Eftirkapítalisminn - von píratískra vinstrimanna

Kapítalisminn rennur sitt skeið, rétt eins og miðaldir fyrir hálfu árþúsundi. Eftirkapítalisminn býður vinstriflokkum, einkum pírataútgáfunni, tækifæri til að verða forystuafl þjóðfélagsbreytinga. 

Þrjár meginbreytingar á kapítalismanum eru þegar hafnar og munu breyta samfélaginu til frambúðar í fyllingu tímans. Í fyrsta lagi er vinnan ekki sú nauðsyn sem hún var. Allsnægtir án aukinnar vinnu eru mögulegar þökk sé sjálfvirkni.

Í öðru lagi grafa upplýsingar undan getu markaðarins til verðlagningar. Markaðurinn byggir á skorti sem altæk upplýsingamiðlun kemur í veg fyrir að verði nýttur til ábata.

Þriðji þátturinn í afbyggingu kapítalismans er deilihagkerfið, sem starfar eftir öðrum lögmálum en markaðarins.

Ofangreind pæling er frá Paul Mason, sem er breskur fréttamaður og samfélagsrýnir, með marxíska fortíð. Kjarninn í nýrri bók hans, Postcapitalism, birtist í Guardian.

Framtíðarpæling Mason er um margt trúverðug. Vinnan er ekki lengur það sem hún var. Ungt fólk, jafnvel á Íslandi sem er fremur vinnusamt samfélag, finnur leiðir til að vinna minna og lifa á bótum.

Deilihagkerfið er orðin staðreynd og allar líkur að það vaxi. Deilihagkerfið grefur undan markaðshagkerfinu eins og við þekkjum það. Þjónusta og verðmæti skipta um hendur án þess að peningar koma við sögu. Deilihagkerfið er nokkurs konar nútímalegur sjálfsþurftarbúskapur. Munurinn er sá að í íslenska landbúnaðarsamfélaginu í gamla daga kom sjálfsþurftin til af skorti en núna er ástæðan ofgnótt. 

Kapítalisminn er í kreppu. Það sé t.d. á stóru einokunarrisunum í tæknigeiranum sem vinna gegn nýsköpun þegar hún ógnar einkaleyfum risanna. Tollabandalag Bandaríkjanna og ESB, TTIP, er með öll einkenni kapítalískra kreppuviðbragða. Hvort kreppan leiði fram aðlögun kapítalismans, líkt og hann sýndi við umbreytinguna úr framleiðslusamfélaginu í þjónustusamfélagið, eða hvort kreppan kollvarpi kapítalismanum er enn alls óvíst.

Aðrir þættir í pælingu Mason eru ekki eins sannfærandi. Til dæmis að altæk upplýsingamiðlun grafi undan mörkuðum. Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Robert J. Schiller, sýndi fram á að verðlagning markaða byggir ekki á rökréttu samhengi upplýsinga heldur órökvísri skynjun markaðsafla á stöðu mála. Þessi órökvísa skynjun er nátengd sjálfri mennskunni og mun ekki breytast þótt allar heimsins upplýsingar séu komnar í einn tölvukubb.

Pæling Mason stendur nógu traustum fótum til að verða hluti af umræðu næstu ára um hvert stefnir með þá samfélagsgerð sem varð óumdeild á seinni hluta síðustu aldar. Breytingar eru í aðsigi.

Við, í merkingunni vestræn samfélög, stöndum frammi fyrir meiri breytingum á hag- og samfélagskerfi okkar en við höfum gert frá því fyrir fyrri heimsstyrjöld. Og það er allnokkuð verkefni.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Hinn íslenski kratismi ristir aldrei svo djúpt að hugsa svona víðsýnt og djúpt og út fyrir hið pervertíska kratíska grunnævi ! 

Gunnlaugur I., 19.7.2015 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband