Engin kjörbréf, ekkert alþingi - halelúja

Á meðan þjarkið um talninguna í NV-kjördæmi stendur verða engin kjörbréf gefin út. Án kjörbréfa kemur nýtt alþingi ekki saman.

Enda ríkir friðsældin ein í samfélaginu.

Er nokkur ástæða til að gefa út kjörbréf fyrr en á nýju ári, í fyrsta lagi?


Blaðamaður, sjarmerandi, siðblindur - og afhjúpaður

Hann var stjörnufréttamaður. Ungur, sjarmerandi, sópaði til sín verðlaunum og fékk 100% stuðning atvinnuveitenda sinna til að afhjúpa svindl, spillingu og annan heimsóhroða.

Claas Relotius gekk allt í haginn þangað til annan blaðamann, Juan Moreno, tók að gruna stjörnublaðamanninn um græsku. Báðir störfuðu á Der Spiegel, virtri útgáfu í Þýskalandi. Moreno var rakkaður niður fyrir að efast um trúverðugleika ljúflingsins með sjarmann. En, til að gera langa sögu stutta, var Claas Relotius afhjúpaður. Hann reyndist raðlygari, skáldaði og kallaði fréttir.

Eftir afhjúpunina tékkaði Relotius inn á geðdeild í Suður-Þýskalandi, að eigin sögn, en það sást til hans á sama tíma í Hamborg í Norður-Þýskalandi úti að hjóla. Ímynduð vist á geðdeild er siðlausum blaðamönnum einkar hugleikin.

Relotius eru allar bjargir bannaðar í Þýskalandi. Hann skrifar núna fyrir bókmenntatímarit í Sviss. Svipað og íslenskur blaðamaður af stalli fallinn skrifaði vertíðarfréttir í færeyskt héraðstímarit.

 


Heimakennsla og hæglætislíf

Mosfellsk móðir, Sólveig Svavarsdóttir, bjó til heimaskóla fyrir son sinn og það virðist virka. Sólveig fylgir hugmyndafræði sem kennd er við hæglæti.

Skólar henta flestum börnum en ekki öllum. Heimanám er valkostur sem ætti að kanna nánar.

Heimanám gæti bæði hentað nemendum í grunn- og framhaldsskóla. Þegar skólar lokuðu vegna sóttvarna sýndi það sig að heimanám í fjarkennslu virkar. Ekki þó hjá öllum. Sumir þurfa það félagslega aðhald sem fylgir að mæta í skóla. En framhaldsskólakennarar höfðu orð á að heimanámið hefði eflt með nemendum sjálfstæði.

Fyrir utan uppeldisfræðina í heimanámi er hugmyndin um hæglætislíf með ómótstæðilegan þokka. Fegurðin og heimsskilningurinn byrjar alltaf heima.


Gréta, vísindi, trú og pólitík

Loftslagsvá eða ekki er vísindaleg spurning. Hvort er lofthiti jarðar að hækka af mannavöldum eða ekki? Hitastig er hægt að mæla. Ef vísindi eru til einhvers þá eru það mælingar.

Trú er ekki mælanlegt fyrirbæri. Þegar vísindum sleppir tekur trúin við. Trúin er altæk en vísindin sértæk. Enginn getur lifað vísindalegu lífi, til þess eru vísindin of smágerð, svara ekki stóru spurningunum. Maðurinn hefur sem tegund nær alla sína tíð lifað trúarlífi.

Vísindin geta engu svarað um tilgang lífsins en það er einmitt sérgrein trúarinnar. Í vísindum er spurningin um erfðasyndina merkingarlaus. Trúin og syndin eru systur, geta ekki án hvor annarrar verið. 

Gréta Thunberg er ekki vísindamaður. Þegar jafnaldrar hennar voru í skóla til að verða vísindalega læs var Gréta í verkfalli. Jesú fór í eyðimörkina, dvaldi þar í fjörtíu daga og nætur án matar. Gréta fór í 40 daga verkfall en át vel á meðan, annars hefðu foreldrar hennar komist í kast við sænsku barnaverndina.

Skilaboð Grétu til heimsbyggðarinnar eru þessi, skv. viðtengdri frétt: 

„Verið hrein­skil­in um það á hvaða stað þið eruð, um það hvaða mis­tök hafa verið gerð, um það hvernig þið eruð enn að bregðast okk­ur,“ sagði Thun­berg.

„Það er mín sann­fær­ing að ár­angri sé náð þegar fólk nær loks­ins að átta sig á því hvað ástandið er slæmt og því að við þurf­um á mikl­um breyt­ing­um að halda, að við þurf­um að jafna nú­ver­andi kerfi við jörðu vegna þess að þannig verða til breyt­ing­ar.“

Gréta er trúarleiðtogi með pólitíska dagskrá.

Grétufylgjendur bera fyrir sig vísindi en hafa fyrir leiðtoga vísindalega ólæsan mannkynsfrelsara í barnslíkama. Ólæsi er trúarleg dygð. Spámaðurinn, þessi sem apaði eftir Jesú í arabísku eyðimörkinni, var ólæs. Sá sem er læs getur lært á hana veröld. Tossinn þarf á almættinu að halda.

Vísindi og trú eru hvor sín útgáfan af heiminum. Þeir sem trúa á loftslagsvá taka það versta úr hvorri útgáfu. Vísindi vita ekkert um framtíðina; þau mæla það sem er en geta í mesta lagi spáð hvað verður. Trúin veit ekkert um samtíðina en allt um eilífðina.

 

 


mbl.is Thunberg krefst hreinskilni stjórnmálafólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vítahringur ranghugmynda

Ranghugmynd er samkvæmt orðsins hljóðan röng hugmynd um veruleikann. Þegar alvarleg ranghugmynd festir rætur í meðvitundinni fjölgar hún sér líkt og krabbamein og verður að fleirtölu.

Meðvitundin er tvíþætt. Hún er bæði efni og efnislaus. Heilinn er efnið og það efnislausa er kallað hugur, sál fyrr á tíð. Enginn getur gert að efnaferlum í heilanum. Þó með þeim fyrirvara að víma, áfengi og fíkniefni, breytir heilastarfseminni - vanalega ekki til hins betra.

Aftur getur fólk gert sitthvað með huglægan þátt meðvitundarinnar. Forn-Grikkir vissu þetta og lögðu áherslu á uppeldi einstaklings til að úr yrði heilbrigð sál í hraustum líkama. Í uppeldinu lærast bæði siðir og ósiðir, réttar hugmyndir og rangar.

,,Góðmenni breytir á einn veg en níðingur á marga," er forn-grísk orðskviða sem Aristóteles færði í letur. Ranghugmyndir eru uppspretta níðingsverka, stórra og smárra.

Ef níðingurinn er verðlaunaður færist hann allur í aukana og telur sér trú um að ranghugmyndirnar njóti lýðhylli og séu réttar.

En innst inni veit níðingurinn að hann er haldinn ranghugmyndum. Hann reynir í senn að leita sér hjálpar og kenna öðrum um. Til vara segir hann sig ósjálfráðan, veikan. Sjálfsskaði er afleiðing af veruleikafirringu. Það liggur í hlutarins eðli.

Sumir hafa samúð með einstaklingi sem þannig er á vegi staddur. Níðingurinn nýtir samúðina til að fá meðvirkni með ranghugmyndum sínum um sjálfan sig og umheiminn.

Til að brjótast úr vítahring ranghugmynda þarf að viðurkenna að maður sé haldinn þeim. Játning er forsenda betrunar. Hún er gerð í einrúmi eða við skriftastól. Falskar játningar eru aftur gerðar frammi fyrir alþjóð. Til að vekja samúð með ranghugmyndum.


Traustið er ég - ríkið er ég

Ef ég fæ ekki annað tækifæri til að verða þingmaður er ekki lengur neitt traust í þessu samfélagi, eru efnisleg skilaboð fallista í NV-kjördæmi.

Ríkið er ég, sagði Loðvík fjórtándi í Frakklandi og haft til marks um hroka einveldisins.

Traustið er ekki ÉG heldur er traustið almennt eða ekki. Saman eigum við traustið en ekki hvert og eitt okkar. Traust er ekki spurning um einkahagsmuni heldur almannahag.

Látum ekki fallkandídata grafa undan almennu trausti.

 


mbl.is Kærendur kosninga koma fyrir nefnd í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsveldi og heimsmet í trúgirni

Mesti hiti í heiminum mældist í Kaliforníu, 56,7 °C,  og sá lægsti á Suðurskautinu, -89.2 °C. Þarna á milli eru eitthvað 145 gráður.

Heimsveldi, eðli málsins samkvæmt, eru tilbúin í aðgerðir hvar og hvenær sem er í heiminum.

En nú er okkur sagt að heimsveldið riði til falls ef jörðin hlýnar um 4 gráður, sem er hæsta gildi spálíkana um meinta yfirvofandi hamfarahlýnun.

Einhver er að bulla í Pentagon.

 


mbl.is Loftslagsvá ógni þjóðaröryggi Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingólfur, Leifur og loftslagið í Garðabæ

Í fornum sögum íslenskum segir að um 985 hafi Eiríkur rauði haldið til Grænlands. Um 15 árum seinna sigldi Leifur sonur hans heppni til Vínlands. Einnig er getið um Bjarna Herjólfsson sem sá land í vestri frá Grænlandi en kannaði ekki.

Nýjar rannsóknir staðfesta að víkingar hafi tekið land í Ameríku hálfu árþúsundi áður en Kristófer Kólumbus og félagar sigldu yfir hafið.

Byggð Íslendinga á Grænlandi og landafundur Ameríku hófst á svokölluðu miðaldahlýskeiði í loftslagssögunni, um 900 til 1300.

Sá sem fyrstur er sagður norrænna manna hafa tekið bólfestu á Íslandi hét Ingólfur Arnarson, segir í fornum ritum, og það í öndverðu hlýskeiði.

Færri vita að Ingólfur gerði sér híbýli á Hofstöðum í Garðabæ. Sennilega var heilnæmasta loftslagið þar fyrir frjálshuga menn.


mbl.is Náðu að staðfesta ártalið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gréta og sagnfræðingurinn: synd, loftslag og sjálfspíning

Trúin á manngert loftslag helst í hendur við sannfæringu að maðurinn eyðileggi jörðina. Trúin er vestræn, sækir fyrirmynd sína í kaþólska kristni.

Á miðöldum var kennt að sjálfspíning væri trúarlega rétt svar við syndugum allsnægtum. Í nútímanum eru það helst þeir sem glötuðu fyrir skemmstu dýrlingunum Marx og Maó formanni sem sannfærðastir eru í trúnni á manngert loftslag. Syndin og sjálfspíningin haldast þar í hendur.

Gréta Thunberg er endurfæddur barnadýrlingur frá miðöldum, segir sagnfræðingurinn David Starkey og rúllar henni upp á fjórum mínútum.

Amen eftir efninu.


Siðblinda og geðveikt slúður Önnu Sigrúnar

Anna Sigrún Baldursdóttir skrifar bakþanka Fréttablaðsins í dag. Fyrirsögnin er Geðveikt. Bæði Vísir og Hringbraut segja Önnu Sigrúnu senda tilfallandi höfundi pillu í bakþankanum. En líkt og háttur er slægra er skotmarkið ekki nafngreint. Tilgangurinn er að breiða út slúður að hætti Gróu á Efstaleiti.

Anna Sigrún mun vera starfsmaður í heilbrigðiskerfinu og leitar að siðblindu í hjáverkum. Skoðum hvað geðlæknir segir um siðblindu: 

Siðblindir upplifa síður djúpstæðar tilfinningar eins og ást, sorg eða tryggð og eru illa færir um eðlilegt og náið tilfinningalegt samband við aðra manneskju. Þeir eru kaldlyndir, eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og sjá ekki annað fólk sem hugsandi tilfinningaverur. Þetta eru oft sjálfumglaðir og hrokafullir einstaklingar sem hunsa reglur samfélagsins til þess að fullnægja eigin þörfum, sama hvað það kostar, án sektarkenndar eða eftirsjár. Margir siðblindir eru hvatvísir og hafa litla sjálfsstjórn. Ógnandi hegðun og ofbeldi eru hluti af vopnabúri þeirra til að ná markmiðum sínum. Þeir hafa yfirleitt fá eða engin langtímamarkmið heldur lifa fyrir daginn í dag og þeim fer fljótt að leiðast ef ekkert er um að vera til að svala spennufíkninni. Aðrir siðblindir eru minna bráðir og nota persónutöfra, lymskulega stjórnsemi, lygar, svik og blekkingar í samskiptum við aðra. Siðblindir þekkja almennt muninn á réttu og röngu, eru meðvitaðir um afleiðingar gjörða sinna, en þeir taka enga ábyrgð á þeim. Sterk tengsl eru milli siðblindu og beitingar ofbeldis. Um 20% fanga eru siðblindir og  þessir einstaklingar tilheyra hópi erfiðustu og hættulegustu afbrotamannanna.

Ef Anna Sigrún hefði haft tilfallandi höfund í meðferð væri þetta giska grimm og afgerandi analísa. En Anna Sigrún og Páll Vilhjálmsson hafa aldrei hist, svo vitað sé. 

Hitt er vitað Anna Sigrún og Páll hafa hvort sína skoðun á málefnum RÚV og finnst sitthvað um leiksýningar sem þar eru sviðsettar. 

Anna Sigrún færir vinnubrögð RÚV yfir á svið geðsjúkdóma. Útkoman sú sama, slúður án heimilda. Eins og Anna Sigrún segir sjálf: geðveikt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband