Selenskí biður um Nató-hermenn

Á Ramstein-fundi í Þýskalandi í fyrradag hitti Selenskí forseti Úkraínu vestræna bakhjarla sína. Ramstein-fundir eru reglulega haldnir um framgang stríðsins, eru orðnir 25 frá upphafi innrásar Rússa í febrúar fyrir þrem árum. Selenskí óskaði eftir beinni aðild Nató-ríkja að átökunum.

Fundurinn í fyrradag er merkilegur fyrir þær sakir að hann er sá síðast fyrir embættistöku Trump forseta eftir tíu daga. Samkvæmt heimasíðu Selenskí eru Bretar jákvæðir að senda hermenn til Úkraínu. Vitað er að fjöldi Nató-hermanna starfa sem sérfræðingar í hátæknivopnum á vígvellinum og all nokkrir hafa fallið. Selenskí vill fá fótgönguliða frá Nató-ríkjum til að berjast í skotgröfum Úkraínu. Við það yrði formlegt stríð milli Nató og Rússlands.

Nánast óhugsandi er að Nató-ríkin sendi fótgönguliða til að berjast í austri. Ósk forseta Úkraínu hermenn frá bakhjörlum sínum lýsir örvæntingu en ekki raunsæi.

Úkraínuher stendur höllum fæti á allri víglínunni. Liðhlaup eru algeng og baráttuþrekið fer þverrandi. Á Ramstein-fundinum var rædd áætlun um stuðning við Úkraínu næstu tvö árin, til 2027. Þýskur varnarmálasérfræðingur segir slíka áætlun tilgangslausa sjái Bandaríkin sig um hönd, krefjist friðar.

Fyrrum ofursti í Bandaríkjaher, Daniel L. Davis, heldur úti youtube-rás um Úkraínustríðið. Hann fékk til sín fyrrum sendiherra, Chas Freedman, til að ræða stöðu mála. Þeir segja að stjórnin í Kænugarði sé búin að vera. Engar líkur séu á hagfelldri niðurstöðu fyrir Selenskí og félaga - og vestræna bakhjarla. Spurningin sé aðeins hve slæm útkoman verður.

Davis og Freedman draga upp dökka mynd af ástandinu, kannski er þar eitthvað ofmælt. Diplómatískt orðalag er að segja alla kosti Úkraínu slæma. Vafi leiki á um framtíð úkraínska þjóðríkisins.

Félagarnir, líkt og þorri stjórnarmálaskýrenda, telja Trump forseta ráða miklu, ef ekki öllu, um framvindu mála í austurvegi. Í kosningabaráttunni sagðist Trump ljúka stríðinu innan 24 stunda eftir embættistöku. Nú er talað um páska eða jafnvel næsta hálfa árið.

Haldi Trump og Pútín Rússlandsforseti fund, fljótlega eftir embættistöku Bandaríkjaforseta, er orðspor beggja í húfi. Pútín kemst ekki upp með, gagnvart rússnesku þjóðinni, að gefa frá sér landvinninga sem hafa kostað ómældar blóðfórnir. Trump þarf að skila friði sem felur í sér að Úkraína verði áfram sjálfstætt þjóðríki. Einn fundur slær ekki botninn í Úkraínustríðið. Aftur er líklegt að fyrirsjáanleg eftirgjöf Trump á úkraínsku landi í þágu friðar hafi áhrif á stöðuna á vígvellinum. Ekki Úkraínu í hag.

 

 


mbl.is Pútín tilbúinn í viðræður við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristrún, Dagur og staða Þórðar Snæs

Kristrún forsætis og formaður Samfylkingar úthýsti Degi B. Eggertssyni bæði fyrir og eftir kosningar. Það mátti gjarnan strika Dag út á atkvæðaseðlinum og hann kæmi ekki til greina sem ráðherraefni, sagði Kristrún fyrir kosningar. Að loknum kosningum vonaðist Dagur eftir þingflokksformennsku, en Kristrún sagði nei.

Þórður Snær Júlíusson var á lista Samfylkingar og fékk kjör. Í kosningabaráttunni var Þórður Snær afhjúpaður sem netníðingur. Fylgið tók að reytast af Samfylkingunni. Til að stöðva fylgishrunið gaf Þórður Snær út yfirlýsingu um að hann myndi ekki taka sæti á alþingi þótt hann næði kjöri. Fyrir utan að vera netníðingur er Þórður Snær sakborningur í byrlunar- og símamálinu. Sakamálið er á borði ríkissaksóknara sem næstu daga tekur afstöðu til þess hvort málið verði fellt niður eða rannsakað áfram.

Í yfirlýsingu lögreglu kemur fram að blaðamenn frömdu afbrot gegn Pál skipstjóra Steingrímssyni, en ekki tókst að sanna afgerandi hvaða blaðamenn frömdu tiltekin afbrot. Hvort heldur Þórður Snær sé sekur eða saklaus býr hann yfir upplýsingum um afbrotin sem voru framin. Líkt og aðrir sakborningar, þeir eru sex úr röðum blaðamanna, neitar Þórður Snær að upplýsa vitneskju sína um málið. Hann er aftur sífellt tilbúinn til að réttlæta aðför blaðamanna að heilsu, æru og einkalífi skipstjórans, síðast í viðtali við sænskan útvarpsmann sem birt var í byrjun árs.

Í netníðinu notaði Þórður Snær dulnefni. Í lögreglurannsókn á alvarlegu sakamáli heldur hann fram að ekkert afbrot hafi verið framið. Valkvæður veruleiki er sérgrein Þórðar Snæs.

Eftir kosningar er hljótt um Þórð Snæ í umræðunni. Sögusagnir eru um að hann fái launað starf hjá Samfylkingunni, e.t.v. sem framkvæmdastjóri flokksins. Þar með yrði hann að einhverju marki andlit og ásjóna flokksins.  Maður með svæsið netníð á samvikunni og aðild að sakamáli getur trauðla átt meira upp á pallborðið hjá Kristrúnu formanni og forsætisráðherra en Dagur fyrirverandi borgarstjóri. Eða hvað?

 


mbl.is Dagur gerði ráð fyrir að verða þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, Grænland og Viðreisnarógæfa Íslands

Grænland fer undir áhrifasvæði Bandaríkjanna með góðu eða illu. Ekki vegna Trump sérstaklega heldur langtímaþróunar bandarískra öryggishagsmuna. Grænland verður áhrifasvæði Bandaríkjanna með sambærilegum formerkjum og Ísland með varnarsamningnum 1951.

Tilfallandi gerði fyrir fimm árum stuttlega grein fyrir fyrir bandarískri þróun í varnar- og öryggismálum undir fyrirsögninni Ísland er nærsvæði Bandaríkjanna. Atburðir síðan staðfesta þá þróun.  

Grænlendingar mun fyrirsjáanlega taka til sín aukið, eða fullt, fullveldi frá Danmörku og gera varnarsamning við Bandaríkin. Grænlendingar vita sínu viti í utanríkismálum; þeir fyrsta þjóðin sem gekk úr Evrópusambandinu, gerðu það á síðustu öld, og lengi sú eina - allt fram að Brexit 2016.

Í bloggi í síðasta mánuði er ræddur Grænlandsáhugi Bandaríkjanna upp á síðkastið:

Bandaríkin, burtséð frá Trump, líta ekki lengur á meginland Evrópu sem sitt kjarnasvæði, líkt og þau gerðu eftir seinna stríð. Öryggishagsmunir Bandaríkjanna í austurátt liggja á Norður-Atlantshafi. Á dögum kalda stríðsins var talað um GIUK-hliðið, kennt við Grænland, Ísland og Bretlandseyjar. GIUk verður borgarhlið Bandaríkjanna gagnvart ESB-Evrópu. Dálkahöfundur Telegraph í Bretlandi spyr í hálfkæringi hvort ekki sé einfaldast að eyríkið verði 51sta fylki Bandaríkjanna. Bretar sjá tilvistarvanda nágranna sinna á meginlandinu.

Ógæfa Íslands er eini flokkurinn hér á landi með ESB-aðild á dagskrá er Viðreisn. Einmitt sá flokkur fer með utanríkisráðuneytið. Formaður flokksins og utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín, heimsótti Kænugarð um helgin eins og smurður Brussel-agent. Bandaríkin ætla að þvo hendur sínar af Úkraínustríðinu. Í Washington frá og með embættistöku Trump er litið á stríðið sem evrópskt vandamál.

Um sinn munu Bandaríkin starfrækja Nató en ekki til landvinninga í austri. ESB-Evrópa stendur frammi fyrir áskorunum sem óvíst er að álfan ráði við. Bandaríkin eru ekki þannig í sveit sett að sitja uppi með öflugan óvin í túnfætinum; ESB-Evrópa gerir það svo sannarlega.

Einkaflipp Þorgerðar Katrínar í Kænugarði um helgina er smámál hjá þeirri stefnu Viðreisnar að Ísland verði ESB-ríki. Bandaríkin, með Trump eða án, líta það ekki vinsamlegum augum að greiða Evrópusambandinu leið til áhrifa á Norður-Atlantshafi. Það er algjörlega andstætt íslenskum hagsmunum í bráð og lengd að gefa ESB færi á Íslandi. Versta sem smáþjóð gerir sjálfri sér er að verða bitbein stórveldahagsmuna.

Evrópusambandið á fyrir höndum langa og stranga aðlögun að máttugu Rússlandi. Ísland innan ESB gæti orðið skiptimynt í þeim hráskinnaleik. Líkt og næstum gerðist laust eftir miðja 19. öld er Danir glímdu við Prússa og ígrunduðu að gefa Ísland í skiptum fyrir land þeim kærara.

Óvitarnir í Viðreisn valda okkur skaða með utanríkispólitík sem ekki er í neinu samræmi við þróun alþjóðastjórnmála og allra síst við gerbreytta stöðu á Norður-Atlantshafi.

 

 

 


mbl.is Skoða verði ummæli Trumps af alvöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður Katrín gekk í gildru Selenskí, ekki ráðgjafi Trump

Fyrir þrem dögum hóf Úkraínuher endurnýjaða sókn í Kúrsk-héraði Rússlands. Selenskí forseti vildi sýna árangur á vígvellinum vegna fyrirhugaðrar heimsóknar sérstaks ráðgjafa Trump væntanlegs Bandaríkjaforseta í málefnum Úkraínu, Keith Kellogg, fyrrverandi hershöfðingi.

Selenskí fékk, eins og vanlega, fyrirsagnir alþjóðapressunnar. Nýja Kúrsk-aðgerðin, sú fyrri var í ágúst, skyldi gerbreyta vígstöðunni Úkraínu í vil. Veruleikinn er annar. Úkraínuher beið afhroð í Kúrsk, líkt og víðar á víglínunni.

Kellogg ráðgjafi Trump frestaði heimsókninni, sem átti að vera nú í byrjun janúar, fram yfir embættistöku eftir tvær vikur. Frestun gefur til kynna að ráðgjafinn ætli ekki að láta misnota sig í ímyndarstríði Selenskí þar sem Úkraínu gengur allt í haginn og skammt sé að bíða ósigurs Rússa.

Þorgerður Katrín arkaði aftur glaðbeitt í gildru Selenskí, sem þó var ekki fyrir hana spennt. Sitjandi utanríkisráðherra fetaði í fótspor forvera síns. Þórdís Kolbrún hafði sér til afsökunar að allir vestrænir stjórnmálamenn sem vettlingi gátu valdið heimsóttu Selenskí í Kænugarð fyrstu misseri stríðsins til að mynda sig að verja lýðræði og vestræn gildi. Nú eru bráðum þrjú ár síðan innrás Rússa hófst. Ítarleg greining hefur farið fram. Niðurstaðan er að tveir skólar kenna hvor sína útgáfuna af atburðarásinni.

Í fyrsta lagi vestræna elítan sem kynnir Pútín sem 21stu aldar útgáfu af Hitler er sæti færis til heimsyfirráða. Þessi skóli miðar upphafið við febrúar 2022.

Í öðru lagi raunsæismenn, John Mearsheimer þar fremstur, sem líta aftur til loka kalda stríðsins, um 1990, og skilgreina rás atburða út frá viðurkenndum sjónarmiðum í alþjóðapólitík. Nýtt framlag er frá prófessor Jonathan Haslalm, Hroki (Hubris). Í fyrirlestri kynnir Haslam kjarnann í bókinni. Vestrænn hroki er aðalástæða Úkraínustríðsins.

Vestræna elítan stundar pólitík og þvingar fram sína útgáfu í meginstraumsmiðlum. Raunsæismenn iðka ekki pólitík og fara mun nær ástæðum og eðli Úkraínustríðsins.

Þorgerður Katrín hefði betur sinnt íslenskum hagsmunum en ekki vestrænu elítunnar og hvergi farið til Úkraínu.


mbl.is Þorgerður Katrín í heimsókn í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútín, Trump og nú Musk gegn Vók-Evrópu

Smá ves á valdaelítu Evrópu. Pútín herjar á hana í gegnum Úkraínu og Trump lætur Elon Musk kaghýða vókliðið í helstu höfuðborgum álfunnar. Pútín var ímyndaður andstæðingur fyrir áratug en er orðinn raunverulegur óvinur. Evrópa taldi sig ónæma fyrir Trump-áhrifum frá og með 2021, en svo sigraði hann bandaríska vókið í nóvember og tekur við embætti eftir tvær vikur.

Setjum mál í samhengi.

Um miðjan síðasta áratug var Pútín forseti Rússlands sakaður um að skipta sér af innanríkismálum vestrænna ríkja, s.s. af kosningum í Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu. Hámarki náði áróðurinn í fyrri forsetatíð Trump, 2016-2020. Pútin var sagður hafa tryggt Trump embættið og mátti forseti Bandaríkjanna allan sinn embættistíma sitja undir ásökunum að vera strengjabrúða starfsbróður síns í Moskvu.

Ásakanir um afskipti Pútín af innanríkismálum vestrænna ríkja voru falsfréttir er þjónuðu hnignandi elítu. Rússagrýlan var endurvakin til að þétta raðirnar hjá liðinu sem taldi sig hafa sigrað kalda stríðið og vildi vók-væða heiminn með manngerða loftslagshlýnun sem ógnvald og transumsköpun mannsins sem frelsunarguðfræði.

Elítunni heldur áfram að hnigna. Nú ber svo við að eltihrellir glópaelítunnar er sjálfur Elon Musk, eigandi X (Twitter) og Telsu, og þekktasti stuðningsmaður Donald Trump.

Musk stundar stórfelld afskipti af innanríkismálum vestrænna ríkja og gerir það fyrir opnum tjöldum. Hann segir að breskur ráðherra, sem ekki vill rannsaka barnaníð breskra múslíma á hvítum stelpum undir lögaldri, eigi að fara í fangelsi. Musk kallar Scholz kanslara Þýskalands vanhæfan imba og styður hægriflokkinn AfD sem er and-vók.

Macron Frakklandsforseta er nóg boðið og krefst þess að Musk hætti að hnýta í valdafólk á vesturlöndum og láta af afskiptum af kosningum og öðrum innanríkismálum.

Vestræn ríki, t.d. Bandaríkin, Bretland og Frakkland, eiga langa sögu að baki að skipta sér af innanríkismálum annarra ríkja. Hlálegt er að heyra Macron og félaga kveinka sér undan tísti frá Musk. 

Musk er ekki réttur og sléttur auðmaður. Hann er óopinber sendiherra Trump um hvað sé við hæfi og hvað ekki hjá bandalagsþjóðum í Vestur-Evrópu. Viðbrögð við gagnrýni Musk sýnir að vestræna vók-elítan veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, þorir ekki að efna til opinberrar rannsóknar á því hvernig múslímagengjum leyfðist að tæla og níðast á stúlkum í áravís. Ástæðan er sú að Starmer óttast að styggja múslímska kjósendur. Án þeirra tapar hann völdum í Bretlandi, sem einu sinni átti sér höfuðborg er ekki var kölluð Londonistan.

Í heimspólitíkinni standa yfir umskipti. Vókið tapar, heilbrigð hægriskynsemi sigrar.

 


mbl.is Starmer svaraði Musk á heitum blaðamannafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðdeild í ríkisrekstri: áróður eða alvöru?

Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frosta leitar til almennings eftir tillögum um ráðdeild i ríkisrekstri. Almenningur tekur framtakinu vel og skilar inn ráðleggingum í massavís. Útspil ríkisstjórnarinnar heppnaðist. En svo er það spurningin um efndirnar.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki þekktir fyrir áherslu á sparnað í opinberum útgjöldum. Sögulega er Samfylking, áður Alþýðuflokkur, útgjaldaflokkur. Viðreisn er svo gott sem óskrifað blað í ríkisstjórn en málflutningurinn er ekki tengdur sparnaði og ráðdeild. Flokkur fólksins er hreinn og klár útgjaldaflokkur í orðræðu, eiginlega jólasveinaflokkur með fullt fangið að opinberum gjöfum handa verðugum.

En hvað gerir ný ríkisstjórn? Jú, hún boðar sparnað í ríkisrekstri í samráði við almenning. Pólitískt óvænt og snjallt. Í byrjun desember, þegar þær Kristrún, Þorgerður Katrín og Inga hófu samtalið, skrifaði tilfallandi:

Við fáum valkyrjustjórn til hægri, gangi það fram að Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins nái saman um meirihluta á alþingi. [...]

Á alþingi verður valkyrjustjórnin ekki gagnrýnd frá vinstri. Enginn flokkur á alþingi er til vinstri við Samfylkinguna. Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur munu halda valkyrjustjórninni við efnið í efnahagsmálum, einkum ríkisútgjöldum. Kristrún og Þorgerður Katrínu eru líklega hófsamari á útgjaldahliðinni en Inga, en trúlega ekki meira en svo að hægt sé að ná málamiðlun. Skattlækkanir verða tæplega á dagskrá og brýn tiltekt í ríkisrekstri bíður betri tíma.

Síðasta setningin, um að brýn tiltekt í ríkisrekstri sé ekki á dagskrá, étur tilfallandi hér með ofan í sig um leið og hann tekur hatt sinn ofan fyrir Kristrúnu og félögum.

Með þeim fyrirvara að hugur fylgi máli hjá nýrri ríkisstjórn. Það er auðvelt að boða hagræðingu og sparnað hjá hinu opinbera, öllu erfiðara í framkvæmd.

Pólitísk áhætta er að virkja almenning í verkefnið. Almenningur vill sjá efndir og verður ekki spar á gagnrýni gangi það ekki eftir að hagrætt sé í ríkisrekstri. Tilfallandi trúir að sannfæring sé í stjórnarráðinu fyrir markaðri stefnu. En sé góðum vilja ekki framfylgt með einbeitni í framkvæmd verður litið á tiltækið sem áróðursbragð.

 


mbl.is Viðbrögð ríkisstjórnarinnar ráða árangrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrlunar- og símamálið í sænska útvarpinu

Fjölmiðlahneyksli skekur opinbera umræðu á Íslandi í mörg ár, segir í kynningu á sænskum útvarpsþætti á P1, sem frumfluttur var í gær. Sænski fréttamaðurinn Martina Pierrou vann þáttinn og kom til Íslands í maí í fyrra. Viðmælendur eru Þórður Snær Júlíusson, Helgi Seljan og Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands annars vegar og hins vegar Þórður Gunnarsson talsmaður Samherja.

Þórður Snær er sakborningur í byrlunar- og símamálinu, Helgi tengist málinu og Sigríður Dögg er verjandi þeirra hjá Blaðamannafélaginu. En hvers vegna er Þórður Gunnarsson talsmaður Samherja viðmælandi? Samherja á ekki beina aðild að byrlunar- og símamálinu. Brotaþolinn er Páll skipstjóri Steingrímsson. Á sínum tíma vann skipstjórinn hjá Samherja en brotið var á honum persónulega. 

Að undirlagi blaðamanna RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, var Páli skipstjóra byrlað og síma hans stolið. Byrlarinn er andlega veik þáverandi eiginkona skipstjórans. Á meðan Páll skipstjóri var meðvitundarlaus tók eiginkonan síma hans og afhenti blaðamönnum. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks tók við símtækinu í höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti. Áður hafði Þóra keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem var til reiðu á Efstaleiti 3. mai 2021, er skipstjóranum var byrlað. Á RÚV var sími skipstjórans afritaður. En Þóra og RÚV birtu engar fréttir með vísun í gögn úr símanum. Fréttirnar birtust samtímis í Kjarnanum og Stundinni þann 21. maí 2021, tæpum þrem vikum eftir byrlun og stuld. RSK-blaðamenn hafa aldrei gert grein fyrir aðkomu sinni að málinu. Þetta er byrlunar- og símamálið í hnotskurn.

Hvers vegna er Þórður Gunnarsson talsmaður Samherja viðmælandi í sænska útvarpsþættinum en ekki Páll skipstjóri?

Jú, vegna þess að í meðförum sænska fréttamannsins Martina Pierrou er tveim málum slegið saman, Namibíumálinu og byrlunar- og símamálinu. Málin tengjast, en ekki á þann hátt sem Martina leggur upp með.

Namibíumálið er tveim árum eldra en byrlunar- og símamálið. Namibíumálið hefst um miðjan nóvember 2019 með alræmdum Kveiks-þætti á RÚV þar sem Helgi Seljan leiðir fram á sjónarsviðið Jóhannes Stefánsson uppljóstrara. Jóhannes er ógæfumaður sem sá um rekstur dótturfélags Samherja í Namibíu fyrir áratug. Hann var rekinn fyrir óreiðu í rekstri. Hefnd Jóhannesar var að játa á sjálfan sig stórfelldar mútur sem hann kvaðst hafa greitt fyrir hönd Samherja namibískum embættis- og stjórnmálamönnum. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir sakamálayfirvalda í Namibíu og á Íslandi hefur ekki fundist arða af sönnunargögnum sem styðja frásögn Jóhannesar uppljóstrara og RÚV.

Sænski fréttamaðurinn Martina Pierrou talar ekki íslensku. Í útvarpsþættinum kemur ekki fram hvernig hún aflaði sér upplýsinga. Út frá heimildamönnum hennar má aftur álykta hvernig staðið var að verki. Þórður Snær er óopinber talsmaður RSK-blaðamanna allt frá nóvember 2021 er hann skrifaði grein sem markar upphaf málsvarnar blaðamanna. Greinin heitir Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Þar neitar Þórður Snær að glæpir, byrlun, stuldur og afritun, hafi verið framdir. Einnig neitar hann að lögreglan sé með málið til rannsóknar. Allt séu þetta samsæriskenningar tilfallandi bloggara. Þrem mánuðum síðar varð Þórður Snær sakborningur í sakamálarannsókn ásamt undirmanni sínum á Kjarnanum, Arnari Þór Ingólfssyni, Þóru Arnórsdóttur á RÚV og Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Síðar bættust við á lista sakborninga Ingi Freyr Vilhjálmsson, þá á Stundinni nú á RÚV, og Arnar Þórisson á RÚV.

Helgi Seljan er annar viðmælandi sænska fréttamannsins. Hann fékk ekki stöðu sakbornings í byrlunar- og símamálinu. Vitað er þó að hann var í samskiptum við þáverandi eiginkonu skipstjórans. Helgi Seljan tengir saman þrjú mál þar sem RÚV herjar á Samherja; Seðlabankamálið, sem hófst 2012, Namibíumálið og byrlunar- og símamálið. Í sænska útvarpsþættinum er spiluð hljóðupptaka frá aðförinni að Samherja í Seðlabankamálinu. Sænski fréttamaðurinn stendur í þeirri trú að upptakan tengist Namibíumálinu. Einhver Íslendingurinn matar Martinu Pierrou fréttamann á fölskum upplýsingum. Það er háttur RSK-blaðamanna að falsa gögn, segja ósatt og blekkja. 

Meginásakanir Þórðar Snæs, Helga Seljan og Sigríðar Daggar formanns BÍ eru að blaðamenn séu ofsóttir fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Þórður Snær hefur áður leikið þennan leik. Hann sagði danska blaðamanninum Lasse Skytt, sem síðar var afhjúpaður sem falsfréttamaður, að lögreglan á Akureyri hefði sent sveit manna suður að sækja blaðmenn og flytja nauðuga viljuga norður yfir heiðar.

Önnur vörn RSK-liða er að lög um vernd heimildarmanna leyfi byrlun og stuld í þágu blaðamanna. Það er rangt. Engin lög leyfa að eitrað sé fyrir fólki og eignum þess stolið. Ekki heldur er heimilt að afrita einkasíma. Þórður Snær reyndi að verða þingmaður við síðustu kosningar, en tókst ekki eins og landsfrægt varð. Þingmenn setja landsmönnum lög; Þórður Snær lítur svo á að lög og siðir skuli ekki hamla honum að þjóna eðli sínu. 

Tilfallandi veit að sænski fréttamaðurinn Martina Pierrou fékk símanúmer og tölvupóstfang Páls skipstjóra þegar hún tók viðtölin í maí síðast liðnum vegna þáttarins sem var sendur út í gær á sænska ríkisfjölmiðlinum, P1. Sú sænska vildi ekki fá afstöðu skipstjórans til málsins. Ekki frekar en Lasse Skytt um árið. Páll skipstjóri afhjúpaði Lasse Skytt sem falsfréttamann fyrstur manna. Ef skipstjórinn má vera að því í önnum dagsins að senda línu á yfirmenn Martinu á sænska ríkisútvarpinu er ekki að vita nema frekari fréttir berist af Martinu og vinnulagi hennar.

Allir viðmælendur Martinu tala við hana ensku. Þremenningarnir úr röðum blaðamanna, Þórður Snær, Helgi og Sigríður Dögg hefðu þó sem hægast getað bent á Inga Frey Vilhjálmsson, meðsakborning Þórðar Snæs, sem er sænskumælandi. Var Ingi Freyr kannski á bakvið tjöldin að ,,hjálpa" Martinu að skilja málavöxtu? Ingi Freyr er fréttamaður á RÚV. Er væntanleg frétt frá honum sem byggir á ,,fréttaskýringu" Martinu um ofsótta blaðamenn á Íslandi?

Byrlunar- og símamálið er á borði ríkissaksóknara. Lögreglan hætti rannsókn málsins síðast liðið haust með sérstakri yfirlýsingu um að blaðamennirnir væru að öllum líkindum sekir, en ekki hefði tekist að sanna hvaða blaðamenn frömdu tiltekin afbrot. Páll skipstjóri kærði niðurstöðu lögreglu til ríkissaksóknara sem mun núna í janúar taka afstöðu til þess hvort lögreglurannsókn verði felld niður eða haldið áfram. 

 

 


Liðhlaup og Trump-ótti í Úkraínu

Úrvalssveit Úkraínuhers, þjálfuð og vopnuð í Frakklandi, 155. vélaherdeildin, er óstarfhæf þar sem um helmingur af 3500 manna herdeild létu sig hverfa, eru liðhlaupar. Stríðsbloggarar hlynntir málstað Úkraínu segja þær fréttir að liðhlaupið hófst á meðan 155. vélaherdeildin var í þjálfunarbúðum í Frakkland síðsumars og fram á haust. 

Eftir að herdeildin var flutt nær víglínunni jókst liðhlaupið. Frakkar útveguðu búnað og vopn, m.a. Leopard skriðdreka, fyrir 900 milljónir evra, sem gerði herdeildina betur útbúna enn þorra hersveita Úkraínuhers. 

Meginstraumsmiðlar, t.d. Die Welt, segja frá afdrifum 155. vélaherdeildarinnar sem var leyst upp eftir að hún varð óbardagahæf sökum liðhlaups. Hersveitin bar virðulegt nafn franskrar drottningar sem ættuð var frá Úkraínu, Anna frá Kænugarði. Í frásögn fréttamanns Die Welt í Kænugarði kemur fram að úkraínsk yfirvöld viðurkenna að að liðhlaup sé vaxandi vandamál. Yfirvöld segja um 100 þúsund karlmenn á herskyldualdri hafi gerst liðhlaupar. Líklega er það vantalið.

Die Welt fylgdi eftir fréttinni með frásögn af harkalegum aðgerðum úkraínsku herlögreglunnar sem eltir uppi þá sem koma sér undan herkvaðningu. Karlmenn á herskyldualdri eru handsamaðir hvar sem til þeirra næst, hvort heldur á heimilum, opinberum stöðum eða á götum úti. Die Welt segir dæmi af misþyrmingum og dauðsföllum af völdum herlögreglu að þvinga menn í herinn.

Herskyldualdurinn í Úkraínu er 25 ár. Vestræn stuðningsríki stjórnarinnar í Kænugarði hafa þrýst á að lækka herskylduna um sjö ár og gera öllum körlum frá og með 18 ára aldri skylt að gegna herþjónustu. Bakhjarlar Úkraínu telja mannfæð standa hernum fyrir þrifum. Selenskí forseti hefur hingað til ekki fallist á að lækka herskyldualdur af ótta við viðbrögð almennings. Víst er að liðhlaup myndu stóraukast og voru þau ærin fyrir.

Nær allt síðasta ár gekk allt á afturfótunum fyrir Úkraínuher. Ljósi punkturinn er árangursrík innrás í rússneska héraðið Kúrsk í ágúst. Að öðru leyti er fátt um fína drætti. Verulega þrengir að Úkraínumönnum í Kúrsk í desember og hægfara undanhald er á öðrum vígstöðum.

Eftir tvær vikur sver Donald Trump embættiseið sem Bandaríkjaforseti. Hann hefur ekki hvikað frá þeirri skoðun sinni í kosningabaráttunni að Úkraínustríðið verði af stöðva. Breska útgáfan Telegraph segir í gærkvöldi frá hugmynd, sem áður hefur verið kynnt, að frysta víglínuna eins og hún er núna og nota vopnahléið til að semja frið. Haft er eftir fyrrum utanríkisráðherra Breta, Jeremy Hunt, að Bretland, Þýskaland og Frakkland verði að vera tilbúin að senda hersveitir til Úkraínu og tryggja að vopnahlé sé virt - verði af því. Engar líkur séu á að Trump forseti samþykki að senda bandarískt herlið til Úkraínu. Þjóðverjar og Frakkar verða tregir til, sitji Bandaríkjamenn hjá. Þýski herinn var síðast í Úkraínu í seinna stríði og það eitt vekur hugrenningar sem fáum er að skapi.

Svo er hitt, að ekkert vopnahlé verður á dagskrá nema báðir stríðsaðilar samþykki. Stjórnin í Kænugarði mun sjá sig knúna að fara eftir vilja Trump. Pútín og félagar í Moskvu hafa gefið út að ekkert vopnahlé komi til greina nema fallist sé fyrirfram á að Úkraína verði ekki Nató-ríki og enginn erlendur her sitji landið. Rússar hafa lagt undir sig um fimmtung Úkraínu og vígstaða þeirra fer batnandi með hverjum deginum sem líður. Tíminn vinnur með Rússum.

Atburðarásin næstu vikur gæti orðið hröð, standi vilji Trump til að stríðsátök stöðvist sem fyrst. Eftir embættistöku er Úkraínustríðið orðið hans vandamál, því meira sem lengur dregst að stöðva stríðsátökin. Dramatískir atburðir, á vettvangi stjórnmála sem og á vígvellinum, virðast í vændum.  

 

 

 


Kristrún, loftslagsráðueytinu má loka

Síðasta ár var það kaldasta á Íslandi á öldinni. Samkvæmt fréttum er Ísland í sérflokki:

Þetta er þver­öfugt við stöðuna á jörðinni allri þar sem leidd­ar hafa verið að því lík­ur að 2024 verði hlýj­asta ár sög­unn­ar.

Loftslagsráðuneytið var stofnað til að vinna gegn hlýnun. Við þurfum aftur meiri hlýindi og minni kulda. Meint hlýindi á heimsvísu á liðnu ári er raunar falsfrétt.

Loftslagsvandi vegna manngerðs koltvísýrings, CO2, er pólitískur áróður. Líkt og veðrið er loftslag breytilegt frá náttúrunnar hendi. Rannsóknir sýna að koltvísýringur er jákvæður fyrir náttúruna og mannlífið og hefur aðeins óveruleg áhrif á hækkandi hita. Jörðin er grænni þökk sé koltvísýringi enda lofttegundin nauðsynleg vexti og viðgangi gróðurs.

Koltvísýringur í andrúmsloftinu mælist um 400 ppm. Um 97 prósent er náttúrulegur, maðurinn ber aðeins ábyrgð á 3 prósent alls koltvísýrings í andrúmsloftinu. Sveltimörk plantna eru við 150 ppm. Við erum nær því að vera með of lítið magn CO2 en of mikið. Ef koltvísýringur tvöfaldaðist, færi í 800 ppm, ylli það í mesta lagi 0,75 gráðu hlýnun. Menn tækju ekki ekki eftir hlýnuninni en jörðin yrði grænni og betri heimkynni mannsins. Kjöraðstæður fyrir þrifnað plantna eru 1200-1500 ppm. Enda dæla menn koltvísýringi inn í gróðurhús til að fá betri uppskeru.  

Jóhann Páll Jóhannsson er loftslagsráðherra. Fyrir viku skrifaði tilfallandi blogg um að Jóhann Páll myndi banna bensínbíla á fyrstu dögum ráðherradóms, ef hann hrinti í framkvæmd stefnu sem hann í orði kveðnu fylgir. Hann hefur ekki gert neitt slíkt. Orðavaðallinn um manngert loftslag er bábilja. Jafnvel þeir sem þykjast trúa framfylgja ekki yfirlýstri sannfæringu, vita í hjarta sínu að fávísisfræðin um manngerða hlýnun halda ekki vatni.

Kristrún, það má spara í ríkisrekstri með lokun loftslagsráðuneytis og leggja af loftslagsráð. Loftslagssöfnuðurinn á ekki að fá ríkisstyrk frekar en aðrir sértrúarsöfnuðir.

 

 


mbl.is Biðja almenning um tillögur um hagræðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friður í Úkraínu 2025

Í ár verður saminn friður í Úkraínu. Fjórar meginástæður eru fyrir þeirri spá. Í fyrsta lagi er kostnaður ESB-Evrópu orðinn það mikill ekki verður lengur við unað. Refsiaðgerðir gegn Rússlandi bitna ekki síður á ESB-ríkjum en Rússum. Stuðningur við Úkraínu meðal almennings í Evrópu fer þverrandi.

Í öðru lagi lofaði Trump að ljúka stríðinu. Trump tekur við embætti forseta Bandaríkjanna eftir tæpar þrjár vikur. Hann mun leggja sig fram um að stilla til friðar. Takist það ekki á árinu verður Úkraínustríðið hans að verja það sem eftir lifir kjörtímabilsins. 

Í þriðja lagi sjá Rússar ekki lengur fram á úrslitasigur á vígvellinum. Nær allt nýliðið ár vegnaði Rússum vel, ef frá er skilin árangursrík innrás Úkraínu í Kúrsk-hérað. En velgengni Rússa á vígaslóð er hæg og kostnaðarsöm, bæði í eignum og mannslífum. Þótt enn verði ekki vart við andstöðu almennings í Rússlandi gegn stríðinu er ekki sami stuðningurinn og sást í upphafi stríðsátaka.

Í fjórða lagi vex hættan af stigmögnun er stríðið dregst á langinn. Báðir aðilar, vestrið og Rússar, lögðu í upphafi áherslu á að takmarka stríðsátökin við Úkraínu. Rússar kölluðu innrásina sérstaka stríðsaðgerð og vestrið hamlaði og hamlar enn Úkraínuher að nota langdræg vestræn vopn gegn Rússum. Stjórnin í Kænugarði vill ólm víkka út stríðið, gera það að beinum átökum Nató-ríkja og Rússa, en það hefur ekki tekist enn sem komið er. En sú hætta vofir yfir.

Úkraínustríðið verður þriggja ár næst komandi febrúar. Ef gefið er að stórbreytingar verði ekki á stríðsgæfunni, öðrum hvorum aðila í vil, verður vopnahlé á dagskrá í sumar eða haust. Það skal viðurkennt að óskhyggja litar spá um frið í stríðinu sem aldrei átti að heyja. Von er þekkilegri en bölsýni. 


mbl.is Loka fyrir gasflutning frá Rússlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband