Uppboðsleiðin er áfangi inn í ESB

Uppboð á veiðiheimildum í landhelginni er áfangi til að gera Ísland að ESB-ríki. Í dag eru í gildi takmarkanir á fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi. En útlendingar eru áhugasamir að kaupa veiðiheimildir á fiski í Norður-Atlantshafi.

Færeyingar reyndu uppboð á veiðiheimildum og keyptu útlendingar um 70 prósent þeirra. Færeyingar eru ekki með girðingar gagnvart fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi. Vinstriflokkarnir eru áhugasamir um uppboðsleiðina hér á landi. Steingrímur J. Sigfússon kom fram í RÚV og boðaði tilraunir með uppboð á veiðiheimildum.

Tilraunir með uppboð á veiðiheimildum á Íslandsmiðum munu óhjákvæmilega leiða til lægra verðs en í Færeyjum þar sem útlendingar fá ekki að bjóða í heimildir í íslensku landhelginni. Í framhaldi munu vinstrimenn hefja upp áróður fyrir aðkomu útlendinga til að tryggja hærra verð.

Össur Skarphéðinsson, sem svínbeygði Steingrím J. sumarið 2009 og lét hann kyngja ESB-umsókninni, biðlar til Katrínar Jakobsdóttur formanns Vg að leggja í leiðangur með Samfylkingu og Viðreisn til að gera uppboðsleiðina að kosningamáli.

Össur er eitilharður ESB-sinni og telur uppboð á veiðiheimildum fyrsta skrefið að brjóta á bak aftur hömlur á fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. En það voru einmitt þær hömlur sem komu í veg fyrir að Össur, sem utanríkisráðherra Jóhönnustjórnarinnar, kæmist áfram með ESB-umsóknin á síðasta kjörtímabili.

Uppboðsleiðin er Trójuhesturinn sem ESB-sinnar sjá fyrir sér að opni landhelgi Íslands fyrir skipaflota Evrópusambandsins. ESB-sinnar láta tilganginn helga meðalið. Þeir vilja komast að kjötkötlunum í Brussel þótt það kosti efnahagslegt fullveldi íslensku þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skeggi Skaftason

Frekar klén andsvör frá talsmanni SDG-armsins hér á moggabloggi hjá þér Páll.  Einu ókostir við uppboðsleiðina sem þú getur bent á er að ef hún kæmist á að þá myndu í kjölfarið vinstriflokkar vilja eitthvað annað  alls óskylt kvótauppboðinu.  

Þetta er svona eins og að vera á móti hraðlest til Keflavíkur, af því að þá myndi kannski einhver í framhaldinu vilja að Ísland myndi ganga inn í ESB?

Skeggi Skaftason, 5.8.2016 kl. 13:23

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

ESB-undirróðurinn er lævís, Skeggi. Sást best á því að Vg fékk kosningu sem andstöðuflokkur við ESB vorið 2009 en varð hlynntur ESB-umsókn nokkrum vikum seinna.
En sniðugt hjá þér að bera saman landhelgina og hraðlest til Keflavíkur. Síðast heyrði ég um hraðlestina til Brussel.

Páll Vilhjálmsson, 5.8.2016 kl. 13:32

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mjög góð grein hjá þér, Páll, og sannarlega tímabær.

Svo mætir Össur, sjálfur yfirsendill Evrópusambandsins á Íslandi, hér í dulargervi sínu og reynir með gervirökum að kasta ryki í augu fólks.

Moggabloggarar ættu að loka á innlegg þessa gerviskeggs með stolnu Brahms-myndina með því einfaldlega að gefa ekki öðrum en innskráðum Moggabloggurum færi á innleggjum (það er einföld aðgerð í stjórnborðinu, en innskráðir Moggabloggarar þurfa sem slíkir að gefa upp nafn sitt eins og það er skráð í þjóðskrá, og þannig birtist það þá á höfundarsíðu þeirra).

Menn, sem reyna að villa á sér heimildir eins og þessi ESB-málpípa, ættu ekki að sitja hér með öðrum að umræðunni.

Jón Valur Jensson, 5.8.2016 kl. 14:19

4 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Þú átt það til Páll, að kasta fram svona eins og staðhæfingum á málum, snúnum að því að geta gagnrýnt. Svo spyr maður, í hverra þágu ertu að gagnrýna, t.d. í þessu tilviki? Að spyrla saman uppboðsleið á kvóta, að allur fiskur seljist á fiskmarkaði, og ESB er í vægasta falli broslegt. Sennilegast ertu á móti markaðstengdum veiðum og sölu fisks á fiskmarkaði, en segðu það þá berum orðum. Vertu ekki að fara eins og köttur í kring um heita grauarskál um skoðanir þínar. Ert orðinn verri en fjórmenningarklíkan í Kína var forðum daga.   

Jónas Ómar Snorrason, 5.8.2016 kl. 21:44

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Jó Valur Jensson: af hverju í ósköpunum truflar það þig svona mikið að vita ekki kennitöli mína?  Er það af því að bvgþér er um megn að bara ræða málefnalega það sem ég segi?

Skeggi Skaftason, 5.8.2016 kl. 23:11

6 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ég er sammála Páli, sérstaklega eftir að hafa hitt fólk úr sjávarútvegsgeiranum frá Austurlöndum fjær. Þar sjá menn fram á að hafa minna út úr veiðum sunnan miðbaugs og horfa til norðurs. Gildir þá einu hvaða fisktegund um ræðir.

Það að bjóða út aflaheimildir til ákveðins tíma, er dauðadómur mjólkurkýrinnar. Hver hugsar um kú sem veit ekki hvort hún verður í hans umsjá eftir næsta burð?

Sindri Karl Sigurðsson, 5.8.2016 kl. 23:17

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Innlegg þitt, Össur, var umfram allt ómálefnalegt blaður um hraðlest til Keflavíkur.

Jón Valur Jensson, 6.8.2016 kl. 02:03

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þetta er allt rangt í pistlinum.

Færeyingar eru víst með takmarkanir fjárfestinga erlendra aðila.  

Útlendingar keyptu ekkert 70% kvótaheimilda á uppboði.

70% fór til fyrirtækja sem útlendingar eiga hlut í.

Hvert hámarkið er varðandi eignarhlut útlendinga í sjávarfyrirtækjum í Færeyjum, - að eg held hann sé lægri en hér!

Þá þegar af þeim sögum er eg hef rakið í stuttu máli, - þá er upphafspistill allur rangur.  (En það er svo sem ekki frétt í þessu tilfelli.) 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.8.2016 kl. 09:39

9 Smámynd: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Páll er náttúrlega einn af varðhundum óbreytts ástands í fiskveiðimálum, sem verður þó verra og verra eins og síðustu viðskipti HB Granda sýna fram á. Hér eignast færri meira í skjóli þessa vonda kerfis, sem mokar auði ofan í vasa fámennrar klíku. Þetta kerfi er varið með kjafti og klóm.

Og hér birtast aftur gömlu frasarnir um "landhelgi fulla af útlendingum". Það er alltaf gengið út frá því að Íslendingar sé fífl og fávitar í þessum skrifum, að þeir muni afhenda útlendingum auðlindina Og eru þessum uppboðum Færeyinga stjórnað frá Brussel? Mér er ekki kunnugt um það.Settu þeir sjálfir ekki útboðsreglurnar? Veit ekki betur, enda sjálfstæð þjóð.

Það er alltaf stutt í paranojuna...

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, 6.8.2016 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband