Virðing kennarastarfsins

Fyrir nokkrum árum átti höfundur dreng í grunnskóla í höfuðborginni. Einn daginn kom drengurinn snemma heim venju fremur. Skólanum hafði verið lokað vegna óspekta nemenda í unglingadeild sem höfðu notað afganginn af gamlárskvöldspúðrinu í skólanum. Boðað var til foreldrafundar þar sem skólastjórnendur gerðu grein fyrir atvikum.

Skólastjórinn sagði að til hefði staðið að reka tímabundið úr skóla þá nemendur sem hefðu verið staðnir að verki. Foreldrar viðkomandi nemenda skárust í leikinn og krörfðust þess að ekki yrði gripið til slíkra ráðstafana. Það koma á daginn að stjórnendum var ekki stætt á því að víkja nemendum úr skóla, jafnvel ekki tímabundið.

Formaður foreldrafélags skólans, virðulegur lögmaður, steig í pontu og sagðist hafa komið í skólann daginn þegar allt var í hers höndum og reynt að ræða við ódælu nemendurna. Þeir höfðu á takteinum sjónarmið um rétt sinn gagnvart skólanum en vildu lítið ræða um skyldur sínar og ábyrgð.

Skólinn virtist hafa fá ráð til glíma við óspektirnar og foreldrar höfðu, sumir hverjir, á orði á fundinum að illa væri komið fyrir skólastarfi þegar ekki þyrfti meira til að spilla reglulegri starfsemi skólans.

Í huga höfundar kristallaðist virðingarleysið fyrir skólastarfi í þessari uppákomu. Fáeinir baldnir unglingar lömuðu skólastarfið og skólastjórnendur stóðu hjá úrræðalausir.

Virðingarleysið á sér margar skýringar og hefur verið lengi að grafa um sig. Fram eftir síðustu öld var kennsla eftirsótt starf. Starfsöryggi kennara var tryggt, launin í góðu meðallagi og tvísetning skóla gaf færi á drjúgri aukavinnu. Þegar leið að lokum aldarinnar var hins vegar svo komið að erfitt var að manna stöður vegna lágra launa. Réttindalaust fólk var ráðið til kennslu og það þóttu fréttir væri skóli fullmannaður kennurum.

Fjármunir voru settir í byggingar til að einsetja skólana en minna var hugað að innihaldinu. Uppeldishlutverk skólans varð veigameira eftir því sem félagslegum úrræðum var í auknum mæli fundinn staður í skólum.

Þar sem áður stóðu myndugir kennarar var komið örvæntingarfullt fólk sem ýmist var hæðst að fyrir að vera svo vitlaust að leggja fyrir sig kennslu eða spottað fyrir styttri vinnudag og lengra frí en á almennum vinnumarkaði.

Kennarar geta ekki brotist úr herkvínni með einu áhlaupi. Vandinn er of margslunginn og rótfastur til að hægt sé að vinna á honum bug í einu vetfangi.

Leiðin fyrir kennara til að endurreisa virðingu kennarastarfsins er að gera menntun barna að baráttumáli sínu. Með menntun í forgrunni er hægt að endurskoða ýmsa skýrsluvinnu sem núna er á herðum kennara. Það ber að aðskilja félagslega þjónustu sem hæfilegt þykir að veitt sé innan skóla frá reglulegri kennslu. Alþjóðlegur samanburður á stöðu barna í einstökum námsgreinum gefur færi á að setja sér tiltekin markmið. Kröfur um að kennarar taki meistarapróf eru tilefni til að stokka upp endurmenntunarþáttinn. Fleira þarf að koma til og ættu kennarar manna best að vita hvar skórinn kreppir að.

Kennarar hafa það í hendi sér að leggja að baki niðurlægingartímabil síðustu áratuga og hefja markvissa vinnu til að endurheimta þann sess sem kennarastarfinu ber í þjóðfélaginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Sæll Páll.

Fyrir það fyrsta er það einfaldlega alrangt að ekki sé leyfilegt að víkja nemendum sem stofna sinni heilsu og annarra í hættu tímabundið úr skóla.  Sem deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri hef ég orðið að bregðast á þann hátt við svipuðum atvikum og þú ert að lýsa.

Það þarf hins vegar að gera á löglegan hátt og af virðingu við nemandann og forráðamenn hans/hennar því Ísland hefur lög um "fræðsluskyldu" en ekki skólaskyldu.

Ég veit ekkert í hvaða skóla þú varst en ég man vel eftir alvarlegum atvikum í mínum skóla sem barn og unglingur.  Þá, eins og nú, var farið misvel eða illa með kennara og/eða skólastjóra.  Tel kennara í dag mun hæfari í starfi sínu en þegar ég hóf kennslu fyrir 13 árum.

Við einsetningu grunnskólans gerðist það nefnilega helst að áhugasömu eldhugarnir héldu áfram að kenna á meðan að þeir sem voru í starfinu fyrir pening flosnuðu margir frá.  Ég kenndi í tvísetnum skóla og lofa því að munur á gæðum kennslu og skólastarfs eftir einsetningu er gríðarlegur, í hag einsetningar.

Enda myndi þjóðfélag samtímans aldrei sætta sig við það að börn væru í skóla frá 8 - 12 eða 13 - 17 eins og var þá.  Dagvistarstofnanir myndu þá spretta upp eins og gorkúlur.

Það er náttúrulega ábyrgðarhluti hjá þér, sem virðist vera heilsteyptur maður sem mark er tekið á, að tala um kennarana sem örvæntingarfulla og niðurbrotna stétt fólks sem hefur ekki menntun barna sem baráttumál sitt!!!!!

Framsæknara skólastarf held ég að finnist vart annars staðar en hér.  Hef komið í grunnskóla í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Englandi, Írlandi, Þýskalandi, Belgíu, Portúgal, Spáni og Kanada.  Íslenskir skólar eru í hæsta gæðaflokki þar, ásamt skólum frá Kanada og Svíþjóð, tel þá standa okkur örlítið framar á þessari stundu en við sækjum að.

Maður sem talar svo um að aðskilja félagslega þjónustu og skóla veit nú ekki margt um samfélagið sem hann byggir.  Hvar á að geyma þau börn sem búa við erfiða félagslega stöðu, eða eiga við sértæka námsörðugleika að stríða, jafnvel fötlun?

Heldurðu kannski að staðir eins og Breiðavík séu betri lausnir en t.d. Hagaskóli, Austurbæjarskóli, Glerárskóli eða Grunnskóli Borgarfjarðar.

Samfélagið á að setja líðan barna og menntun í fyrsta sæti.  Í dag er verið að tala um hryllingssögur úr fortíðinni, sem fyrst og fremst ráðast af því gríðarlega fjársvelti sem þessi málaflokkur hefur verið í undanfarin 40 - 50 ár.  Ekki er langt síðan samgönguráðherrann tilkynnti um átta jarðgöng víðsvegar um land, en nú á dögunum var verið að hefja byggingu á húsnæði fyrir BUGL, SEX ÁRUM SÍÐAR EN REIKNAÐ VAR MEÐ.  Um 100 börn eru á biðlista þangað inn.  Hvar heldur þú Páll að þau börn séu á virkum degi í nóvember.  Á skólinn að loka þau úti???  Eigum við að bjóða í Breiðuvík??? Í raun væri það góð lausn ef hægt væri að borga sérfræðifólki það góð laun að þau fengjust til uppbyggingarstarfs með börnum sem við höfum séð að undanförnu sem niðurbrotna einstaklinga sem kerfið eyðilagði!!!!  Það er mikill barnaskapur og einföldun að telja að skólar Íslands í dag eigi bara að "losa sig við félagslegu vandamálin og fara að kenna".  Slíkar fullyrðingar eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum, hvað þá Reykvískum raunveruleika.

Svo bullið um leiðbeinendurna í lok aldarinnar!  Það hefur aldrei verið eins lágt hlutfall leiðbeinenda og nú er í skólum landsins.  Bylting orðið þar á síðustu 10 árin.

Svo er það þér og öðrum til skammar að láta eins og allir helstu kennarar landsins séu flúnir úr skólunum!!!  Þú gafst upp eftir eina önn, en það gerir þig að mínu viti að minni kennara en þeim sem héldu áfram.

Kennsla er stórkostlegt starf sem gefur af sér mikla gleði.  Í dag er ekki hægt að nota kennara sem ekki koma undirbúnir og fullir eldmóðs til starfa með börnum.  Foreldrasamfélagið og sveitarstjórnir hafa sem betur fer heimtað meiri árangur en fyrir 15 - 25 árum þar sem ekki var óalgengt að í skólunum ynnu menn með kennslu sem aukavinnu, undirbjuggu sig aldrei og virtu ekki nema suma nemendur viðlits.  Þeir sem minna máttu sín sátu undir endalausu ámæli, hver sem ástæða þess var.

Ég held Páll að þú sért að grafa þér stöðugt dýpri gröf.  Þú talar fallegt mál og vel skiljanlegt en það sem hér kemur fram er alveg kolrangt og til þess fallið að gera lítið úr þúsundum fólks sem vinnur að námi barna þessa lands.  Ef við myndum gera almennilega við nemendur á grunnskólaaldri og það frábæra fólk sem þeim leiðbeina eru mestar líkur á því að Kastljós árið 2037 verði frelsað frá hryllingssögum úr íslenskum raunveruleika.

Nóg í bili.

Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Snæfellsbæ.

Magnús Þór Jónsson, 23.2.2007 kl. 12:05

2 Smámynd: Ragnar Þór Pétursson

Þetta er nokkuð gruggug grein. Inn á milli eru punktar sem ég held að séu hárréttir en aftur verður þér á að hengja bakara fyrir smið, að greina ekki nógu skýrt á milli atriða, orsaka og afleiðinga.

Vissulega hafa komið upp vandamál í skólum vegna virðingarleysis og vanmáttar við að taka á því, gleymdu þó ekki að nákvæmlega sömu fréttir heyrirðu vegna ungmenna í umferðinni, eða vegna skemmdarverka, veggjakrots eða þess að unglingar ráðast mannýgir á foreldra sína þegar netinu er kippt úr sambandi.

Ekkert af þessu er vegna hnignandi frammistöðu eða vegna kjara kennara á nokkurn hátt. Ekki frekar en að foreldrar eða ökukennarar rambi á barmi getugjalþrots.

Þetta snýst heldur ekki um að kennarar verði að endurvinna virðingu sem þeir hafi glatað. Kennarar skulda engum neitt. Þeir þurfa ekki að réttlæta sig með nokkrum hætti umfram aðrar stéttir. Kennarar þurfa heldur ekki að leggja fram fimmáraáætlun um betrun til að verðskulda að menn treysti þeim fyrir meiri peningum.

Þetta er spurning um gæði skólastarfs. Lág laun verka fráhrindandi á margt hæft fólk, fólk sem við viljum að starfi sem kennarar barna okkar. Við viljum ekki að hið vanhæfara fólk sem starfar við kennslu (en á það hljótum við að skrifa það sem miður fer í skólastarfi að einhverju leyti a.m.k.), leggi fram umbótaáætlun gegn hærri launum, við viljum það burt - og betra fólk inn.

Það er best gert með umtalsverðum kjarabótum. Ekki í nafni réttlætis eða þess að núverandi kennarar verðskuldi það - heldur vegna þess að við viljum enn betri skóla og við viljum að stærri sneið af þjóðarþýðinu ásælist þessi störf.

Það þarf að hætta þessari þrákelkni. Einn stærsti vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að sveitarfélögin hafa myndað með sér samráð í kjaramálum kennara sem hefur það í för með sér að allra lægsti samnefnari er látinn ráða. Laun kennara miða við greiðslugetu þeirra sveitarfélaga sem eru fátækust og skuldugust og verst stjórnað. Sveitarfélögin, sem kannski væru ekki eins illa stödd ef forsprakkar þeirra hefðu hlotið betri menntun.

Úr þessu verður vítahringur. Lélegustu sveitarfélögin koma í veg fyrir að eftirspurn eftir kennslustörfum verði meiri og tryggja með því enn lakari sveitarfélög í framtíðinni.

Þennan hring þarf að brjóta upp. Snarhækka launin. Láta fleiri slást um störfin. Það er langnærtækasta leiðin til bóta. Lélegu sveitarfélögin verða þá að sameinast eða segja sig á ríkið.

Ragnar Þór Pétursson, 23.2.2007 kl. 12:28

3 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Heill og sæll Páll

Þar sem mér hættir til að hafa athugasemdir mínar langar og ítarlegar hef ég af sérvisku minni lagt út frá pistli þínum á Málþingi mínu um skólamál sem er hér á blogginu.  

Hafsteinn Karlsson, 23.2.2007 kl. 19:00

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég þakka þeim Magnúsi Þór og sérstaklega Ragnari Þór fyrir athugasemdirnar.

Mér finnst Magnús Þór gera málið full dramatískt með vísun í upptökuheimili síðustu aldar og óþarflega persónuleg með sneið til mín vegna kennslureynslunnar. Til að hafa það á hreinu þá kenndi ég vormisseri, eftir að hafa starfað sem blaðamaður, og bauðst starfið í grunnskólanum aftur um haustið en réð mig um sumarið annað vegna betri launa. Ég fæ ekki séð að mín persóna sem slík geri stöðu kennara betri eða verri. Í leiðinni bið ég Magnús Þór að setja ekki tilvitnunarmerki á setningar sem ég hef ekki skrifað.

Allt um það. Þá eru það efnisatriði.

Í mínum huga er virðing samfélagsins fyrir kennarastarfinu tengd þeim launum sem kennarar fá. Ég er ekki að segja að það sé fullkomin samsvörun þar á milli. Svo ég taki dæmi þá myndi virðing okkar fyrir kennarastarfinu ekki fjórfaldast þótt þeir fengju fjórfalda hækkun launa. En það sem ég er að reyna að segja að með láglaunastefnu síðustu ára og áratuga höfum við sem samfélag sett kennslu og kennarastarfið skör lægra í virðingarstiganum. Enginn hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að gera kennarastarfið að láglaunastarfi, þetta hefur verið þróun þar sem fjölmargir þættir hafa haft árhif.

Ef starf verður að láglaunastarfi er það ekki lengur eins eftirsótt og það áður var. Út frá þeirri staðreynd er ekki réttmætt að draga þá ályktun að kennsla sé hrakval þess fólks sem hana stunda. Það liggur í augum uppi að sumir velja sér kennslu af áhuga eða köllun. En það er ekki vegna launanna heldur þrátt fyrir launin sem eru í boði.

Mér sýnist ég og Ragnar Þór vera sammála um að gera starfið eftirsóknarverðara. Hann er kannski heldur bjartsýnn en bendir sannarlega á leið sem kæmi vel til greina, að gera menntun og skólahald að samkeppnismáli milli sveitarfélaga.

Með málefni grunnskólans hjá sveitarfélögum gefst kennurum færi á að vinna með grasrótinni, foreldrum, að tillögum um að efla skólastarfið. Frá foreldrum til sveitarstjórna er nokkuð skemmri leið en til landsstjórnarinnar.

En það skiptir máli hvernig farið er að. Sveitarstjórnarmenn eru ekki tilbúnir til að opna fjárhirslurnar bara si svona. Þeir gætu hins vegar fallist á það með rökum. Og ef foreldrar og kennarar sameinast um tillögur verður þrýstingurinn meiri.

Ég þakka aftur fyrir umræðuna.

Páll Vilhjálmsson, 23.2.2007 kl. 19:04

5 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Sæll Páll.

Leitt ef ég hef sært blygðunarkennd þína með athugasemdum mínum.  Það var ekki ætlunin, heldur birta það sem mér fannst vera hægt að lesa úr skrifum þínum. 

Ég er líka ekki neitt að dramatísera neitt með að leita í fréttir að undanförnu um slæma meðferð barna sem ekki áttu heima í skólakerfinu, börn sem þú ert að lýsa með reynslusögu þínu sem foreldri í upphafi.  Slík börn eru klárlega enn til í íslensku samfélagi og þar kemur skólinn inní.

Skólinn er einfaldlega spegill samfélagsins.  Hann þarf að bregðast við breytingum samfélagsins sem hann býr í.  Það sem þetta samfélag þarf að gera er að eyða verulegum tíma og fjármunum í að styrkja innra starf skólanna og auka laun starfsfólksins þar.

Sveitarstjórnarmenn eru algerlega meðvitaðir um það held ég.  Í grunnskólum landsins eru börn sem þurfa afar misjafna þjónustu, enda nú í skólum landsins börn sem áður voru í sérskólum, eða jafnvel utan skóla.  Auk þess sem mitt persónulega mat er að í dag búi stærri hópur barna hlutfallslega við lakan kost andlega, eða í fjárhagnum. 

Við þessu er skólinn að bregðast, Ísland hefur valið sér þá stefnu í skólamálum að horfa á hvern einstakling sem mikilvægan.  Sama hvað hann fær í alþjóðlegum könnunum eða bóklegum prófum.  Sveitarfélög vilja ná til allra barna, og það er mitt mat að þar liggi stærsti kosturinn í flutningi skólans frá ríkinu.  "Neytendur" skólakerfisins voru of margir á meðan skólarnir voru ríkisskólar.

Ég held því að málið snúist að því að sveitarfélögin eigi ekki mikla peninga til að bæta inn í skólana.  Þau fátækustu hafa varla efni á að reka skólann.  Því held ég að það þurfi að velta umræðunni í þann veg.  Sveitarfélög reka metnaðarfulla skólastefnu, flest, öll held ég.  Nægir þar að benda á gríðarlega metnaðarfullu í átt til einstaklingsmiðaðs náms sem ríkir víða.

Kennarar munu ekki ná í meiri peninga fyrir sveitarfélögin.  Á meðan að miðstýringarafl sveitarfélaga ræðir við miðstýringarafl grunnskólans um of litla fjárhæð verður útkoman aldrei nema misvond.

Rökin búa sveitarfélögin til sjálf.  Þau vita hvernig skóla þau langa í.  Ef markmiðin nást ekki er það mitt mat að það sé einfaldlega oftast vegna þess að ekki hefur verið reiknað með hversu mikil vinna liggur í að útfæra slík markmið.

Þá vinnu þarf að fara í.   Mín skoðun er sú að allir grunnskólar eigi að hafa það að aðalmarkmiði að útskrifa 16 ára einstaklinga sem hafa öðlast sjálfsvirðingu og eru tilbúnir til að takast á við lífið á Íslandi, í framhaldsskóla eða utan hans.

Algerlega óháð bóklegri námsgetu.  Við eigum öll okkar hlutverk.  Samfélagið á að finna brautirnar með okkur, grunnskólinn er þar mikilvægt skref.

Magnús Þór.

Magnús Þór Jónsson, 23.2.2007 kl. 20:38

6 Smámynd: Ragnar Þór Pétursson

Um leið og ég þakka umræðuna vil ég leggja út af síðasta punkti þínum. Ég bið þig að afsaka lengdina.

Þú segir: „Sveitarstjórnarmenn eru ekki tilbúnir til að opna fjárhirslurnar bara si svona.“

Ef sú staðreynd að laun við kennslu eru ekki samkeppnishæf við meðalstörf dugar þeim ekki sem hvatning til að láta hvína í hjörunum á peningaskápum sínum, eru þeir á mjög hættulegri leið. Hér kemur fleira til.

Málið má ekki snúast um hvað menn komast upp með að borga en halda skólum samt gangandi. Það er nefnilega hættulega auðvelt að undirborga kennslu. Að hluta til vegna hugsjónafólksins sem heldur áfram kennslu löngu eftir að launin eru hætt að vera nokkur hvati en ástæðurnar eru fleiri.

Mjög stór, óhugnanlega stór, hluti kennara sem nú starfa í skólum býr í ákaflega hagfelldu eftirlaunakerfi. 95 ára reglan svokallaða hefur í meira en áratug gert það að verkum að stórir hópar kennara hafa hreinlega ekki haft nein raunhæf efni á (eða haft af því hag) að leita í önnur störf.

Á næstu 5 - 10 árum hverfur stofninn af þessu fólki úr kennslu, þúsundir kvenna og karla, og eftir situr feyskið tré. Stórir skammtar af reynslu og þekkingu hverfa á einu bretti og holrúm myndast sem ekki verður auðveldlega fyllt.

Enn og aftur, virðing kemur málinu ekki við. Virðing sem borin er fyrir kennurum hefur ekki minnkað meira en virðing fyrir t.d. lögreglumönnum, læknum, lögfræðingum, þingmönnum, foreldrum o.s.frv. Samfélagið hefur einfaldlega breyst.

Kennarar hafa reynt að breyta almenningsálitinu. Á tímabili gerðu kennarar sér far um að setja skólaþróun í öndvegi, ræða ekki um kjaramál, vinna innan frá. Á sama tíma féll launakúrfa þeirra niður fyrir allt sem áður var þekkt. Afleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar: verkföll og læti.

Eftir síðasta verkfall var ákveðið að nóg væri komið. Reynt yrði að efla ímynd kennara, innan frá sem utan. Kjör voru ekki rædd. Gengið var til viðræðna við alla sem vildu um skólaþróun (m.a.s. tóku kennarar þátt í afar óvinsælum undurbúningi til styttingar framhaldskólanáms). Afleiðingarnar voru þær að Launanefnd sveitarfélaganna gekk fullkomlega áhugalaus að borðinu þegar kom að því að meta almenna efnahags- og kjaraþróun og neitaði blákalt að grípa til aðgerða. Menntamálaráðherra skammaði þá en uppskar harla lítið. Ástæðan: Enn og aftur sú að það er fullt af sveitarfélögum sem einfaldlega hafa engin efni á hærri launum, betri skólum eða að sinna sinni lögboðnu þjónustu svo bragð sé að. Enginn vill bera ábyrgðina á því að demba auknum kröfum á þessi sveitarfélög.

Sem sagt:

1. Fyrirkomulag sveitarfélaganna þegar kemur að launamálum kennara + slæm staða margra sveitarfélaga leyfir enga hækkun á launum kennara.

2. Að kennslu laðast hugsjónafólk í meira mæli en að öðrum störfum og stór hluti kennara „getur leyft sér“ að starfa á mjög lágum launum vegna hagkvæmra eftirlaunasamninga. Að hluta skýrir það lág laun í kennslu.

3. Eftirlaunakennararnir eru á síðasta snúningi (margir eru þegar hættir) og laun kennara eru ekki samkeppnishæf til að laða nógu hæft fólk í þeirra stað.

4. Tilraunir kennara til að losna úr kjaraþrætugírnum hafa hingað til haft þær nær ófrávíkjanlegu afleiðingar að þeir fá á baukinn næst þegar sest er niður til samninga.

5. Það stendur því upp á yfirvöld og sveitarfélögin að laga til í því kerfi sem gert hefur kennslu að láglaunastarfi - áður en illa fer. Það að opna peningaskápana til að kippa þessu í liðinn er hreint ekkert „si svona“.

Ragnar Þór Pétursson, 23.2.2007 kl. 20:44

7 identicon

Sæll Páll.

Góð og þörf umræða en ég held þú þurfir að kynna þér málin aðeins betur áður en þú ferð að staðhæfa um hvernig ástand í íslenskum skólum er í dag.

Drífa Þöll Arnardóttir, kennari.

Drífa Þöll Arnardóttir (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 20:58

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sælir aftur Magnús Þór og Ragnar Þór (og Hafsteinn, ég ætla að komst í það bráðlega  að skjóta athugasemd á bloggið hans).

Mér sýnist bilið milli mín og Magnúsar Þórs einkum varða félagslega þáttinn og ætla að ræða það svolítið á bloggi Hafsteins síðar.

Upplýsingar Ragnars Þórs um eldri kennara sem enn tolla í starfi vegna eftirlauna eru athyglisverðar og boða ekki gott fyrir ástand skólamála næstu árin.

Þegar ég sagði að fjárhirslur sveitarstjórna væru ekki auðopnar átti ég við að það þurfi rök, að ég segi ekki þrýsting, til að fá sveitarstjórnarmenn að samþykkja aukin útgjöld. Þeir láta lítt segjast þegar almennum röksemdum er teflt fram, stjórnmál virka ekki þannig. Það þarf sértækari og brýnni röksemdir.

Sveitarstjórnarmenn hlusta á rödd kjósenda, til þess eru þeir jú, og takist að sannfæra foreldra um tillögur sem miða að eflingu grunnskólans er von til að knýja fram auknar fjárveitingar til skólamála.

Sennilega hitt Ragnar Þór naglann á höfuðið í fyrri athugasemd um að rjúfa vítahringinn sem felst í samstöðu sveitarfélaga um kjarastefnu gagnvart kennurum. Líklega felur það í sér að kennarar í hverju sveitarfélagi taki höndum saman við foreldra um mótun skólaþróunarstefnu. Það hljómar, a.m.k. í fyrstu umferð, sem ágæt hugmynd. 

Páll Vilhjálmsson, 23.2.2007 kl. 21:22

9 Smámynd: Ragnar Þór Pétursson

Ég get ekki stillt mig um að henda inn einni athugasemd enn.

Stóri gallinn er að þessi fúna bygging, sem löngu er orðið tímabært að rífa og hefur smám saman tryggt það að kennsla er láglaunastarf, er geirnegld framan og aftan með margvíslegum varnöglum.

Nú tek ég þá hættu að verða útskúfað úr hópi samkennara minna, en skítt með það. Það þýðir ekki að tala um þessi mál undan feldi:

Ef þú lætur of stóran hluta starfsmannahópsins vera undirlaunaða hugsjónamenn - þá býður þú heim hættunni á kjarabaráttu sem einkennist af áþekkum hugsjónum (gjarnan verkfallsbrölti og átökum). Baráttan, eins og starfið, lýtur ekki heilbrigðum skynsemisreglum, heldur er knúin af óræðum hugsjónaeldi. Þú leysir ekki auðveldlega launadeilu við hóp fólks sem setur heilaga vandlætingu í fyrsta sætið, en skynsamlegt fjárhagsvit í annað sætið. En lágu launin hrinda kerfisbundið fólkinu með fjárhagsvitið frá kennslu og hækka hlutfall reiðu hugsjónamannanna.

Það væri því öllum fyrir bestu að hækka launin, laða að fólk með „kaldari“ skynsemi sem leysir deilur og gerir samninga á skynsamlegri hátt.

Að auki er erfitt að eiga við sveitarfélögin en þau hafa flækt sameiginlega hagsmuni sína í svo rækilegan rembihnút að enginn þorir að taka sinn sjóð úr púkkinu. Sveitarfélag sem slíkt gerði ætti yfir höfði sér refsiaðgerðir á öðrum sviðum. Allar sveitastjórnir vísa á Samband sveitarfélaga og LN þegar að þeim er sótt vegna þessara mála og fullyrða að þeim séu þar settir afarkostir.

Þá flækir málin að stjórnvöldum er mjög í mun að gera ekki sjálf sig ábyrg fyrir fjárþurrð sveitarfélaganna.

Að endingu flækist málið enn meira vegna þess að menn óttast stéttskipt menntakerfi. Ef eitt sveitarfélag yfirborgaði og laðaði að sér bestu kennarana með besta útbúnaðinn í bestu skólunum væri kominn vísir að menntastéttarskiptingu sem afar margir eru á móti.

Málið er því allt í einum herjans hnút.

Hærri laun kennara geta þó ekkert gert nema bætt ástandið, sama hvernig á það er litið.

Ragnar Þór Pétursson, 23.2.2007 kl. 22:46

10 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Greiningin á hugsjónafólki er sannferðug. Ég starfaði einu sinni í stjórnmálaflokki þar sem fólk af þessu tagi var áberandi, oft til góðs en stundum til tjóns.

Kennaralaun hafa verið jöfnuð niður á við, svo að það er spurning hvort ekki sé hægt að jafna þau upp á við. Ef tækist að rjúfa samstöðu launanefndar sveitarfélaga og gera viðunandi samninga við eitt eða fleiri sveitarfélög er líklegt að umræðan um stéttskiptinguna færi af stað, eins og þú segir. Á hinn bóginn er allt eins víst að sú umræða myndi leiða til stjórnvaldsaðgerða til að gera efnaminni sveitarfélögum kleift að bjóða sambærileg laun.

Páll Vilhjálmsson, 24.2.2007 kl. 00:46

11 identicon

Einkarekum skólana og gefum þeim þarmeð færi á að verðlauna bestu kennarana. Það hefur t.d. sannað sig í Verslunarskólanum og HR að mögulegt er að heilla hæfileikaríkt fólk úr atvinnulífinu í kennarastöður þegar svigrúm er til þess. Þeir einkareknu skólar sem nú eru til staðar hafa löngu sýnt og sannað gildi sitt.

Ég hef bæði stundað nám í viðskiptadeild HR og HÍ og get nánast fullyrt að allir þeir sem gengið hafa í gegnum það taka undir með mér. Munurinn á gæði kennslu og færni kennara er þvílíkur að ég vona bara svo sannarlega að við berum gæfu til að auka einkarekstur til muna á næstunni.

Björn Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 17:34

12 identicon

Er búið að varpa uppeldishlutverkinu alfarið yfir á einhverjar stofnanir? Hafa foreldrar engar skyldur gagnvart samfélaginu þegar kemur að afkvæmum þeirra? Á að ala fólk upp í 30 manna hollum? Mér er spurn.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband