Tilveruréttur Vinstri grænna er í vafa

Ólíkt orðalag Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar á blaðamannafundi þegar ný ríkisstjórn var kynnt vísaði í tvær áttir. Jóhanna Sigurðardóttir talaði um að félagshyggjuflokkarnir hafi náð saman á meðan Steingrímur sagði að í fyrsta sinn hefðu vinstriflokkarnir myndað meirihlutastjórn.

Tilvísanir flokksformannanna eru í gagnólíka menningarheima íslenskra vinstrimanna. Jóhanna er fulltrú krata sem lengstum áttu heimilisfestu í Alþýðuflokknum. Á lýðveldistímanum voru kratar þriðja hjólið undir vagni Sjálfstæðisflokksins. Kratar fengu sinn hlut í hermanginu, voru bitlingasæknir og lögðu undir sig heilu og hálfu embættin, t.d. Tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli.

Steingrímur J. og Vinstri grænir eru á hinn bóginn arftakar róttæka vinstrisins sem byggði Alþýðubandalagið, Sósíalistaflokkinn og stofnaði Kommúnistaflokk Íslands fyrir daga lýðveldisins. Eftir herstöðvarsamninginn við Bandaríkin og inngöngu Íslands í Nató voru róttækir vinstrimenn þjóðfrelsissinnar og leiddu í áratugi baráttuna gegn innlimun Íslands í hernaðar- og menningarveldi Bandaríkjanna. Róttækri vinstrimenn voru sjaldan í stjórn en létu sér það í léttu rúmi liggja, lengi vel eða þangað til þykjustumenn eins og Ólafur Ragnar Grímsson komust til áhrifa.

Bandaríska öldin leið undir lok á alþjóðavísu fljótlega eftir Víetnamstríðið, þótt hryglurnar af tímabilinu hafi heyrst fram undir níunda áratuginn. Í Íslandssögunni hófst aftur Evrópuöldin með sameiningu Þýskalands sem hraðaði samrunaferli Evrópusambandsins og víkkaði út áhrifasvæði þess inn á Norður-Atlantshaf þar sem Bandaríkjamenn létu undan, líkt og annars staðar í heiminum.

Saga og þróun róttækra vinstristjórnmála á Íslandi segir að Vinstri grænir eigi að vera í fyrirsvari fyrir andstæðingum aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hvernig víkur því við að Vinstri grænir skrifa upp á stjórnarsáttmála sem gerir ráð fyrir aðildarumsókn? Eina skýringin er að valdaglýjan hafi borið forystuna ofurliði.

Forysta Vinstri grænna mun reyna að selja þá hugmynd að flokkurinn sé líka grænn og náttúruvernd vegi á móti töpuðu þjóðfrelsi. Það er blekking. Þjóð án forræðis eigin mála hefur álíka not fyrir ósnortna náttúru og geldingur gjafvaxta stúlku.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Páll virðist vera í miklu bloggstuði.Mun ekki trúa því á VG að eiga þátt í því að þjösna okkur inní ESB.Hugsanlega mun ungliðahreyfingin innan VG gera uppreisn gagnvart þeim gjörningi forystumanna VG að þreifa um inngöngu inní þetta ESB-bull.Það var merkilegur pistill á Útvarpi Sögu í hádeginu í dag,en þar var fjallað um að fimmtíu prósent fæðinga í Belgíu,Hollandi,og Frakklandi, væru tilkomin frá Íslamiskum fjöldskyldum.Hjá innfæddum Frökkum væru 1,38 fæðingar á fjöldskyldu,en 8,1 hjá Íslamiskum fjöldskyldum í (að vísu í einhverjum prósentureikningum,per,,hundrað eða svo) Frakklandi.Miðað við þessa fjölgun í Frakklandi,Belgíu,og Hollandi að þá væru Islamistar-Muslimar orðnir fleiri en innfæddir Frakkar eftir 25,ár sama á við í Belgíu og Hollandi.Þá var einnig sagt í pistli þessum að einungis væri um30-40,ár að sama mundi gerast í Svíþjóð og í Danmörku,þá var vitnað í orð Gaddafi Lýbíuleiðtoga að Muslimar myndu ná ætlunarverki sínu um yfirráð yfir Evrópu án vopna. Ekki veit ég hver flutti þennan pistil á Útvarpi Sögu í hádeginu,heyrði ekki byrjunina,ekki líst mér á þessar lýsingar sem þarna voru fluttar.  Evrópusambandið er Hrærigrautur og það vondur í þokkabót.

Númi (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 23:25

2 identicon

Ég held að þetta vinstri hægri tal allt saman eigi ekki við lengur. Mér finnst margt líkt með vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki t.d. þurrpumpuleg afstaða þeirra til ESB og þjóðaratkvæðagreiðslu að aðildarviðræðum loknum. Það er eins og þeir treysti ekki sinni eigin þjóð til að meta það hvort við eigum að fara í ESB.

Forræðishyggja einkennir þetta fólk og mér finnst það ömurlegt lið.

Ína (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 00:27

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

VG hafði úr tveimur flokkum að velja í Þýskalandi sem systurflokka....Die Grünen og PDS, sem eru leifarnar af gamla kommúnistaflokki Austur Þýskalands. Þau völdu vitanlega PDS. Sem sagt meira vinstri en græn.

Haraldur Baldursson, 12.5.2009 kl. 08:27

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ína:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf tekið fram að EF pólitísk ákvörðun yrði tekin um að sækjast eftir inngöngu í Evrópusambandið hefði þjóðin síðasta orðið í þjóðaratkvæði. Sjálfstæðismenn hafa mótað sér stefnu gagnvart sambandinu á liðnum árum og síðan lagt hana í dóm kjósenda í alþingiskosningum. Í stjórnarmyndunarviðræðum hefur Sjálfstæðisflokkurinn síðan lagt þessa stefnu til grundvallar sem flokkurinn hefur verið kosinn til að fylgja m.a. og sem flokksmenn hafa mótað á lýðræðislegum landsfundum. Hvað er ólýðræðislegt við þetta?? Ekki neitt.

Svo má minna á að innan Evrópusambandsins sjálfs gildir talsvert annar og ólýðræðislegri hugsunarháttur. Þar eru teknar pólitískar ákvarðanir um frekari samruna innan sambandsins og allt reynt til þess að þurfa ekki að bera þær undir almenning. Í þau fáu skipti sem það tekst ekki og almenningur segir nei, sem yfirleitt hefur verið raunin, er allt reynt til þess að komast í kringum niðurstöðuna. Ef það tekst ekki er látið kjósa aftur og aftur um málið þar til það er samþykkt og þá er aldrei kosið aftur um það.

Lýðræðislegt?

Hjörtur J. Guðmundsson, 12.5.2009 kl. 11:48

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Vinstri-grænir komust á valdabragðið í starfsstjórninni fyrir kosningar.

Hjörtur J. Guðmundsson, 12.5.2009 kl. 11:52

6 Smámynd: Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson

Kannski eru VG bara skynsamir og átta sig á því að við verðum að leita allra leiða framtíðar lands og þjóðar vegna. Þar með að láta reyna á aðildarumsókn að ESB. Að hafna alfarið umsókn og aðildarviðræðum fyrirfram er algjörlega gegn hagsmunum þjóðarinnar. Svo er það okkar allra að ákveða framtíð okkar utan eða innan ESB.

Grétar Einarsson

Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson , 12.5.2009 kl. 13:45

7 identicon

Það er ekki gott að hafa öll eggin í einni ESB  körfu þeir Eiða Selja og Braska erum við ekki búinn að fá nóg af því. hvað finnst ykkur.

Sigurbjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 14:31

8 Smámynd: Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson

Að minnsta kosti eigum við að láta reina á ESB umsókn því við eigum bara ekkert margar leiðir til lausnar þeim vanda sem við erum í. Sjáum hvað gerist

Kveðja

Grétar

Grétar Einarsson og Óskar Ásgeir Ástþórsson , 12.5.2009 kl. 15:19

9 identicon

Alveg sammála greiningunni hjá þér Páll.

Tilverugrundvöllur VG á sér ekki neina stoð ef flokkurinn ætlar að verða sami afdankaði krataflokkurinn og Samfylkingin.

Ef VG vill áfram verða sterkt stjórnmálaafl þá verður flokkurinn að standa með fullveldi þjóðarinnar og verja lýðveldið og berjast gegn öllum hugmyndum um valdaafsal til ESB.

Annars hefur flokkurinn ekkert raunhæft erindi í Íslensk stjórnmál.

Ja öðruvísi en þá að vera örlítill flokkur sérvitringa og öfga náttúrverndarsinna.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 17:05

10 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

VG hefur fyrir sitt leyti fallist á að það komi fram þingsályktunartillaga á Alþingi um viðræður við ESB. Jafnframt áskilur flokkurinn sér allan rétt til að berjast fyrir sínum málstað og afla honum fylgis.  Og að þjóðin ráði örlögum sínum í þessu máli.  Hverfur tilveruréttur flokksins við það?

Árni Þór Sigurðsson, 12.5.2009 kl. 17:31

11 Smámynd: Oddur Ólafsson

Valkosturinn var kannski sá einn að fara Kvennalistaleiðina, halda meydómnum, en deyja síðan án þess að hafa nokkurn tíman verið í meirihlutastjórn.

Maður heyrir nú alveg sönginn sem hefði ómað ef þessi leið hefði verið farin....

Ég held að málið sé að treysta Steingrími, hann treystir þinginu og þjóðinni og ég er ekkert viss um að hún sé á leið í ESB.

Oddur Ólafsson, 12.5.2009 kl. 18:17

12 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Fólk treysti Vg og þess vegna kaus það flokkinn. Traust er ekki verslunarvara, heldur hvílir á stoðum eins og orðheldni og hreinskilni. Kjósendur vita að þegar stjórnmálaflokkar fara í meirihlutaviðræður þarf að finna málamiðlun. Flokkar eins og Vg mega þó ekki selja meginmál sín ef þeir vilja halda trausti. Framsóknarflokkurinn er annarrar gerðar og má vel við sölu á prinsippum, ef hann hefur einhver.

Með því að skrifa upp á inngönguumsókn sveik Vg kjósendur sína. 

Páll Vilhjálmsson, 12.5.2009 kl. 19:30

13 Smámynd: Sigmar Þormar

Já Árni, Páll Vilhjálmsson á heiður skilinn fyrir alvöru umræðu um Ísland og ESB. Þetta er sú "umræða" sem kallað er eftir af þeim sem daðra við ESB aðild Ísland.  Þannig að við þurfum bara að hvetja Pál áfram.

Hinsvegar tek ég ekki undir harða gagnrýni Páls á forystu VG. Þið haldið að mínu mati einfaldlega vel á málum í því neyðarástandi sem nú ríkir.

Við hvetjum ykkur því einnig áfram.

Sigmar Þormar, 12.5.2009 kl. 19:36

14 identicon

Er lífið tvíbökur eða ertu ósjálfstæður (þ.e. flokksbundinn)?

Það er einkennilegt að þegar póliitík er annars vegar, þá er alltaf einhver fjandans flokkur í grendinni, rétt eins og skúr.

Alltaf gerum við best við fjölskylduna. Því ekki að blekkja fólk og þykjast vera hluti af fjölskyldunni?

Hmmmm. Hvernig ætli pólitískir flokkar og fíkniefnabarónar nálgist okkur?  Ég sé ekki nokkurn mun á dóp-fjármögnuðum stjórnmálamanni og hinum. Ef ég sé ekki nokkurn mun, hvað með alla hina sem gera sér enga grein fyrir raunveruleikanum en taka þátt í veislunni samt sem áður.

Dóp-þrælar eru verðlaus peð. Lætur þú FLOKKINN ráða þér? Ertu peð? Ertu peð sem talar og tjáir sig eða með hæl á hnakkanum? Er til ábyrgt lýðræði heima hjá þér? Þetta eru spurningar sem detta inn og eru forsenda fyrir því að ég gefi einstakling atkvæði mitt, ekki flokk. Á meðan mitt atkvæði telur ekki, þá er ekki til lýðræði á Íslandi.

Flokksræðið er tryggt með eigin flokkræðislögum. Ekkert lýðræði í þeim lögum. Það þarf að afnema flokksræðislögin til að tryggja jafnræði almennings á Íslandi.

nicejerk (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband