Flatneskja í fjölmiðlaflóru

Peningar kaupa ekki gæði í blaðamennsku. Aldrei í sögu prentmiðla á Íslandi hafa jafn miklir fjármunir verið lagðir í dagblöð, vikublöð og tímarit. Ef allt væri með felldu ætti lesendum að standa til boða fjölbreytt úrval fjölmiðlaefnis sem endurspeglaði margbreytilegar áherslur í fréttavali, framsetningu, sjónarhornum, greiningu og gagnrýni.

En því er ekki að heilsa. Þrátt fyrir fjölda titla blasir flatneskjan við í prentmiðlaútgáfu. Að slepptum hverdagslegum stuttfréttum er uppistaðan heimildastýrð endurvinnsluviðtöl og álitsgjafadálkar.

Nýjasta afurðin, Krónikan, er með Hannes Smárason kaupsýslumann á forsíðu. Viðtalið við hann er maður búinn að lesa áður í Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu. Annað viðtal er við Gísla Örn Garðarsson leikara og leikstjóra sem hefur verið tíður gestur á síðum dagblaða og tímarita. Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra er líka í viðtali. Tveir álitsgjafar, Sigmar Guðmundsson og Guðmundur Magnússon, skrifa sína síðuna hvor. Eina unna fréttin sem eitthvað kveður að í þessu 80 blaðsíðna vikuriti er um sjóræningjaveiðar í Barentshafi.

Prentmiðlar verða að eiga erindi við lesendur. Þeim þarf að liggja eitthvað á hjarta, annað en það að koma út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Mér hefur alla tíð þótt heldur ræfilsleg umfjöllunin um viðskiptaheiminn og þá sérstaklega viðskiptastórveldin sem hafa myndast á Íslandi á síðustu árum. Að vísu er auknum tíma varið í að segja frá gengi hlutabréfa og annarra viðmiða úr heimi fjármagns og viðskipta en tilraunir til þess að bregða birtu á t.d. eignaskiptingu og innbyrðistengsl einstaklinganna sem stýra þessum stórveldum hafa oft verið óspennandi og jafnvel yfirborðskenndar og ekki til þess fallnar ad vekja athygli. Hér tel ég að verk sé að vinna - ekki til þess að elta uppi sérhverja samsæriskenningu sem berst upp á yfirborðið eða fara í nornaveiðar heldur til þess annars vegar að upplýsa neytendur og viðhalda árvekni þeirra og hins vegar að þjóna hlutverki vaktmanna viðskiptalegs siðgæðis.

það skaðar vissulega ekki ef fjölmiðlum tekst ad koma upp um stöku misferli - ef þeim er þá fyrir að fara ... Páll, þú ert kunnur fyrir álit þitt á Baugsveldinu: eða öllu heldur stjórnendum þess. Fyrir vikið hafa sumir sett þig í flokk með kverúlöntum því í hugum margra nálgast það drottinsvik að gagnrýna Baug og eigendur þess - og ein auðveldasta leiðin til þess að slá á gagnrýni er að stimpla gagnrýnandann kverúlant eða vindmyllubana. Ég hef fylgst með gagnrýni þinni en til þess að komast ad sjálfstæðri niðurstöðu um meint misferli Baugs hefur mig oft skort frekari upplýsingar eða sannfæringu þína en þó ekki alltaf!

Ólafur Als, 19.2.2007 kl. 12:52

2 identicon

Og því fleiri sem eru útskrifaðir í fjölmiðlafræðum frá háskólum á Íslandi á því lægra plan fer íslensk fjölmiðlun!

Byggingaverkamaður (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 14:32

3 identicon

"Eina unna fréttin er um sjóræningjaveiðar í Barentshafi":  Þessi frétt er greinilega unnin upp úr gögnum frá norska LÍÚ og málgagni þeirra og endurspeglar alfarið þeirra sjónarmið sem koma fram í þeirra málgagni.  Að öðru leiti er greinin hroðvirknislega og yfirborðslega unnin.

Lesandi (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband