Píratískur Sjálfstæðisflokkur, vinstrisinnaður Framsóknarflokkur

Yfirvofandi hætta er að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heyri sögunni til nokkru fyrir þingkosningarnar næsta vor. Það gæti gerst með því að hvor um sig stjórnarflokkurinn sannfærist að ekki sé raunhæfur möguleiki á endurnýjuðu umboði fyrir sama stjórnarmynstur.

Nú þegar sjást teikn að stjórnarflokkarnir leiti hófanna hjá öðrum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er óðum að koma sér upp píratadeild, þar sem áður var samfylkingardeild, sem stýrir umræðunni í átt að Pírötum: þjóðaratkvæði, opna landið fyrir flóttamönnum, andúð á kirkjunni, áfengi í matvörubúðir (sem raunar er einnig frjálshyggjuarfur).

Að sama skapi opnar Framsóknarflokkurinn dyrnar til vinstri með húsnæðisfrumvarpi í anda vinsrimanna og velferðarpólitík sem hallast í sömu átt. Andstaða framsóknarmanna við áfengi í matvöruverslanir er staðfestutákn um íhaldsssemi.

Enn er límið milli stjórnarflokkanna sterkt á mikilvægum málefnasviðum, s.s. efnahagsmálum og utanríkismálum. En það mun reyna á þetta lím þegar nær dregur kosningum.

Tilvera og framgangur stjórnmálaflokka er háður úrvali bólfélaga. Flokkar reyna að sýna sig líklega hver gagnvart hinum, til að eiga möguleika á stjórnarmyndun eftir kosningar sem þó ráða vitanlega mestu um líf og farsæld stjórnmálaflokka.

Tveir stórir óvissuþættir ráða framvindu næstu mánaða. Annar þátturinn er fylgi Pírata og hinn er afdrif vinstriflokkanna þriggja: Vg, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar.

Þjóðarsálin mun gera upp við sig hvort hún hampi Pírötum lengur eða skemur, og lítið hægt að spá í þær kenjar. Á hinn bóginn er líklegt að vinstrimenn muni stokka upp flokkana sína í sumar og haust. Þar gætu forsetakosningarnar sett strik í reikninginn - fer Katrín Jakobsdóttir fram eða ekki?

Daður Sjálfstæðisflokksins við Pírata er mun hættulegra flokknum en opnun vinstrigáttar Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er að upplagi góðborgaraflokkur ráðsettra og íhaldssamra - algjör andstæða tölvunörda sem sofa fram á hádegi og lifa á styrkjum. Löng hefð er fyrir vinstrislagsíðu Framsóknarflokksins, samanber kaupfélögin og sósíalisma sveitanna.

Fylgi Pírata í skoðanakönnunum mælist 35 prósent og þar yfir. Ráðagerðir flokkanna að ná þessu fylgi, sem alþjóð veit að er sýnt en ekki gefið, munu setja svip sinn á stjórnmálaumræðu næstu missera. Þeir sem seilast of langt inn á píratísku veiðilendurnar gætu staðið uppi slyppir og snauðir í maí 2017.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Greinin er algjör snilld,sem lætur manni eftir að glíma við meginmál hennar eins og getraun. Vísbendingarnar ættu að hjálpa,en höfundur minnir þó á það sem alla jafna er erfiðast að spá í eru kenjar þjóðarsálarinnar t.d.í dálætinu á Pírötum undanfarið.

Helga Kristjánsdóttir, 5.3.2016 kl. 13:41

2 Smámynd: Sólbjörg

Mun Sjálfstæðisflokkurinn vð næstu stjórnarmyndun feta í fótspor VG. Sem er að svíkja kjósendur og fórna öllu fyrir það að komast í ríkisstjórnar samstarf.

Sólbjörg, 7.3.2016 kl. 01:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband