Björt framtíð Sjálfstæðisflokksins

Flokkur ESB-sinna úr Sjálfstæðisflokknum gæti þjónað sama hlutverki og Björt framtíð Samfylkingu. Björt framtíð hirðir upp fylgi í nágrenni Samfylkingar og kemur með í hús vinstrimanna eftir kosningar, eins og dæmin sanna.

ESB-sinnar eins og Benedikt Jóhannesson, Ólafur Stephensen og Þorsteinn Pálsson vinna að stofnun hægriflokks með aðild að Evrópusambandinu sem meginmál. Líkur eru á því að spurningunni um Ísland og Evrópusambandið verði svarað á meginlandinu. ESB er ekki raunverulegur valkostur næstu árin sökum þess að sambandið er í efnhagslegri og pólitískri kreppu.

Viðreisn er vinnuheiti flokks ESB-sinna úr röðum sjálfstæðismanna. Til að flokkurinn eigi möguleika verður hann að bjóða upp á meira en ESB-aðild. Og þannig verður Viðreisn Sjálfstæðisflokknum það sem Björt framtíð er Samfylkingu.

Ólíklegt er að Viðreins vaxi Sjálfstæðisflokknum yfir höfuð, eins og Björt framtíð Samfylkingunni i Hafnarfirði.
mbl.is Litlar breytingar á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð, sekt og þroski

Sebastien Junger er blaðamaður með stríð sem sérsvið. Í viðtali vegna frumsýningar á heimildarmynd um hermennsku, Koregal, segir Junger að stríð þroski unga menn til ábyrgðar. ,,Sumir hermannanna áttu ekki bíl heima en keyrðu skriðdreka í Afganistan."

Annað einkenni stríðsreyndra er sektin vegna fallinna félaga. Þeir sem komast frá hildarleik finna oft til sektar vegna þeirra sem fórust. Sekt eftirlifenda er ekki bundin við hermennsku. Gyðingar sem lifðu herförina fundu til sektar.

Eftirlifendasekt eykur vitundina um hve lífið er brothætt enda ræður tilviljun oft lífi og dauða. Byssukúla í enni félaga gæti svo auðveldlega hitt mann sjálfan.

Junger segir stríð gefa mönnum þrótt og tilgang. Hermönnum reynist mörgum erfitt að aðlagast hversdagslífinu á ný enda það einatt þróttlítið og merkingarlaust. Annar þrautreyndur stríðsblaðamaður, Chris Hedges, segir blákalt að stríð sé afl sem gefi okkur merkingu. ,,Við" í orðfæri Hedges vísar til þeirra sem gefa sig í stríðsþátttöku.

Stríð býr að merkingu þvert á menningarheima. Ungir múslímskir karlmenn, sem aldir eru upp á Vesturlöndum, leita sér tilgangs með þátttöku í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi.

Mótsögnin sem felst í því að finna lífi sinu tilgang með athæfi sem deyðir og tortímir er í senn augljós og myrk.

 

 

 


Moskustjórnmál og borgarfulltrúi Samfylkingar

Varaþingmaður Samfylkingar og lögmaður, Helga Vala Helgadóttir, hyggst safna saman meinyrtum ummælum um varaformann Félags múslíma og múslíma almennt og kæra.

Ef Helga Vala hyggst sérhæfa sig í trúarlegum meiðyrðum má benda henni á að nýkjörinn borgarfulltrúi Samfylkingar lét falla orð í garð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sem ekki eru til eftirbreytni.

En líklega er það svo að umburðalyndu samfylkingarfólki leyfist það sem hinum er bannað. Það er jú flokkskontór Samfylkingar sem skilgreinir málfrelsið.


mbl.is Kærir hatursfull ummæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hönnuð samfylkingarfrétt á Stöð 2

Stöð 2 hannaði frétt í þágu Samfylkingar í gær. Fréttamaðurinn Þorbjörn Þórðarson, góðkunningi ESB-sinna og í sérstöku sambandi við Össur Skarphéðinsson yfirplottara, gerði frétt um að einhverjir sjálfstæðismenn vildu segja upp Framsóknarflokki í ríkisstjórn, - væntanlega til að taka saman við Samfylkingu.

Fréttin er liður í allsherjaráhlaupi vinstrimanna á Framsóknarflokkinn vegna þess að oddviti flokksins í Reykjavík vill afturkalla leyfi til múslíma að byggja mosku sem yrði kennileiti höfuðborgarinnar.

Fréttin byggði  á nafnlausum heimildum að stærstum hluta, sem sagt slúðri, og viðtali við ,,frjálslyndan" sjálfstæðismann en það er annað orð yfir þá sem tilheyra samfylkingardeild Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Finnur aðeins fyrir þrýstingi í hnénu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndi, annað orð yfir vinstripólitík

ESB-sinninn Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, brýndi sjálfstæðismenn á kjördag með þeim orðum að tryggja yrði Áslaugu Friðriksdóttur sæti í borgarstjórn. Ívar Pálsson, gallharður sjálfstæðismaður, segir um orð Halldórs í athugasemdum á þessu bloggi

Framsókn fékk án efa þó nokkur atkvæði kjarna- Sjálfstæðisfólks á kjördegi þegar Halldór oddviti lýsti því yfir að bardaginn yrði um að halda Áslaugu inni, en hún væri einmitt úr „frjálslynda“ arminum. Hví ætti þá hinn almenni Sjálfstæðismaður að kjósa? Hvers vegna tók Halldór sérstaklega fram að Áslaug væri „frjálslynd“, sem er orð sem ESB- deildin hefur eignað sér

,,Frjálslynda"-Áslaug staðfestir að hún tilheyrir samfylkingardeild Sjálfstæðisflokksins með því að vera aðalpersónan í hannaðri frétt Stöðvar 2 um að slíta ætti ríkisstjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn vegna þess að framboð flokksins í Reykjavík vill afturkalla lóðaúthlutin í Sogamýri undir mosku.

Þeir sem kenna sig við ,,frjálslyndi" í Sjálfstæðisflokknum óska sér að vinstristjórnmál verði ráðandi í landinu - með aðild að Evrópusambandinu sem höfuðmarkmið.

 


Moska er bygging, ekki mannréttindi

Úthlutun lóðar undir mosku við þjóðbraut hefur nákvæmlega ekkert með mannréttindi að gera, eins og margur vinstrimaðurinn vill vera láta. Talsmaður múslíma segist vilja byggja mosku í Sogamýri til að gera hana að kennileiti höfuðborgarinnar. Moskan mun blasa við öllum sem ferðast um Ártúnsbrekku.

Á miðöldum voru kirkjur byggðar á torgum í Evrópu til að auglýsa trúarlegt yfirvald. Til skamms tíma voru kirkjur á Íslandi byggðar á hólum og hæðum, t.d. Hallgrímskirkja, og eru þar með sýnileg trúartákn. Eftir því sem trú skipar minni sess í andlegu lífi þjóðarinnar er kirkjum fundinn hlédrægari staðsetning en áður.

Múslímatrú er ekki hluti af menningararfi Íslendinga og algerlega ótækt að moska verði kennileiti í höfuðborginni. Sjálfsagt er að múslímar og aðrir trúarhópar fái lóðir undir sín bænahús - en það eiga ekki að vera útsýnislóðir.

Það yrði skipulagslegt og menningarlegt stórslys að byggja mosku við Sogamýri. Hvorki mannréttindi né trúfrelsi koma þar við sögu - það sjá allir nema illa gáttað vinstrafólk.


ESB rifnar í sundur, spurningin er hvernig

Frakkar eru komnir á fremsta hlunn að sprengja upp Evrópusambandið, skrifar Roger Bootle, í Telegraph eftir stórsigur andstæðinga ESB í Evrópuþingskosningum. Ef Frakkar falla útbyrðis verða Þjóðverjar að treysta á bandalag við Breta, er einn af fjórum framtíðarútgáfum ESB, sem Die Welt skrifar um.

Undir þessum kringumstæðum velja leiðtogar Evrópusambandsins nýjan forseta framkvæmdastjórnarinnar, - en það er ígildi forsætisráðherra ESB. Til að auka lýðræðislegt lögmæti ESB var kjósendum í Evrópu sagt að oddviti þess bandalags sem fengi flest atkvæði í Evrópuþingskosningunum hreppti embættið. Samkvæmt því ætti Jean-Claude Juncker að fá embættið en hann er oddviti miðhægribandalagsins, sem er stærst á Evrópuþinginu.

Juncker er stækur sambandssinni. Cameron, forsætisráðherra Breta, verður á ná tilbaka valdheimildum sem Brussel hefur sölsað undir sig ef það á að vera nokkur von til að Bretland verði áfram aðili að Evrópusambandinu. Juncker er of mikill sambandssinni til að gefa nokkurn afslátt af valdheimildum ESB. Og þess vegna getur Cameron ekki samþykkt lýðræðislega kjörinn eftirmann Barrroso í stól forseta framkvæmdastjórnarinnar.

Evrópusamband 28 þjóðríkja þar sem 18 ríki búa við sameiginlegan gjaldmiðil mun ekki halda velli nema fáein ár enn. Uppgjör er óumflýjanlegt.


mbl.is Bretar gætu sagt skilið við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrifasismi skilgreindur

Framsóknarflokkurinn er höfuðandstæðingur vinstrimanna. Það sést á reiðiþrungnum pistlum manna eins og Karls Th. Birgissonar og Illuga Jökulssonar. Vegna hatursáróðurs vinstrimanna gegn Framsóknarflokknum skrifaði Eva Hauks eftirfarandi

þá er skoðanakúgun eitt skýrasta merki fasisma og meira lagi kaldhæðnislegt að berjast gegn rasisma með fasisma.

Vinstrimenn missa sig í skoðanakúgun sökum þess að þeir eru sannfærðir um andlega yfirburði sína og fyrirlíta skoðanir annarra. 

 

 


Framsókn bætti sig, Samfylking tapaði

Framsóknarflokkurinn bætti flestum sveitarstjórnarfulltrúum við sig í nýafstöðum kosningum og Samfylking tapaði flestum fulltrúum. Framsókn fór úr 45 fulltrúum í 49. Samfylking tapaði heilum sjö fulltrúum, var með 42 en fór niður í 35.

Í samantekt RÚV, þar sem þessar tölur eru fengnar, eru yfirburðir Sjálfstæðisflokksins staðfestir. Flokkurinn er með 120 sveitarstjórnarfulltrúa, bætti við sig þrem í gær.

Björt framtíð er stærri en VG á þennan mælikvarða, með 11 fulltrúa á móti níu.

Niðurstaða: vinstriflokkarnir eru enn í lægð og kosningasigur hægriflokkanna á síðasta ári er staðfestur.


mbl.is Árangur ríkisstjórnarinnar hafði áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustsyfirlýsing á stjórnmálakerfið

Eftir hrun riðaði stjórnmálakerfið til falls. Fylgi við dáraframboð Besta flokksins í Reykjavík 2010 sýndi fullkomið vantraust á starfandi stjórnmálaflokkum. Í kjölfarið reyndu ýmsir hópar að gera út á óánægða kjósendur, sbr. fjölda framboða við síðustu þingkosningar.

Í síðustu þingkosningum virtist hætta að fjara undan stjórnmálakerfinu sem heild. Eina nýja stjórnmálaaflið sem náði teljandi árangri var Björt framtíð, sem stofnuð var af tveim starfandi þingmönnum, Guðmundi Steingríms og Róberti Marshall, og er almennt viðurkennd sem útibú Samfylkingar.

Niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna í gær staðfestir að háflæði óánægju með rótgrónu flokkana er liðið hjá. Björt framtíð festir sig í sessi en önnur framboð nýbreyti skoruðu lítt eða ekki.

Ríkisstjórnarflokkarnir mega vel við una. Sjálfstæðisflokkurinn fær góða kosningu í nærfellt öllum sveitarfélögum utan höfuðborgarinnar þar sem Framsóknarflokkurinn er sigurvegarinn

Vinstriflokkarnir vonuðust til að fá aukið lögmæti á landsvísu en varð ekki kápan úr því klæðinu. Með því að þrír vinstriflokkar bítast núna um sama fylgið er hætt við að gamalkunnar innbyrðiserjur vinstrimanna láti á sér kræla.

Lítil kosningaþátttaka er til marks um að stórir kjósendahópar eru sáttir við pólitíkina og finnst ekki nauðsynlegt að láta til sín taka. 

Stjórnmálakerfinu er ætlað að bjóða kjósendum upp á valkosti í kosningum. Íslenska stjórnmálakerfið virkar, það sýndu kosningarnar í gær.


mbl.is D-listi stærstur nema í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband