Laugardagur, 6. mars 2021
Jarðskjálftar, loftslag og heimska
Ef jarðskjálftafræðingur segði að kjörstaða jarðarinnar væri án flekahreyfinga yrði brosað út í annað. Ef hann segði jarðskjálfta mannanna verk yrði skellt upp úr. Meintir sérfræðingar um loftslag jarðarinnar segja án þess að blikna, samanber meðfylgjandi frétt, að maðurinn eigi að ,,tryggja að meðalhitastig á jörðu hækki ekki um meira en tvær gráður..."
En veðrið er óvart þannig, eins og jarðskjálftar, að það lýtur ekki mannlegum vilja. Manngert loftslag er ævintýrið um nýju fötin keisarans. Skáldskapur a til ö.
Meint orsök hlýnunar, koltvísýringur í andrúmsloftinu, CO2, mælist rúmlega 400 ppm. Sé horft tilbaka í jarðsögunni, t.d. síðustu 40 milljónir ára, er koltvísýringur í andrúmslofti löngum margfalt meiri, yfir 1800 ppm.
Kjöraðstæður plantna eru um 1200 - 1400 ppm af CO2. Þess vegna er koltvísýringi dælt inn í gróðurhús. Plöntur eru eins og annað í lífríkinu afurð náttúrulegrar þróunar. Sú þróun varð í andrúmslofti með margfalt meiri koltvísýringi en í dag.
Ef núverandi magn CO2 félli niður, til dæmis í 200 ppm, væri jarðlífinu hætta búin. Plöntulíf fengi ekki nauðsynlega næringu. Enda er það svo að jörðin hefur grænkað síðustu áratugi þegar CO2-hlutfall í andrúmslofti hækkar. Og hver vill ekki grænni jörð?
Það er hrein og klár heimska og hjávísindi að halda mannskepnuna stjórna meðalhita á jörðinni með losun - eða ekki losun - koltvísýrings í andrúmsloftið. Náttúran hefur séð um þau mál í milljónir ára og mun áfram gera.
![]() |
Rauð viðvörun fyrir heiminn allan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 6. mars 2021
Bandalag útlaganna Ragnar Þórs og Gunnars Smára
Ragnar Þór formaður VR og Gunnar Smári formaður Sósíalistaflokksins eru rekast illa í flokki, - þegar þeir eru ekki aðalmennirnir. Báðir reyna fyrir sér með innflutningi hugmynda. Ragnar Þór prófaði hugmyndafræði gulvestunga í Frakklandi og Gunnar Smári sósíalisma.
Báðir leggjast þeir á verkalýðshreyfinguna, sem er félagslega veik og auðvelt að kjafta sig inn á. Ragnar Þór hreiðraði um sig í VR og Gunnar Smári kom sér upp leiksoppum í Eflingu.
Engin tilviljun er að útlagarnir náðu sér á strik í eftirhruninu. Ringulreið og vantraust ríkti í samfélaginu sem gaurar eins og Ragnar Þór og Gunnar Smári kunna að nýta sér.
Hvorugir hafa neitt að bjóða nema sjálfa sig. Og hvorugur er merkilegur pappír.
![]() |
Þvertaka fyrir að vera í samkrulli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 5. mars 2021
Píratar í spillingunni
Trúnaðarbrot er ein útgáfa spillingar. Þingmenn hafa stöðu sinnar vegna aðgang að trúnaðarupplýsingum. Brjóti þeir trúnaðinn eru þeir sekir um misnotkun á opinberu valdi.
Tveir þingmenn Pírata, Jón Þór og Andrés Ingi, virðast líta svo á að trúnaðarskylda nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis eigi að gilda um aðra en ekki þá sjálfa.
Hér er á ferðinni dæmigert hugarfar spillingar sem lýsir sér í tvöfeldni: reglur eiga að gilda en ég sjálfur er hafinn yfir þær.
![]() |
Deilt á pírata fyrir trúnaðarbrest |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 4. mars 2021
Alþingi biðji Geir afsökunar á ákæru
Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra var dæmdur í landsdómi 2012 fyrir embættisverk í aðdraganda hrunsins 2008. Ákæran á hendur Geir var pólitísk, á forsendum sitjandi meirihluta á alþingi, ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Óréttmætt var að ákæra stjórnmálamenn fyrir embættisverk sem unnin voru innan ramma laga og í góðri trú. Margt fór miður í aðdraganda hrunsins og það gildir líka um eftirmálin. Ákæran á hendur Geir stendur upp úr mistökum eftirhrunsins.
Sigmundur Davíð heldur málinu vakandi og leggur til að alþingi biðji Geir afsökunar ákærunni. Geir yngist ekki, frekar en við hin. Það væri mannsbragur á þingmönnum er sitja alþingi í dag að viðurkenna að ákæran var byggð á röngum forsendum. Einmitt sökum þess að Geir er enn hérna megin eilífðarinnar og all nokkrir sitja enn á þingi sem greiddu ákærunni atkvæði sitt. Alþingi situr uppi með þá skömm að hafa gert pólitík að glæp. Þingheimur allur yxi í áliti að breyta rétt í þessu máli.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 4. mars 2021
Tíminn, jörðin og maðurinn
Jörðin er eitthvað 4,6 milljarða ára, mælt í mannárum. Síðdegis í gær var tilkynnt að eldsumbrot gætu hafist innan fárra klukkustunda. Hálfum sólarhring síðar er fátt að frétta.
Á mælikvarða jarðsögunnar er sólarhringur varla brot úr augnabliki. Vísindamenn reyna hvað þeir geta að tímasetja jarðhræringar en það er snúið verkefni. Eldgos gæti hafist áður en síðasti punkturinn er settur á þetta blogg. En hitt er möguleiki að nokkur bið verði.
Væntar hamfarir á Reykjanesi eru lexía um óvissuna sem fylgir að búa á henni jörð.
![]() |
Óróinn og virknin að færast í aukana á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 3. mars 2021
Tilraunin sumarið 2020 mistókst - ekki endurtaka hana
Í fyrrasumar voru landamærin eins og gatasigti. Hver og einn gat valsað inn í landið að vild. Veiruvarnir á Keflavíkurflugvelli voru til málamynda.
Afleiðingarnar þekkja allir. Í haust lokuðu skólar og fóru rétt að opna um áramót. Háskóli Íslands er enn lokaður nemendum. Íþrótta- og menningarstarf lagðist af.
Þegar sagt er ,,fáum gott ferðasumar" er merkingin þessi: endurtökum tilraunina frá í fyrra, sem mistókst, og vonumst eftir annarri niðurstöðu.
Nei, förum varlega, opnum ekki landið fyrr en óhætt er.
![]() |
Ekki siðferðislega réttlætanlegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 2. mars 2021
Danir gefast upp á ESB
Danmörk leitar til Ísrael í von um að fá nauðsynleg bóluefni í baráttunni við Kínaveiruna.
Evrópusambandið sem vill sam-evrópska bólsetningu fær þar með rauða spjaldið frá Dönum.
Einhverjir snillingar í íslenska stjórnarráðinu bundu trúss sitt við ESB í bóluefnamálum. Það ráðslag var ekki vel ígrundað. Svo diplómatískt orðalag sé notað.
![]() |
Danir vonast eftir samstarfi við Ísrael |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 2. mars 2021
Engin kreppa, aðeins leiðrétting
Vöxtur ferðaþjónustunnar árin fyrir kófið var ósjálfbær. Hvorki vinnumarkaðurinn né innviðir landsins þoldu álagið frá tveim milljónum ferðamanna.
Verkefni stjórnvalda næstu misseri er að sjá til þess að þessi geiri efnahagslífsins ná sér á strik á hóflegri forsendum en voru fyrir kófið.
Lúxusvandamálin geta verið snúin en þau þarf engu að síður að leysa.
![]() |
Kórónukreppan minni en spáð var |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 1. mars 2021
3 RÚV-fréttamenn sitja um Áslaugu Örnu
Síðustu 4 daga hafa þrír fréttamenn RÚV séð um að halda lífi í símtals-máli Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra. Vaninn er sá að fréttamenn RÚV ganga að einhverju marki sjálfala og eru með ,,sín mál" en í þessu tilfelli unnið eftir miðstýrðri aðgerðaáætlun með tilheyrandi verkskiptingu.
RÚV-arinn Ingvar Þór Björnsson var með símtalsfrétt á föstudag. Í dag skiptu með sér vaktinni fréttamennirnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir og Anna Lilja Þórisdóttir, hvor með sína símtalsfréttina.
Raðfréttir RÚV þjóna því markmiði að telja almenningi trú um að hér sé stórt og alvarlegt mál á ferðinni. Oft og einatt er stofnað til raðfrétta í pólitískum tilgangi og fréttaefninu haldið lifandi í samvinnu pólitísk öfl - þingnefnd í þessu tilviki. Úlfaldi er gerður úr mýflugu og látinn suða í hlustum áheyrenda. Í krafti stöðu sinnar á fjölmiðlamarkaði getur RÚV ráðist í aðgerðir af þessu tagi.
Einhver á fréttastofunni á Efstaleiti sér um að samræma aðgerðir gegn dómsmálaráðherra. Hvaðan skyldi viðkomandi hafa umboð sitt?
![]() |
Eðlilegra að fá embættismann í verkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 1. mars 2021
Leiði, frelsi og tveir kostir
Íbúar Óslóar sæta ströngum sóttvarnarreglum á næstunni vegna nýsmits Kínaveirunnar. Þeir fá leyfi yfirvalda að vera leiðir þegar búðir loka, nema nauðsynjaverslanir, og hitta ekki mann og annan.
Hér á Fróni ber minna á mæðu, líklega skildu forfeður okkar hana eftir í Vík Haraldar lúfu. Aftur er meiri umræða um frelsisskerðingu hér vestra en í átthögunum.
Hér í skjálftalandi þykir sumum það skerða frelsið að bera grímu og hafa ekki leyfi að vera meira ofan í næsta manni en nemur einum til tveim metrum. En trauðla getur það verið spurning um frelsi að stunda persónulegar sóttvarnir.
Frelsi til að stunda ferðir til og frá landinu er aftur hægt að ræða. Þar eru valkostir skýrir. Annað tveggja sættumst við á að setja takmarkanir á ferðafrelsi til og frá útlöndum eða búum við stórfellda skerðingu á athafnafrelsi innanlands með tilheyrandi lokunum á samfélagsstarfsemi.
Valið er einboðið. Við hljótum alltaf að taka frelsið heima fram yfir útlendan veiruskratta. Og erum hvorki mædd né leið yfir þeim kosti.
![]() |
Í dag má vera mæðulegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)