Konan í baðkari Hitlers

Hitler skaut sig á þessum dagi fyrir 70 árum í neðanjarðarbyrgi í Berlín. Sunnar í Þýskalandi, í München, fylgdi bandarískur ljósmyndari slóð hermanna sem lögðu undir borgina þar sem Hitler stóð fyrir bjórkjallarauppreisninni snemma á framabrautinni.

Ljósmyndarinn Lee Miller var fyrirsæta úr New York en skipti um tökustöðu í stríðinu og myndaði loftárásir Þjóðverja í London, þar sem hún bjó í upphafi stríðs. Hún fylgdi bandaríska hernum inn í Evrópu frá ströndum Normandí.

Dachau búðirnar eru við þorp utan við München. Miller heimsótti búðirnar þessa vordaga í Bæjaralandi og sá vannærð lík á víð og dreif. Í borginni fékk hún íbúð til afnota sem reyndist vera einkaíbúð foringjans.

Ljósmynd er af Miller í baðkari Hitlers í Prinzenregentplatz 27 með foringjann í ramma á syllu baðkersins. Stígvélin sem gengu um grundir Dachau standa á mottu fyrir framan baðkarið.

Þýska tímaritið Spiegel segir frá lífi og starfi Miller. Þar kemur fram að hún var kynferðislega misnotuð í æsku og glímdi við þunglyndi eftir stríð en fann hugarró í eldamennsku. Tímaritið segir þessa setningu um samband Miller og Þjóðverja: ,,Hún byrjaði að hata Þjóðverja þegar hún fylgdist með loftárásum þeirra á London. Eftir að hún varð stríðsljósmyndari jókst hatrið."

Konan í baðkari Hitlers dó í Englandi 1977, sjötug að aldri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband