Valdaframhjáhald

Eftir Örlygsstaðabardaga, þar sem feðgarnir Sturla og Sighvatur féllu fyrir Kolbeini unga og Gissuri Þorvaldssyni, átti Þórður kakali Sighvatsson að svara í ættarstríðinu sem kennt er við þá Sturlunga.

Þórður kom hingað út 1242 og átti óhægt um vik. Frændur hans á Vesturlandi sóru Kolbeini hollustu eftir Örlygsstaðafund og voru tregir i taumi að veita stuðning foringja með tvísýna framtíð. Gissur fór utan til Noregs eftir bardagann við Örlygsstaði og skóp þar með Þórði tækifæri.

Völd voru þá eins og nú nátengd persónum. Ef valdamaður, goði eins og þeir hétu á þjóðveldisöld, var ekki á staðnum til að ástunda valdið var talið sjálfsagt að halda framhjá honum. Bændur á Suðurlandi, þar sem Gissur réði, sömdu um sættir við Þórð kakala með þessum skilmálum

Bændur skyldu í engum mótferðum vera við Þórð þar til Gissur kæmi til Íslands. Skyldi þá lokið sættum með þeim Þórði og bændum ef Gissur kæmi til en haldast ella.

Eftir sættir sunnlenskra bænda við Þórð gat hann einbeitt sér að Kolbeini unga. Sem hann og gerði með þeim árangri að Kolbeinn lét ríki sitt í hendur Þórðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta var stórmerkilegur samningur, sem Þórður, kakali, náði við Sunnlendinga.  Þar með þurfti hann ekki að "berjast á tveimur vígstöðvum" og náði landsyfirráðum með meiri hersnilld en hér hefur sézt fyrr og síðar.

Bjarni Jónsson, 12.4.2015 kl. 11:03

2 Smámynd: Halldór Þormar Halldórsson

Þess má reyndar geta að Kolbeinn var orðinn mjög veikur eftir slys sem hann varð fyrir árið 1239 og lést úr veikindum árið 1.245, einu ári eftir Flóabardaga. Það má leiða líkur að því að hefði Kolbeinn verið heill heilsu þá hefði þetta farið með öðrum hætti. 

Halldór Þormar Halldórsson, 12.4.2015 kl. 11:26

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jaa, þetta er ekki alveg svona einfalt og pistlahöfundur sennilega fastur í eldgömlum sagnfræðikenningum þar sem perónur manna einar ráða gangi sögunnar.

Jú jú, persónur geta alveg skipt máli stundum.

Í þessu tilfelli verður að líta til ættarinnar, klansins.  Þetta var klan-stjórnskipun á Íslandi.  Voru gengi eða ættir sem réðu á ákveðnum svæðum.

Gissur var af Hauka-Klaninu.  Hann var ekki meira fjarverandi en það að Teitur bróðir hans lögsögumaður var í forsvari þegar Þórður hótaði að ráðast að þeim í Skálholti.

Kröfur þórðar voru skiljanlegar ef horft var til atvika.  Nánustu ættmenn voru strádrepnir á hinn hroðalegasta hátt, kirkjugrið rofin og ég veit ekki hvað og hvað.

Ákafi hans var svo mikill og hefndarskyldan eða sæmdarskyldan svo sterk og ríkjandi, að sunnlendingar gáfu eiginlega allt eftir og samþykktu meir að segja stórar fégjafir og sektir sem Steinvör systir Þórðar akvað nánast bara ein.  

Sunnlendingar voru alveg mátaðir þarna.  

Og það vekur upp umhugsun um fífldirfsku Þórðar í sinni strategíu og hernaði.  Ýmislegt bendir til að hann hafi verið þrautþjálfaður úr Noregi og verið með nýtísku hernaðarstrategíu og bardagaaðferðir og það hafi skilað honum langt.

Sennilega skipti líka máli að Þórður hafði Dufgussyni, þá bræður Kolbein grön, Björn Dumb og Svarthöfða, mikla víga- og baráttumenn.  Sá 4. Kægil-Björn hafði verið drepinn stuttu áður af Kobeini unga, ef eg man rétt, og var sagður hafa dáið hlægjandi.

Af þeim bræðrum var Svarthöfði merkilegastur, að mínu mati.  Þeir bræður voru af Sturlungaætt og náskyldir Þórði kakala. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.4.2015 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband