Rósa B., skotárás - helgartryllir Samfó

Rósa Björk var kjörinn á þing fyrir Vinstri græna, gekk í Samfylkinguna og vildi sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík. Ágústi Ólafi var fórnað fyrir Rósu, héldu menn i morgunsárinu.

Um hádegisbil bárust tvær fréttir úr herbúðum Samfylkingar. Í fyrsta lagi að Rósa B. sækist nú eftir sæti Guðmundar Andra í Kraganum. Í öðru lagi að skotárás hafi verið gerð á bækistöðvar flokksins.

Endurheimtir Ágúst Ólafur sæti sitt? Stendur Guðmundur Andri upp fyrir Rósu B. og þiggur bitling í staðinn? Finnast árásarmennirnir?

Helgartryllir Samfó. Popp og kók í boði ESB.


mbl.is Stefnir á fyrsta sætið í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágúst Ólafur í Viðreisn

Fastlega er búist við að uppgjör Samfylkingar við Ágúst Ólaf þingmanns flokksins í Reykjavík leiði til þess að þingmaðurinn gangi til liðs við Viðreisn.

Hörður Oddfríðarson formaður uppstillingarnefndar Samfylkingar í borginni sagðist vona að Ágúst Ólafur  ,,verði með okkur í kosningabaráttunni líka. Hef ekki trú á öðru.“

Rósa Björk, fyrrum Vinstri græn, kemur í stað Ágústs Ólafs á lista Samfylkingar.

Á vinstri væng stjórnmálanna er ekki spurt um hugmyndir heldur persónulegan metnað.


mbl.is Blái liturinn horfinn úr merki Viðreisnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samnefnari Jóns Ásgeirs og Gunnars Smára

Einu sinni voru Jón Ásgeir og Gunnar Smári samherjar á akrinum. Jón Ásgeir er aflakló á peninga og á enn fáeinar krónur í handraðanum. Gunnar Smári er háður fé annarra, Baugi á tíma útrásar en Eflingu á tímum sósíalisma.

Samnefnari tvímenninganna er hugsunin í setningunni ,,heimsyfirráð eða dauði". Annar vinnur með viðskiptaáætlanir en hinn gerir sér mat úr félagsauði samtaka almennings.

Fyrir aðra en þá sjálfa er eftirtekjan sú sama. Sviðin jörð.

 

 


mbl.is Gunnar Smári „sósíalistaforingi í einkaþotu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vald, sannleikur og öfgar

Nýir valdhafar búa til nýjan sannleika þegar vafi leikur á um lögmæti valdsins. Í Evrópu á millistríðsárunum komust til valda menn og flokkar sem boðuðu nýjan sannleika. Sama gerðist í Austur-Evrópu eftir seinna stríð. Til forna í Róm urðu keisarar guðir eftir andlátið en í lifanda lífi þegar lögmæti valdanna varð vafasamara.

Nýr forseti Bandaríkjanna boðar nýjan sannleika. Bandaríkin standi frammi fyrir  „upprisu póli­tískra öfga, yf­ir­burðahyggju hvítra, inn­lendri hryðju­verka­ógn, sem við verðum að tak­ast á við, og við mun­um sigra“.

Valdhafi sem þarf nýjan sannleika til að réttlæta völdin er öfgamaður. Samkvæmt skilgreiningu. Sannleikurinn um gamla hvíta karlinn sem sór embættiseið í gær er sá að hann er í stríði við sjálfan sig og meirihluta bandarísku þjóðarinnar. Í senn bæði fáránlegt og grátbroslegt.


mbl.is „Þetta er dagur lýðræðisins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondi kallinn og góða fólkið

Trump er farinn og sviðið er góða fólksins. Aðeins á eftir að hreinsa dreggjarnar, segir Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, og endurómar þar Hillary Clinton sem kallaði stuðningsmenn Trump fyrirlitlega.

Úrsúla og Hillary lifa í ævintýraheimi þar sem gott og illt er auðþekkjanlegt eins og svart og hvítt. Vondi kallinn farinn, grýla dauð og við blasir björt veröld ný og fögur.

Veruleiki mannheima er blæbrigðin. Sumt virkar, annað síður, fátt er algott og það alvonda trauðla til. Raunsætt er að velja skásta kostinn af þeim sem í boði eru, sá besti er annað tveggja ekki til eða handan mannlegrar getu.

Góða fólkið sem vill skapa ævintýraveröld í kjötheimi endar alltaf í and-ævintýrinu, - martröðinni. 


mbl.is Fagna því að „vinur“ tekur við af Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiran og pólitískar sóttvarnir

Faraldurinn kenndur við Kína breytir samfélögum. Í framhaldi breytist pólitísk hugsun. Vörn gegn Kínaveirunni er þríþætt. Einangrun, lokanir og bóluefni. 

Trump og stuðningsmenn hans sæta einangrun og lokunum á samfélagsmiðlum. Bandaríski herinn er mótefnið. Tucker Carlson rekur pólitískar sóttvarnir nýrra valdhafa í Washington. 

Kínaveiran sjálf hverfur úr sögunni næstu misseri. Eftir stendur breytt samfélag í pólitískum sóttvarnarham.


mbl.is Rúmlega 400.000 dauðsföll í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög fyrir lélega ráðherra

Við lagasetningu þarf að hafa í huga að sumir ráðherrar eru góðir en aðrir síðri, er efnislegt sjónarmið Helgu Völu formanns velferðarnefndar í umræðu um sóttvarnarlög.

En er þetta ekki sjónarmið sem ætti að viðhafa um alla lagasetningu? Ráðherrar eru brigðulir og lögin ættu að taka með með í reikninginn - á meðan þau eru enn frumvarp.

Tek ofan fyrir þér, Helga Vala, í þetta sinn. Stundum ratast kjöftugum satt orð í munn.


mbl.is Helga Vala ekki mótfallin skyldubólusetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin kreppa á Íslandi

Bankar skila auknum hagnaði, smásöluverslun í byggingavörum gerir það gott og verslunarkeðjur í matvælum og fatnaði bera sig vel. Orðið á götunni er að innlend eftirspurn eftir ferðaþjónustu í sumar sé meiri en nokkru sinni. 

Þótt ekki séu skrifaðar fréttir um það þá er áberandi sterk eftirspurn erlendis frá í sérhæfðari ferðaþjónustu s.s. laxveiðar. Landið liggur þannig að efnaðir ferðamenn og bólusettir kaupa sér þjónustu þar sem gera má ráð fyrir að samfélagið sé starfhæft. Allt stefnir í að Ísland verði starfhæft með tryggum sóttvörnum á Keflavíkurflugvelli.

Víst er atvinnuleysi i hærri kantinum. En þokkalegar líkur eru á að það jafni sig með vorinu og minna verði um innflutt vinnuafl en á góðæristíma fjöldatúrisma, - sem, vel að merkja, kemur vonandi aldrei aftur.

Ísland er í góðum málum.


mbl.is Stefnir í 6 milljarða hagnað á síðasta ársfjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóttvörn gegn auðmönnum, Bjarni

Til lengri tíma er ekki heppilegt að ríkið eigi svotil alla banka hér á landi. Spurningin er hvað sé langur tími í þessu samhengi.

Einn mælikvarði er lífaldur þeirra bankaauðmanna sem settu þjóðina á hausinn 2008. Flestir voru þeir um fertugt við hrun og eru núna á besta starfsaldri, hoknir reynslu og tilbúnir í annan snúning á fjármálakerfi þjóðarinnar.

Bjarni fjármála og stuðningsmenn bankasölu strax segja bæði innlent regluverk og evrópskt koma í veg fyrir nýtt fjármálafyllerí auðmanna á Fróni með banka sem spilapeninga. Virkilega?

Kunningjakapítalismi á Íslandi í útrás fólst m.a. í því að þeir sem keyptu Landsbankann fengu lánað frá þeim er keyptu Búnaðarbankann, sem aftur lugu til um aðkomu erlends banka, Hauck & Auf­häuser. Dapurlegra en orð fá lýst, segir forveri Bjarna, Geir H. Haarde. Hvar slógu eigendur Búnaðarbankans lán fyrir kaupunum? Jú, hjá Landsbankanum. Svikamylla kunningjanna.

Fyrst að ljúga og blekkja til sín banka síðan að plata heiminn til að trúa að Ísland væri alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þarf að rifja upp þá hrollvekju og ræða ábyrgð stjórnmálamanna sem nær allir voru í vasa bankaauðmanna er fjármögnuðu prófkjörsbaráttu meintra fulltrúa almennings? Virkilega?

Koma innlendar og erlendar reglur í veg fyrir nýja svikamyllu auðmanna, Bjarni? Munt þú vera í stöðu Geirs H. Haarde eftir tíu ár eða tólf?

Bein sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka er ávísun á fjárglæfra manna sem sækja í áhættu og eru siðlausir, eins og dæmin sanna, og gott ef ekki líka glæpamenn - samanber dóma yfir úrvali þeirra snillinga er knúðu Ísland í gjaldþrotameðferð fyrir rúmum áratug.

Aðrar leiðir, til að losa ríkið undan bankarekstri, eru vel færar. Til dæmis að gera Íslandsbanka að samfélagsbanka, sparisjóði, er einbeiti sér að einstaklingum og litlum fyrirtækjum.  

Einkenni bjána, er haft eftir Einstein, er að endurtaka sömu tilraunina og búast við annarri niðurstöðu.

Við skulum ekki vera bjánar, Bjarni.

 


mbl.is Hvergi í Evrópu séu umsvif ríkisins meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herinn, hræddur valdhafi og andrúmsloft haturs

Hermenn eiga að tryggja friðsamlega embættistöku Biden á miðvikudag í Washington. Óttast er að almenningur láti andúð sína í ljós þegar Biden sver embættiseiðinn.

Hræddir valdhafar styðjast við her og lögreglu til að hafa hemil á óánægðum almenningi. Til skamms tíma var slíkt ástand bundið við þriðja heims ríki. Nú eru sjálf Bandaríkin í sömu stöðu.

Yfirvöld í Washington óttast að erlendir aðilar séu að einhverju leyti ábyrgir fyrir uppreisnarhug almennings. Þetta eru sömu viðbrögð og stjórnvöld í Íran og Kína grípa til þegar á bjátar heima fyrir.

Hefð er að segja um nýkjörinn forseta að fyrstu 100 dagar í embætti séu hveitibrauðsdagar. Stefnumál og ríkisstjórn leggja línur fyrir kjörtímabilið. Biden fær sína hveitibrauðsdaga undir hervernd.

Félagsmiðlar og miðlar með forskeytið fjöl kynda undir ótta um vopnatak, samanber viðtengda frétt. Lausnin sé að vera fyrri til og gera atlögu að óvildarmönnum valdhafa áður en þeir ná að safna liði. Frjálslynt tímarit, The New Republic, segir Trumpisma bandalag hvítu yfirstéttarinnar og nái langt inn í embættismannakerfið.

Opinber umræða sem biður um og kallar eftir ofbeldi verður vanalega að ósk sinni. Vítahringur bandarískra stjórnmála dýpkar enn. Biden-stjórnin er leiksoppur atburðarásar sem ekki verður undið ofan af.


mbl.is „Ef þeir neita drepið þá, skjótið þá niður á staðnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband