Nei, Lilja, svona gerir maður ekki

Kostun utanríkisráðuneytisins á fjölmiðlaumfjöllun um sérstakt hugðarefni ráðuneytisins, þróunarmálum, er skref í ranga átt í fjölmiðlun. Með kostun stjórnvalda á útvöldum viðfangsefnum er tvöfaldri hættu boðið heim.

Í fyrsta lagi verður til fordæmi fyrir því að almannafé verði notað að tala upp og berjast fyrir tilteknum stefnumálum. Þróunarmál eru ekki ýkja umdeild. En hvað ef sjávarútvegsráðuneytið kaupir fjölmiðla að fjalla um kvótakerfið? Innanríkisráðuneytið kaupi umfjöllun um málefni flóttamanna? Iðnaðarráðuneytið fjármagni fjölmiðlaumræðu um raforkusölu með sæstreng? Ráðuneyti væru komnir út í grjótharða pólitík, sem ekki samrýmist hlutlægri og málefnalegri stjórnsýslu.

Í öðru lagi skaðar ríkisfjármögnuð kostun lýðræðislega umræðu. Við búum við meira og minna frjálsa umræðu þar sem einstaklingar, áhugahópar, fyrirtæki og samtök eiga greiða leið að helsta vettvangi umræðunnar, sem er á netinu. Ef ríkisvaldið haslar sér völl á sama vettvangi, og kemur ekki fram undir nafni, heldur breiðir yfir nafn og númer sitt með leppun verður umræðan ekki frjálsari heldur mun tortryggni aukast. Upplýsingar eru metnar í samhengi við þá sem veita þær og koma þeim á framfæri. Komist fjölmiðlar upp á lagið að verða málgögn ráðuneyta og ríkisstofnana er hætt við að almenningur eigi erfitt með að aðgreina frjálsa umræðu frá keyptri. Ógagnsæi ykist og tilfinningin að stóri bróðir, ríkisvaldið, stýrði umræðunni drægi úr trausti, bæði á ríkisvaldinu og fjölmiðlum.

Lilja Alfreðsdóttir er utanríkisráðherra. Engin ástæða er til að ætla að hugmyndin um kostun ráðuneytisins á fréttaflutningi um þróunarmál sé hennar höfundarverk. En Lilja myndi gera frjálsri umræðu gagn ef hún legði þessi áform á hilluna þar sem þau eiga heima.

 

 


mbl.is Greiða fjölmiðlum fyrir umfjöllun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hjartanlega sammála! Er ekki nóg að utanríkisráðuneytið gefur út vefritið "Heimsljós"sem ætlað er að glæða umræðu um þróun og mannúðarmál.-Erum við ekki að gera alltof mikið i þessum efnum,af einskærri þjónkun við stóru þjóðirnar eða bara að sýnast.  

Helga Kristjánsdóttir, 29.11.2016 kl. 00:00

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Sammála. Þróunaraðstoð fær ágætt rými í fjölmiðlaumfjöllun. Við þurfum ekki meira af Stefáni Jóni með geislabauginn og því síður að pólitískra ráðuneytin.

Ragnhildur Kolka, 29.11.2016 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband