ASÍ ekki lengur launalögga

ASÍ er ekki lengur launalögga landsins og ætlar ekki að vera með samráð við gerð kjarasamninga, samkvæmt frétt RÚV.

ASí varð siðferðilega gjaldþrota sem launalögga þegar verkalýðshreyfingin gat ekki nýtt sér eignarhaldið á stærstu fyrirtækjum landsins, í gegnum lífeyrissjóði, til að kortleggja launaskrið forstjóranna.

Ef ASÍ getur ekki einu sinni haldið til haga launaþróun forstjóra og millistjórnenda fyrirtækja í eigu verkalýðshreyfingarinnar er vitanlega tómt mál að tala um áhrifavald ASÍ yfir öðrum launþegum.

Niðurstaða ASÍ um að ekki verði samflot í kjarasamningum felur í sér viðurkenningu á staðreynd sem blasir við öllum nema skrifstofuliði ASÍ: atvinnulífið á Íslandi er ekki sovétvætt, rekið fyrir einn reikning. Fyrirtæki og starfsgreinar standa misjafnlega. Í samningasamfloti næst aldrei meiri árangur en afkoma veikustu fyrirtækjanna leyfir.

Við núverandi kringumstæður þegar nánast ekkert atvinnuleysi er, þökk sé krónunni og ríkisstjórninni, eru launþegar í sterkri stöðu gagnvart atvinnurekendum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Segðu við fólkið sem er dottið út af atvinnuleysisskrá að atvinnuleysi sé nánast ekkert. Ekki síður við fólkið sem sækir vinnu til útlanda fjarri fjölskyldu og vinum. Þökk sé ríkisstjórninni og krónunni. Þarna ert þú gjaldþrota, Páll!

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.1.2015 kl. 01:39

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

 Atvinnuleysi er vissulega skelfilegt fyrir þá sem í þeirri stöðu lenda, flesta. Alltaf eru þó til einstaklingar sem ekki vilja vinna. Ég er þó ekki að segja að þeir tæplega fimmhundruð sem nú detta út af atvinnuleysisbótum séu í þeim hóp, alls ekki. En það skýtur þó skökku við að vita til þess að sumt fólk er í tveim vinnum, meðan aðrir eru á bótum. Það skýtur einnig skökku við að fyrirtæki í landinu skuli verða að flytja inn starfsfólk, meðan tæplega fimmhundruð manns detta út af bótum sökum þess hversu lengi þeir hafa verið á þeim. Kannski launastefna undanfarinna ára spili þarna inní, ásamt atvinnuleysisbóta kerfinu. Það er nefnilega svo að þó atvinnuleysisbætur séu lágar, lægri en lægstu laun, eiga þeir sem eru á þeim bótum rétt á ýmiskonar annarri fyrirgreiðslu og styrkjum sem vinnandi maðurinn getur ekki sótt. Það er því beinlínis hagkvæmara fyrir suma að vera án vinnu.

Hinu ber sannarlega að fagna að ASÍ skuli ekki eiga aðkomu að komandi kjarasamningum. Kannski mun það leiða til þess að fólki á atvinnuleysisskrá fækkar, að fólk fari að sjá sér hag í að sækja vinnu.

Það liggur fyrir, bæði við lestur ársreikninga fyrirtækja og arðgreiðslur eigenda þeirra í eigin vasa, að mörg þeirra eiga auðvelt með að hækka laun sinna starfsmanna, án þess að velta þeim kostnaði út í hagkerfið. Önnur eru verr stödd og sum svo illa stödd að spurning hvort þau eigi tilverurétt. Meðan launastefna ASÍ réð ríkjum voru það einmitt verst stöddu fyrirtækin sem mið var tekið af, þegar samið var um launabætur. Og þær síðan látnar ganga yfir alla línuna.

Það er nefnilega svo að hér á landi eru fjöldi fyrirtækja rekin með miklum ágætum, önnur eitthvað miður. En svo eru það fyrirtækin sem illa eru rekin og SA er svo gjörn á að vitna til við samningsgerð. Þó þessum fyrirtækjum yrði lokað er ljóst að verkefnin fara ekkert. Þeim verður þá sinnt af nýjum fyrirtækjum sem hugsanlega verða betur rekin, nú eða að einhver hinna velreknu fyrirtækja landsins taka yfir þau verkefni. Því mun starfsfólk þeirra fyrirtækja sem ekki eiga rétt á sér, fá vinnu annarstaðar, að öllum líkindum hjá mun betur reknu fyrirtæki.

Það er annars merkilegt, í ljósi eignaraðildar verkalýðshreyfyngarinnar í fyrirtækjum landsins, gegnum lífeyrissjóði, að hún skuli ekki breyta sér meira.

Fyrir ekki svo löngu síðan komu fréttir að stjórn Icelandair hefði hækkað laun sín all verulega, allt upp í 300% hjá sumum þeirra. Forstjóri fyrirtækisins fékk einhverja tugi prósenta launahækkun. Beinn og óbeinn eignarhlutur lífeyrissjóðanna í Icelandair er vel yfir 50%!

Ekki heyrðist hósti né stuna í verkalýðshreyfingunni vegna þessara hækkana, enda sagt að fyrirtækið væri svo vel rekið. Nú þegar líður að kjarasamningum sendir þetta "vel rekna" fyrirtæki frá sér aðkomuviðvörun!!

Kannski þar spili inní að forstjóri Icelandair er jafnframt formaður Samtaka Atvinnulífsins!

Liggur ekki beinast við að fulltrúar verkalýðsins í stjórnum lífeyrissjóðanna krefjist þess að eignarhlutar sjóðanna í fyrirtækinu verði seldur, í ljósi afkomuviðvörunarinnar?!!

Gunnar Heiðarsson, 11.1.2015 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband