RÚV veðjar pólitísku kapítali Pírata

Fréttastofa RÚV, trú sinni pólitísku köllun, veðjar trúverðugleika Pírata að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks falli vegna þess að eiginkona forsætisráðherra á peninga á erlendum bankareikningi.

Í sexfréttum RÚV var í miðjum fréttatíma kallaður til þingmaður Pírata sem boðaði vantraust á ríkisstjórnina. Í sjöfréttum RÚV var sama frétt gerð að aðalfrétt kvöldsins. Engar nýjar upplýsingar voru í fréttinni. Reynt er að gera fullkomlega löglegan bankareikning eiginkonu forsætisráðherra tortryggilegan með hlutdrægu orðalagi um að hún ,,upplýsti skyndilega í vikunni" um mál sem löngu áður hafði komið fram.

Píratar, sem mælast með mest fylgi allra stjórnmálaflokka, verða úr þessu að láta slag standa og leggja fram vantraust á ríkisstjórnina strax eftir páska.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, til dæmis Vilhjálmur Bjarnason, verða að gera upp við sig hvort þeir leggist á árarnar með stjórnarandstöðunni. Það væri þá annar bragur á þingflokki Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokksins þegar stjórnarandstaðan og RÚV gerðu atlögu að þáverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

RÚV sérhæfir sig í aðgerðafréttum sem endurspegla ekki hlutlæga atburði en eru pólitískar galdrabrennur. Píratar eru nytsamir sakleysingjar fréttastofu RÚV núna þegar vinstriflokkarnir eru rúnir trausti og trúverðugleika.

 

 

 

 


Stjórnlagaþingið 2010 útskýrir forsetakosningarnar í sumar

Frambjóðendur til stjórnlagaþings árið 2010 voru 525, þ.e. 21 frambjóðandi um hvert sæti á stjórnlagaþingi. Líkur eru á að frambjóðendur til forseta í ár verði einmitt um 20.

Í kosningunum til stjórnlagaþings var lagt upp með að hver og einn gæti á eigin forsendum boðið sig fram. Það gekk eftir að fjarska margir Hversdags-Íslendingar gáfu kost á sér.

Þegar til kastanna kom áttu þeir sem komu úr fjölmiðlum, höfðu starfað í þágu þekktra félagasamtaka eða unnið á stórum vinnustöðum áttu meiri möguleika en aðrir.

Með þeim fyrirvara að forsetakosningarnar í sumar taka stökkbreytingu ef þungavigtarfólk úr stjórnmálum gefur sig í slaginn er líklegt að sambærileg þróun verði næstu vikur og fyrir stjórnlagaþingið. Umræðan var lítil enda þótti ekki mikið í húfi. Frambjóðendur kynntu sig á samfélagsmiðlum fremur en með stórum samkomum. Eitthvað var unnið á bakvið tjöldin þar sem reynt var að virkja félagsauð sem stóð nærri einstökum frambjóðendum án þess að þau vinnubrögð yrðu tilefni til deilna.

Lítil þátttaka var í kosningunum til stjórnlagaþings, um 35 prósent, sem staðfestir öfugt samband milli fjölda frambjóðenda og áhuga almennings. Fjöldi frambjóðenda vex þegar lítið er í húfi fyrir þá hvern og einn og átakapólitík er fjarri. Þegar meira er undir og deilur harðna þjappar fólk sér saman um fáeina foringja. Þetta einkenni stjórnmálanna gilti á Sturlungaöld og gerir enn í dag.

Verði framhaldið sem horfir, að stórvesírar stjórnmálanna haldi sig fjarri, er líklegt að við kjósum okkur huggulega saklausan forseta með lítilli kosningaþátttöku. Næsti forseti verður með veikt umboð og þarf að vanda sig til að verða ekki sá fyrsti sem kastað er út af Bessastöðum eftir fjögur ár.

 


mbl.is Ekki frátekið fyrir stjörnur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump talar máli láglaunafólks

New York Times skýrir vinsældir Donald Trump út frá stuðningi hans við baráttu verkalýðshreyfingarinnar að halda störfum í Bandaríkjunum en flytja þau ekki til láglaunasvæða eins og Mexíkó.

Ítarleg frétt New York Times tekur dæmi um flutning verksmiðjustarfa frá Indianapolis til Mexíkó. Verkamaður í Indianapolis fær á milli 15 til 26 dollara í kaup á klukkustund og vinnur tíu klst. á dag. Verkamaður í Monterrey í Mexíkó vinnur jafn langan vinnudag og fær á milli 9 og 19 dollara Á DAG í kaup.

Donald Trump gerði málstað verkamanna í Indianapolis að sínum. Hann krefst þess að ákvörðun um lokun verksmiðju Carrier verði afturkölluð. Nái Trump kjöri til forseta ætlar hann að berjast gegn viðskiptasamningum um frjálsa verslun sem grafa undan lífskjörum verkamanna.

Breska vinstriútgáfan Guardian vakti athygli á þessum róttæku skilaboðum Trump og að þau skiluðu honum stuðningi láglaunafólks.

Bernie Sanders, sósíalistinn sem berst við Hillary Clinton um að verða frambjóðandi Demókrataflokksins, talar sama máli og Trump gegn stórfyrirtækjum sem flytja framleiðsluna til láglaunalanda.

Hillary Clinton mun líklega sigra Sanders. Hún er hluti valdaelítunnar sem trúir á frjálsa verslun sem hornstein framfara. Milljarðamæringurinn Trump er á hinn bóginn málsvari verkamanna sem horfa fram á lakari kjör þegar störfum þeirra er fórnað fyrir aukinn hagnað stórfyrirtækja.


mbl.is Romney kýs Cruz fram yfir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband