ESB án Bretlands - Bandaríkin tapa símanúmeri

Hvert er símanúmerið í Evrópu? á Kissinger utanríkisráðherra Bandaríkjanna að hafa spurt. Bandaríkin bjuggu til Evrópusambandið til að vega upp á móti Sovétríkjunum eftir seinna stríð. ESB átti að vera símanúmerið sem valdhafar í Washington gátu hringt í þegar nauðsyn bar til.

Bretar eru á leiðinni út úr Evrópusambandinu á sama tíma og sambandið er í kreppu, m.a. vegna aðildar að misheppnaðri útþensku í austurátt, sbr. Úkraínu-deiluna, misheppnaðs gjaldmiðils og vangetu til að glíma við flóttamannavanda frá múslímaríkjum.

Evrópusambandið mun liklegast liðast í sundur hægt og rólega. Símasambandið við Washington var líka orðið stirt eftir að kalda stríðinu lauk.


mbl.is ESB-samningur Breta klár í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unglingadrykkja í boði Haga og lífeyrissjóða

Þeir sem versla í Bónus og Hagkaup styðja unglingadrykkju. Hagar, sem reka Bónus og Hagkaup, eru með hannaða atburðarás sem miðar að því að knýja fram lagabreytingu á alþingi til að gera matvöruverslunum kleift að selja áfengi.

Einboðið er að unglingadrykkja mun aukast ef matvöruverslanir fá leyfi að selja áfengi.

Stórir eignaraðilar að Högum eru lífeyrissjóðir.

Er ekki til neitt sem heitir siðaskrá lífeyrissjóða? Má búast við að næst geri þeir út á smálánamarkaðinn - svo að unglingarnir eigi pening fyrir bjórnum?


mbl.is Hagar bjóða upp á Euroshopper-bjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurgreiðsla til fjölmiðla auðmanna

Flestir fjölmiðlar landsins eru í eigu auðmanna. Hugmyndir um að veita ríkisfé til auðmanna að reka fjölmiðla er ekki í þágu lýðræðislegrar umræðu.

Þar fyrir utan er sú stétt sem hefur lifibrauð af starfi við fjölmiðla, blaðamenn, faglega fátæklegasta starfsstétt landsins. Engin fagleg umræða er meðal stéttarinnar og áróður iðulega fluttur sem fréttir.

Menntamálaráðherra ætti að velja sér verðugra viðfangsefni en að niðurgreiða með opinberu fé metnaðarlausa auðmannamiðla.


mbl.is Útilokar ekki að ríkið styðji fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur áreittar úr opnu rými - aðferð til þöggunar

Trúarmenning múslíma afneitar konum aðild að opinberri umræðu, þar með talinni aðild að stjórnmálum. Samkvæmt mannréttindaskrá múslímaríkja er fjölskyldan hornsteinn samfélagsins og karlmaðurinn ber ábyrgð á fjölskyldunni. Af því leiðir á konan að sitja og standa eins og karlinn skipar.

Múslímskir karlar hafa fundið upp aðferð til að þvinga konur frá aðild að opinberri umræðu. Aðferðin felst í því að gera hópárásir á konur sem hætta sér út fyrir heimilið án fylgdar. Hópárásirnar af þessum toga heita taharrush gamea. Þær eru framkvæmdar þannig að hópur karla einangrar konu sem er niðurlægð og meidd, í sumum tilvikum nauðgað. Myndbönd af aðförunum eru skelfileg.

Í samantekt Bt segir að þessi aðferð karllægrar múslímamenningar að misþyrma konum kemur fram um sama leyti og lýðræðisvakning, kölluð arabíska vorið. Lýðræði er vestrænt fyrirbæri og ekki í hávegum meðal múslíma. Lýðræði sem felur í sér jafnrétti karla og kvenna er beinlínis móðgun við trúarmenningu múslíma.

Hópárásir múslímskra karla á konur,taharrush gamea, eru aðferð til að þagga niður í rödd kvenna á opinberum vettvangi.

 


Icesave-nei var sigur þjóðarinnar á ögurstundu

Icesave-samningar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna við Bretland og Holland gerðu þjóðina ábyrga fyrir skuldum einkabanka. Ábyrgðin var tvíþætt; í fyrsta lagi fjárhagsleg og í öðru lagi pólitísk og siðferðileg.

Ráðherrar vinstristjórnarinnar, til dæmis Steingrímur J. Sigfússon, líta algerlega framhjá siðferðislegum og pólitískum þætti Icesave en einblína á þann fjárhagslega.

Icesave-umræðan og tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslan snerist ekki nema að hluta til um peninga. Siðferðislegi og pólitíski þátturinn var til muna veigameiri.

Þegar þjóðin sagði nei í Icesave-þjóðaratkvæði, ekki einu sinni heldur tvisvar, sagði hún líka nei við þeirri ásökun að þjóðin bæri ábyrgð á útrásaróhófi auðmanna og banka.

Þjóðin sagði líka nei við þeim boðskap vinstristjórnar Jóhönnu Sig. og Steingríms J. að Ísland væri ónýtt og yrði að ganga með betlistaf til Brussel og framselja frumburðarréttinn Evrópusambandinu.

Með nei-i fékk þjóðin siðferðilegt þrek til að sameinast í andstöðu við yfirgangsseggi utanlands, Breta og Hollendinga, og úrtöluliðið í stjórnarráðinu. Ef við hefðum látið kúga okkur væri þjóðin brotin og líklega enn með vinstristjórn.  


mbl.is Bjarni: Lokin á leiðinlegum kafla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá-Evrópa í stað Stór-Evrópu?

Evran er ekki notuð í öllum ríkjum Evrópusambandsins. Schengen-samstarfið er heldur ekki með öll ESB-ríki innanborðs. Til að bjarga evru og Schengen gætu tæknikratarnir í Brussel komist að þeirri niðurstöðu að búa til kjarnasamstarf ESB-ríkja, n.k. Smá-Evrópu.

Til þessa hefur hugur sambandssinna í Brussel staðið til þess að smíða utanum um ESB Stór-Evrópu. ESB-ríkin 28 eru ekki tilbúin í slíka tilraun.

Smá-Evrópa nokkurra kjarnaríkja á meginlandi Evrópu gæti verið valkostur við misheppnaða Stór-Evrópu.


mbl.is Verður til „mini-Schengen“?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Bragi lætur undan hótunum

Utanríkisráðherra lét undan hótunum þegar hann féllst á aðild Íslands að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi án þess að leggja á þær sjálfstætt mat út frá hagsmunum okkar. Ráðuneytið viðurkennir í fréttatilkynningu að hafa látið undan þrýstingi með þessum orðum

Viðbrögð samstarfsríkja gætu einnig verið harðari [ef við tækjum ekki þátt í viðskiptaþvingunum, innsk. pv.] Það liggur t.a.m. fyrir að Bandaríkin hafa víðtækar lagaheimildir til að þess að beita fyrirtæki sem eru í samskiptum við rússnesk fyrirtæki á bannlista Bandaríkjanna viðurlögum og útiloka þau frá viðskiptum við bandarísk fyrirtæki...

Hvergi í ítarlegri fréttatilkynningu ráðuneytisins er lagt sjálfstætt mat á aðild Íslands að viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar. Hamrað er á því að þar sem Bandaríkin og ESB ákveða að beita Rússa þvingunum hljóti Ísland að gera slíkt hið sama.

En við eigum ekki að fylgja stórveldum í blindni heldur nota fullveldi okkar til að beita hlutlægri dómgreind á utanríkispólitísk málefni. Við lögðum sjálfstætt mat á aðstæður þegar við viðurkenndum fullveldi Litháa og þótti þá reisn yfir Íslandi.

Úkraínudeilan er dæmigerð stórveldaþræta. Málsaðilar eru Bandaríkin og ESB annars vegar og hins vegar Rússar. Bandaríkin/ESB með Nató sem bakhjarl freista þess að færa áhrifasvæði sitt inn í Austur-Evrópu og hafa gert síðan kalda stríðinu lauk. Úkraína er landfræðilegur fleygur inn í Rússland, sem þolað hafa innrásir frá stórþjóðum ESB, Frökkum og Þjóðverjum, tvær síðustu aldir.

Virtir sérfræðingar í alþjóðastjórnmálum sem skrifa í viðurkennd fræðirit, t.d. J.J. Mearsheimer í Foreign Affairs, segja vesturlönd bera ábyrgð á Úkraínudeilunni. Virtir stjórnmálamenn, sem hafnir eru yfir það að láta kaupa sig, t.d. Helmuth heitinn Schmidt, fyrrum kanslari Þýskalands, segja fyllilega réttmætt af Rússum að yfirtaka Krímskaga eftir að vesturveldin studdu þau öfl í Úkraínu sem steyptu af stóli réttkjörnum forseta, Viktor Janúkovítsj.

Rök vesturveldanna fyrir viðskiptaþvingunum gegn Rússum eru fyrst og fremst vegna Krímskaga, eins og sést á heimasíðu ESB. En Krímskaga byggja Rússar að miklum meirihluta. BBC segir tæplega 60 prósent íbúanna Rússa en aðeins fjórðung Úkraínumenn. Það liggur fyrir að íbúar Krím, og austurhéraða Úkraínu, eiga meiri samleið með Rússlandi en ríkisstjórninni í Kiev. Eiga Íslendingar, sem börðust í áratugi fyrir að losna úr danska ríkinu, að krefjast þess að íbúar Krímskaga leggist flatir fyrir Úkraínska ríkinu? Úkraína er svo gegnumrotin af spillingu að nígerískur prins myndi skammast sín, skrifar Reuters. Úkraínu er stjórnað af auðmannaklíku sem notar völd og vestræna aðstoð í eiginhagsmunaskyni. Við skulum líka muna að Krím var hluti af Rússlandi um aldir þangað til skaginn var á dögum Sovétríkjanna færður með einu pennastriki undir Úkraínu.

Hvorki Gunnar Bragi, í viðtölum við fjölmiðla, né utanríkisráðuneytið, í fréttaflutningi af ákvörðun Íslands um aðild að viðskiptaþvingunum gegn Rússum, láta rök fylgja fyrir opinberri afstöðu Íslands. 

Engan snilling í utanríkismálum þarf til að sjá fyrir þá niðurstöðu að Krím verður hluti af Rússlandi um ókomna framtíð. Öryggishagsmunir Rússlands eru í húfi. Ef að líkum lætur verður samið við Rússa í pakkalausn, eins og stórveldum er tamt, og Ísland mun ekki eiga aðild að þeirri lausn enda Úkraínudeilan okkur óviðkomandi.

Ísland á ekki að láta draga sig inn í stórveldaþrætur sem varða forræði yfir langt-í-burtu-löndum. 


Auðmanna-Eyjan: flöggun og þöggun fjölmiðla

Auðmenn keyptu sér á dögum útrásar fjölmiðla til að flagga þeim málum sem komu málstað auðmanna vel en þagga niður gagnrýna umræðu. Eyjan er auðmannamiðill sem stundar þessa flöggun/þöggun blaðamennsku.

Eyjan klappar þann stein að réttarríkið hafi brugðist auðmönnum. Eyjan hleypur til þegar þeim bætist liðsmaður í baráttunni fyrir málstað auðmanna, t.d. varaþingmaður Samfylkingar.

Réttarríkið afgreiðir mál auðmanna samkvæmt viðurkenndum reglum. Auðmennirnir sjálfir eru á hinn bóginn vanir að fá sitt fram og ýmist flagga eða þagga mál með aðstoð almannatengla og fjölmiðla.

 

 


mbl.is Fjölmiðlar að undirbúa fár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðmundur Andri og moska fyrir kvenhatur

Góða fólkið er orðið að pólitísku hugtaki um fólk tilbúið að segja öðrum fyrir verkum í nafni þeirrar tískuhugmyndafræði sem á upp á pallborðið í það og það skiptið. Eitt einkenni góða fólksins er að lætur fremur stjórnast af óskhyggju en raunsæi.

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur tekur upp hanskann fyrir góða fólkið og býr til andstæðu þess: óða fólkið.

Óða fólkið, segir Guðundur Andri, er á móti moskum og flutningi Vatnsmýrarflugvallar, en góða fólkið er fylgjandi hvorttveggja.

Óða fólkið, segir Guðmundur Andri, er líka múslímsku karlarnir sem niðurlægðu konur í Köln.

En bíðum við: góða fólkið vill sem sagt byggja mosku í Reykjavík til að efla múslímsku trúarmenninguna sem skipar konum á óæðri bekk.

Góða fólkið getur ekki byggt mosku yfir kvenhatur en jafnframt þóst bera kynjajafnrétti fyrir brjósti. Mótsögnin er of augljós til að blekkja aðra en þá hatrömmustu í röðum góða fólksins.

 


Staðgenglastríð Írana og Sáda - vandi múslíma

Í Jemen heyja stórveldi miðausturlanda, íran og Sádi-Arabía, staðgenglastríð. Hvort um sig stórveldið styður andstæða keppinauta um völdin í smáríkinu.

Íran er forysturíki sjítamúslíma en Sádar súnnímúslíma. Utanríkisráðherra írans veitir innsýn í samkeppni stórvelda múslíma með grein í New York Times. Þar fordæmir hann miðaldaháttu Sáda sem taka menn af lífi á opinberum svæðum með sveðju.

Íran hefur ekki þótt barnanna best í umgengni við mannréttindi. Landi er nýkomið inn úr kuldanum eftir samninga við alþjóðasamfélagið um að smíða ekki gereyðingarvopn úr kjarnorku.

Sádí-Arabía er helsti skjölstæðingur vesturveldanna meðal múslímaríkja í miðausturlöndum. Íranir njóta á móti stuðnings Rússa.

Uppgjör múslímsku stórveldanna mun taka áratugi fremur en ár.

 


mbl.is Loftárás á sjúkrahús í Jemen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband