Stjórnlagaþingið 2010 útskýrir forsetakosningarnar í sumar

Frambjóðendur til stjórnlagaþings árið 2010 voru 525, þ.e. 21 frambjóðandi um hvert sæti á stjórnlagaþingi. Líkur eru á að frambjóðendur til forseta í ár verði einmitt um 20.

Í kosningunum til stjórnlagaþings var lagt upp með að hver og einn gæti á eigin forsendum boðið sig fram. Það gekk eftir að fjarska margir Hversdags-Íslendingar gáfu kost á sér.

Þegar til kastanna kom áttu þeir sem komu úr fjölmiðlum, höfðu starfað í þágu þekktra félagasamtaka eða unnið á stórum vinnustöðum áttu meiri möguleika en aðrir.

Með þeim fyrirvara að forsetakosningarnar í sumar taka stökkbreytingu ef þungavigtarfólk úr stjórnmálum gefur sig í slaginn er líklegt að sambærileg þróun verði næstu vikur og fyrir stjórnlagaþingið. Umræðan var lítil enda þótti ekki mikið í húfi. Frambjóðendur kynntu sig á samfélagsmiðlum fremur en með stórum samkomum. Eitthvað var unnið á bakvið tjöldin þar sem reynt var að virkja félagsauð sem stóð nærri einstökum frambjóðendum án þess að þau vinnubrögð yrðu tilefni til deilna.

Lítil þátttaka var í kosningunum til stjórnlagaþings, um 35 prósent, sem staðfestir öfugt samband milli fjölda frambjóðenda og áhuga almennings. Fjöldi frambjóðenda vex þegar lítið er í húfi fyrir þá hvern og einn og átakapólitík er fjarri. Þegar meira er undir og deilur harðna þjappar fólk sér saman um fáeina foringja. Þetta einkenni stjórnmálanna gilti á Sturlungaöld og gerir enn í dag.

Verði framhaldið sem horfir, að stórvesírar stjórnmálanna haldi sig fjarri, er líklegt að við kjósum okkur huggulega saklausan forseta með lítilli kosningaþátttöku. Næsti forseti verður með veikt umboð og þarf að vanda sig til að verða ekki sá fyrsti sem kastað er út af Bessastöðum eftir fjögur ár.

 


mbl.is Ekki frátekið fyrir stjörnur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er farið að skýrast fylgistap Samfylkingar. Flestir kjósendur hennar stefna á Bessastaði!

Annars er djarft af Hrannari að bjóða sig fram til forseta. Þeir sem slíkt gera verða að búast við að saga þeirra verði skoðuð, svo langt aftur í tímann sem hægt er. Saga Hrannars á síðasta áratug síðustu aldar er ekki með þeim hætti að hann geti verið stoltur af. Hver man eftir Arnarson og Hjörvar?

Hann treystir kannski á að fjölmiðlar haldi sama hlífðarskyldi yfir honum og flokknum hans. Sannarlega mun ruv ekki velta upp þessari gömlu sögu og sjálfsagt má búast við að Baugsmiðlar láti hana liggja, en það eru sem betur fer fleiri fjölmiðlar í landinu og nokkuð víst að einhverjir þeirra rifji upp söguna um Arnarson og Hjörvar.

Gunnar Heiðarsson, 20.3.2016 kl. 15:18

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er Hrannar Pétursson, heimspekilærð málpípa álfyrirtækis, sem er að bjóða sig fram, ekki Hrannar Arnarsson, Gunnar minn.

Nýjasti frambjóðandinn, sem ég frétti af (á Rúv-vefnum rétt áðan), er Guðmundur Franklín Jónsson, fv. formaður fv. flokks Hæri grænna. Svo heyrði ég stungið upp á einum mjög öflugum manni í morgun, en hef þó verið að mæla með konu, sem mun tilkynna sitt framboð á þriðjudaginn.

Páll veltir því hér fyrir sér, að farið gæti svo, að sá framjóðandi, sem nú næði kannski naumri kosningu með litlu umboði, gæti orðið fyrstur til að verða "kastað út af Bessastöðum eftir fjögur ár".

En einn virðist nú þegar hafa kastað sér út úr frambjóðendahópnum með eigin glapræðismistökum, dómgreindarleysi og allsendis ótrúlega yfirgengilegum ummælum, en sá er síra Davíð Þór Jónsson, héraðsprestur á Eskifirði, sjá nánar þetta skelfilega viðtal við hann á Útvarpi Sögu í gær*! (smellið á þetta bláa og finnið þáttinn þar á síðunni, líkl. efst t.h., að minnsta kosti þegar þetta er ritað).

Páll skrifar, að "þeir sem komu úr fjölmiðlum, höfðu starfað í þágu þekktra félagasamtaka eða unnið á stórum vinnustöðum" hafi átt "meiri möguleika en aðrir" í kosningum til stjórnlagaþings. – En hinu má ekki gleyma, að ýmsir, sem fengu þá flest atkvæði, eyddu verulegu fé í sífelldar auglýsingar.

Nú er Halla Tómasdóttir, frumkvöðull og fjárfestir, farin að setja heilsíðuauglýsingar í blöð, hefur kannski trú á þessu sem góðri fjárfestingu! En lætur þjóðin blekkjast af slíku? Halla þessi varði ekki Íslendinga í Icesave-málinu með einu orði gegn Bretum og Hollendingum og Evrópusambandinu, enda var hún og er Evrópusambands-innlimunarsinni og meðlimur öfugmælasamtakanna "Já Ísland!", sjá nánar hér: Halla Tómasdóttir Icesave- og ESB-kona!

* http://www.utvarpsaga.is/eldri-thaettir-2.html

Jón Valur Jensson, 20.3.2016 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband