Menntun er lífsgæði - ekki sósíalískt verkefni

Allir Íslendingar án tillits til efnahags eiga kost á skólagöngu fram á þrítugsaldur. Sumir nota skólagönguna til að mennta sig, aðrir að afla sér starfsréttindina (þetta tvennt getur farið saman) og enn aðrir nota tímann til að slæpast.

Samfélagið býður öllum skólagöngu en það er einstaklinganna að nýta sér tækifærið og afla sér hæfni og færni til að glíma við líf og starf að loknu námi.

Það er engin leið að vita hvers konar hæfni og færni verður metin í atvinnulífinu eftir fimm til 15 ár. Það er einfaldlega ágiskun út í loftið. Við vitum þetta vegna þess að efnahagsspár, sem eru til lengri tíma en þriggja til fimm ára, eru marklausar. Enginn býr yfir hæfni til að sjá lengra fram tímann.

Ef ríkisvaldið myndi leggja línurnar um hvaða eftirspurn yrði eftir lögfræðingum, hagfræðingum, félagsráðgjöfum og kennurum eftir fimm til 15 ár væri það ígildi þess að tilteknum fjölda fólks með þessar prófgráður væri lofað störfum.

Slíkt fyrirkomulag heitir sósíalismi. Tilraunir með sósíalsima voru gerðar í Austur-Evrópu eftir seinna stríð. Heildarniðurstaðan var að tilraunirnar skiluðu ekki lífvænlegu samfélagi.

 


mbl.is Lítil þörf fyrir hópa menntafólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflokkurinn er hinn turninn

Tveir turnar íslenskra stjórnmála eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Í kringum þessa turna þrífst ýmis lággróður, kenndur vinstrimennsku og nördapólitík.

Vinstrimenn eru óðum að átta sig á því að Framsóknarflokkurinn er lykill þeirra að stjórnarráðinu. Vinstriflokkarnir biðla ákaft til framsóknarmanna í gegnum vefmiðla og bloggara. Vinstrimenn vilja öllu fórna, m.a. ESB-umsókninni, til að komast í kallfæri við turninn.

Framsóknarflokkurinn ætti ekki að hlusta á óreiðuöflin sem efndu til óaldar eftir hrun þar sem samfélagshópum var att saman og landshlutum sömuleiðis í ömurlegu ati vinstristjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Sniðmegi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er stórt og þekur breiða millistétt landsmanna. Landsstjórn þessara flokka er farsæl og getur fyrirsjáanlega orðið langæ. En menn verða að vanda sig og sýna gagnkvæma tillitssemi.

Við þurfum á samstöðu turnanna tveggja að halda til að skapa samfélagslegan stöðugleika og leggja nýjar meginlínur eftir hrun og vinstrióstjórn.


mbl.is Mikilvægt að „tapa ekki gleðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

200% bankabónusar og séríslenskir bankamenn

Í frétt Viðskiptablaðsins segir

Samkvæmt núgildandi reglum má hlutfall kaupauka ekki vera hærra en 25% af föstum árslaunum starfsmanns en í tilskipun ESB getur hlutfallið verið 100% af föstum starfskjörum auk þess sem hluthafafundi fjármálafyrirtækis er heimilt að hækka það upp í 200%. Ekki er gert ráð fyrir að hlutfallinu verði breytt í frumvarpinu.

Bankafólk er hvað hæstlaunaði launþegahópur á Íslandi. Bankar eru jafnframt í þeirri lykilstöðu að búa til peninga með útlánum og setja allt efnahagslífið í uppnám riði þeir til falls, líkt og gerðist í hruninu.

Rök bankamanna fyrir því að fá allt að 200 prósent bónus ofan á rífleg laun er að ekki megi setja ,,séríslenskar" reglur um kjaramál bankafólks.

Líklega vegna þess að séríslensku bankamennirnir eru svo eftirsóttir erlendis og það yrði samfélagsskaði að missa þá úr landi.

Eða þannig.

 

 


Framsóknarflokkurinn er lykilflokkur stjórnmálanna

Framsóknarflokkurinn er að upplagi félagslega sinnaður hægriflokkur og stendur sem slíkur jafn styrkum fótum í velferðarsamfélaginu og markaðshagkerfi.

Auk jafnvægis milli félagshyggju og einstaklingshyggju gætir Framsóknarflokkurinn að jafnvægi milli landsbyggðar og þéttbýlis og gerir það betur en aðrir flokkar.

Þrátt fyrir miðlæga stöðu á vettvangi stjórnmálanna verður ekki sagt um Framsóknarflokkinn að hann aðhyllist miðjumoð. Frá flokknum koma róttækar hugmyndir um skipan peningamála. Þegar rök standa til er Framsóknarflokkurinn tilbúinn í uppstokkun þótt eðli flokksins sé íhaldssamt.

Framsóknarflokkurinn leiðir sitjandi ríkisstjórn og gerir það með farsælum hætti sem er því eftirtektarverðara að forysta flokksins og þinglið er skipað ungu fólki sem á eftir að setja mark sitt á íslensk stjórnmál næstu áratugina.


mbl.is Tillögur Framsóknar til flokksþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli/Óli-málið og löggan hans Jóns Ásgeirs

Lögreglumaður hjá sérstökum saksóknara tók upp á því einn góðan veðurdag að vitna í þágu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem gjarnan er kenndur við Baug. Lögreglumaðurinn fann hjá sjálfum sér hvöt að bera sannleikanum vitni.

Vitnisburður lögreglumannsins er ómetanlegur í þágu málsvarnar Jóns Ásgeirs og var kynnt á forsíðu Fréttablaðsins. Óli/Óli-málið er einnig kynnt á forsíðu Fréttablaðsins til að veita öðrum auðmanni hjálparhönd.

,,Nú taka fjölmiðlarnir við," skrifaði ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins í leiðara í von um að lesendur væru ókunnugir þeirri staðreynd að Jón Ásgeir er eigandi blaðsins.

Auðmenn frá tímum útrásar eiga þeirra sameiginlegu hagsmuna að gæta að lenda ekki í fangelsi. Fjölmiðlar á vegum auðmanna sjá um að klæða þessa hagsmuni í trúverðugan búning lögreglumanna og lögfræðinga.


Hægrivelferð og ógnarvæntumþykja

Undirstöðuþættir velferðarsamfélagsins, að heilbrigðis- og menntamál skulu í meginatriðum vera á opinberum forræði, eru þverpólitískir. Hægrivelferð sem Íslendingar njóta byggir á hófsömu ríkisvaldi sem stuðlar að réttlæti og jafnrétti í samfélaginu en kæfir ekki einstaklinginn með alltumlykjandi ógnarvæntumþykju.

Hægrivelferð hafnar því að ríkið eigi að skaffa almenningi húsnæði. Það er ekki hlutverk ríkisins að ákveða hvernig fólk býr, þótt sjálfsagt sé að opinbert fé fari í að aðstoða þá sem höllustum fæti standa í húsnæðismálum. 

Ógnarvæntumþykja ríkisvalds þróast einatt þannig að ógnin vex en væntumþykjan minnkar.

Vinstrimenn eru sérfræðingar í ógnarvæntumþykju.

 

 

 

 


Pútín fyrirlítur Tsipras en er vinur hans

Svikin eru þegin með þökkum en svikarinn er fyrirlitinn. Á þessa leið teiknar þýska útgáfan Die Welt upp samskipti Tsipras forsætisráðherra Grikklands og Pútíns Rússlandsforseta. Fyrirsögn fréttarinnar er: Fyrirlitningin skín af andliti Pútíns.

Tsipras er í Moskvu til að sýna Evrópusambandinu fingurinn. Grikkland er gjaldþrota en vill nýjan björgunarpakka frá Brussel án íþyngjandi skilmála. ESB-ríkin telja tímabært að Grikkir uppfylli samninga sína um uppstokkun á opinberum rekstri.

Evrópusambandið er í viðskiptastríði við Rússa vegna Úkraínu-deilunnar. Að forsætisráðherra Grikklands skuli yfir höfuð fara til Rússlands er svik við samstöðu ESB-ríkja. De Welt tekur saman yfirlit yfir umfjöllun evrópskra fjölmiðla um heimsókn Tsipras með fyrirsögninni Nytsamur fábjáni.

Í Telegraph er haft eftir Tsipras að hann sé forsætisráðherra fullvalda ríkis og sé með fulla heimild til að móta utanríkisstefnu Grikklands samkvæmt því. Með slíkri yfirlýsingu grefur forsætisráðherrann undan tiltrú á Evrópusambandinu.

Pútin Rússlandsforseti má vel við una. Óvinir óvinanna eru vinir hans.

 


Ekki-umræðan um ESB

Evrópuumræðan á Íslandi er löngu hætt að snúast um kosti þess og galla að ganga í Evrópusambandið. Þeir sem mæla með inngöngu, ESB-sinnar, eru löngu hættir að ræða Evrópusambandið og hvað það stendur fyrir og framtíðarhorfur þess.

Nei, öll umræðan af hálfu ESB-sinna gengur út á að halda þjóðaratkvæði um ESB-málið. En það voru einmitt ESB-sinnar sem höfnuðu tillögu Sjálfstæðisflokksins 16. júlí 2009 um að þjóðin fengi að taka afstöðu til þess hvort sótt skyldi um aðild.

Rök ESB-sinna hafa verið þau að ekki væri hægt að taka afstöðu til ESB-aðildar fyrr en samningur lægi fyrir. Eftir að ESB-ferlið strandaði og afturköllun umsóknarinnar komst á dagskrá tóku ESB-sinnar að kyrja þann söng að þjóðin yrði að fá að segja sitt álit á málinu.

Þjóðin sagði sitt álit á málinu í þingkosningunum 2013 þegar eini ESB-flokkurinn, Samfylking, fékk 12,9 prósent fylgi. Þjóðin kaus til meirihluta á alþingi flokka sem eru með margsamþykktar ályktanir um að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.

ESB-sinnar munu halda áfram ekki-umræðunni um Evrópusambandið trúir þeirri hugsjón að betra sé að veifa röngu tré en öngvu.

 


mbl.is Fækkar sem vilja þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi auðmaður, lífeyrissjóðirnir og borgaraleg óhlýðni

Helgi Magnússon auðmaður stjórnar bæði eigin fjárfestingum og fjárfestingum Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Helgi er talinn einn af þeim sem fjármagna sjónvarpsstöðina Hringbraut enda sérstakt áhugamál Helga að gera Ísland að ESB-ríki.

Helgi mun sitja til ársins 2016 hið minnsta í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna að gæta hagsmuna sinna. Helga finnst allt í lagi að vöðla saman einkahagsmunum sínum og hag launþega sem skyldaðir eru til að greiða í lífeyrissjóð sem Helgi stjórnar.

Lífeyrissjóðirnir eru löngu komnir á síðasta söludag þegar menn eins og Helgi valsa þar um sér til hagsbóta.

Borgaraleg óhlýðni sem Sölvi Tryggvason sýnir með því að greiða ekki í lífeyrissjóð gæti orðið fyrirmynd að áhlaupi almennings að Helga auðmanni og félögum hans.

En áður en það gerist mun Helgi auðmaður og félagar hans kaupa þjónustu almannatengla, líkt og Sölvi segir, til að telja okkur trú um að auðmenn viti hvað almenningi er fyrir bestu. Svona eins og í útrásinni. 


mbl.is Sölvi hætti að greiða í lífeyrissjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HÍ, hrunið og deildin með líkin í lestinni

Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands tók þátt í lofgjörð útrásarinnar undir yfirskini rannsókna. Jón Ólafsson prófessor, nú í Hí en áður á Bifröst, skrifaði samantekt um stöðu deildarinnar í tilefni af ritdeilum Snjólfs Ólafssonar prófessors og Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar.

Greinin er fimm ára en segir nokkra sögu um hve hægt en örugglega orðspor tapast í akademíunni þegar farið er út af sporinu. Gefum Jóni orðið

Háskóli Íslands mun halda sig til hlés í þessari umræðu. Innan veggja hans mun enginn setja fram opinbera gagnrýni á viðskiptadeild eða Snjólf Ólafsson, hvorki fyrir kennslu hans eða kollega hans né rannsóknir þeirra. Snjólfur rannsakaði íslensku útrásina og þáði styrki fyrirtækja til þess. Í þeim "sýndi" hann meðal annars að íslenska útrásin væri einstakt fyrirbæri sem líklega afsannaði fyrri kenningar um alþjóðavæðingu í viðskiptum! Staðreyndin er sú að Háskóli Íslands þyrfti að líta í eigin barm, gagnrýna sjálfan sig og gera breytingar í ljósi atburða síðustu ára. En það mun hann ekki gera. Það er vegna þess að hann er um þessar mundir rekinn eins og stórfyrirtæki sem eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta og þar sem allir þurfi að standa saman. Þetta er vandi Háskóla Íslands. 

 

 


mbl.is HÍ stefnir Friðriki Eysteinssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband