Meydómur og mannorð

Feðraveldið fyrrum gerði kröfu um að stúlka væri óspjölluð er hún gekk í hjónasæng. Meira en hálf öld er síðan að konur á vesturlöndum gátu stjórnað getnaði, með pillunni, og samhliða varð sú þróun giska hröð að bæði kynin stunduðu kynlíf án þess að festa ráð sitt og þykir ekki tiltökumál. Frelsið til að fara með líkama sinn eins og hverjum hentar er rótfast í menningunni.

Á þetta ber að minnast í samhengi við umræðu um að þessi eða hinn nafngreindi einstaklingur hafi ekki hagað sé sem skyldi við kynlífsathafnir. Áður en lengra er haldið: kynlíf þar sem ofbeldi, þvinganir og hótanir koma við sögu köllum við nauðgun og er réttilega fordæmt af samfélaginu. Hegningarlög og dómavenjur mæla fyrir um refsingu. Jú, það getur verið erfitt að koma við sönnun og fyrir fórnarlamb nauðgunar er þrautin þyngri að kæra og beygja sig undir lögreglurannsókn og mögulega saksókn eða jafnvel frávísun vegna skorts á sönnunargögnum. En það flýtur af eðli máls. Kynlíf, hvort heldur það er með samþykki þátttakenda eða nauðgun, fer ekki fram fyrir opnum tjöldum. Vanalega eru aðeins tveir til frásagnar. 

Þegar nauðgun sleppir fer kynlíf fram með ýmsu móti. Það getur verið stuttur aðdragandi eða langur. Þátttakendur þekkjast stundum vel, en til er í dæminu að kunnugleiki sé lítill eða alls enginn þegar athöfnin fer fram. Engin opinber skilgreining er til á eðlilegu kynlífi nema hvað að útlimir og kirtlar koma oftast við sögu, frá munnvatnskirtlum niður í æxlunarfæri. Sjálft fyrirbærið, kynlíf, er teygt og loðið þótt líffærin séu þekkt.

Það gefur auga leið að margvíslegur misskilningur er mögulegur í aðdraganda, framkvæmd og eftirmála kynlífs. Tilfinningar eru í spilinu, ástarorð höfð í frammi sem hafa ólíka merkingu í huga þeirra er gefa sig til hvílubragða. Þegar þeir sem kynlífið stunda þekkjast lítið má gefa sér að þeir leggi gagnólíka merkingu í það sem fram fór. Sá sem býr að reynslu tekur allt annað frá athöfninni en nýgræðingur. Það liggur í hlutarins eðli. Það sem einum finnst léttvægt er öðrum háalvarlegt. Frásögn sem gefin er síðar er auðveldlega lituð af væntingum og vonbrigðum.

Samt er tómt mál að tala um forskrift að kynlífi eða gera kröfu um undirbúning væntanlegra iðkenda. Foreldrar ættu að útskýra þetta með býflugurnar og blómin, og helst eitthvað ítarlegra en það, en lengra nær það ekki. Ekkert opinbert vald getur lagt línur um hvað sé við hæfi og hvað ekki. Nema, auðvitað, það sem sagði um nauðgun hér að ofan.

Í viðtengdri frétt er sagt frá manni sem borinn er sökun um alvarleg kynlífsbrot og jafnvel nauðgun. Tilfallandi athugasemdir fundu að því hvernig staðið var að málinu. Nafnlausum sögum var safnað, e.t.v. ritstýrt, og þeim komið á framfæri af samtökum sem heita Öfgar - réttnefni það.

Nú er hafin undirskriftarsöfnun til stuðnings Ingó veðurguð, eftir að staðarhaldarar þjóðhátíðar í Eyjum ákváðu að hann skyldi ekki leiða brekkusöng vegna málatilbúnaðar Öfga.

Liðakeppni milli stuðningsmanna Öfga og aðdáenda veðurguðsins er leikur án reglna og fyrirséð að allir tapa. Höfundur Tilfallandi athugasemda þekkir ekkert til Ingó veðurguðs og aðeins eitt dægurlaga hans, Í kvöld er gigg (harla skemmtilegur smellur það). Hvernig á maður að bera sig að til að gera upp hug sinn? Stúdera nafnlausu sögurnar eða hringa í vini og vandamenn veðurguðsins? Og ef maður gerir hvorutveggja, yrði maður einhvers vísari?

Það sjá vonandi allir heilir á dómgreind að við getum ekki búið í samfélagi í sæmilegum friði þegar liðakeppni er um æru og mannorð manns og annars og einu málsgögnin nafnlausar sögur. Í villta vestrinu var auglýst eftir útlögum lifandi eða dauðum en aðeins að undangengnum formlegum úrskurði opinbers aðila. Á félagsmiðlum eru aftökusveitir gerðar út í lokaðri spjallrás. Mannorðsmorðið er fullframið þegar það kemur fyrir sjónir almennings.

Um 130 konur skrifuðu undir aftökutilskipun á manni sem ekki fékk færi á að svara ásökunum um alvarleg afbrot áður en aftakan fór fram. Allar eiga konurnar væntanlega föður, einhverjar eiga bræður, eiginmenn og syni. Ef þessi aðferð til að ná fram réttlæti verður viðurkennd og tíðkuð munu margir saklausir eiga um sárt að binda áður en yfir lýkur. 

 


mbl.is Yfir þúsund manns skrifað undir til stuðnings Ingó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskólamenntun: betra eða verra samfélag?

Háskólamenntaðir fá ekki starf við hæfi eftir útskrift og gerast aðgerðasinnar/andófsmenn gegn samfélaginu sem fóstraði þá. Á þessa leið er kenning Peter Turchin, sem m.a. Economist telur eitthvað til í. Aðrir andmæla, segja gögn ekki styðja kenninguna.

Leiðari Viðskiptablaðsins segir þverrandi tekjur af aukinni menntun enda eykst eftirspurn ekki í takt við aukið framboð.

Bæði Peter Turchin og Viðskiptablaðið gera ráð fyrir að menntun sé fyrst og fremst til að auka tekjur og mannaforráð.

Menntun var einu sinni til að auka skilning manna á sjálfum sér, samfélaginu og henni veröld. Menn lærðu iðn til að afla tekna, Sókrates var steinsmiður, urðu stjórnmálamenn eða herforingjar til að fá mannaforráð.

Meiri menntun í sígildum skilningi er til velfarnaðar, bæði einstaklinganna sem hennar njóta og samfélagsins. Aftur getur sá misskilningur, að menntun eigi að færa manni auð og völd, orðið til tjóns.


Gunnar Smári ætlar ekki á þing - en ætlar samt

,,Ég hef sjálfur engin áform um að fara á þing. Ég sé mig ekki fyrir mér í ræðustól Alþingis að tala um fundarstjórn forseta. Ég er bestur í að byggja upp baráttuna og halda utan um hana, ekkert ósvipað og ég byggði upp blöð á sínum tíma."

Sagði Gunnar Smári fyrir ári.

En nú ætlar Gunnar Smári í framboð til alþingis.

Blöðin sem kappinn ,,byggði upp" urðu öll gjaldþrota.

Spurningin er hvort Sósíalistaflokkur Gunnars Smára verði verði gjaldþrota fyrir eða eftir þingskosningarnar.


mbl.is Gunnar Smári gefur kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-sósíalismi og Austur-Evrópa

Austur-Evrópa liggur á milli kjarnaríkja Evrópusambandsins, Frakklands og Þýskalands, annars vegar og hins vegar Rússlands.

Við lok kalda stríðsins hrúguðust Austur-Evrópuríki inn í Evrópusambandið til að slíta sig laus frá sovét-kommúnismanum. En þegar frá leið runnu tvær grímur á fyrrum undirokaðar þjóðir Sovétríkjanna.

Á daginn kom að ESB-sósíalisminn var ágengari en búist var við. Frá Brussel komu skilaboð um hvernig innanríkismálum skuli háttað, t.d. dómskerfum. Tilskipanir að taka við hælisleitendum frá Afríku og miðausturlöndum féllu í grýttan jarðveg þjóðríkja nýlega laus undan framandi hugmyndafræði. Til hvers að losna undan kommúnisma en í staðinn múslímavæðast?

Bæði Pólland og Ungverjaland eru langþreytt á afskiptasemi ESB og tilraunum að skapa Stór-Evrópu. Í fersku minni er hvernig fór fyrir draumnum um Stór-Þýskaland fyrir miðja síðustu öld.

Frá aldamótum hækkaði veldissól Evrópusambandsins. Nýr gjaldmiðill bar með sér væntingar um eitt efnahagskerfi. Brussel virtist ætla að verða þungamiðja nýrrar heimsskipunar alþjóðahyggju. Austur-Evrópa lét sér annt um ESB-aðildina til að verða ekki eftirbátur og  missa af framþróuninni sem virtist öll vestræn og merkt kratískum sósíalisma.

Þrír atburðir um miðjan síðasta áratug breyttu öllu um stöðu ESB, þótt hvorki Samfylking né Viðreisn skilja það enn hér heima á Fróni. Ekki beittustu hnífarnir í skúffunni að greina alþjóðamálin íslenskir hægri- og vinstrikratar.

Atburðirnir þrír eru Brexit, sigur Trump og þráteflið í Úkraínu. 

Brexit vængstýfði ESB, sýndi að fullvalda þjóð bæði getur og vill fara úr klúbbnum. Brexit afhjúpaði þá falssýn að ESB væri söguleg nauðsyn. Trump sagði Bandaríkin ekki ætla að fjármagna Nató til ánægju og yndis fyrir ESB og fagnaði Brexit. Bandaríkin í tíð Obama hjálpaði ESB, notaði til þess Nató, að færa Úkraínu undir áhrifasvæði Brussel-valdsins. Trump setti stopp á slíkar fyrirætlanir og Biden lyftir litla fingri í þágu útþenslu ESB. Trump er ekki lengur forseti en Washington hefur breytt um stefnu gagnvart ESB. Veldissól Brussel hnígur.

Austur-Evrópuþjóðir eru líklegar á næstu árum að finna sér tilvist á milli ESB og Rússlands. Um sinn verða þær áfram í ESB en munu tregast við að innleiða frjálslynda alþjóðahyggju. Rússland undir Pútín er ekki smituð af frjálslyndisöfgum um þrjú, fimm eða sjö kyn og ómenningu fjölmenningarinnar.

Sósíalísk alþjóðahyggja ESB rann sitt skeið fyrir hálfum áratug. Það eru þó ekki allir sem hafa kveikt á perunni.


mbl.is „Sá eini sem opnar kampavínið er Pútín“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómgreindardauði

Fjórar tilkynningar um öldauða bárust lögreglunni í nótt. Tæki lögreglan við tilkynningum um dómgreindardauða hefðu þær orðið þrisvar sinnum fjörtíu og tíu betur um helgina.

Dómgreindardauði er að skrifa upp á nafnlausar ásakanir um alvarlega glæpi í þeirri von að þær reynist sannar.

Ólíkt öldauða ber dómgreindardauður ekki utan á sér annarlegt ástandið.

 


mbl.is Mikið um öldauða í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kvöld er gigg

Nauðgun er glæpur. Kynferðisleg áreitni er allt frá því að vera ósiðleg yfir í lögbrot.

Að þessu sögðu gildir einnig að sérhver er saklaus uns sekt er sönnuð. Það er samfélaginu ekki til framdráttar að nafnlausar sögur hirði atvinnu og æru af meðborgurum okkar.

Glæpamenn fá yfirleitt makleg málagjöld. Glæpahneigð er sjaldnast ein báran stök. Aftur verður besta fólki það á að hrífast með múgæsingunni og fordæma án þess að vega og meta.

Ásökun má ekki jafngilda sekt. Þá getum við allt eins yfirgefið siðmenninguna og tileinkað okkur steinaldarmenningu.

 

 


mbl.is Ingó veðurguð sakaður um kynferðisofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri græn: hjáleigan sem varð höfuðból

Samfylkingin var stofnuð um aldamótin til að verða ,,hinn turninn" í íslenskum stjórnmálum. Tveggja turna módelið gerði ráð fyrir að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur kepptust um að leiða landsstjórnina.

Til vinstri við Samfylkingu skyldi vera hjáleigan Vinstri grænir, jaðarflokkur sem hirti óánægjufylgi frá höfuðbólinu og yrði þénug hækja með sína fimm til sjö þingmenn.

Vinstri grænir mælast núna þriðjungi stærri en Samfylking. Hvernig varð hjáleigan höfuðból?  Hvers vegna féll Samfylkingarturninn?

Stutta svarið er að Vinstri grænir urðu mannasættir í íslenskum stjórnmálum en Samfylking flokkur uppþota, vantrausts og almennra leiðinda.

Samfylkingin varð turninn í landsstjórninni með kosningasigrinum 2009 og tók Vinstri græna með sér í Jóhönnustjórnina 2009-2013. Slagorð Samfylkingar var ,,ónýta Ísland". Pólitíkin hét ,,stétt gegn stétt"; landsbyggð gegn þéttbýli, launamenn gegn atvinnurekendum, góða fólkið gegn því vonda og svo framvegis. Ónýta Ísland þýddi að krónunni skyldi fargað, stjórnarskrá lýðveldisins sömuleiðis og fullveldið flutt til Brussel með ESB-aðild Íslands.

Þjóðin sagði álit sitt á Jóhönnustjórninni vorið 2013. Samfylkingin fór úr 30 prósent fylgi í 12,9% og Vinstri grænir féllu úr 20% í 10,9%.

Munurinn á höfuðbóli og hjáleigu vinstrimanna eftir kosningarnar 2013 er að Vinstri grænir drógu þann lærdóm að óvinafagnaður er ekki góð pólitík til lengdar. Samfylking, aftur, forhertist, gerði óformlegt bandalag við Pírata um að halda lífi í hugmyndafræðinni um ónýta Ísland. Hagsmunahópurinn á Efstaleiti varð áróðursmiðstöðin og framleiddi fréttaskáldskap er hæfði hugmyndafræðinni. 

Hass-útgáfa Samfylkingar, Björt framtíð, fékk aðild að landsstjórninni með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn vetrarnótt í janúar 2017. Hún féll að hausti þegar RÚV spann samfylkingarspuna um að barnaníðingar ættu athvarf í Valhöll.

Haustið 2017 öxluðu Vinstri grænir ábyrgð, sögðu skilið við óreiðuna á höfuðbólinu, og mynduðu sitjandi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Í stað undirmála voru gerðar málamiðlanir. Heimtufrekja vék fyrir sanngirni. En, það sem mest var um vert, þá taldi stjórnarráðið ekki lengur Ísland ónýtt.

Þannig varð hjáleigan höfuðból.

 

 

 


mbl.is Samfylking aldrei minni og Sósíalistar fengju mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsókn til Gulla, Macron daðrar við Kötu en Pírata-Sunna í kuldanum

Svetlana frá Hvíta-Rússlandi átti notalega stund með Gulla utanríkis. Í gær birtist mynd af Macron í daðursstöðu andspænis Kötu forsætis.

Heimsóknir stjórnmálamanna þjóna bæði diplómatískum tilgangi og pólitískum. Pundið lækkar hjá stjórnmálamönnum sem enginn nennir að tala við.

Nærveru Þórhildar Sunnu pírata ekki óskað í Rússlandi. Píratinn er þjált verkfæri vestræns áróðurs gegn Rússum og verður fyrir vikið persona non grata þar eystra.

 


mbl.is Vel fór á með Svetlönu og Guðlaugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logi og litla gula hænan

Litla gula hænan er dæmisaga um sjálfsbjörg og atorku annars vegar og hins vegar samfylkingarhneigðina að taka sinn hlut á þurru. Litla gula hænan sáði, þreskti og malaði kornið og bakaði brauðið. Hænan leitaði eftir aðstoð en fékk ekki. Aftur vildu öll samfylkingardýrin njóta góðs af og éta fullbakað brauð. 

Á Íslandi er meiri launajöfnuður en á öðru byggðu bóli. Sumir eru lunknir að ávaxta fé sitt, einhverjir eru duglegir fjáröflun og enn aðrir fæðast af efnuðum foreldrum. Forsjálir búa í haginn til elliáranna en fyrirhyggjulaust óreiðufólkið safnar ekki í sjóði heldur sólundar. Þannig er mannlífið. Allir nema örfáir, sem verða fyrir tjóni á líkama eða sál seint eða snemma á ævinni, geta unnið fyrir sér og lifað mannsæmandi lífi.

Logi formaður Samfylkingar fór yfir akurinn í leit að kosningasmelli. Þjóðráð Loga var að spyrja fjármálaráðherra um ríkustu Íslendingana. Ekki til að læra og skilja bjargálnir og auðsöfnun heldur kynda undir öfund.

Samfylkingardýrunum í sögunni um litlu gulu hænuna fannst súrt í broti að fá ekki að éta brauðið sem þau nenntu ekki að gera að veruleika. Logaútgáfa sögunnar endar svona: skattleggjum helvíska hænuna og fáum brauðið án þess að vinna til þess. Lifi heimtufrekjan, niður með auðvaldshænur. 


mbl.is Ríkustu 5% eiga tæplega 40% af eigin fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga á vesturlöndum, kosningar á Íslandi

Um 2 til 4,5 prósent verðbólga er í BandaríkjunumBretlandi og hagkerfi evrulanda. Fyrir skemmstu var verðhjöðnun vandamál í iðnríkjum en nú er það verðbólga.

Lágir vextir undanfarin ár búa til eignabólur, einkum á fasteignamarkaði. Ísland er í takti við vestræn hagkerfi. Verðbólgan er 4 prósent á Fróni og fasteignamarkaður á blússandi siglingu.

Ólíkt Íslandi eru vestræn iðnríki ekki vön að fást við verðbólgu. Sumir, t.d. Ambrose Evans-Pritchard í Telegraph, spá verulegu höggi á eignaverð, fasteignir og verðbréf, þegar seðlabankar hækka vexti til að hemja verðbólguna.

Álitamál er hvort yfirstandandi verðbólguskeið sé tímabundin afleiðing af endurræsingu efnahagskerfa eftir dvala kófsins. En fyrir farsótt höfðu vextir verið lágir til að halda efnahagslífi gangandi andspænis verðhjöðnun. Það eykur verðbólguþrýsting sem og útgjaldagleði Biden forseta vestan hafs, sbr. áfasta frétt.

Fyrirsjáanlega glíma vestræn ríki við verðbólgu og hækkandi vexti næstu tvö árin hið minnsta.

Vestrænn verðbólgudraugur og hækkandi vextir spila rullu í kosningum til alþingis í september. Stjórnmálaflokkar eins og Samfylking og Viðreisn hafa frá stofnun klifað á þeim pólitísku skilaboðum að Ísland sé eins og álfur út úr hól á vesturlöndum. Krónunni verði að farga og binda hagkerfið í ESB-fjötra til að það hlaupi ekki út undan sér í verðbólgu og hávexti, hefur verið viðkvæðið.

Það verður holur hljómur í efnahagspólitík Samfylkingar og Viðreisnar þegar útlöndin standa illa. Eina von Pírata er spæna upp spillingarumræðu.

Borðið er dekkað fyrir sæmilegustu útkomu stjórnarflokkana í september. 

 


mbl.is Biden kynnir innviðauppbyggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband