Bandaríkin eða ESB, Ísland fullveldi eða hjálenda

Evrópusambandið eflir hervarnir sínar og setur upp kerfi utan Nató, kallað Security and Defence Partnership eða öryggis og varnarsamvinna. Markmiðið er að tryggja hernaðarhagsmuni ESB. Ríkisstjórn Íslands ætlar að taka tilboði ESB um hernaðarsamvinnu. Samvinna við ESB grefur undan varnarsamningum við Bandaríkin sem er í gildi allar götur frá 1951, eða í 74 ár.

Hernaðarsamvinna er ekki að heimsækja tískubúðir, tvær eða fleiri, til að finna bestu tilboðin. Söguleg, menningarleg, pólitísk og landfræðileg rök eru forsendur hernaðarsamvinnu. Annað til viðbótar skiptir sköpum - traust.

Sækist smáþjóð eftir hernaðarsamvinnu við tvo aðila er það til marks um tvöfeldni. Í innanlandspólitík í litlu landi, þar sem allir þekkja alla, er hægt að bera kápuna á báðum öxlum. Harður heimur alþjóðastjórnmála leyfir það síður og allra síst bandalag smáþjóðar og stórveldis. Tvískinnungur er hafður til marks um undirferli. Stórveldi þolir illa baktjaldamakk nágranna er skiptir máli fyrir varnar- og öryggismál stórveldisins.

Tvöfeldni í utanríkismálum veldur tortryggni sem leiðir til fyrirlitningar. Þeir sem kunna sinn Machiavelli vita að fyrirlitning er hættulegasta ógn hverjum valdhafa.

Nú þegar er togstreita milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um forræði yfir næsta nágranna Íslands í vestri, Grænlandi. Danir fara með æðsta yfirvald á eyjunni og óttast valdatilkall Bandaríkjanna. Danir fengu Macron Frakklandsforseta í örheimsókn til Grænlands fyrir mánuði síðan til að sýna smáríkinu Danmörku samstöðu um óbreytt ástand, að Danir ráði áfram Grænlandi. Tilfallandi bloggaði:

Smáríki innan ESB, Danmörk, er með forræði yfir Grænlandi. Trump ásælist Grænland. Danir eru smeykir. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, fær Macron forseta Frakklands með sér í heimsókn til nýlendunnar. Macron lofar stuðningi við Dani að halda stærstu eyju heims innan danska ríkisins.

Trúir einhver að Frakkland myndi senda her til Grænlands að verja landið gegn Bandaríkjunum? Vel á minnst: Grænland er ekki í ESB, þeir eru eina þjóðin, utan Breta, að segja sig úr meginlandsklúbbnum með höfuðborg í Brussel.

Valdatilkall Bandaríkjamanna til Grænlands skiptir Ísland höfuðmáli. Grænlendingar eru næstu nágrannar okkar í vestri. Gangi það fram, sem líklegt er, að Bandaríkin fái Grænland viðurkennt sem sitt áhrifasvæði yrði óvinveitt af Íslandi gagnvart öryggishagsmunum Bandaríkjanna að ganga í Evrópusambandið, líkt og er markmið sitjandi Kristrúnarstjórnar.

Leiftursókn ESB-sinna, sem ræst var með heimsókn von der Leyen, er með það lokamarkmið að Ísland verði aðildarríki Evrópusambandsins. Í reynd yrði Ísland hjálenda ESB, líkt og landið var í danska konungsríkinu. Lög og reglur komu einu sinni frá Kaupmannahöfn; nú vilja skjaldmeyjar áskrift að laga- og reglufargani frá Brussel. Árlega flæða frá höfuðstöðvum ESB tugir þúsunda laga, reglna og tilskipana um stórt og smátt.

Varnarsamningurinn við Bandaríkin, sem nú er í uppnámi, er einfaldur, aðeins tvær blaðsíður. Fimmta grein samningsins segir klárt og kvitt að Íslendingar haldi fullveldi sínu:

Bandaríkin skulu framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningi þessum þannig, að stuðlað sé svo sem frekast má verða að öryggi íslensku þjóðarinnar, og skal ávallt haft í huga, hve fámennir Íslendingar eru, svo og það, að þeir hafa ekki öldum saman vanist vopnaburði. Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.

 

Hvað rekur menn til að flytja forræði íslenskra mála til útlanda og í leiðinni setja í uppnám öryggis- og varnarmál þjóðarinnar sem hafa verið í föstum skorðum í hartnær 75 ár?

 


mbl.is Telur að verið sé að plata þjóðina inn í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiftursókn ESB-sinna, samstarf við Bandaríkin í hættu

ESB-sinnuð ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hyggst fjötra Ísland í viðjar Evrópusambandsins hraðar en hönd á festir. Tal um að 16 ára gömul ESB-umsókn ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. sé enn í gildi og fréttir um varnarsamstarf við ESB staðfesta ásetning ríkisstjórnarinnar. Heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er startskot leiftursóknarinnar.

Ríkisstjórnin gengur fram af fullkomnu ábyrgðaleysi og setur í uppnám 75 ára öryggis- og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Taktískt er leiftursóknin glapræði fyrir hagsmuni Íslands í bráð og lengd og ýtir undir innanlandsófrið. ESB-aðild var ekki á dagskrá í nýafstöðnum kosningum. 

Bandaríkin hafa sinn hlut á þurru sem stórveldi. Evrópusambandið stefnir í sína mestu kreppu frá stofnun. Að láta sér til hugar koma að flytja varnar- og öryggismál Íslands frá Washington til Brussel er óskiljanlegt þeim sem fylgjast með alþjóðastjórnmálum.

Það er morgunljóst hvert stefnir og hefur verið lengi. Fyrir þremur árum, þegar Úkraínustríðið var aðeins viku gamalt og Biden enn forseti Bandaríkjanna var hægt að blogga um framhaldið:

Stóru ríkin á meginlandi Vestur-Evrópu, Frakkland og Þýskaland, verða að finna leið til að lifa með rússneska stórveldinu. Bandaríkin, og þar með Nató, verða fremur áhorfendur en gerendur í þeirri þróun.

Bandaríkin verða áfram aðilar að Nató og styðja Vestur-Evrópu gegn vaxandi veldi Rússa. En Washington mun ekki, líkt og í kalda stríðinu, telja sér lífsnauðsyn að hafa aðalvarnarlínu sína í Mið-Evrópu. Rússland mun ekki, eins og Sovétríkin, ógna bandarískum hagsmunum um víða veröld. Í fáum orðum: séð frá Bandaríkjunum verður Rússland evrópskt vandamál.

Ísland er ekki hluti Vestur-Evrópu í skilningi öryggis- og varnamála. Bandaríkin munu taka Ísland, Grænland og Bretland fyrir það sem þessi lönd eru í landfræðilegum skilningi; eyjar á milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu.

Af þessu leiðir að Ísland verður í fremstu varnarlínu Bandaríkjanna gagnvart mögulegri ógn úr austri. Þetta eru ekki ný tíðindi. Þeir sem teljast til raunsæisskólans í akademískri umræðu um bandarísk varnarmál, t.d. John J. Mearsheimer og Stephen M. Walt, hafa talað fyrir aftengingu við langt-í-burtu hagsmuni. Bók Walt, Víti góðra áforma, er útlegging á nýja fagnaðarerindinu í bandarískum varnarmálum.

Tilvitnunin er þriggja ára gömul og allt hefur gengið eftir sem þar er sagt. Úkraína tapar stríðinu, Bandaríkin þvo hendur sínar af meginlandi Evrópu og ætla sér Grænland. Evrópusambandið stendur eitt andspænis Rússlandi. Þriggja ára gömlu bloggi lauk með þessum orðum:

Íslendingar geta þakkað sínum sæla að Samfylkingu og Viðreisn tókst ekki að þvæla okkur inn í Evrópusambandið. Við getum tekið á málum af yfirvegun og raunsæi. Ef Ísland væri hjálenda ESB væru hagsmunar okkar í gíslingu á meginlandi Evrópu.

Hér verður tilfallandi að biðjast afsökunar. Bloggið varð að áhrínisorðum. Viðreisn og Samfylking ætla sér með leiftursókn að flytja fullveldi okkar og þjóðarhagsmuni til Brussel, gefa Evrópusambandinu Ísland til að spila með í fyrirsjáanlegum hráskinnaleik stórvelda. Mikil er skömm skjaldmeyja lýðveldisins.

 


mbl.is Umsókn Íslands enn í gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gabb náttúrunnar og Jesú-vísindamenn

Yngsta gosið á Reykjanesi hófst með skemmri fyrirvara en við eigum að venjast. Vísindamenn hafa áður spáð gosi með nokkurra daga fyrirvara en núna má tala um mínútur. Eldgos eru náttúrleg fyrirbæri og lúta lögmálum sem menn skilja aðeins að hluta - annars væri hægt að spá eldvirkni með nákvæmni. Í viðtengdri frétt er sérkennileg efnisgrein:

Yf­ir­leitt dreg­ur úr þess­um gos­um sem líður á en það sem gerðist samt var að eft­ir að við fór­um frá eld­gos­inu þá lengd­ist sprung­an og er núna orðin um 1,5 kíló­meter. Okk­ur virt­ist sem verið væri farið að draga úr þessu en það var bara gabb. (feitletr. pv)

Vísindamaðurinn sem þarna talar, Halldór Björnsson, virðist segja að náttúran hafi platað (gabbað) vísindamenn til að trúa einu, að gosið hjaðnaði, þegar reyndin var önnur - gosið jókst.

Náttúran og öflin sem þar eru á kreiki gabba aldrei. Náttúran er. Punktur. Gabb, fals, prettir og plat eru allt höfundarverk meðvitundarinnar. Maðurinn býr að meðvitund, náttúran ekki. Þeir sem gefa náttúrunni meðvitund eru komnir út í trúarkukl.

Verkefni náttúruvísinda er að skilja náttúruna, ferla og lögmál. Þar er margt ólært. Í stað fullvissu er iðulega stuðst við upplýsta ágiskun. Sá sem giskar á gabb í náttúrunni er ekki upplýstur.

Í fréttinni er Halldór Björnsson titlaður sérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Sérgrein hans er ekki jarðvísindi heldur veður og loftslag. Bitamunur en ekki fjár, kynni einhver að segja. Í báðum tilvikum er eðlisfræði undirstaðan. Fljótandi hraun er, líkt og andrúmsloftið, flæðiefni. Jöfnurnar sem notaðar eru til að útskýra ferla flæðiefna eru kenndar við Navier-Stokes. Óreiða einkennir ferli flæðiefna, hugsið t.d. um vatn sem hellt er úr einu glasi í annað og margfaldið fyrir ferla kviku eða loftslags. Ómögulegt er að sjá ferlið fyrir - annað en að glasið tæmist að lokum, rétt eins og eldgos stöðvast. Navier-Stokes jöfnunar eru sem sagt óleysanlegar

Aðalstarf Halldórs undanfarin ár er að útbreiða þann boðskap að ein lofttegund, CO2, koltvísýringur, valdi loftslagsvá og hamfarahlýnun. Um 97 prósent af CO2 er náttúrulegur. Er Halldór á því að ,,meðvituð" náttúra sé haldin sjálfseyðingarhvöt? Neibb, það er mannkyn, er býr þó aðeins til þrjú prósent koltvísýrings í umferð, sem stefnir móður jörð í voða. Aðalboðskapurinn er heimsendir af mannavöldum. Trúboðar geta þó ekki upplýst okkur um einfaldar staðreyndir. Til dæmis hver sé kjörhiti jarðar. Tilfallandi bloggaði:

Koltvísýringur, CO2, er náttúruleg lofttegund með eitt atóm kolefnis og tvö súrefnisatóm. Lofttegundin er forsenda lífs á jörðinni. Plöntur draga að sér koltvísýring, taka kolefnið sér til vaxtar og viðurværis en skila súrefninu aftur út í andrúmsloftið. Ferlið kallast ljóstillífun. Orkan til ljóstillífunar er sólarljósið (lampar í gróðurhúsum).

Án plantna er ekki líf á jörðinni. Heildarmagn koltvísýrings er áætlað um 750 gígatonn. Af þessu magni er útblástur mannsins 3-4 prósent, um 29 gígatonn. Jörðin grænkar og plöntur taka til sín aukið magn koltvísýrings. En það er sem sagt maðurinn, ekki náttúran, sem ræður loftslagi jarðar, segja meintir sérfræðingar.

Í sama bloggi er vitnað í Will Happer loftslagsvísindamann sem kann sitthvað um eðli og ferla loftslags. Óreiða kemur aftur við sögu. 

Hvað gera vísindamenn þegar óreiða náttúrunnar er slík að fyrirsjáanleiki er ómögulegur?  Vandaðir vísindamenn setja fyrirvara og mæla af varkárni. Jesú-vísindamenn, þeir sem sjá inn í heima, sem huldir eru dauðlegum mönnum, taka stórt upp í sig, segja náttúruna búa yfir meðvitund sem Jesú-vísindamenn kunna einir að túlka. Stundum spaugar náttúran og fíflar menn að trúa einu þegar annað er tilfellið, segja handhafar sannleikans - auðvitað til að breiða yfir spádóma sem ekki rættust.  

Jesú-vísindamenn fá hljómgrunn safnaða sem gefa frá sér dómgreind og vitsmuni. Stærsti söfnuðurinn er vinstrimenn.

 

 


mbl.is Dregur enn ekki úr gosinu: „Það var bara gabb“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorgerður Katrín tekur BYKO á ESB

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra fylgist með alþingi betur en margur annar. Á síðasta þingdegi, fyrir tveim dögum, tók Björn eftir þessari uppákomu á þjóðþinginu:

Þá sést Þorgerður Katrín ganga snúðug fram hjá ræðustólnum að ráðherrabekknum þingforseta á hægri hönd. Hún biður síðan um orðið í annað skipti um atkvæðagreiðsluna til að benda á að í umræðunum um strandveiðar hafi nú myndast „samhljómur“ um málið: „Eigum við ekki að nýta þennan samhljóm í þágu strandveiða og klára málið annaðhvort í dag eða á morgun?“ spurði utanríkisráðherra og einhver hrópaði Heyr! Heyr! Ráðherrann notaði slagorð BYKO og sagði: „Gerum þetta saman.“ Ríkisstjórnarflokkarnir væru tilbúnir til að klára málið þennan sama dag eða koma til þingfundar 15. júlí til að gera það.

Enginn greip þessa tillögu á lofti. Þetta var lýðskrum í sinni tærustu mynd. Það endurspeglaði taugatitringinn í stjórnarherbúðunum. Forseti alþingis hafði tilkynnt að þingi lyki þennan dag með afgreiðslu þriggja mála auk laga um ríkisborgararétt. Forsetavaldið var lítilsvirt. Við blasti sektarkennd yfir ótrúlegum vandræðagangi og stjórnleysi samkvæmt plani verkstjórnarinnar.

Þorgerður Katrín er utanríkisráðherra. Hún á að heita reyndur og þroskaður stjórnmálamaður. En það er öðru nær. ,,Gerum þetta saman," er auglýsingafrasi BYKO, vel heppnaður bersýnilega. BYKO selur vörur á neytendamarkaði, Þorgerður Katrín er á launum almennings að þjóna hagmundum lands og þjóðar. Utanríkisráðherra er gangandi frasi. Gerum þetta saman, hvort heldur strandveiðar eða aðild að Evrópusambandinu. Auglýsingafrasi byggingavöruverslunar í munni Þorgerðar Katrínar veitir innsýn í hugarheim smekklausrar yfirborðsmennsku.

Frá ESB sækir Þorgerður Katrín frasa að vegna Úkraínustríðsins verði að þétta raðirnar. Kannski hjá ESB, en alls ekki Íslandi. Við eigum enga aðild að stríðinu, það er hvorki í okkar þágu né höfum við minnstu möguleika að hafa áhrif á framvindu hildarleiksins.

Fyrir andstæðinga ESB-aðildar er utanríkisráðherra gulls ígildi. Lítil hætta er á að Þorgerður Katrín sannfæri almenning um að ,,gera það saman" með Evrópusambandinu.

   


mbl.is Vonar að Evróputengd mál verði ofarlega á blaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úkraínustríðið er vestrinu tapað

Ekkert magn vestrænna vopna breytir fyrirsjáanlegu tapi Úkraínu í stríðinu við Rússa. Viðskiptaþvinganir eru fullreyndar, skila ekki árangri. Útfærslan á ósigrinum er eftir.

Vopnasendingar Trump til Úkraínu núna eru til að þvo hendur Bandaríkjanna af ósigrinum. Trump getur sagt að þrátt fyrir stuðning Bandaríkjanna hafi Úkraína tapað.

Evrópusambandið leggur áherslu á að halda stríðinu gangandi eins lengi og mögulegt er. Í Brussel vonast menn eftir kraftaverki, að Pútín hrökkvi upp af eða bylting verði í Moskvu. Á meðan stríðið heldur áfram þarf ESB ekki að horfast í augu við rússneska björninn á austurlandamærum sambandsins. Allt frá lokum seinna stríðs hefur Vestur-Evrópa, ESB, vanist að fá sínu framgengt að mestu með friðsamlegum hætti. Smástríð hér og hvar voru flest í fjarlægum heimshlutum, upplausn Júgóslavíu undantekningin. 

Vestrænir fjölmiðlar endurspegla ráðandi frásögn um að allt sé betra en rússneskur sigur. Ekki er það væntumþykja fyrir úkraínsku þjóðinni sem ræður för heldur óttinn við það sem á eftir kemur.

Til að halda hildarleiknum gangandi er fólki talin trú um að eftir sigur í Úkraínu muni Pútin og félagar hyggja á frekari landvinninga í vestri. Það er langsótt röksemd. Kemur einkum þrennt til. Í fyrsta lagi hafa Rússar ekki lögmæta afsökun til að ráðast inn í Nató-lönd eins og Pólland og Eystrasaltsríkin. Í Úkraínu hafði Pútín lögmæta afsökun. Frekari útþensla Nató í austurátt, sem átti aldrei að verða samkvæmt samkomulagi við Rússland eftir fall Berlínarmúrsins, var óásættanleg Rússum þegar árið 2008. Vestrið, með Úkraínu sem verktaka, vildi láta reyna á langlund Rússa. Afleiðingin blasir við. Í öðru lagi eiga Rússar fullt í fangi að sigra Úkraínuher. Stríð við Nató yrði á öðrum og stærri skala og að líkindum háð með kjarnorkuvopnum. Pútín er ekki líklegur sjálfsmorðskandídat. Í þriðja lagi yrði rússneskur almenningur ekki ginnkeyptur fyrir hernaðarævintýrum í Vestur-Evrópu. Fyrir rúmum hundrað árum var bylting í Rússlandi vegna óvinsæls stríðs í vestri. Kremlverjar kunna sagnfræði.

Enginn veit hvernig rússneskur sigur í Úkraínu mun líta út. Kannski verður landinu skipt í tvennt eftir Dnipró-ánni. Kannski verður samið um minni skerðingu á landi og herlausa Úkraínu utan Nató en mögulega innan ESB. Þrátt fyrir að Trump vilji samninga ekki seinna en strax eru stríðsaðilar enn sannfærðir að úrslitin skulu ráðast á vígvellinum. Sú sannfæring helst í stjórnkerfi Úkraínu á meðan nokkur von er um meiri vopn og fjármagn frá vestrinu.

Vestrið notaði Úkraínu til að knýja á um að Rússland yrði pólitísk og efnahagsleg hjálenda. Með Úkraínu í Nató og ESB hefði vestrið flest ráð Rússa í hendi sér. Innrás Rússa í Úkraínu fyrir rúmum þrem árum var, af hálfu Pútín og félaga, nauðsynleg til að verja öryggishagsmuni ríkisins - og, vitanlega, stjórnkerfið sem þeir eru í fyrirsvari fyrir. Fyrstu mánuði stríðsins, jafnvel fyrsta rúma árið, var ekki ljóst hvor stríðsaðilinn hefði betur. En síðasta árið er stríðsgæfan hliðhollari Kreml en Kænugarði. Hernaðarmáttur Rússa vex en Úkraínu blæðir. Styrkleikhlutföllin, einkum hvað varðar fjölda hermanna, eru afgerandi Rússum í hag. Fyrir stríð taldi Úkraína um 43 milljónir hausa, Rússar eru rúmlega 140 milljónir. 

Um tíma var talað um beina aðild Nató-hermanna. Ekki lengur. Án beinnar aðildar Nató-herja er stríðið tapað Úkraínu.

Úkraínustríðið er staðgenglastríð vestursins gegn Rússlandi. Staðgengillinn mun mestu tapa, bæði í mannfórnum og landi. Í augum þeirra sem telja vestrið og Rússland náttúrulega bandamenn, æskilegra en t.d. bandalag vestursins og Tyrklands eða Sádí-Arabíu, er gresjustríðið fullkomlega tilgangslaust. Vel að merkja, allur þorri stríða er tilgangslaus. ,,Hrein stríð" illsku og góðmennsku eru einatt stílfærð útgáfa af veruleikanum. 

 


mbl.is Vopnasendingar til Úkraínu ræddar í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking kaupir könnun, hótar Ingu Sæland

Flokkur forsætisráherra kaupir könnun til að stilla samstarfsflokkum, einkum Flokki fólksins, upp við vegg. Annað tveggja sættir Inga Sæland sig við að vera hornkerling í stjórnarráðinu eða henni verði skipt út með eða án kosninga, eru skilaboð Samfylkingar.

Gallup-könnun sem Samfylkingin keypti var látin RÚV í té, - ókeypis vitanlega. Niðurstaðan er vinsældir Kristrúnar og afhroð Ingu Sæland. Þriðja skjaldmey stjórnarráðsins, Þorgerður Katrín, dólar þar á milli. Könnunin kemur í kjölfar þinglokasamninga þar sem málum Flokks fólksins var fórnað.

Svarhlutfallið í könnuninni er aðeins rúm 43 prósent. Meira en helmingur nennti ekki að svara. Spunaliðar Samfylkingar keyptu könnun á þeim árstíma, miðju sumri, þegar mestu líkindin eru að sítengdir háskólamenntaðir vinstrimenn svari kalli Gallup. Það er helsti kjósendahópur Samfylkingar.

Engum blöðum er um það að fletta að Samfylking og Kristrún standa best að vígi gagnvart kjósendum af stjórnarflokkunum þrem. Nýlegar skoðanakannanir staðfesta sterka stöðu krata. Hvers vegna að kaupa könnun um mitt sumar til að staðfesta það sem allir vita? Könnunin þjónar þeim tilgangi að setja þrýsting á samstarfsflokka Samfylkingar, Flokk fólksins og Viðreisn.

Fyrir tólf dögum bloggaði tilfallandi um ástæðuna. Þá var í fréttum að róttækir vinstrimenn væru að safna liði, þ.e. píratar, vinstri grænir og sósíalistar. Síðasta málsgrein bloggsins:

Freistnivandi Samfylkingar er að standast 30 prósent fylgi í könnunum og  láta ekki undan löngun að innleysa það fylgi með þingkosningum fyrir lok kjörtímabils. Eftir þrjú ár gætu róttæklingarnir boðið valkost sem þeir hafa ekki núna. Sá ljóður fylgir ráði hófsamra vinstrimanna að þeir eru tækifærissinnar fram í fingurgómana.

Keypt könnun Samfylkingar um vinsældir Kristrúnar og lítinn kjörþokka Ingu og Þorgerðar Katrínar staðfestir þessa greiningu. Samfylkingu blóðlangar í kosningar til að innleysa fylgið sem flokkurinn telur sig eiga. Verri staða samstarfslokka í fylgismælingum gerir þá móttækilegri fyrir pólitískri fjárkúgun. Beygið ykkur undir vilja Kristrúnar og Samfylkingar, annars bíður ykkar afhroð í kosningum.

  

 


mbl.is Tæp 63% ánægð með störf Kristrúnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðveldi án málfrelsis

Valdarán, aftökusveitir og lýðræði á heljarþröm var viðkvæði ráðherra á fimmtudag. Á föstudagsmorgun var þingræðið ómerkt með þeim rökum að ráðherrar sögðu nóg rætt, nú skyldu verkin tala.  Beitt var 71. grein þingskaparlaga og lokað á málfrelsi alþingismanna. Gerræði kvenhormóna er sjá tilræðismenn í þingmönnum sem andmæla.

Ekki hefur 71. grein verið virkjuð í 66 ár, í tíð 19 forsætisráðherra. Kristrún á sínum fyrsta þingvetri sem forsætisráðherra slaufar málfrelsi þingheims. Yfirlýsing Kristrúnar á fimmtudag geymdi þessi orð

Við munum verja lýðveldið Ísland. Við munum verja stjórnskipan landsins og heiður alþingis.

Heiður alþingis skal varinn með kefli upp í kjaft þingmanna minnihlutans og bundið fyrir. Heiður er ekki sælgæti í nammibúð til að svala sykurþörf. Heiður og vanvirðing í samhengi við stjórnskipun og hefðir eru hugtök sem verða til í umgengni við æðsta yfirvald kynslóð fram af kynslóð.

Tilefni afnáms málfrelsis þingmanna er að frumvarp um skattahækkun, tvöföldun veiðigjalda, fékk ekki meðbyr í þingsal. Það var allt og sumt. Engin þjóðarvá, heldur gekk erfiðlega að sannfæra minnihlutann um skynsemi þess að tvöfalda skattbyrði á eina atvinnugrein, sem einkum er stunduð á landsbyggðinni.

Lýðræði er samtal. Opinberar ákvarðanir í lýðræðisríki lúta formreglum. Beiting 71. greinar þingskaparlaga eru ítrustu úrræði, enda heimildin ekki verið virkjuð í 66 ár. Eðli ítrustu úrræða er að annað tveggja valda þau hamingjuskiptum í valdaskaki þar sem annar beygir sig í duftið eða innleiða ofbeldissamband.

Eftir föstudaginn 11. júlí 2025 er ekki sama þingræðið hér á landi og var fyrir. Fyrsta grein stjórnarskrárinnar er svohljóðandi:

Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

Eftir föstudagsgerræðið leikur vafi á stjórnskipuninni. Það glittir í hrátt vald meirihlutans sem ber minnihlutann atkvæðum af ómerkilegasta tilefni. Þar sem áður var samtal er öskur og hávaði með brigslum um valdarán, aftökusveitir í húsasundum og endalok lýðræðis.

Lýðveldið er gjaldfellt, innihaldslausara en það áður var. Nærtækasta viðbragð minnihlutans er að láta strax á það reyna hvort meirihlutinn ætli að stíga skrefið til fulls og innleiða hrátt tilskipunarvald. Þjóðin þarf að fá það á hreint, fyrr heldur en seinna. 

Lýðveldi án málfrelsis fær ekki staðist.  

 

 


mbl.is Segir ríkisstjórnina hafa sett á svið leikrit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gella, grýla og lýðveldið

Kristrún forsætis er meira erlendis en heima hjá sér. Hún er í samkeppni við Þorgerði Katrínu utanríkis að hitta flest frægðarmennin og skjalfesta á ljósmynd. Kemur vel út á Instagram. Ísland er lítið og fjarlægt heimsborgurum á dagpeningum í útlöndum.

Kristrún kom heim, drap niður fæti á Austurvelli, og kvaðst í ræðustól ætla að verja lýðveldið Ísland. Dagskrá forsætisráðherra er að flytja fullveldið til Brussel við fyrstu hentugleika. Lýðveldi án fullveldis er bananahýði án ávaxtarins.

Ríkið - það er ég, sagði franskur einvaldskonungur. Kristrún forsætis tók sér stöðu við hlið þess franska í sjálfshólinu, segist síðasta vörn lýðveldisins. Til að vörnin sé trúverðug þarf grýlu. Inga Sæland skaffaði aftökusveitir í húsasundum úr ræðustól þingsins. Hvorki meira né minna. Sjálfshól og paranoja eru kvennaráð. Gella og grýla mættu telja upp á tíu áður en þær opna skoltinn - eða stíga mjaðmadans í fundarsal alþingis.

Stjórnarandstaðan mælir með jafnaðargeðsnámskeiði fyrir ráðherra sem ítrekað þjóna lund sinni með heiftarorðræðu. Engar fréttir eru af skráningu þótt þörfin sé brýn. Ráð væri að halda námskeiðið í útlöndum. Ráðherrar ættu stutt að sækja og dagpeningar smyrja viðveruna.

Heift ráðherra skýrist af vangetu þeirra að hnika skattahækkun, tvöföldun veiðigjalda, í gegnum þingið. Af hálfu skjaldmeyja stjórnarráðsins snýst frumvarpið ekki um skattahækkun. Frumvarpið er til að kanna hversu gengur að þvæla í gegnum alþingi illa unnu máli er varðar þjóðarhag. Tvöföldun veiðigjalda er prófmál á getu stjórnarráðskvenna að troða ofan í kokið á minnihlutanum handónýtum þingmálum. Næstu mál eru bókun 35 og orkupakkar frá ESB. Allt er þetta undirbúningur að flytja fullveldið til Brussel undir gamalkunnum formerkjum Samfylkingar; Ísland er ónýtt.

Stjórnarandstaðan, þjóðhollari en skjaldmeyjar á útlensku egótrippi, tók áskoruninni og hleypir ekki skattabastarði á skítugum skónum um sali þjóðþingsins.

Ég mun verja lýðveldið, segir nýfermdur forsætisráðherra. Óvinur lýðveldisins er sá sem ómerkir þingræðið. 

 

 

 


mbl.is „Við munum verja lýðveldið Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingræði, Gamli sáttmáli og gerræði

Þingræði mælir fyrir að æðsta vald sé í höndum þingsins, ekki framkvæmdavaldsins. Íslendingar áskildu sér þingræði, á þeirra tíma vísu, þegar fyrsta framkvæmdavaldið kom til sögunnar hér á landi - norska konungsvaldið. Í Gamla sáttmála er framkvæmdavaldinu játað með fyrirvörum.

Magna carta, stóraskrá, er frelsisskrá enskra, um 40 árum eldri en Gamli sáttmáli. Þar er sama hugsun og í Gamla sáttmála, fyrirvari við alveldi framkvæmdavaldsins. 

Í nútímaútgáfu þekkjum við þingræðið svona:

Alþingi er með ríkisstjórnina í gíslingu. Það sem meira er: framkvæmdavaldið er alltaf í gíslingu þingsins. Gíslatakan, ef menn vilja nota það orð, hófst fyrir meira en hundrað árum. Þegar Ísland fékk innlent stjórnarráð, heimastjórn árið 1904, komst á sú skipan...

Misskilnings gætir í umræðunni um þingsköp alþingis og valdmörk framkvæmdavaldsins. Menn segja að meirihlutinn/framkvæmdavaldið eigi að ráða og setja þau lög eða ólög sem meirihlutanum sýnist. Nei, það er ekki þingræði heldur tilskipunarvald. Evrópusambandinu er stjórnað með tilskipunarvaldi enda ekkert þingræði þar á bæ. Í þingræði gilda þingsköp, ekki hentisemi valdhafa.

Deilur alþingis og framkvæmdavalds snúast um skatta, veiðigjöld. Sögulega eru skattar stórmál sem brjóta á bak aftur heimsveldi og skapa ný. Nægir þar að nefna amerísku byltinguna. Nokkur síðar á 18. öld gerbreytti heiminum franska byltingin - óréttlátir skattar komu við sögu.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks hafa staðið þingræðisvaktina með sóma síðustu vikur. Ónýtt skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar, tvöföldun veiðigjalda, kemst hvorki lönd né strönd. Þannig á það að vera í þingræðisríki. Valdhyggjufólki finnst ótækt að reglur um málsmeðferð séu virtar þegar því liggur á að koma frumvarpsbastörðum í gegnum þingið.

Hlutverk þjóðþinga er að hafa vit fyrir yfirvaldi sem sést ekki fyrir. Þannig var það á miðöldum, á nýöld og gildir enn í samtímanum. Ekki þó í Evrópusambandinu, sem fyrr er getið, þar tíðkast tilskipunarvald án umboðs frá almenningi.

Einhverjir kunna að spyrja, er ekki lýðræðið tekið úr sambandi þegar meirihlutinn fær ekki sínu framgengt í þjóðþinginu? Nei, öðru nær. Lýðræði er ekki meirihlutavald og hefur aldrei verið nema mögulega í beinu lýðræði Aþenu til forna. Lýðræði er fyrirkomulag sem byggir á tvennu. Í fyrsta lagi almennum kosningum og í öðru lagi formskipulagi. Þingræði er formskipulag. Þeir sem vilja taka það úr sambandi eru óvinir lýðræðisins. Kjarnorkuákvæðið í þingskaparlögum, útskýrt í viðtengdri frétt, er þrautalending valdhafa sem komnir eru í valdþrot, treysta sér ekki til að starfa innan ramma þingræðis. Ákvæðinu hefur ekki verið beitt í 66 ár. Að nýta ákvæðið til að keyra í gegn skattahækkun er eins og að skera höndina af sjúklingi er kennir til í litlafingri.

Ríkisstjórnin reyndi með leiftursókn að knýja á um hraðferð frumvarpsins. Það tókst ekki. Eftir því sem umræðunni vatt fram urðu annmarkar augljósari. Andstaðan við frumvarpið hertist. Málið er komið í hnút. Pólitískt þrátefli í þingræði er leyst með málamiðlun. Vel að merkja; þegar í hlut eiga menn er kunna til verka.

Lausn á deilunni um veiðigjöld er ekki margslungin. Annað tveggja afturkallar ríkisstjórnin frumvarpið eða semur við alþingi um afgreiðslu þess. Þriðji kosturinn er að rjúfa þing og boða til þingkosninga. Fjórði kosturinn, kjarnorkuákvæðið, gæti á yfirborðinu virst myndugleiki en væri í raun uppgjöf. Réttlætingin fyrir kjarnorkuákvæðinu, þjóðarvá, er ekki fyrir hendi. Gerræði Kristrúnar og félaga myndi hafa afleiðingar út kjörtímabilið - sem yrði stutt.

Þroska og manndóm þarf til að fara með yfirvald. Í veiðigjaldamálinu sýnir ríkisstjórnin alvarlegan dómgreindarbrest, að ekki sé dýpra í árinni tekið. Á óvart þarf það ekki að koma. Hugmyndafræðingurinn að baki frumvarpinu er alræmdur netníðingur sem var undir lögreglurannsókn í þrjú ár í byrlunar- og símamálinu. Illþýði fylgir ógæfa.


mbl.is Beiting kjarnorkuákvæðisins yrði „algjört stílbrot“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýknaðasti maður landsins og ríkissannleikur

Tilfallandi er líklega sýknaðasti maður landsins. Þrjú nýleg dómsmál, þar af tvö í sumar, skiluðu sýknu. Þrír blaðamenn stefndu tilfallandi í tveim málum en lögreglustjórinn í Reykjavík ákærði í þriðja dómsmálinu.

Betra er að fá sýknu en dóm, svo mikið er víst. Að öðru leyti er leið lífsreynsla að vera stefnt fyrir dóm fyrir þær sakir einar að tjá skoðun sem öðrum mislíkar. Dómsmálin eru ekki einu leiðindin.

Sömu aðilar, að ekki sé sagt sömu öfl, og stefndu tilfallandi fyrir dóm gerðu slík læti og hamagang á fyrrum vinnustað tilfallandi, framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu, að ekki var annað til ráða en að gera starfslokasamning. Tilfallandi er ekkert unglamb, bráðum hálfsjötugur, en hafði hugsað sér lengri starfstíma sem kennari. Skoðanir tilfallandi, á öðrum málum en kennslu, leiddu til starfsloka fyrr en ella.

Með rökum má segja að tilfallandi hafi grafið sína eigin gröf. Hann hafði skoðanir sem mörgum mislíkaði og var sá óviti að tjá þær opinberlega í bloggi. En svo á að heita að við búum í lýðfrjálsu landi með stjórnarskrá er tryggir skoðana- og málfrelsi. Virðingin fyrir mannréttindum ristir ekki djúpt almennt og örgrunnt hjá þeim sem mest um þau tala - vinstrimönnum.

Dómsmálin þrjú, þar sem tilfallandi fékk sýknu, eru vegna umræðuefna sem óskyld eru á yfirborðinu. Í fyrsta lagi eru þrír blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn) ósáttir við bloggfærslur um byrlunar- og símamálið. Tilfallandi heldur fram að blaðamenn eigi aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Blaðamenn stefndu blogghöfundi í tveim sjálfstæðum dómsmálum. Í öðru lagi eru Samtökin 78 gröm tilfallandi bloggi um transboðskap meðal barna og kærðu til lögreglu. Í verktöku fyrir lífsskoðunarfélagið ákærði lögreglustjórinn í Reykjavík höfundinn fyrir hatursorðræðu.

Ein tilgáta um mannlífið er nærtæk. Tilgátan er að því fjarlægari veruleikanum sem skoðanir fólks eru þess hatrammara er reynt að kæfa andstæð viðhorf. Litum nánar á málsatvik.

Þekktar staðreyndir, m.a. úr lögreglurannsókn, og kringumstæður benda eindregið og afgerandi til að blaðamenn eigi aðild að byrlun og símastuldi vorið 2021. Blaðamennirnir, sem birtu efni úr stolnum síma, neita staðfastlega málsaðild. Við birtum aðeins fréttir, segja þeir. Líkt og fréttir detti fullskapaðar af himnum ofan, hvorki þurfi heimildir né meðvitund að afla þeirra. Tilfallandi sem vogar sér að hafa aðra meiningu skal lögsóttur af fullri hörku.

Samtökin 78 halda fram að kyn manna séu óteljandi og hægt sé að fæðast í röngum líkama. Skoðun samtakanna er trúarlegs eðlis og á sér ekkert haldreipi í veruleikanum. En vei þeim er halda öðru fram en rétttrúnaðurinn, þeir skulu kærðir til lögreglu og hljóta makleg málagjöld. Einkum og sérstaklega ef í hlut á miðaldra karl með aðgang að lyklaborði.

Bábiljuskoðanir, sem sagt, eru studdar af meiri heift og hörku en hversdagsleg viðhorf sem ríma við veruleikann eins og hann blasir við. Kannski er tilgátan í raun sjálfsögð sannindi. Trúarhiti sértrúarsafnaða er iðulega meiri en þjóðkirkjumanna.

Tilfallandi er einyrki á bloggakrinum og skrifar fyrir eigin reikning. Blaðamennirnir og Samtökin 78 eiga sameiginlegt að vera á ríkisframfæri. Fjölmiðlastyrkir og opinbert fé valdefla blaðamenn og hinseginfélagið til að gera kröfu um að ríkið staðfesti sérútgáfu þeirra af tilverunni. Réttarkerfið átti að gefa þá niðurstöðu að dómsvald ríkisvaldsins úrskurðaði að blaðamenn væru saklausir sem englar af byrlun og stuldi annars vegar og hins vegar að kyn manna séu óteljandi og nýburar komi í heiminn í röngum líkama.

Blaðamenn og Samtökin 78 eru þegar með löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið sem bakhjarla; þaðan koma lögin í þágu sérviskunnar og fjármunir í rekstur lífsskoðunarfélags og spilltra fjölmiðla. Dómsvaldið, í tilfallandi málaferlum, stóð í ístaðinu og dæmdi að enn sem komið er gildir í landinu málfrelsi. Sérhver borgari er frjáls skoðana sinna og í fullum rétti að tjá þær opinberlega. Sjálfstæði dómstólanna gagnvart pólitíska rétttrúnaðinum stendur eitt í vegi fyrir ríkissannleika. Allir fullorðnir vita að ríkissannleikur er ein útgáfa alræðishyggju.

Tilfallandi er ekki hreykinn að vera sýknaðasti maður landsins. Víst er sýkna betri en sekt. En að við skulum búa i samfélagi þar sem frjáls orðræða sætir atlögu blaðamanna, lífsskoðunarfélags á opinberu framfæri og ákæruvalds lögreglu er ekki í lagi. Bara alls ekki. Guði sé lof að dómsvaldið er enn í höndum manna með heilbrigðari sjónarmið en rétttrúnað blaðamanna, Blaðamannafélags Íslands, Samtakanna 78 og lögreglustjórans í Reykjavík. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband