Gull, fasteignir og myntheimska ESB-sinna

Gull var til skamms tíma öruggasta geymsla verðmæta sem völ var á. Gullverð hækkaði um 500% frá árinu 2000 til 2012 og hefur síðan lækkað um 30%. Gull, sem sagt, lýtur ekki lögmálum stöðugleika heldur er góðmálmurinn undirorpinn markaðssveiflum.

Geta má nærri að þegar gull tekur slíkar dýfur þá eru gjaldmiðlar enn veikari fyrir sveiflum og inngripum stjórnvalda. Á síðasta ári voru reglulegar fréttir um ,,gjaldeyrisstríð" á alþjóðlegum vettvangi. Gjaldmiðlastríð er lýsing þróunarríkja á þeim viðbrögðum iðnríkja við kreppunni 2008, einkum Bandaríkjanna og Japan, að stórauka peningaframboð með lágum vöxtum og heildsölukaupum seðlabanka á skuldabréfum. 

Markmið iðnríkjanna var að koma efnahagskerfum sínum á skrið með því að auka peningaframboð. Hluti peninganna fór til þróunarríkja og stuðlaði þar að verðbólgu, sem hélst lág í iðnríkjum þrátt fyrir aukið peningamagn í umferð. Rannsóknir á afleiðingum róttækra aðgerða seðlabanka Bandaríkjanna og Japans eru skammt á veg komnar. Reynslurökin gefa til kynna að hagkerfi þessara tveggja iðnríkja séu að taka við sér þar atvinnuleysi minnkar og hagvöxtur eykst.

Evru-svæðið fór vægar í sakirnar í beinum aðgerðum til að auka peningaframboð. Aðgerðir Seðlabanka Evrópu juku engu að síður veltuna í hagkerfinu, þó að atvinnuleysi sé enn í hæstu hæðum og hagvöxtur saman og enginn.

Fæstir binda sparnað sinn í gulli, en fjarska margir í fasteignum. Þegar farsæl stjórnun peningamála og hagkerfis helst í hendur ætti það að sjást í þróun fasteignaverðs. Í töflu Economist um breytingar á fasteignaverði frá 2008 er óhætt að segja að evru-ríkin fái hörmulega útreið. Fasteignaverð hefur hrunið á Írlandi um 45 prósent, á Spáni um 30 prósent, í Hollandi um 19 prósent og í litlu sætu Danmörku um 16 prósent. Danir eru raunar ekki með evru en fasttengja krónuna við ESB-gjaldmiðilinn. Frændur okkar eru líka með lífið í lúkunum og bíða þess sem verða vill á evru-svæðinu - eins og lömb á leið til slátrunar.

Íslenski ESB-sinnar tala aldrei um gjaldmiðla og verðlag í útlöndum. Samkvæmt heimsmynd ESB-sinna er allt fínt og frábært í gjaldmiðlamálum erlendis, og þó sérstaklega á evru-svæðinu. ESB-sinnar reyna að telja okkur trú um að eina sem við þurfum í hagstjórn sé ,,alþjóðlegur gjaldmiðill" og eiga þá við evruna.

Hrun gulls, gjaldeyrisstríð og stórkostlegt verðfall á fasteignum eru birtingarmyndir vanda hagstjórnar og peningamálastefnu í alþjóðlegu samhengi, - þar sem stærstu gjaldmiðlar heims eru ráðandi. Það heitir myntheimska, og er séríslenskt fyrirbrigði ESB-sinna, að telja efnahagsvanda þjóðar stafa af gjaldmiðli.

Það er ekkert samhengi á milli ,,alþjóðleika" gjaldmiðla og efnahagsstjórnar. Litlir gjaldmiðlar geta verið traustir og stöðugir, eins og reynsla Norðmanna sýnir, og gjaldmiðlar stórríkja sveiflast um tugi prósenta á fáum misserum, samanber japanska jenið.

Á hinn bóginn er það sjálfstæður efnahagsvandi þegar heilir stjórnmálaflokkar, líkt og Samfylkingin, níða niður þjóðarmyntina. En það er ekki heimska heldur óþverraháttur. 

   


mbl.is Verðmæti gullforðans lækkar um 46%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

"Myntheimska" Þetta orð er algjör snilld enda lýsir mjög vel í einu orði glötuðum málflutningi sambandssinna.

Eggert Sigurbergsson, 11.1.2014 kl. 13:42

2 Smámynd: Tryggvi Helgason

Gengi gjaldmiðils er nokkurn veginn í samræmi við stjórnunina og framleiðsluna í hverju landi. Ef framleiðslan er mikil þá má reikna með því að gjaldmiðillinn sé nokkuð traustur.

Gengi krónunnar er ávalt miðað við dollar og fest við dollar, og hefur verið svo allar götur síðan á stríðsárunum. Og samkvæmt lögum þá er það Alþingi og stjórnin sem ákveður gengið. Hér áður var genginu haldið óbreittu í marga mánuði, jafnvel ár eða meir. En verðbólgan fræga hélt ávalt sína leið og þegar frystihúsin og aðrar útflutningsgreinar voru að komast í þrot, vegna launahækkana og annara kostnaðarhækkana, þá kom þing og stjórn alltaf að sömu glæsilausninni, sama "gullna hliðinu", en það var eins og menn muna, að "fella gengið".

Eftir gengisfellinguna þá fór allt af stað á ný, allt blómstraði enn og aftur. En verkföllin héldu líka stanslaust áfram, launahækkanir og vöruverðshækkanir, þar til allt var að fara í strand á ný, en þá kom bara sama töfralausnin aftur, en það var ný "gengisfelling". Svona hélt þetta áfram og endurtók sig, aftur og aftur, áratug eftir áratug.

En svo ákvað Alþingi að gefa Seðlabankanum réttindin til þess að ákvarða gengið og þá upphófst vitleysan sem leiddi svo til hrunsins mikla fyrir nokkrum árum svo og til áframhaldandi vandræða í landinu, - að mínu mati. Bankinn virðist hafa leyfi Alþingis til þess að breyta genginu upp og niður, - sem sagt, að "hræra" í gengiskráningunni jafnvel margsinnis á dag. En við hverja skráningu er gengið, að sjálfsögðu, ´sett fast´ á ný miðað við dollar, eða fram að því að það er skráð á ný, hvort heldur sem það er nú eftir einhverja daga, eða bara eftir einhverja klukkutíma eða mínútur.

Þetta fyrirkomulag er, að mínu mati, háskalegt og ber að afnema. Gengi krónunnar á að fastsetja við ákveðna tölu, gagnvart bandaríska dalnum og breyta ekki aftur.

Mín tillaga er, að gengið verði ákveðið 100 krónur á móti einum dal, og að því verði alls ekki breitt næstu 5 ár. Svona ákvörðun á að gera fyrirvaralaust, - (það er, án þess að nokkrir hagsmunaaðilar viti), - til dæmis á sunnudegi, áður en nokkurt fyrirtæki opnar á mánudeginum næsta morgun.

(Eftirorð.: Svo á að sjálfsögðu að selja allt gull Seðlabankans.)

Tryggvi Helgason, 11.1.2014 kl. 16:59

3 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Gullið hækkaði ekki í verði.

Heldur voru peningarnir verðminni vegna peningaprenntunar. 

Gullið heldur sínu verðgildi á meðan gjaldmiðlanir flöktra.

Sleggjan og Hvellurinn, 12.1.2014 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband