Heimildin fríblað, örlög Fréttablaðsins bíða

Heimildin, sameinuð útgáfa Stundarinnar og Kjarnans, er komin í frídreifingu á völdum stöðum. Áskrifendum fækkar og til að halda uppi lestrartölum fæst blaðið gefins svo lítið beri á, s.s. verslunum og bensínsjoppum. Heimildarmaður tilfallandi segist reglulega sjá Heimildin gefins í sinu byggðalagi ásamt öðru fríprenti.

Prentútgáfa Heimildarinnar var tilraun til að sækja á auglýsingamarkað Fréttablaðsins, fríblaðsins sem fór í gjaldþrot í mars í fyrra. Auglýsingasala var treg og nú er reynt að fríska upp á hana með frídreifingu enda samhengi milli dreifingar og auglýsingatekna.

Tilfallandi fjallaði um taprekstur Heimildarinnar fyrir sex mánuðum og sagði

Á síðasta ári [2022] var tap miðlanna að baki útgáfunni 50 milljónir kr. Í ár kemst Heimildin hvorki lönd né strönd í markaðssókn með fjóra sakborninga á ritstjórn og trúverðugleika í ruslflokki.

Samkvæmt Gallup er meðaltal innlita á heimildin.is ríflega 20 þús. á viku. Til samanburðar eru innlit á Tilfallandi athugasemdir 13 þús. á viku. Tilfallandi er einyrki sem bloggar í tómstundum og birtir einu sinni á dag. Heimildin er með 15-20 manna ritstjórn.

Síðan bloggið var skrifað er liðið hálft ár. Í lestri á netinu hreyfist Heimildin ekki spönn frá rassi, er með sömu lestrartölur og fyrir sex mánuðum. Prentútgáfan fær ekki áskrifendur og gripið er til þess ráðs að dreifa hluta upplagsins frítt. Ekki mun það fjölga áskrifendum, þvert á móti. Til hvers að borga fyrir það sem fæst gefins?

Heimildinni er haldið uppi af peningafólki sem fellur í geð að sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu upplýsi almenning um réttlæti og löghlýðni í íslensku samfélagi.


Sítengd óreiða, hjörðin og andleg heilsa

Mótsögn samtímans er vaxandi einmannaleiki í sítengdum heimi. Hver sem er getur verið í sambandi við pólitískan samherja í Afríku, talað við frímerkjasafnara í Bretlandi og átt samskipti við fjölskyldu og fjarskylda á félagsmiðlum. Hvaða einmannaleiki?

Skortur á kærleika í uppvexti er meginorsökin, segir Aðalbjörg Stefanía í viðtengdri frétt. Ábyggilega líða þeir fyrir sem ekki fá gott atlæti i æsku. En er einhver ástæða til að ætla að kynslóðin sem ól ungmenni dagsins í dag hafi farist það verr úr hendi en fyrri kynslóðum?

Einmannaleiki og almennt geðheilbrigði ungs fólks er víða til umræðu á vesturlöndum. Eymd ungmenna leiðir Breta í átt að hruni siðmenningar, skrifar dálkahöfundur Telegraph. Útgáfan er ekki þekkt fyrir að mála skrattann á vegginn. Die Welt í Þýskalandi segir frá nýrri skýrslu um aldurshópinn 14-29 ára. Ungmennin eru áhyggjufull, svartsýn og andlega niðurbrotin, segir þar.

Ekki vel gott ástandið á ungmennum í henni veröld. Hver gæti verið skýringin? Það er margt í mörgu, er stutta svarið. Lengri útgáfa fylgir.

Fyrir góðum áratug var rætt um að ungmenni yrðu að sætta sig við síðri kjör efnahagslega en foreldrar þeirra. Í rúm sjötíu ár, frá lokum seinna stríðs, mátti fólk gera ráð fyrir betri efnahagslegri afkomu frá einum áratug til annars. Hér er talað um vesturlönd, ekki heimsbyggðina alla.

Verri efnahagur, s.s. fjöldaatvinnuleysi, eykur félagsleg vandamál. Það er þekkt staðreynd, en ekki hin að geðheilsa heillar kynslóðar fari í súginn þótt á bjáti. Samhliða þyngri efnahag jókst ásókn innflytjenda frá framandi þjóðum til vesturlanda. Ekki skánaði efnahagur þeirra sem fyrir voru við aukna samkeppni um húsnæði og atvinnu, að ekki sé talað um álag á innviði, t.d. heilbrigðisþjónustu og skólakerfi. Engu að síður eru umbreytingarnar ekki tilefni til andlegrar eymdar í stórum stíl. 

Þriðji þátturinn, á eftir efnahagsmálum og innflytjendum, er samskiptatækni. Facebook var stofnuð fyrir 20 árum, 2004. Næstu árin varð stafræn umbylting í samskiptaháttum fólks. Tæknin ein og sér var róttæk. Margir sáu i hillingum lýðræðislega gósentíð. Allir gátu tjáð sig um allt milli himins og jarðar. Markaðstorg hugmyndanna yrði yfirfljótandi og bestu hugmyndirnar leiddu til bestu lausna á álitamálum mannlífsins. Glöggir lesendur hafa tekið eftir að er líður á stafrænu upplýsingabyltinguna fækkar þeim sem lofa hana. Lýðræðisparadísin reyndist land óreiðunnar.

Miðillinn er merkingin, ,,The medium is the message," skrifaði Marshall McLuhan fyrir sextíu árum. Ef einhver ein setning lýsir sjónvarpsöld þá er McLuhan höfundur hennar.

Sjónvarpið, eins og það var frá árdögum fram að stafrænu upplýsingabyltingunni, sameinaði einstaklinga, fjölskyldur og vinnustaði. Í flestum íbúðum var, og er víða enn, sérstakur íverustaður ætlaður til að njóta ljósvakans. Á vinnustöðum var síðasti þátturinn af Dýrðlingnum eða Dallas ræddur og sá var utanveltu sem ekki hafði meðtekið boðskapinn kvöldið áður. Menningin mótaðist af sjónvarpi, tungumálið einnig. Tilfallandi man eftir hnjóðsyrðinu ,,þú ert algjör Falconetti," sem vísaði i skúrkinn í sjónvarpsþáttunum Gæfa eða gjörvileiki, Rich man Poor man á frummálinu. Allir horfðu á fréttir Sjónvarps, með stórum staf, og þorri manna hlustaði á sjöfréttir útvarps, til að vita hvað sneri upp og hvað niður í heiminum. Dagblöð og tímarit voru viðbit, Mogginn þó ekki, þótti nauðsyn á flestum heimilum - með sjónvarpsdagskrána.

Þótt hér séu tekin dæmi úr íslenskum veruleika, með sjónvarpslausum fimmtudögum, þá mátti halda saumaklúbb og Lionskvöld, voru Vestur-Evrópa og Bandaríkin undir sömu sökina seld. Ein til þrjár sjónvarpsstöðvar sáu, í hverju þjóðríki, landslýð fyrir merkingu, juku samheldni, færðu fólki umræðuefni. Samfélagið hafði þjóðmáladagskrá, sem að drjúgum hluta fékkst úr sjónvarpi.

Hvaða sameiginlegu dagskrá bjóða samfélagsmiðlar upp á? Enga, þar ríkir stjórnleysi, óreiða. Hver og einn semur sína einkadagskrá og unir hag sínum vel. Að því gefnu að hann sé við þokkalega andlega heilsu og sé ekki að leita að félagslegri uppörvun á samfélagsmiðlum. Sú uppörvun fæst aðeins með samskiptum við fólk augliti til auglitis og lýtur öðrum lögmálum en skyndikynni.

Ein og sér væri félagsleg einangrun í sítengdum heimi nógu slæm fyrir fólk, einkum þá sem yngri eru og búa síður að sjálfsbjörg er fæst með aldri. En jafnvel enn verra er að í óreiðunni á samfélagsmiðlum þrífast hvers kyns hindurvitni, klædd í fræðilegan búning, og haldið er að fólki sem sannindum. Grunnhyggnir og ístöðulitir eru fyrstu fórnarlömbin. Er fjöldi þeirra sem fallerast vex verður til félagslegur faraldur með stafrænum smitleiðum.

Tvö dæmi, sem tilfallandi hefur margoft fjallað um, er sú firra að hægt sé að fæðast í röngum líkama annars vegar og hins vegar bábiljan um að manngerður koltvísýringur stjórni veðurfari jarðar. Í báðum tilvikum er um að ræða uppspuna sem fer á flug með samfélagsmiðlum. Ungmenni eru markhópurinn. Þeim er í fyrsta lagi kennt af illa upplýstum og oft illa innrættum fullorðnum að mögulega séu þau í röngum líkama og í öðru lagi að heimsendir sé í nánd vegna manngerðra loftslagsbreytinga. Andleg heilsa fer úrskeiðis af minna tilefni.

Mótsagnirnar eru æpandi. Sértrúin kennir til dæmis að kyn sé huglægt. Ef karl sannfærist að hann sé kona þá verði hann kona. En sama sértrú kennir að kynþroski sé ekki huglægur heldur efnislegur veruleiki sem verði að grípa inn í með hormónagjöf og skurðaðgerðum. Hvernig getur kyn verið huglægt en kynþroski ekki? Svarið er vitanlega að hvorugt er huglægt. Kyn og kynþroski eru fyrirbæri efnisheimsins. Fólk má aftur trúa að það sé af öðru kyni en það er, líka trúa að jörðin sé flöt en ekki hnöttur. Trú er huglæg, til hennar nær ekki mælistika efnisheimsins.

Unherd er hlaðvarpsþáttur er býður upp á umræðu um þjóðfélagsmál sem hvorki er öfgar né út í bláinn. Öflugt alþjóðlegt netfyrirtæki GDI sem þykist sérhæfa sig gegn upplýsingaóreiðu setti Unherd á svartan lista. Svarti listinn er fyrir miðla með ,,hættuleg" sjónarmið, eins og þau að líffræðilegt kyn sé staðreynd. Miðlar með hættuleg sjónarmið skulu ekki fá auglýsingafé. Óreiðan, sem sagt, freistar þess að útiloka heilbrigða skynsemi.

Maðurinn er hjarðdýr. Til að samfélag manna gangi sæmilega snurðulaust fyrir sig þarf þorri manna að samþykkja sameiginlega þekkingu, gildi og viðmið. Fyrir daga stafrænu upplýsingabyltingarinnar var bærileg sátt á vesturlöndum um grunnatriði mannlífsins. Eftir stafrænu byltinguna, með óreiðunni sem fylgdi, vex efi og ósætti um þekkingarfræðilegar og siðferðilegar undirstöður mannlífsins. Gamlar meginstoðir, vísindi láta á sjá. Ungmenni verða verst úti, þau eru á mótunarskeiði. Er þau horfa upp á fullorðna vita hvorki í þennan heim né annan er viðbúið að unglingarnir fyllist óöryggi, sem er þó nóg fyrir á æskuskeiði. Hindurvitni og bábiljur verða haldreipi.

Geðlæknir, sem vinnur með börn og unglinga og tilfallandi átti orðastað við, upplýsti að í mörgum tilvikum sem börn glíma við andleg mein er orsakanna að leita í heimilishaldinu - hjá þeim fullorðnu. Þeir fullorðnu lifa í menningaróreiðu sem ekki er hagfelld fólki tæpu á geði.

    

 


mbl.is Íslendingar ein mest einmana þjóð heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfalt siðgæði Sigríðar Daggar, skattsvik eru einkamál

Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélagsins fékk fyrirframgreidd laun, líkt og framkvæmdastjórinn, Hjálmar Jónsson, hafði fengið. Sigríður Dögg notar fyrirframgreiðslu launa til að hirða æruna af Hjálmari. Tvöfalt síðgæði í sinni tærustu mynd.

Hjálmar hafði unnið sér til óhelgi að gagnrýna að sitjandi formaður Blaðamannafélagsins væri uppvís að skattsvikum og neitaði að gera grein fyrir málavöxtu. Í byrjun árs sagði Hjálmar:

Ég tel for­mann­inn ekki starfi sínu vax­inn og ég tel held­ur ekki að fólk sem hef­ur ekki hrein­an skjöld í fjár­mál­um og gef­ur ekki skýr­ing­ar í þeim efn­um eigi að vera í for­svari fyr­ir fé­lag eins og Blaðamanna­fé­lag Íslands sem stend­ur fyr­ir gildi op­inn­ar og lýðræðis­legr­ar umræðu.

Sigríður Dögg fór í ótímabundið leyfi frá RÚV, þar sem hún var fréttamaður, eftir að fréttist um skattsvikin. En hún sat sem fastast sem formaður heildarsamtaka blaðamanna.

Skattsvikin eru mitt einkamál, segir formaðurinn og þar við situr.

Blaðamenn og viðmælendur þeirra vítt og breitt í samfélaginu hljóta að taka formanninn á orðinu og hafna allri umfjöllun um skattsvik. Þau eru einkamál skattsvikara.

 

 

 


mbl.is Segir skýrsluna merki um vanþekkingu á rekstri BÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaðamenn á flótta undan fréttinni

Tvö áru eru síðan að lögregla boðaði fjóra blaðamenn til skýrslutöku vegna rannsóknar á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Fjórmenningarnir eru Þóra Arnórsdóttir á RÚV, Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson, báðir á Kjarnanum, og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni. Blaðamenn elta fréttir, það er þeirra lifibrauð. En RSK-blaðamenn flýja fréttina, bæði bókstaflega og í óeiginlegum skilningi. 

Blaðamennirnir neituðu að mæta í skýrslutöku, sögðu rannsókn lögreglu ólögmæta. Fyrir hönd sökunauta kærði Aðalsteinn til dómstóla. Kæra Aðalsteins fór fyrir öll dómsstig landsins; héraðsdóm, landsrétt og hæstarétt. Úrskurður hæstaréttar féll 25. mars 2024; blaðamönnum var gert að mæta. Engin undanþága er í lögum að blaðamenn skulu undanskildir við rannsókn sakamála.

Í stað þess að mæta lögðu blaðamenn á flótta. Einn eða fleiri blaðamannanna fjögurra var ekki á landinu tímabilið apríl til ágúst. Gögnin sem lögregla lagði fram til dómstóla vegna málareksturs Aðalsteins eru ástæða flótta blaðamanna undan réttvísinni. í gögnunum eru stórfréttir sem ekki mátti segja. Um er að ræða greinargerð dagsetta 23. febrúar 2022 lögð fyrir héraðsdóm annars vegar og hins vegar málsgögn lögð fyrir landsrétt. Gögnin í landsrétti voru ekki til dreifingar, en var lekið til blaðamanna. Þar fengu blaðamenn forskot, vissu meira en aðrir um sakamálarannsóknina. Og lögðu á flótta undan fréttinni.

Greinargerð lögreglu frá 23. febrúar er opinber, liggur fyrir á netinu. Þar má lesa vísbendingar um hvað olli blaðamönnum slíku hugarangri að þeir höfðu með sér skipulag að vera ekki allir á landinu á sama tíma frá apríl til ágúst fyrir tveim árum. Í greinargerðinni kemur fram játning þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra að hafa byrlað bónda sínum ólyfjan 3. maí 2021, stolið síma hans og fært blaðamönnum til afritunar. Konan játar jafnframt að hafa verið í samskiptum við að minnsta kosti tvo blaðamenn, en nafngreinir hvorugan.

Í greinargerðinni útskýrir lögreglan, óbeint að vísu, en þó skýrt og greinilega, að hún viti með stafrænum gögnum hvernig og hverjir stóðu að afrituninni. Vitneskjan kemur fram í eftirfarandi setningu:

...sum smáforrit sem menn hafa í símum sínum eru með staðsetningarbúnað þannig að hægt er að sjá hvar viðkomandi hefur verið eða hvar síminn hefur verið á hverjum tíma. (feitletr. pv)

Blaðamennirnir fjórir máttu vita frá febrúar 2022 að rannsókn lögreglu var gagnadrifinn, byggði ekki alfarið á vitnisburði. Lögreglan leit svo á að rannsóknin spilltist ekki þótt dráttur yrði á skýrslutöku og sá í gegnum fingur sér langt sumarleyfi blaðamanna frá réttvísinni um mitt ár 2022.

Um síðir mættu blaðamenn í skýrslutöku lögreglu, síðsumars 2022. Eftir að hafa legið yfir gögnum frá lögreglu í hálft ár skyldi ætla að blaðmenn hefðu gert upp við sig að gera hreint fyrir sínu dyrum. Upplýsa málavöxtu, segja fréttina. En það var öðru nær. Þeir neita enn að upplýsa aðkomu sína. Blaðamennirnir sem skrifuðu fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans, Þórður Snær, Arnar Þór og Aðalsteinn, segja trúnaðarmál hvernig fréttaöflun fór fram. Ennfremur ríkir trúnaður um skipulagið; fréttirnar birtust samtímis í tveim óskyldum miðlum, Kjarnanum og Stundinni, að morgni dags 21. maí 2021. Trúnaðurinn er yfirvarp. Lögreglan veit hver sá um byrlun og stuld. Trúlega veit lögreglan einnig sitthvað um verkskiptingu blaðamanna.

Auðvitað vita blaðamenn það best sjálfir hvernig málið er vaxið. En þeir þegja fréttina og krefja aðra blaðamenn um þögn. Bloggari er nánast einn um að segja tíðindin og halda almenningi upplýstum. Í gildi er óopinbert verkfall blaðamanna og fjölmiðla í byrlunar- og símastuldsmálinu. RSK-blaðamenn viðhalda verkfallinu á bakvið tjöldin. Samsæri sakborninga gegn sannleikanum og upplýstri umræðu fær stuðning frá Blaðamannafélagi Íslands. Þar á bæ heitir það að fréttir eru aðeins það sem blaðamenn ákveða að séu fréttir. Punktur.

Enn hefur ekki verið ákært í byrlunar og símastuldsmálinu. Um áramótin 2022/2023 komst rannsókn lögreglu á annað og alvarlegra stig. Þannig varð fimmti blaðamaðurinn, Ingi Freyr Vilhjálmsson, á Stundinni sakborningur í mars í fyrra, ,,vegna afritunar" síma skipstjórans, segir í Mbl.frétt er byggir á málsskjölum héraðssaksóknara í öðru máli. Fram að þeim tíma var áherslan á atburðarásina eftir byrlun. Fyrir hálfu öðru ári styrktist grunur að blaðamenn, einn eða fleiri, hefðu verið í samskiptum við þáverandi eiginkonu skipstjórans fyrir byrlunina 3. maí 2021. Upplýst var að Þóra Arnórsdóttir á RÚV keypti í apríl 2021 Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem var til reiðu á Efstaleiti þegar konan mætti þangað 4. maí með stolinn síma skipstjórans.

Eins og tilfallandi lesendur vita var bloggari nýlega dæmdur fyrir meiðyrði í garð Aðalsteins Kjartanssonar blaðamanns á Stundinni, nú Heimildinni. Tvenn ummæli, sem Aðalsteinn krafðist ómerkingar á, voru ekki dæmd dauð og ómerk. Tilfallandi hefur áður skrifað um önnur ummælin sem héraðsdómur taldi innan marka málfrelsis. Seinni ummælin varða það sem hér á undan er sagt, að byrlun og stuldur var skipulagður verknaður sem ber að líta á sem eina heild, enda þannig rannsakaður. Ummælin eru úr bloggi 27. febrúar í fyrra, Ný gögn í byrlunarmáli Páls skipstjóra:

Ef einhver þessara samskipta eru til á texta, t.d. í tölvupóstum, er líklegt að sú sönnun haldi fyrir dómi. Annars er um að ræða kringumstæðurök fyrir aðild blaðamanna að skipulagningu tilræðisins auk vitnisburðar. Kringumstæðurökin eru sterk, tölvupóstur gerir málið naglfast.

Það eru einmitt þessi gögn sem lögreglan er á höttunum á eftir og eru enn ekki komin í hús. Konan sem byrlaði notaði gmail tölvupóst. Tölvupóstum frá apríl og maí 2021 hefur verið eytt. Ummerki, s.s. skilaboðin ,,You Got Mail" má aftur lesa í sms-skeytum sem fóru á milli málsaðila. Afrit af tölvupóstunum er að finna í gagnaveri Google, sem rekur gmail-kerfið. Strangar reglur gilda um afhendingu afrita af tölvupóstum, m.a. vegna persónuverndar. Fulltrú lögreglunnar fór til Írlands, höfuðstöðva Google í Evrópu, í vetur og lagði fram tilskilin skilríki um að tölvupóstarnir snertu sakamálarannsókn á byrlun og þjófnaði. Málið er í vinnslu hjá tæknirisanum sem fer sér í engu óðslega.

Vönduð rannsókn krefst tíma. Kurlin í byrlunar- og símastuldsmálinu eru ekki öll komin til grafar. Fréttin er ósögð en blaðamenn þegja; eru í sömu stöðu og læknar sem ekki lækna.

   


Biðja Atli Fannar og RÚV Pál skipstjóra afsökunar?

Atli Fannar Bjarkason og RÚV halda úti afsökunarþætti þar sem blaðamaðurinn biðst velvirðingar á fyrri misgjörðum. Í viðtengdri frétt biður Atli Fannar Jón Ásgeir útrásarauðmann forláts á leiðindum frá árinu 2009. Sök Atla Fannars og RÚV gagnvart Páli skipstjóra Steingrímssyni er stórum meiri og nýrri af nálinni. 

Vorið 2021 starfaði Atli Fannar á RÚV eins og nú. Páli skipstjóra var byrlað í byrjun maí og ekki hugað líf; var kominn á dauðavagninn, eins og sagt er á spítalamáli. Hjartastuðtæki ræsti skipstjórann til lífs en hann var meðvitundarlaus í þrjá daga og haldið í öndunarvél. Á meðan var síma hans stolið og færður í hendur fréttmanns RÚV sem hafði tilbúinn síma af Samsung-gerð, sömu gerðar og sími skipstjórans. Á Efstaleiti var sími skipstjórans afritaður. Á RÚV voru samdar fréttir og sendar á Stundina og Kjarnann, sem birtu samkvæmt skipulagi samtímis þann 21. maí. Skæruliðadeildin er hugarfóstur RÚV.

Hvað gera Atli Fannar og RÚV eftir að samræmdur fréttaflutningur hefst um skæruliðadeild Samherja - fréttir unnar að undirlagi RÚV með haldreipi í stolnum gögnum fengnum með byrlun? Jú, Atli Fannar og RÚV senda frá sér þessa frétt 27. maí 2021: 

Namibía: Skæruliðadeild Samherja er ekki þáttur á Netflix

Fréttin hæðist að líkamsárás með byrlun og þjófnaði. Látið er eins og RÚV hafi hvergi komið nærri aðförinni að skipstjóranum. En Þóra Arnórsdóttir, þá RÚV-ari, nú á árshátíðardeild Landsvirkjunar, er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þóra keypti Samsung-símann sem notaður var til afritunar. Með Netflix-líkingunni gaf Atli Fannar tóninn. Ekki löngu síðar gerði Gísli Marteinn gys að beiskum bjór skipstjórans. Napurt grín skyldi fela sekt.

Óþarfi er að fjölyrða um staðreyndavillur í RÚV-frétt Atla Fannars, þær eru fjölmargar. Eitt lítið dæmi: enginn aðili er tengist Samherja er ákærður fyrir mútur í Namibíu.

Ætla Atli Fannar og RÚV að biðja Pál skipstjóra afsökunar? Eða verður tekinn gísli marteinn á þetta; við erum siðlaus lítilmenni hér á Glæpaleiti. Takið samt endilega mark á okkur og borgið áfram útvarpsgjaldið. 

 

 


mbl.is Rúv biður útrásarvíking afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristrún gegn óreiðu, miðjan til hægri

Til að verða stjórntæk varð Samfylking að segja skilið við óreiðuvinstrið, opin landamæri og ESB-aðild. Kristrún formaður með fulltingi flokkseigendafélags Samfylkingar fór í verkefnið, færði flokkinn inn á miðjuna, veiðislóð Framsóknarflokksins, sem finnst sér ógnað.

Kristrún er orðin svo örugg með að almenningur setji ekki jafnaðarmerki milli upplausnar og Samfylkingar að hún kennir sitjandi ríkisstjórn við óreiðu. Nokkuð djarft hjá fyrrum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skólanefnd Garðabæjar, - en þeir fiska sem róa.

Framsókn gætir sín að vera alltaf stjórntæk, hvort heldur til hægri og vinstri. Táknmál Framsóknar í dag er kletturinn í hafinu. Við síðustu kosningar hét það: er ekki best að kjósa Framsókn? Kímni víkur fyrir alvöru. Stöðumælingar leyfa ekki léttúð.

Undirstraumar þjóðlífsins eru seigfljótandi en aldrei kyrrir. Miðjan er ekki þar sem hún áður var. 

Samræmd gagnrýni Sigurðar Inga og Lilju Alfreðs á Samfylkingu er skiljanleg í ljósi velgengni krata í fylgismælingum. Framsókn vill verða fyrsti kostur Sjálfstæðisflokksins til stjórnarmyndunar eftir næstu kosningar. Samt sem áður; fylgi Samfylkingar og Framsóknar skarast lítt. Þar gilda sögulegar ástæður. Sniðmengi fylgis Framsóknar og Sjálfstæðisflokks annars vegar og hins vegar Miðflokksins er mun stærra. Skiljanlega gagnrýna oddvitar Framsóknarflokkinn samstarfsflokk í ríkisstjórn. Þó nú væri. En Miðflokkurinn fær engar sneiðar.

Þögn Sigurðar Inga og Lilju um fyrrum formann sinn, Sigmund Davíð, sem nú leiðir Miðflokkinn, má skilja á þann veg að forysta Framsóknar vill gott stjórnmálasamband lengra til hægri. Samfylking hertekur miðjuna og mótleikur Framsóknar verður til hægri.

Vandi Kristrúnar er sumpart áþekkur Framsóknar. Til vinstri við Samfylkinguna er eyðimörk eftir brotthvarf Katrínar Jakobs. Píratar, Viðreisn og Vinstri grænir eiga hvorki stefnu né fylgi til að mynda vinstristjórn með Samfylkingu. Á meðan Samfylking mælist um og yfir 25 prósent getur Kristrún látið eins og hún sé í ökumannssætinu, aðrir komi til hennar en hún ekki til þeirra. Er slær í bakseglin, sem er nánast óhjákvæmilegt, verður Kristrún að skerpa sig til hægri og slíta sig enn frekar frá óreiðunni til vinstri.

Til hægri í íslenskum stjórnmálum eru fyrir einn og hálfur flokkur. Miðflokkurinn er sá heili. Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar.

 

 


mbl.is Segir Samfylkinguna apa eftir Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigríður Dögg, blóraböggullinn Hjálmar, orðspor blaðamennsku

Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, varð í haust uppvís að stórfelldum skattsvikum. Líklega skaut formaðurinn undan um 100 milljón króna skatttekjum er hún stundaði umfangsmikla útleigu á Airbnb. Hún neitar að gera grein fyrir málavöxtu, segir skattsvikin einkamál. Ár og síð fjalla þó fjölmiðlar um skattsvik sem opinbert málefni er eigi erindi til almennings. En ekki þegar formaður þeirra á í hlut. 

Eftir að upp komst átti Sigríður Dögg, þá fréttamaður á RÚV, samtal við Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Hvað þeim fór á milli er ekki vitað. Á fundi stjórnar RÚV sagði útvarpsstjóri að málið væri afgreitt af sinni hálfu.

Afgreiðsla Stefáns fól í sér að Sigríður Dögg hætti á RÚV um áramót undir þeim formerkjum að hún væri farin í leyfi - ótímabundið. Sigríður Dögg, sem formaður Blaðamannafélagsins, þurfti launatekjur, líklega meiri en minni í ljósi uppgjörsins við skattinn. Hún flæmdi Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins til áratuga úr starfi og settist sjálf í stól hans. Yfirskin brottreksturs Hjálmars var trúnaðarbrestur.

Endurskoðandi Blaðamannafélagsins til 48 ára neitar að skrifa undir ársreikning félagsins vegna ,,orðsporsáhættu," segir í viðtengdri frétt. Endurskoðandinn óttast að ekki sé allt með felldu og vísar í skattamál formannsins.

Hvað gerir Sigríður Dögg? Jú, í stað þess að kannast við að staða hennar er óverjandi, þá býr hún til, skáldar upp, ávirðingar á hendur fráfarandi framkvæmdastjóra, Hjálmari Jónssyni. Óðara snýst fjölmiðlaumræðan um flísina í auga Hjálmars en ekki skattabjálkann í auga Sigríðar Daggar.

Snúningurinn sem Sigríður Dögg tekur á Hjálmari er í skjóli bandalags sem fer sínu fram hvað sem tautar og raular. Helstu stuðningsmenn sitjandi formanns eru Þórður Snær, Aðalsteinn Kjartansson og Helgi Seljan, allir á Heimildinni og tengdir byrlunar- og símastuldsmálinu. Orðspor íslenskrar blaðamennsku er markað skattsvikum og glæparannsókn.

 

 


mbl.is Neitaði að skrifa undir vegna „orðsporsáhættu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SLAPP-málssókn Heimildar gegn bloggara

Heimildin, af öllum miðlum, birti frétt um að þöggunarmálssóknir séu tilræði gegn lýðræði og tjáningarfrelsi. Á útlensku heita slíkar málssóknir SLAPP, segir Heimildin, og útskýrir nánar:

til að mynda málsóknir sem notaðar eru gegn fjölmiðlum og öðrum „varðhundum almennings“ með þeim ásetningi að koma í veg fyrir eða hamla frjálsri umfjöllun um mál sem varða almannahag.

Heimildin ætti að líta sér nær. Ritstjórinn, Þórður Snær, og tveir blaðamenn stefndu tilfallandi bloggara fyrir dóm, ekki einu sinni heldur tvisvar, fyrir það eitt að fjalla um aðkomu blaðamanna að byrlunar- og símastuldsmálinu

Það er vitanlega í þágu almannahagsmuna að upplýst sé hver tengsl fimm blaðamanna, sem eru sakborningar í lögreglurannsókn, eru við konu sem játað hefur að byrla Páli skipstjóra Steingrímssyni, stolið síma hans og afhent fréttamanni RÚV til afritunar. Frá ríkisfjölmiðlinum fóru gögnin til Þórðar Snæs á Kjarnanum og Aðalsteins á Stundinni, sem birtu fréttir með vísun i gögnin.

Brýnt er að upplýsa allar hliðar málsins, ekki síst vegna trúverðugleika blaðamanna og fjölmiðla. Það tekur engu tali að fjölmiðlar eigi aðkomu að alvarlegum árásum á líf og heilsu fólks og brjóti á einkalífi þess.

Fjölmiðlar þegja í stéttvísri meðvirkni með blaðamönnum. Bloggari tekur málið upp og fjallar um það. Hvað gerist? Jú, hann fær þöggunarmálssókn frá sakborningum. Ekki eina heldur tvær. Markmiðið er að gera bloggara dýrkeypt að fjalla um mál sem blaðamenn og fjölmiðlar vilja sópa undir teppið. Heimildin segir SLAPP-málssókn hafa

kælingaráhrif á tjáningarfrelsið og samfélagslega þátttöku almennings.

Vitnað er í Þorhildi Sunnu Pírataþingmann sem telur ótækt að fjársterkir aðilar beiti þöggunarmálssóknum til að kveða í kútinn raddir almennings. Í byrlunar- og símastuldsmálinu er tilfallandi eina rödd almennings. Blaðamenn og fjölmiðlar segja ýmist fátt eða fara með ósannindi; neita byrlun og þjófnaði. Blaðamannafélag Íslands verðlaunar fréttamenn sem eru þjófsnautar.

Mun Þórhildur Sunna ræða á alþingi það hættulega fordæmi sem ritstjórn og eigendur Heimildarinnar sýna með því að stefna bloggara fyrir dóm og krefja hann um milljónir króna í miskabætur og lögfræðikostnað? Fyrir það eitt að fjalla um refsimál þar sem blaðamenn eru sakborningar. 

 

 


Samtökin 78 kæra kennara til lögreglu

Lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 kærir til lögreglunnar kennara sem heldur fram málstað barna gegn firrum eins og að hægt sé að fæðast í röngum líkama. Helga Dögg Sverrisdóttir greinir frá kærunni á bloggsíðu sinni

Tilfallandi les blogg Helgu Daggar reglulega. Hún er dugleg að veita inn í íslenska umræðu sjónarmiðum, einkum frá Norðurlöndum, sem eru á skjön við ráðandi frásögn hér á landi; að hægt sé að fæðast í röngum líkama og að kyn sé tilfinning en ekki líffræðileg staðreynd. Hvorugt stenst skoðun, líkt og vikið var að í bloggi gærdagsins.

Samtökin 78 eru gegnsýrð hugmyndafræði sem æ fleiri átta sig á að er hættuleg börnum og ungmennum, einkum þeim sem orðið hafa fyrir áföllum.

Ný bresk skýrsla fjallar um veldisvöxt ungmenna, stúlkur þar í meirihluta, sem á kynþroskaaldri fá þá flugu í höfuðið að vera í röngu kyni. Skýrslan dregur fram þá staðreynd að þorri stúlknanna glímir við geðræn vandamál af öðrum toga. Vísir fjallar ítarlega um skýrsluna. Bábiljan um að kyn sé ekki líffræði heldur huglægt ástand villir og tryllir ungmenni milli tektar og tvítugs, á viðkvæmum tíma þegar sjálfsmyndin er í mótun.

Það eru ekki vísindi og fræði, enn síður heilbrigð skynsemi, sem kenna að börn eigi það til að fæðast í röngum líkama. Hér er á ferðinni hugmyndafræði, fundin upp í Ameríku, seld alþjóð á samfélagsmiðlum. Markhópurinn er óharðnaðir og móttækilegir unglingar. Ungmennin sem verða verst úti eru þau sem fyrir standa höllum fæti.

Helga Dögg hefur staðið vaktina hér á landi og andmælt hugmyndafræði sem er hættuleg heilsu og velferð ungmenna. Eyfirski kennarinn er á Íslandi í sama hlutverki og rithöfundurinn JK Rowling í Skotlandi. Ekki leiðum að líkjast.

Lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 er á opinberu framfæri, bæði ríkis og sveitarfélaga. Ekki fer vel á að félagsskapur noti skattfé almennings til að berja á tjáningarfrelsi heiðarlegs fólks sem ber velferð barna fyrir brjósti. Óhæfan verður sýnu verri niðurgreidd af ríki og sveitarfélögum.


Kynami er hugarami

Orðið kynami á að vísa til þess hugarástands að einstaklingur telji líkama sinn ekki af réttu kyni. En það er ekki hægt að vera í röngum líkama, það er ómöguleiki. Aftur er auðvelt að fá ranga hugmynd um líkama sinn. Það er annað og óskylt vandamál.

Nánar útskýrt: börn fæðast með líkama, annars koma þau ekki í heiminn. Það er ekkert rétt eða rangt við þann líkama, nema ef vera kynni fæðingargalli sem kallar e.t.v. á læknisfræðilegt inngrip í samráði við foreldra. Kyn getur ekki verið rétt eða rangt; það er einfaldlega líffræðileg staðreynd.

Kynami er í raun hugarami. Kallast oft að líða illa í eigin skinni. Lækningin er ekki að húðfletta viðkomandi. Ólagið er huglægt, ekki líkamlegt.

Ef fallist er á að kynami sé mögulegt mannlegt ástand opnast flóðgáttir sem betur er haldið lokuðum. Tegundarami er orð sem vísar til þess að einstaklingur af tegundinni homo sapiens sannfærist að hann sé í líkama af rangri tegund. Væntanlega sjá menn í hendi sér að inn á þá braut ættum við ekki að fara.

Auðvelt er að búa til orð sem lýsa ástandi sem er ómögulegt. Í samtíma okkar er ekki öll vitleysan eins. Vitleysa samt.


mbl.is Varað við inngripi hjá börnum með kynama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband