Verðhjöðnun eykur kaupmátt

Gerist þau tíðindi að verðbólgan fer í mínus, þ.e. verðhjöðnun, eykst kaupmáttur launa og vísitölulán lækka. Ef fram heldur sem horfir á vinnumarkaði að gerðir verða skammtímasamningar með óverulegum launahækkunum aukast líkur á verðhjöðnun seinni hluta ársins.

Fyrir verðbólgusamfélag eins og það íslenska er verðhjöðnun nýmæli. Í iðnaðarsamfélögum er verðhjöðnun talin verri kostur en verðbólga sökum þess að minnkandi eftirspurn dregur úr framleiðslu sem aftur dregur úr kaupgetu og veldur enn minni eftirspurn.

Í útflutningshagkerfi eins og því íslenska er auðvelt að örva eftirspurn t.d. með lækkun á innflutningsgjöldum á bílum. Það er hins vegar tæplega forgangsmál þegar við búum við gjaldeyrishöft.

Seðlabankinn er með fingur á gikk sem hleypir af verðbólguskoti - afnámi gjaldeyrishafta.


mbl.is Verðbólgan komin í 1,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvernig getur eftirspurn minnkað þegar kaupmáttur eykst?

Ég hefði haldið að þegar fólk getur keypt meira, muni það gera það.

Það er ekkert annað en vel heppnaður áróður af hálfu fjármagnseigenda að verðhjöðnun sé endilega slæm. Fyrir almenna launþega er hún nefninlega góð, sérstaklega hér á Íslandi þar sem lánskjör eru mikið tengd verðlagi.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.1.2011 kl. 11:48

2 identicon

Væntanlega minnkar eftirspurnin ef neytendur hafa ástæðu til að ætla að þeir geti fengið hlutina á lægra verði á morgun, en þeir kosta í dag.

Baldur (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 11:59

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ekki ef neytendur hafa verið að fresta neyslu hingað til vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekki haft efni á henni. Þá myndi fólk einmitt byrja að versla aftur um leið og það hefur efni á, sem gerist þegar kaupmáttur eykst. Lykilatriðið er hinsvegar að það gerist bara ekki of hratt, því þá verður fólk líklegra til að fyllast skelfingu, alveg eins og í óðaverðbólgu.

Athugaðu Baldur að kaupmáttaraukning er ekki heldur endilega það sama og lækkun á vöruverði að krónutölu. Stór hluti breytingarinnar núna er t.d. vegna brotnáms útvarpsgjalds úr reiknilíkani verðlagsvísitölunnar, sem hefur akkúrat ekkert með vöruverð að gera, og annar stór hluti er vegna fallandi húsnæðisverðs sem skilar sér ekki heldur á hillumerkingar í búðum. Kaupmáttaraukningin sem á sér þannig stað er því ekki vegna þess að vöruverð hafi lækkað (að krónutölu) heldur vegna þess að ráðstöfunartekjur fólks hafa aukist (að krónutölu). Þó að niðurstaðan sé frá hagrænu sjónarmiði sú sama þá eru sálfræðilegu áhrifin gjörólík, sá sem horfir upp á verðhrun verður e.t.v. áhyggjufullur og freistast til að bíða eftir stöðugleika, en sá sem fær auknar tekjur til ráðstöfunar er hinsvegar líklegur til að gleðjast og eyða þeim peningum í eitthvað skemmtilegt eða gagnlegt. Ekki síst ef það er langt síðan viðkomandi hefur getað gert sér glaðan dag vegna yfirstandandi kreppu.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.1.2011 kl. 14:02

4 Smámynd: Anderson

Ég held að verðhjöðnun hafi lítið með eftirspurn að gera - ekki frekar en að verðbólga auki eftirspurn. Aftur á móti er rétt að viðvarandi verðhjöðnun hefur neikvæð og letjandi áhrif á hagkerfið, eins og m.t.t. fjárfestinga, svipað og þið hafið lýst hér að ofan.

Það getur vel verið að til skamms tíma sé þetta að einhverju leyti örvandi, eins og Guðmundur lýsir... að fólk hafi frekar efni á hlutunum vegna aukins kaupmáttar. En til lengri tíma er verðhjöðnun slæmt mál. En það er nú líklega það síðasta sem við þurfum að hafa áhyggjur af hér á landi.

Anderson, 26.1.2011 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband