Stórsagan um hjálpræðið að utan

Þegar Samfylkingin var á flugi með ESB-stefnu sína voru þeir nokkrir í háskólasamfélaginu, t.d. sitjandi forseti, sem blésu í þær glæður að hjálpræði Íslands kæmi ávallt að utan.

Nýja stórsagan þjónaði þeim tilgangi að réttlæta afnám fullveldis með inngöngu í Evrópusambandið. 'Ísland er einangrað og klúðrar sínum málum og þarf erlenda íhlutun til að þrífast,' var viðkvæðið. Nýja stórsagan var til höfuðs stórsögu sjálfstæðisbaráttunnar um að Íslandi farnast best þegar Íslendingar eru fullvalda í sínum málum.

Áróðurinn um einangrun Íslands var reistur á veikum grunni. Ísland var frá landnámi og fram á litlu ísöld í alþjóðlegri siglingaleið norrænna manna sem settust að á Írlandi, Skotlandi, Færeyjum, Íslandi, Grænlandi og um skamma stund á meginlandi Ameríku. Engin einangrun þar. Þegar norrænir menn, Íslendingar meðtaldir, létu undan síga í siglingum komu til sögunnar enskir, þýskir og hollenskir sæfarendur sem veiddu og stunduðu viðskipti við Íslendinga á síðmiðöldum og fram á nýöld.

Eymd Íslands varð mest þegar erlent yfirvald, danski konungurinn, var sterkast á 17. og 18. öld. Ísland var þá hornkerling út í ballarhafi sem skipti litlu máli fyrir Danakonunga en þó nógu miklu til að láta það ekki úr greipum sér. Nema, kannski, gegn gjaldi eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur rakið.

Áhrifin sem Ísland fær frá útlöndum eru stundum til bóta, t.d. lýðræðishugmyndir á 19. öld, en stundum tómt rugl, eins og galdrafárið á 16. og 17. öld. Hugmyndin sem Samfylkingin reyndi innflutning á, um Stór-Evrópu með einum gjaldmiðli og einu yfirvaldi, er meira í ætt við galdrafárið en lýðræði. Og við gerðum rétt í að hafna tilraun Samfylkingar að einangra Ísland í Evrópusambandinu.

 


mbl.is Fornleifafræðin á nýjum sjónarhóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð samlíking og það var víst að Íslendingar voru sjálfbjarga enda sóttu þeir bjargir allt vestur til Norður Ameríku jafnvel silfur á vesturströnd og finnast búðir á Aleutian eyjunum.  

Valdimar Samúelsson, 15.8.2016 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband