Markaðsfjölræði er svarið við klíkukapítalisma og öðru hruni

Klíkukapítalismi orsakaði hrunið, segir Hannes Hólmsteinn. Nei, frjálshyggjan er sökudólgurinn, segir Stefán Ólafsson. Þessar tvær eru meginútskýringar hrunsins og endurspegla litróf stjórnmálanna.

Adam Smith, stundum nefndur faðir hagfræðinnar, skrifaði á þá leið í höfuðriti sínu að sjaldnast mættu tveir eða fleiri atvinnurekendur hittast án þess að skipuleggja verðsamsæri gegn almenningi. Samkvæmt Smith er kapítalismi í eðli sínu klíkukenndur og gæti aldrei orðið annað í fámennissamfélagi eins og því íslenska.

Hægrimenn verja sinn Adam Smith og vísa til framhaldsins af varnaðarorðum meistarans. Smith segir að engin lög geti komið í veg fyrir verðsamsæri. Þó sé hægt að lágmarka tækifæri til samsæra með því að koma í veg fyrir samráðsvettvang viðskiptageira. Sem sagt farvel til Samtaka iðnaðarins, LÍÚ og samtaka viðskiptabanka. Ekki beinlínis raunhæft, einkum ef haft er í huga að ASÍ gæti tæplega fengið starfsleyfi ef banna ætti samtök atvinnurekenda.

Þessi orð Smith eru tilfærð hér vegna þess að sumir hægrimenn virðast telja of mikil ríkisafskipti ástæðu hrunsins og sækja rökin til útlanda. 

Umræðan um hlutverk ríkisins gagnvart markaðnum er hérlendis einkum í samhengi við verkalýðsbaráttu og sósíalisma annars vegar og hins vegar athafnafrelsi og einstaklingshyggju. Á Íslandi er hefð frá landnámi fyrir frumsósíalisma, t.d. framfærsluskylda hreppanna. Einstaklingshyggja er þjóðinni í blóð borin enda sjálfur hvatinn að byggð hér á landi.

Í heimi engilsaxa, en þangað sækjum við helst pólitíska orðræðu okkar (Hannes og Stefán eru báðir útskrifaðir úr enskum háskólum) var löngu fyrir daga Adam Smith kominn traustur hugmyndagrunnur fyrir ríkisvald. Hann lagði Thomas Hobbes um miðja 17. öld, um það bil sem Íslendingar sóru Danakonungi einveldishollustu. Án ríkisvalds, sagði Hobbes, er lífið einmanna, fátækt, subbulegt, ofbeldiskennt og stutt.

Án ríkisvalds, þar sem markaðurinn einn ræður, eru allir í stríði við alla, eru skilaboð Hobbes. 

Þrætur um ríkisvald andspænis markaði eru lífsseigar en geta hvorki skýrt hrunið né lagt drög að fyrirkomulagi sem hindrar endurtekningu þess.

Til að njóta hagkvæmni markaðsskipulags en koma í veg fyrir meginókostina, sem eru fákeppni og tilheyrandi verðsamsæri gegn almenningi, verður að gera sátt um markaðsfjölræði. Hugmyndin um markaðsfjölræði felur í sér að ríkisvaldið liðki fyrir samkeppni eftir megni annars vegar og hins vegar grípi inn í markaðinn með því að brjóta upp einokunartilburði og fákeppni.

Markaðsfjölræði viðurkennir kosti markaðsskipulagsins í þágu almannahags en hafnar kreddum um að markaðurinn geti nokkru sinni verið fullkominn og starfað án eftirlits og yfirumsjónar lýðræðislegs valds.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband