Fimmtudagur, 17. ágúst 2023
Úkraína fái Nató-aðild, Rússar landvinninga
Starfsmannastjóri Stoltenbergs framkvæmdastjóra Nató, Stian Jenssen, viðraði í norskum fjölmiðli, Verdens Gang, þá hugmynd að ljúka Úkraínustríðinu með eftirgjöf á úkraínsku landi gegn Nató-aðild þess hluta Úkraínu er eftir verður.
Frétt Verdens gang fór eins og eldur í sinu um vestræna fjölmiðlaheiminn. Úkraínumenn ná ekki upp í nef sér af hneykslun; þýskur herforingi botnar hvorki upp né niður í starfsmannastjóra Stoltenberg. Kannski er verið að kanna undirtektir? Mögulega að veita innsýn í stöðumatið í Brussel.
Hugmyndin er komin til umræðu og hverfur ekki svo glatt þaðan í bráð.
Christoph Wanner fréttamaður Die Welt í Moskvu segir rússneska ráðamenn taka hugmyndina mátulega hátíðlega. Hann hefur eftir Medvedev, fyrrum forseta Rússlands, að Úkraínumenn verði að flytja höfuðborg sína frá Kænugarði vestur til Lviv, sem einu sinni hét Lemberg - en spyrja í leiðinni Pólverja hvort það sé við hæfi. Þar vísar Medvedev til ágirndar Pólverja á úkraínsku landi. Lemberg var pólsk borg á millistríðsárum liðinnar aldar.
Réttlæting Rússa á innrásinni fyrir hálfu öðru ári var yfirvofandi Nató-aðild Úkraínu sem myndi ógna öryggishagsmunum Rússlands. Einnig var á dagskrá að verja rétt rússneskumælandi minnihluta í Úkraínu. Nú þegar hafa Rússar lagt undir sig Suður- og Austur-Úkraínu. Gagnsókn Úkraínu, sem hófst 4. júní, breytir lítt víglinunni. Frétt í Newsweek hermir að klofningur sé í ríkisstjórn Úkraínu um hvort skuli halda áfram gagnsókninni eða viðurkenna staðreyndir vígvallarins og þyrma mannslífum.
Samkvæmt talningu BBC hafa Rússar að lágmarki misst 25 þúsund hermenn á vígvellinum. BBC telur ekki vopndauða Úkraínumenn en tölur sveiflast á bilinu 150 til 250 þúsund. Rússar eru 4-5 sinnum fleiri en Úkraínumenn. Mannþurrð sverfur fyrr að Garðaríki en Bjarmalandi.
Hugmynd starfsmannastjóra framkvæmdastjóra Nató er til marks um að vestrinu sé farið að lengja eftir stríðslokum. Nató telur möguleika Úkraínu takmarkaða að sækja land í greipar Rússa.
Öllum stríðum lýkur með friði. Flestum vonum seinna.
![]() |
Rússland stefnir í efnahagsöngþveiti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 16. ágúst 2023
Þingmenn gegn eigin þjóð
Þjóðríki stenst ekki án landamæra. Í krafti landamæra eru sett lög sem gilda um þegna þjóðríkisins og þá sem sækja það heim. Í lýðræðisríkjum fara þingmenn í umboði þjóðarinnar með löggjafavaldið. Siðferðisleg og pólitísk ábyrgð þingmanna gagnvart löggjöfinni ætti öllum að vera augljós.
Þingmaður sem hvetur til lögbrota er kominn í stríð þjóðina sem veitir þingmanninum umboð.
Nokkrir þingmenn á alþingi Íslendinga eru ósáttir við íslensk lög um hvernig skuli farið með hælisleitendur sem synjað er um vist á Íslandi að undangenginni málsmeðferð.
Í greinargerð dómsmálaráðuneytisins segir
Þeir sem ekki hverfa af landi brott þegar endanleg synjun liggur fyrir og sýna ekki samstarfsvilja við yfirvöld, teljast vera hér í ólögmætri dvöl.
Hvað gengur þeim þingmönnum til sem koma fram í fjölmiðlum og hvetja til að lög séu höfð að vettugi? Ef þeim þykir sjálfsagt að brjóta lög um útlendinga er ekki jafn sjálfsagt að brjóta önnur lög sem einhverjum þykja óhentug?
Þingmenn sem opinberlega hvetja til lögbrota eiga ekki heima á alþingi Íslendinga.
![]() |
Segir úrræðið ekkert annað en fangabúðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Hælisþingmenn
Þrír lögfræðingar, tveir þingmenn og einn varaþingmaður, hafa þegið laun sem málsvarar hælisleitenda. Lögfræðingarnir þrír eru Helga Vala Helgadóttir þingmaður samfylkingar, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir þingmaður Pírata og Magnús D. Norðdahl, varaþingmaður Pírata.
Þingmennirnir tveir og varaþingmaðurinn líta á það sem hlutverki sitt að níða skóinn af íslensku samfélagi þegar niðurstaða umsóknar skjólstæðinga þeirra um hæli á Íslandi er hafnað. Arnís Anna gengur raunar skrefi lengra og úthlutar skjólstæðingum sínum íslenskan ríkisborgararétt.
Aldrei hafa þingmennirnir, eða varaþingmaðurinn, talað máli íslenskra skattgreiðenda sem horfa upp á misnotkun á fyrirkomulagi sem ætlað er ofsóttum en nýtt af fólki í leit að fríu fæði og uppihaldi.
Falskar umsóknir um hælisvist bita á þeim sem sannanlega þurfa hæli. Hælisþingmönnum stendur á sama. Þeir maka krókinn á fölskum forsendum. Þannig starfar hælisiðnaðurinn.
![]() |
Fyrirséð að hælisleitendur færu á göturnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 14. ágúst 2023
Vestræn góðmennska fóstrar spillingu
Vesturlönd eiga að sýna styrk sinni og yfirburði á alþjóðavettvangi og skapa útlönd í sinni mynd; velmegun, mannréttindi og pólitískan stöðugleika.
Á þessa leið skrifar Janet Daley dálkahöfundur Telegraph. Daley er borgaralegur hægrimaður og öfgalaus, gæti verið kjósandi Sjálfstæðisflokksins ætti hún kosningarétt á Fróni.
Sjónarmið Daley eru án efa þau sömu og margra velviljaðra og hófsamra hægri- og vinstrimanna sem vilja gjarnan leysa stjórnkerfisvanda þeirra ríkja sem ekki teljast vestræn.
Uppskriftin er að taka höndum saman við hófsöm umbótaöfl í framandi ríkjum og hjálpa þeim efnahagslega og hernaðarlega að ná tökum á stjórnkerfi ríkja sinna. Eftir stund, fáein ár eða einn til tvo áratugi, komast heimamenn upp á bragðið og búa sér til vestrænt samfélag. Þar með er ekki lengur neitt ves með flóttamenn. Stór bónus þykir að almennt gildir að vestræn lýðræðisríki efna ekki til styrjalda við nágranna.
Í viðtengdri frétt segir af spillingu í Úkraínu. Þessi tiltekna frétt segir af stórfelldri sölu á undanþágum frá herþjónustu. Yfirmenn herskráningar í öllum héruðum Úkraínu urðu moldríkir á því að selja mönnum undanþágu frá herskyldu. En bíðum við, okkur á vesturlöndum er sagt að Úkraínumenn upp til hópa vilji fórna lífi og limum til að landið fái að vaxa og dafna sem vestrænt lýðræðisþjóðfélag? En svo kaupa menn sig unnvörpum frá herskyldu.
Úkraína er gerspillt, var það löngu fyrir stríðið. Sama gilti í Suður-Víetnam, Írak og Afganistan þar sem störfuðu í lengri eða skemmri tíma vestrænar leppstjórnir. Alls staðar þar sem vestræn góðmennska kemur færandi hendi, hergögn og fjármagn, eru áköfustu viðtakendur þeir spilltustu. Heimamenn ýmist láta sér fátt um finnast eða snúast gegn spilltum valdhöfum og vestrænum bakhjörlum.
Hvers vegna verða þeir spilltustu ávallt helstu bandamenn vestrænu góðmennskunnar? Gefur auga leið. Vestræna góðmennskan vill heyra blekkinguna um að framandi menning geti ekki beðið eftir að verða vestrænar í siðum, háttum og lífskjörum. Þeir spilltu fóðra blekkinguna og verða skjólstæðingar vestursins og auðgast í leiðinni sjálfir.
Daley og sálufélagar taka ekki með í reikninginn að almennt kjósa menn stjórnvald er sprettur úr heimaakri, ekki innflutt góss. Í hverju samfélagi takast á ólík öfl sem verða að finna málamiðlun til að lifa af. Fái samfélög frið til gera upp sín mál kemst á stjórnvald sem hæfir þeim. Ef óvandaðir fá völdin verður stjórnarfarið til samræmis.
Oft verða blóðug átök á meðan þjóðir finna fjölina sína. En hvernig varð frjálsa vestrið til? Tvær heimsstyrjaldir takk fyrir, með helför og atómsprengjur í kaupbæti.
Vestrið á aðeins tvo möguleika á alþjóðavísu. Í fyrsta lagi að koma á vestrænum friði með valdboði og hernaði, líkt og Rómverjar gerðu aldirnar báðu megin við burð Krists. Í öðru lagi að leyfa þjóðríkjum heims að finna taktinn upp á eigin spýtur, reyna að leggja gott til en sættast á að stundum kemur það fyrir lítið og óöldin heldur áfram. Þá er hlutverk vestursins að takmarka skaðann, sjá til þess að innanlandsófriður í einu ríki valdi sem minnstum skaða í nærsveitum.
Í vestrinu er æ minni löngun til hernaðaríhlutunar og ríkisstjórnarskipta í fjarlægum löndum. Það þykir endurtekning á nýlendustefnu frá 19. öld er gaf ekki góða raun. Seinni kosturinn er raunhæfur, halda að sér höndum og leyfa íbúum heimsbyggðarinnar að bera heimafengna bagga. Þeir eru hollastir.
Hvað Úkraínu varðar sérstaklega ætti vestrið að senda þau skilaboð til Selenskí í Kænugarði að láta af blóðfórnum og semja við Pútín.
![]() |
Sagði upp fjölda manns sem sakað er um spillingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 13. ágúst 2023
Lunkinn sölumaður, Jón
Jón Ólafsson hefur selt ónafngreindum útlendingum stóran hlut í vatnsfyrirtækinu Icelandic Water Holdings, segir í viðtengdri frétt, og ætlar að byggja ,,nokkrar verksmiðjur".
Fyrir 12 árum var í fréttum að einn stærsti drykkjarframleiðandi á heimsvísu, Anheuser-Busch InBev, ætti fimmtungshlut í fyrirtæki Jóns og stórbankinn JP Morgan væri líka á hluthafalista.
Núna er gefið til kynna ,,samkvæmt heimildum" að Kínverjinn Jack Ma stofnandi Alibaba sé meðal nýrra hluthafa.
Jón selur jafnt og þétt stóra hluti í fyrirtækinu en alltaf er það hann sjálfur sem er aðaleigandinn.
Fréttir um sölu hlutafjár eru sölumennska sinnar tegundar. Með mörgum fréttum er búinn til trúverðugleiki sem hægt er að selja fjármálastofunum.
![]() |
Jón selur erlendum fjárfestum vatnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 12. ágúst 2023
Hinsegin ritskoðun
Samtökin 22 halda málþing í dag um málefni samkynhneigðra. Málþingið átti að vera í sal Þjóðminjasafnsins í miðborginni. Eftir herferð með tölvupóstum og í samfélagsmiðlum sá Þjóðminjasafnið sér ekki fært að hýsa málþingið.
Eldur Deville skipuleggjandi málþingsins setti færslu á Facebook í fyrradag:
Hver á fundarsal fyrir 100 manns á laugardag milli klukkan. 10.30-17.30 með léttum veitingum, því mig vantar hann núna í miðborg Reykjavíkur. KOSTAÐUR skiptir ekki miklu því Þjóðminjasafnið greiðir!
Þá ályktun má draga að Þjóðminjasafnið hafi látið herskátt hinseginfólk kúga sig, lokað á Samtökin 22 en keypt sér frið með því að borga reikninginn fyrir nýjan fundarstað.
Fjölmiðlar upplýsa almenning ekki um hvað gerðist á bakvið tjöldin. Það má ekki fréttast að á bakvið gleðina er krepptur hnefi, harðdræg ritskoðun og útilokun sjónarmiða sem falla ekki í kramið hjá ráðandi öflum hinseginmenningarinnar.
Ritskoðun og útilokun er þekkt aðferð til að þagga niður önnur sjónarmið í hinseginmálum. Rithöfundinum J.K. Rawling, höfundi Harry Potter bókanna, varð það á að segja kyn skipta máli og karl gæti ekki orðið kona með yfirlýsingu. Herferð til að útiloka Rawling mistókst. Nú er reynt að beita þöggun. Stallsystir Rawling, Julie Bindel, segir ofstækið sækja í sig veðrið.
Ríkjandi kenningar í hinseginfræðum eru m.a.
hægt er fæðast í röngum líkama
kyn er hugarfar, ekki hlutlæg staðreynd
með yfirlýsingu er hægt að skipa um kyn, karl orðið kona, kona karl
Allar kenningarnar eru efnislega og sannanlega rangar. Enda þola þær ekki umræðu.
Að vera hinsegin eru mannréttindi. Hver og einn má hafa hverja þá sannfæringu sem vill, kallast hugsanafrelsi. Um hvaða sannfæringu sem vera skal má stofna samtök, kallast félagafrelsi. En það má efast um sannfæringu annarra og spyrja um rök. Kallast tjáningarfrelsi og er forsenda annarra mannaréttinda.
Án tjáningarfrelsis væri ekkert samkomufrelsi, engin gleðiganga. Þeir sem skilgreina sig sem minnihlutahóp, og telja sig ekki njóta sannmælis, ættu öðrum fremur að standa gegn tilburðum til ritskoðunar, útilokunar og þöggunar.
Gleði með krepptum hnefa sýnir valdhroka, ekki kærleika.
![]() |
Myndskeið: Fjölbreytileikanum fagnað í miðbænum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 11. ágúst 2023
Svandís: veiða hvali, bjarga loftslaginu
Svandís ráðherra matvæla tilkynnti í moggagrein í gær að hún tæki loftslagsmál alvarlega enda heimurinn að farast vegna koltvísýrings. í sama tölublaði blaðs allra landsmanna er frétt um útöndun koltvísýrings frá hvölum. Segir þar
Hver langreyður er talin losa samsvarandi magn af koltvísýringi á ári og ríflega 30 bílar sem eyða sex lítrum á hundraðið og ekið er 14 þúsund kílómetra árlega.
Svandís skellti á hvalveiðibanni í vor. Hvorki var það af umhyggju fyrir loftslaginu né vinnandi fólki til sjós og lands.
Ef Svandís meinar eitthvað með meintum áhyggjum af koltvísýringi í andrúmslofti ætti hún að biðjast afsökunar og aflétta strax hvalveiðibanninu.
Yfir til þín, Svandís.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 10. ágúst 2023
Bjarni Ben., valkostirnir og uppgjörið
Valkosturinn við sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er landsstjórn með Sniðgöngu-Kristrúnu og Samfylkingu innanborðs. Ekki er flas til fagnaðar.
Valkosturinn við Bjarna Ben. í formennsku Sjálfstæðisflokksins er enginn. Punktur.
Brýnasta verkefni formanns Sjálfstæðisflokksins á hverjum tíma er þríþætt. Að halda flokknum saman, að eiga aðild að landsstjórninni og tryggja að flokkurinn sé öflugasta stjórnmálaaflið í landinu. Þrenna hjá Bjarna Ben. (Viðreisnarklofningurinn skrifast ekki á hann, sjá neðar).
Bjarni tók við flokknum í kúltúrsjokki. Samfylkingin stakk flokkinn í bakið eftir hrun, lét móðurflokkinn dingla einan í snörunni. Veganestið sem Bjarni fékk var kratískt, ættað frá aldamótum þegar margur sjálfstæðismaðurinn trúði að hálfsósíalísk alþjóðahyggja með höfuðstöðvar í Brussel væri morgunroðinn í austri. Sjálfur var Bjarni ekki frír af smiti, hélt að hægt væri að taka upp evru án ESB-aðildar, en sá að sér, og leyfði viðreisnarkrötum að sigla sinn sjó. Snjall leikur, kom á daginn. Viðreisn tekur fremur fylgi frá Samfylkingu en móðurflokknum.
Umræðan í sumar er uppgjör við kratasóttina sem Sjálfstæðisflokkurinn tók að smitast af um aldamót, við stofnun Samfylkingar. Alþjóðlegar hræringar skiptu mál. ESB var á flugi, nýr gjaldmiðill gaf til kynna nýtt ríki, Stór-Evrópu. Bandaríkin drógu saman seglin á Norður-Atlantshafi, pökkuðu saman í Keflavík í september 2006. Samfylkingin virtist hafa svörin. Eftir hrun höfðu sjálfstæðismenn ekki einu sinni spurningar, hvað þá svör.
Frá aldamótum hefur gerst að frjálslynd alþjóðahyggja rann sitt skeið. Árið 2016 var vendipunkturinn með Brexit og kjöri Trump. Glæðurnar kulna í Úkraínu. Enginn veit hvað tekur við. Á meðan þarf að halda sjó.
Í innanlandsmálum eru þær fréttir helstar að efnahagsmálin eru í lagi en vandræði á landamærunum. Vaxandi ótti er um tilvist tungumálsins sem, í sögulegu samhengi, veit á veðrabrigði í afstöðu Frónbúa til útlanda.
Séð í þessu samhengi hefur Bjarni Ben unnið kraftaverk á sinni formannstíð og á inni lífstíðarábúð í Valhöll. Sprikl Sniðgöngu-Kristrúnar í skoðanakönnunum er sambærilegt og þegar Píratar mældust stærstir flokka. Þeir sem svara í könnunum veita velmegunarólundinni útrás með fölskum vonum til flokka er þeir síst kysu á kjördegi.
![]() |
Áskorun að halda áfram í langan tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 9. ágúst 2023
Líkami, meðvitund og hamingja
Meðvitundin kemur með líkamanum við fæðingu. Annars er nýburi andvana fæddur. Meðvitundin er tveggja þátta. Í fyrsta lagi heilinn, þar verður meðvitundin til. Í öðru lagi hugsun og sjálfsvitund, sem er óefnisleg afurð heilastarfseminnar.
Heilinn er líffæri sem ekki er hægt að skipta út (þótt sumum veitti ekki af). Flest önnur líffæri, hjartað meðtalið, er hægt að endurnýja. Í versta falli lagfæra eða vera án, sbr. botnlangann.
Velmegun og framfarir í lýtalækningum valda aukinni eftirspurn eftir læknisfræðilegu inngripi sem áður var bundið við slysfarir og sjúkdóma. Réttlætingin er huglæg, ekki hlutlæg.
Sumir vilja skipta um kynfæri með þeim rökum að þeir séu fæddir í röngum líkama. Það er sjálfsblekking. Enginn getur fæðst í röngum líkama. Það er líffræðilegur ómöguleiki. Heilinn, þar sem meðvitundin á heima, fæðist með líkamanum.
Hér áður var orðið ,,sálin" notuð um meðvitundina. Í samtímanum eru það helst trúaðir einstaklingar sem tala þannig. Trúaðir telja sálina eilífa. Guð er aldrei svo vondur og miskunnarlaus að klæða sálina líkama af röngu kyni. Guð gerir ekki mistök. Annars væri hann ekki guð.
Fólki langar oft að líkami sinn sé öðruvísi en hann er; grennri, hærri, stæltari og svo framvegis. Maður getur grennt sig, stælt vöðvana en gerir lítið með líkamshæð og enn minna með kyn. Fólk getur fengið löngun til að vera hitt kynið, eða þriðja, fimmta eða seytjánda kynið. En það er ekki hægt. Kynin eru aðeins tvö. Allir, nema örfá læknisfræðileg frávik, fæðast annað tveggja sveinbarn eða meybarn. Darwin og biblían eru þar á einu máli, fræðin og trúin. Þeir sem segja annað fara með rangt mál.
Löngun fólks til að vera í öðrum líkama en það fékk við fæðingu býr í meðvitundinni. Það er hagkvæmara og heilladrýgra að vinna með meðvitundina, uppræta ranghugmyndir og rækta réttar, fremur en að gera árás á eigin líkama, stunda sjálfskaða í þágu ranghugmynda.
Hvað er til ráða?
Maður byrjar á að vísa út í ystu myrkur falsspámönnum sem boða bull, ergelsi og firru. Að hægt sé að fæðast í röngum líkama, að kyn sé huglægt en ekki hlutlægt og að kynin séu fleiri en tvö. Þar á eftir beitir maður skilningarvitunum til að greina á milli ímyndunar og veruleika. Aðferðin er traust og þaulprófuð. Descartes notaði hana á árnýöld og lagði þar með grunninn að nútímavísindum. (Sem raunar láta á sjá á þessari öld, en það er önnur saga).
Sjálfshjálp, að skipta út röngum hugsunum fyrir réttar, er leiðin til farsældar. Þegar vitið hefur unnið sitt starf er dómgreindinni beitt til að sættast við sjálfan sig, líða vel í eigin skinni, og gera sér að góðu þann skrokk sem maður hefur - og helst fara vel með hann. Forn-Grikkir kölluðu það heilbrigða sál í hraustum líkama.
Hlutverkaleiki, sem börn og sumir fullorðnir stunda, má hafa sér til hugarhægðar. Súperman, Barbie, Messi, Gunnar Hámundarson, Jóhanna af Örk og Hallveig Fróðadóttir eru dæmi um sögupersónur sem má dunda sér við að þykjast vera. Börn læra að flest að greina á milli ímyndunar og veruleika er þau vaxa úr grasi. Fáeinir halda í bernskuna fram á fullorðinsár. Af þeim má hafa skemmtun en aldrei viturleg ráð.
Í lokin er rétt að segja á þessum degi í þessari viku: það á ekki að hleypa lífsskoðunarfélögum í leik- og grunnskóla til að kenna þvætting eins og að kyn sé ágiskun við fæðingu en ekki óvefengjanleg staðreynd. Án staðreynda verður lífsins vegferð stormasöm áttleysa, uppskrift að óhamingju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 8. ágúst 2023
Markmið Rússa í Úkraínu
Enginn veit raunveruleg markmið Rússa í Úkraínu. Réttlæting Rússa á upphaflegri innrás var að koma í veg fyrir að Úkraína yrði Nató-ríki er ógnaði öryggi Rússlands. Eftir rúmlega 500 daga stríð er suður- og austurhluti Úkraínu undir stjórn Rússa, um þriðjungur landsins alls.
Þýskur fréttamaður, Christoph Wanner, er staðsettur í Moskvu og fylgist með sjónarmiðum Kremlarherra frá upphafi stríðsátaka. Hann telur Rússa ekki með endanleg eða afgerandi markmið heldur ráðist þau af þróuninni á vígvellinum. Hann segist þó heyra æ oftar að Rússar ætli sér að gera Úkraínu landlukt ríki með því að ná yfirráðum yfir allri strandlengjunni við Svartahaf. Það fæli í sér að borgin Odessa félli þeim í skaut.
Wanner segir það ekki, en verði Úkraína landlukt, er borin von að ríkið geti staðið á eigin fótum. Efnahagslega, ef ekki hernaðarlega, yrði Úkraína leppríki Rússlands.
Landið sem átti að verða verkfæri Bandaríkjanna, Nató og ESB til að ,,Finnlandisera" Rússland gæti endað sem rússnesk hjálenda.
Þeir sem dag frá degi fylgjast með framvindu átakanna, og eru hlynntir málstað Úkraínu, draga upp æ dekkri mynd af möguleikum stjórnarinnar í Kænugarði að gera Rússum þá skráveifum á vígvellinum er kæmi í veg fyrir ráðagerð Kremlarbænda.
Þannig segir Ukrainka í morgun að eftir tveggja mánaða sókn Úkraínuhers sé varnarlínum Rússa ekki ógnað, herlið Kænugarðsstjórnarinnar kemst ekki að skotgröfunum. Stórskotalið og flugher Rússa sjái til þess. Úkraínu blæðir út í stríði sem gengur út á að drepa sem flesta hermenn andstæðingsins. Rússar séu fjórum til fimm sinnum fleiri en Úkraínumenn. Hægur en öruggur dauði bíði Úkraínuhers.
Standist greining Ukrainka, og verði engar óvæntar vendingar, t.d. bein aðild Pólverja að stríðinu, verður stjórnin í Kænugarði knúin til að óska eftir friðarsamningum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)