 2021. Vegna sterkra viðbragða og áhugaleysis fjölmiðla rann tilfallandi blóðið til skyldunnar að upplýsa lesendur um málavöxtu og skrifaði yfirlitsblogg tíu dögum síðar. Þá var komið að Þórðar gaslýsingarþætti Snæs. Hann skrifaði leiðara 18. nóvember með fyrirsögninni Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar og valdi bloggara hin verstu orð. Afneitun á bláköldum staðreyndum, lygi og blekking var gaslýsingin til að afvegaleiða umræðuna. Í leiðaranum segir:

Til að taka af allan vafa: það er eng­inn blaða­maður til rann­sóknar fyrir að hafa reynt að drepa skip­stjóra, né fyrir að stela sím­anum hans. Þetta er hug­ar­burður og áróður til að reyna að grafa undan þeim blaða­mönnum sem komu að umfjöllun Kjarn­ans og Stund­ar­innar um „skæru­liða­deild­ina“ og RÚV fyrir að hafa opin­berað Namib­íu­mál Sam­herja fyrir rúmum tveimur árum. 

Þrem mánuðum síðar, um miðjan febrúar 2022,  er upplýst að Þórður Snær er sakborningur í lögreglurannsókn ásamt þremur öðrum blaðamönnum á RÚV, Stundinni og Kjarnanum (RSK-miðlum). Þórður Snær vissi vel í nóvember 2021 að lögreglurannsókn stæði yfir. Fyrsta yfirheyrslan fór fram 5. október. Eftir það var almælt á ritstjórnum RSK-miðla að lögreglan væri komin á sporið. En almenningur mátti ekki heyra á það minnst. Þórður Snær og RSK-liðar sáu til þess með tengslaneti inn á aðra fjölmiðla. Blaðamannafélag Íslands tók þátt í yfirhylmingunni, veitti sakborningum verðlaun vorið 2022.

Með leiðaranum um glæp í tilfallandi höfði sló Þórður Snær gaslýsingartón sem hann hefur haldið síðan. Hann laug að lögreglan vildi fá upplýsingar um heimildarmann, hann sagði ósatt að hann hefði verið sóttur til Reykjavíkur af sveit eyfirskra lögreglumanna og fluttur nauðugur viljugur norður til yfirheyrslu.

Ritstjórinn trúði falsinu sem hann bar á borð fyrir almenning og sökk æ dýpra í heim ranghugmynda. Tvö dæmi: 

Páli skipstjóra var ekki byrlað, skrifar Þórður Snær í september 2022.

Tvö ár í kælingu vegna glæps sem aldrei var framinn, skrifar ritstjórinn í leiðara í febrúar síðast liðinn.

Til að afvegaleiða umræðuna, gera sjálfan sig að fórnarlambi, kærði Þórður Snær Pál skipstjóra til lögreglu fyrir að hóta sér líkamstjóni. Kæran fór vitanlega í ruslið en ritstjórinn fékk fyrirsagnir um að hann ætti bágt.

Í þrjú og hálft ár hefur Þórður Snær á hverjum degi haft tækifæri til að segja satt; útskýra málavöxtu vorið 2021, hvernig fréttin varð til sem vísaði í gögn úr síma skipstjórans. En sannleikurinn var ritstjóranum ofviða, gaslýsing er eina hálmstráið.

Nú er komið að leiðarlokum Þórðar Snæs á Heimildinni. Auðvelt er að geta sér til um ástæðuna. Heimildin varð til með samruna Stundarinnar og Kjarnans í byrjun árs 2023. Helstu eigendur gömlu Stundarinnar, hjónin Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, systir Aðalsteins sakbornings, og Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri, freista þess að halda Heimildinni á lífi. Hjónin höfðu gott lifibrauð af ríkisstyrktum fjölmiðli. Með gaslýstan Þórð Snæ í stóli ritstjóra voru dagar útgáfunnar taldir.

Í vor og sumar mátti glöggt sjá hve staða Þórðar Snæs var orðin veik. Hann tapaði dómsmáli gegn tilfallandi, en hélt áfram gaslýsingaráráttunni á Facebook og X (Twitter), sennilega vegna þess að honum var settur stóllinn fyrir dyrnar á Heimildinni. Tilkynningin um starfslok Þórðar Snæs í gær birtist ekki á Heimildinni heldur á Facebook-vegg ritstjórans.

Gaslýsing Þórðar Snæs bitnaði að lokum á honum sjálfum. Almenningur keypti ekki þvaður um að ritstjórinn og RSK-miðlar væru þolendur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Á flóttanum tapaði ritstjórinn áttum, sökk æ dýpra í sjálfsblekkingu. Kæmi ekki á óvart að Þórður Snær reyndi næst fyrir sér á vettvangi Samfylkingar. Hann er þannig týpa.

 

 

 

 


mbl.is Þórður Snær hættir sem ritstjóri Heimildarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindi, móðgun og ráðherra

Tjáningarfrelsið er hornsteinn mannréttinda. Réttur manna að tjá hug sinn er meiri og mikilvægari en meintur réttur til að verða ekki fyrir móðgun. Í viðtengdri frétt segir frá tveim aðilum, Semu Erlu og Samtökunum 78, sem móðguðust vegna ummæla Helga Magnúsar vararíkissaksóknara.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er með á sínu borði tilmæli yfirmanns Helga Magnúsar að honum verði víkið frá störfum fyrir ummæli sem aðilar út í bæ tóku til sín sem móðgun. Öðrum, tilfallandi til dæmis, fannst Helgi Magnús mæla af skynsemi almælt tíðindi; að sumir hælisleitendur eru afbrotamenn og að einhverjir hælisleitendur ljúga upp á sig eiginleikum, s.s. samkynhneigð, til að fá landvist og velferð.

Ráðherra ætti að hafa í huga við úrlausn málsins að embættisferill Helga Magnúsar er ekki einn undir heldur meginréttur allra landsmanna, að tjá hug sinn.

Guðrún ráðherra sendi afar slæm skilaboð út í þjóðfélagið ef hún tæki mark á kæru Semu Erlu og tilmælum Sigríðar ríkissaksóknara og leysti Helga Magnús frá störfum. Frjáls orðræða er ekki sérviska heldur undirstaða siðmenntaðs samfélags.


mbl.is Segir Helga Magnús ekki hafa bætt ráð sitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigríður ýjar að vanhæfi Guðrúnar ráðherra

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari óskar eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra leysi frá störfum Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara. Helgi Magnús sagði frá þeirri reynslu sinni að innflytjandinn Múhameð Kourani hefði í áravís hótað honum og fjölskyldu lífláti. Í framhaldi kærði Sema Erla Serðugla vararíkissaksóknara fyrir að upplýsa um útlendingamál.

Með ósk um að Helgi Magnús verði leystur frá störfum ýjar Sigríður ríkissaksóknari að vanhæfi þeirra sem upplýsa almenning um að innflytjendur og hælisleitendur eru ekki allt fróm fermingarbörn.

Þar hittir Sigríður fyrir sjálfan dómsmálaráðherra sem á dögunum upplýsti að þrír af hverjum fjórum sem hnepptir voru í gæsluvarðhald á Íslandi á síðasta ári eru útlendingar. Í frétt á mbl.is af upplýsingum ráðherra eru hlutirnir settir í samhengi, líkt og Helgi Magnús gerir. Þar segir m.a.

Ef skoðað er hversu marg­ir voru bú­sett­ir á land­inu af þess­um fyrr­nefndu rík­is­föng­um í des­em­ber árið 2023, miðað við gögn frá þjóðskrá, kem­ur í ljós að Al­ban­ir, Georgíu­menn, Palestínu­menn og Spán­verj­ar voru hlut­falls­lega marg­falt lík­legri til þess að vera úr­sk­urðaðir í gæslu­v­arðhald en til dæm­is Íslend­ing­ar og Pól­verj­ar.

Útlendingar, aðrir en Pólverjar, eru sem sagt ,,margfalt líklegri" til vera hnepptir í varðhald vegna afbrota en Íslendingar, er haft eftir dómsmálaráðherra.

Mun Sigríður ríkissaksóknari láta til skarar skríða, lýsa dómsmálaráðherra vanhæfan? Eða bíður hún eftir kæru frá Semu Erlu?


mbl.is Helgi verði leystur frá störfum tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennarar, menntun og siðareglur

Kennari menntar nemendur, sagði í fyrstu grein siðareglna kennara. Greinarnar voru tólf og tíunduðu meginhlutverk stéttarinnar. Siðareglunum var breytt fyrir tveim árum, haustið 2022.

Nýju siðareglurnar eru tuttugu undir fjórum kaflaheitum. Verðbólgan í regluverkinu er ekki til að auka gæðin heldur skrifa inn í siðareglur viðhorf sem eru andstæð menntun.

Kennari ,,menntar og stuðlar að alhliða þroska" segir í nýju útgáfunni. Menntun er stórt orð en hefur í skólasamhengi hefðbundna merkingu. Aftur er ,,alhliða þroski" til muna víðtækara og býr ekki að sömu hefð og ,,menntun." Orð með óljósa merkingu hafa þann kost að þau má nota út og suður.

Nýju reglunar leggja meira á kennara að því er virðist. Það er eitt að mennta en annað að ,,stuðla að alhliða þroska". Ef um væri að ræða sama hlutinn væri hann ekki tvítekinn. Það er ekki háttur kennara að leggja á sig meiri vinnu án þess að ræða fyrst kaup og kjör. Hér liggur fiskur undir steini.

Markmiðið er ekki að hlaða aukinni ábyrgð á axlir kennara. ,,Alhliða þorski" er þvert á móti afsláttur af menntun. Kennari getur tekið hvaða efni sem er til kennslu undir formerkjum ,,alhliða þroska." Til þess er leikurinn gerður. Menntun er gjaldfelld en hugdettur leiddar í öndvegi.  

Í nýju siðareglunum kemur orðið ,,fjölbreytileiki" tvisvar fyrir en aldrei í þeim eldri. Þar kemst upp um strákinn Tuma. Fjölbreytileiki er annað orð yfir lífsstílskennslu sem er allt annað en menntun. Lífsstíll er einn í dag en annar á morgun; lestur og reikningur breytast ekki dag frá degi.

,,Alhliða þroski" og ,,fjölbreytileiki" eru orð ættuð úr hugarheimi aðgerðasinna sem hafa að markmiði að bjarga heiminum. Menntun er aftur möguleiki einstaklingsins að bjarga sjálfum sér, verða maður meðal manna. Heimsbjörgin hefur fyrir sið að fórna einstaklingnum í þágu æðra markmiðs. Útkoman er alltaf ömurleg.  

Grunnskólakennarar standa höllum fæti í umræðunni. Ástæðan er bág frammistaða íslenskra nemenda í alþjóðlegum samanburði. Einboðið er að þegar forysta kennara vinnur skipulega að stefnubreytingu, sem innleiðir hugdettur og lífsstílskennslu á kostnað menntunar, verður árangurinn ekki upp á marga fiska.

Kennarar ættu að einbeita sér að menntun en láta lönd og leið hugdettu- og lífsstílskennslu. Kennarar sem ætla sér að bjarga heiminum eru vanalega fangar sérvisku sem tekur takmarkað tillit til mennsku og mannlífs.

Hér er skjal með siðareglum kennara. Eldri siðareglur eru neðst í skjalinu. 


Orð, hugsun, gervigreind og tapað fé

Gervigreind skilur orð, en ekki hugsun. Ótaldir milljarðar dollara skilja á milli. Þeir sem veðjuðu á að gervigreind skilaði ofsagróða verða fyrir vonbrigðum, segir Telegraph. Vísindagyðjan Sabína Hossenfelder tekur í sama streng.

Smá ves í gervilandi. Fyrirheit um að gervigreind kæmi í stað manna á ótal sviðum efnahagslífsins fá ekki fullnustu. Gervigreind er dýr í framleiðslu og svo kemur á daginn að drjúgt kostar að halda henni við. Hugsun er síkvik og lifandi en forritin dauður bókstafur, skrifaður í runu með núll og einum.

Nýmælið keppir því verr við mennskuna sem launataxtinn er lægri. Gervill sem svarar síma eða tölvupósti getur ekki enn keppt við mennskan starfskraft. Það þarf ekki Einstein til að svara í síma, útskýra verð á vöru og þjónustu og leiðbeina með uppsetningu og smávandamál. Með tilsögn gæti jafnvel kjósandi Samfylkingar innt starfið af hendi. Ódýrt, sem sagt. 

Orð eru eitt en hugsun annað. Merkilegt að fluggáfaða fólkið sem seldi okkur vonarland gervigreindara áttaði sig ekki á þessu. Kannski ekki að undra. Menning sem trúir að karl breytist í konu með hugdettu og náttúrlegt lofslag sé manngert er trúandi til að halda hugsun núll og einn. Gervi og ekta er ekki sami hluturinn.

 


Trump, Jerúsalem og Gasa

Arabaheimurinn fékk flog þegar Trump á fyrri forsetatíð viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels árið 2017. Í áratugi var ekki hægt að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels með þeim rökum fylgismenn spámannsins yrðu æfir. 

Trump viðurkenndi, arabar tóku móðursýkiskast og Bandaríkin fluttu sendiráðið til höfuðborgar frelsarans. Afgreitt mál.

Yfirstandandi átök á Gasa snúast um að Ísrael hyggst koma lögum yfir þá Hamas-liða sem frömdu fjöldamorð í Suður-Ísrael 7. október í fyrra. Fjöldamorðin voru glæpur gegn mannkyni og stríðsglæpir.  Hryðjuverkamennirnir fela sig á bakvið almenna borgara og njóta auk þess víðtæks stuðnings meðal vinstrimanna á vesturlöndum.

Gasa-átökin sem nú standa yfir renna sitt skeið, með eða án atbeina Trump. Það er engin lausn í sjónmáli í deilum araba og Ísrael. Hamas vilja tortíma Ísrael. Á meðan Hamas fær stuðning, innan arabaheimsins og utan, er ófriður.

Átökin Ísraels og araba eru milli tveggja menningarheima. Gyðingdómur og kristni eru á öðrum vængnum en hinum íslam. Margar frásagnir reyna að dylja raunveruleikann. En kjarni málsins er veraldarhyggja byggð á gyðingdómi og kristni stendur andspænis múslímskri trúarhyggju.

Trúarmenningarstefið er ekki síst áberandi hjá stuðningsmönnum Hamas á vesturlöndum. Fallinn Palestínuarabi er margfalt hryggður á við fallinn Sýrlending eða Húta. Dánartölur eru pólitískt verkfæri. Hamasliðar í vestrinu sýna trúarlega ákefð að útrýma Ísraelsríki.


mbl.is Trump lofaði að binda enda á átök á Gasasvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband