Neyðarkall frá Bessastöðum

Tilkynningin á forseti.is lætur lítið yfir sér en segir stóra sögu misráðinna embættisverka og örvæntingar manns sem horfir á eftir orðspori sínu oní skolpið. Í allri sinni dýrð er textinn svohljóðandi (og takk til amx.is að vekja athygli á færslunni)

29. október 2009
Samræða
Forseti ræðir við Gunnar Smára Egilsson og Helga Hermannsson um skipulag á þjóðfélagslegri samræðu og aðferðir sem hægt er að beita til að virkja sem flesta til þátttöku.

Hér þarf smávegis upprifjun. Gunnar Smári var á síðustu öld ritstjóri nokkurra vikurita sem fóru á hausinn; Eintak, Pressan og Helgarpósturinn. Eftir eitt útgáfuævintýrið skrifaði hann pistla í Alþýðublaðið sem síðar voru gefnir út á bók og voru nær samfellt níð um nýkjörinn forseta, Ólaf Ragnar Grímsson. Laust eftir aldamót fengu DV-feðgar, Sveinn R. Eyjólfsson og Eyjólfur, Gunnar Smára og Einar Karl Haraldsson (já, einn besti vinur forseta og núverandi starfamaður á skrifstofu forsætisráðherra) til að ritstýra fríútgáfu Fréttablaðsins. Eins og fyrri útgáfur Gunnars Smára fór þessi á hausinn.

Jón Ásgeir Jóhannesson, kenndur við Baug, sá tækifæri til að verða fjölmiðlakóngur og keypti þrotabúið undir dulnefni, Gunnar Smári flaut með. Þeir Gunnar Smári og Jón Ásgeir bjuggu til forsíðufréttina 1. mars 2003 um að Davíð Oddsson forsætisráðherra stæði á bakvið rannsókn lögreglu á Baugi. Fréttin var skáldskapur og jafnframt eldskírn Baugsmiðla sem reglulega sneiddu framhjá sannleikanum til að hella yfir þjóðina lygi, Baugi og útrásinni til framdráttar.


Þegar Ólafur Ragnar Grímsson undirbjó fordæmalaust ofbeldi forsetaembættisins gagnvart þjóðþinginu lét hann þau boð út ganga að öllum meðölum skyldi beitt til að koma höggi á Davíð Oddsson. Gunnar Smári, fyrrum gagnrýnandi Ólafs Ragnars, varð málpípa hans í fjölmiðlum enda var hann í þjónustu Baugs. Gunnar Smári sá um að réttlæta ofbeldisverkið sumarið 2004 þegar forseti Íslands í fyrsta og eina sinn í lýðveldissögunni neitaði að skrifa undir lög frá Alþingi, fjölmiðlalögin sem áttu að koma böndum á yfirþyrmandi dagskrárvald Baugsfjölmiðla.

Þökk sé forsetanum sigraði ósvífnasti útrásarauðmaðurinn ríkisvaldið. Eftir slaginn um fjölmiðlalögin hafði ríkisvaldið hvorki þrek né þor að standa upp í hárinu á útrásarauðmönnum.

Margt má segja um Ólaf Ragnar Grímsson en vitlaus er hann ekki. Hann finnur fyrir andstyggð þjóðarinnar á sér og fjölmiðlar sem áður voru honum hundtryggir, Baugsmiðlar, er komnir að fótum fram. Með því að leggja upp fund með Gunnari Smára og félaga um ,,skipulag á þjóðfélagslegri samræðu," takið eftir orwellískunni, sendir útrásarforsetinn frá sér neyðarkall.

Morgunblaðinu stýrir núna Davíð Oddsson. Morgunblaðið og Skjár einn eru í samstarfi sem gæti leitt til þess að ný fjölmiðlasamsteypa myndi ná tangarhaldi á markaðnum. Lögin sem Ólafur Ragnar neitaði að skrifa undir áttu einmitt að koma í veg fyrir drottnun fárra á fjölmiðlamarkaði.

Sök bítur sekan, Ólafur Ragnar Grímsson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er ansi merkileg söguskoðun hjá þér Páll að saka Ólaf um ofbeldisverk í fjölmiðlafrumvarpsmálinu.

Það að forseti neiti að skrifa undir lög, þýðir samkvæmt stjórnarskrá að hann áfríi málinu til þjóðarinnar. Það átti því að vera eðlilegt ferli að um þetta væri kosið.  Davíð dregur hinsvegar frumvarpið til baka til að koma í veg fyrir það og hafði enga lagaheimild til þess. Það er fautaverk. Hvers vegna hugnaðist honum ekki að treysta þjóðinni fyrir matinu?

Ég var annars á því að þetta frumvarp hefði átt að ná í gegn og finnst allur þessi málarekstur skandall fyrir þingið.  Spuninn gegn þessu var ótrúlegur og enn ótrúlegra að fólk sæi ekki að þeir sem höfðu hagsmuna að gæta gegn þessu, áttu fjölmiðlana sem ráku áróurinn og spunann.

Það eina sem Ólafur gerði var að áfría málinu.  Hann hafði ekki vald til að hafna því.  Þannig virkar nú lýðræðisfyrirkomulagið. Það var Davíð, sem truflaði það ferli.

Annars er kominn tími á að henda þessu í gegn aftur, eða að láta það verða fyrsta verk nýrrar stjórnar, því ekki má vænta stuðnings frá Samspillingunni, sem enn er óskráð eign Baugselítunnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.11.2009 kl. 18:20

2 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Eina ráðið sem ég get gefið til lærdóms er að farið sé norður í Svínavatnshrepp í Húnavatnssýslu austur, en þar er eitt elsta búnaðarfélag- og lestrarfélag landsins og hafa þar lengið verið góðar umræður og tillögugerðir.

Í kaupfélögum var oft hægt að lenda á málþingi og skrafi, en aldrei hef ég heyrt nokkurn mæla orð í Bónusverslun.

Í göngum og réttum skeggræddu menn um landsins gagn og nauðsynjar en aldrei heyrir maður Íslendinga tala í strætó.

Það þótti góð saga sem var komin til málshefjandi eftir viku.

Allt er þetta að týnast svo það er von að menn hafi áhyggju.

En mér líst nú ekki á að umræður séu skipulagðar frá Bessastöðum.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 4.11.2009 kl. 18:46

3 identicon

 

Spurt er Jóhann Hauksson.  "Því sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?" Matteus 6.7.3

..............

4. nóvember 2009

HVAÐAN KEMUR ÞETTA OFSTÆKI?

Jóhann Hauksson

Hvaðan kemur allt þetta hatur sem virðist hafa grafið um sig í heila Páls Vilhjálmssonar bloggara á mbl.is?

Eitt sinn var hann gagnrýninn blaðamaður og ritstjóri, síðar jafnvel vonarpeningur Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarmálum ef ég man rétt. Held að hann starfi nú hjá Rannís sem blaðamaður. (Hann titlar sig a.m.k. sem blaðamann.)

Nú er hann með harðlífi nær alla daga í skrifum sínum. Í orðavalinu liggur eitthvert hatur, vonbrigði, langrækni, já eitthvert ofstæki. Uppsigað við Baug og  forsetann og horfir á veröldina í gegn um gleraugu sem hann fékk áreiðanlega að láni hjá skrímsladeild Flokksins.

Menn sem umpólast eiga það til að verða kreddufullir og öfgakenndir.

Páll mundi taka sig vel út sem aðstoðarritstjóri á Morgunblaðinu um þessar mundir.

Getur einhver útskýrt fyrir mér ofstækistóninn í pistli Páls sem hér er vísað til?
 
http://www.dv.is/blogg/johann-hauksson/2009/11/4/hvadan-kemur-thetta-ofstaeki/

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 20:09

4 identicon

Það væri ekki ónýtt að fá nánari skýringar Jóhanns Haukssonar hvað fer svona öfugt ofaní hann og rangt með farið í ágætum pistli Páls?

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 20:19

5 identicon

Já, þetta eru nú allt staðreyndir og hvert orð sannleikur um vesalings kjánan sem þessi kjánaþjóð er búin að hafa á beit á baugsstöðum með stórkostlegum kostnaði og útgjöldum, og endar svo ferilinn með stórkostlegu gáleysi með stuðningi sínum við stórglæpamenn og undirmálslýð.

Síðan á heiftar-penninn Jóhann Hauksson að halda sér samann, hann er á launum við að níða niður sjálfstæðisflokkinn og Davíð Oddson, auk annara skítlegra pistla sem hann ritar, það var aumkunarvert að sjá reiðina í manngarminum í Silfrinu um daginn, greinilegt að maðurinn er á barmi sturlunar, enda stjórnað af Hreini dirty 300 mills og Reyni Traustasyni.  

Óli (IP-tala skráð) 4.11.2009 kl. 23:13

6 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ágætt framtak, Guðmundur 2., að líma blogg Jóhanns hér í athugasemdakerfið. Ég átti mig ekki á umhyggju Jóhanns fyrir geðheilsu minni enda við hvorki vinir né vandamenn. Ég hef á hinn bóginn reglulega fengið kveðjur úr Baugsranni með athugasemdum um geðheilsuna - en fjarska heilir á geði þeir Baugsmenn og rakkar þeirra.

Páll Vilhjálmsson, 5.11.2009 kl. 00:20

7 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

enda fjarska heilir á geði þeir Baugsmenn og rakkar þeirra.

Páll Vilhjálmsson, 5.11.2009 kl. 00:24

8 identicon

Vel mælt Páll Vilhjálmsson.

Allt er þetta satt og rétt.

Skrif þín eru hreint afbragð.

Þakkir.

Karl  

Karl (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 08:21

9 identicon

Merkilegt annars að Jóhann Hauksson harmi það að Páll hafi eit sinn verið gagnrýninn blaðamaður.

 Það er Jóhann ekki.

Hann er yfirlýstur stuðningsmaður Samfylkingarinnar og reynir ekki að leyna því í skrifum sínum.

Slíkt telst varla "gagnrýnin blaðamennska" heldur pólitískur áróður.

Góðir og vandaðir blaðamenn stunda ekki pólitískan áróður.

Ef Jóhann fylgdist með erlendum fjölmiðlum myndi hann sjá það.

karl (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 08:23

10 identicon

Eyðið ekki púðri í þetta. Það tekur enginn mark á þessum Jóhanni Haukssyni...

blm (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband