Dómstóll götunnar afþakkaður

Tilraunir til að endurskoða dóma réttarkerfisins byggja nær alltaf á múgsefjun af einum eða öðrum toga. Stundum eru það lukkuriddarar réttlætisins sem finna sér málstað ógæfumanna að berjast fyrir. Í öðrum tilvikum ráða auðmenn sér almannatengla og kaupa sér fjölmiðla til að útbreiða fagnaðarerindið um sakleysi dæmdra manna.

Stjórnmálamenn eru eðli málsins samkvæmt næmari fyrir múgsefjun en dómstólar. Fyrirbrigði sem heitir ,,endurupptökunefnd innanríkisráðuneytis" er með trúverðugt nafn. En það er skipað fulltrúum framkvæmdavaldsins og æðstir þess valds eru stjórnmálamenn og háðir endurkjöri og framlögum í kosningasjóði.

Múgsefjun býr til dómstól götunnar. Sá dómstóll getur brugðið sér í ýmissa kvikinda líki en verður aldrei hlutlægur og yfirvegaður á sama hátt og dómstólar.

Við búum við réttarkerfi sem í öllum meginatriðum framleiðir réttlæti. Látum þar við sitja.


mbl.is Má ekki fella dóma úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir siðleysingjar, saklaus stúlka og hlutverk fjölmiðla

Ljótt að heyra frásögn Bylgju Babýlons um tvo stráka sem gengu í skrokk á henni í æsku. Drengirnir tveir urðu fullorðnir nauðgarar og óhætt að segja að snemma beygist krókurinn.

Bylgja er eina heimild blaðamanns fyrir frásögninni um níð á minni máttar og slaka framgöngu yfirmanna í skóla í röktu eineltismáli.

Það er ekki einleikið hvað ,,frægir" verða fyrir slæmri lífsreynslu snemma á ævinni: Hallgrími var nauðgað, einhver perri gerði Vigdís Gríms óleik og svo er það söngkonan sem fékk í sig súkkulaðimola og óprenthæfar athugasemdir - í árum talið raunar eftir að barndómi lauk. Þá er ótalinn Jón Gnarr sem skemmdist á Núpi vegna villimennsku skólasystkina og starfsliðs. Núna er það sem sagt Bylgja Babýlons er rifjar upp erfiða æsku með lexíu handa uppalendum á heimilum og skólum.

Blaðamaðurinn, og ritstjórn mbl.is, hljóta að fara í málið, kynna sér málsatvik; ræða við skólastjórnendur í viðkomandi skóla og kanna félagslegan bakgrunn siðleysingjanna sem píndu Bylgju. Málavextir og kringumstæður ættu að vera ær og kýr fjölmiðla í málum af þessu tagi en ekki fésbókarfærslur.

,,Frægir" þrífast á umræðunni þar sem betra er að veifa röngu tré en öngu. Hlutverk fjölmiðla er ekki að vera gjallarhorn ,,frægra" heldur að upplýsa almenning um stöðu mála. Fjölmiðlar eiga ekki að útmála fyrir almenningi einnar heimildar heimsmynd ,,frægra" heldur draga upp raunsanna mynd af veruleikanum.    


mbl.is Alltaf eins og hún væri vandamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondu karlarnir í Sýrlandi

Ráðamenn á vesturlöndum kenna Assad forseta um upplausnarástandið í Sýrlandi og þar á eftir Pútín Rússlandsforseta fyrir að styðja Assad. Íslensk stjórnvöld eru aðilar að endurlífgun Rússagrýlu með aðild að viðskiptabanni (með Úkraínurökum).

Í Bandaríkjunum er ekki einhugur um að Assad/Pútín séu skúrkarnir í Sýrlandi. í Boston Globe, góðborgaralegu stórblaði, birtist grein eftir Stephen Kinzer frá rannsóknastofnun við Brown háskóla sem húðskammar fjölmiðla fyrir að taka undir með kolrangri greiningu bandaríska stjónvalda á ástandinu í Sýrlandi.

Samkvæmt Kinzer eru svokallaðir hófsamir uppreisnarmenn, sem vestræn ríki styðja, varla annað en hópar misindismanna sem sitja yfir hlut almennings.

Kinzer segir alvarlegt að bandarísk umræða sé svo utangátta að taka ofbeldismenn fyrir engla. Bandaríkin, segir Kinzer, ráða lífi og dauða þjóða með hernaðarmætti sínum.

Nýleg dæmi um hvernig hernaðarmætti Bandaríkjanna er beitt til að búa til nýtt yfirvald þjóða, t.d. í Írak, lofa ekki góðu fyrir Sýrland. Það er saga bandarískra afskipta af lögmætum ríkisstjórnum í miðausturlöndum ekki áferðafalleg.

Vondu karlarnir í Sýrlandi eru ekki einu megin víglínunnar en þeir góðu hinum megin.


mbl.is Vörpuðu 21 tonni af neyðarbirgðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri-píratar og hægri-píratar

Svanur Kristjánsson er í bandalagi með Birgittu Jónsdóttur í vinstriarmi Pírata. Sonur Svans er borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík og líklega í sama liði. Á hægri væng Pírata stendur Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður sem talar fyrir frjálshyggjulegu lágmarksríki frjálsra borgara án leiðtoga.

Velgengni Pírata í skoðanakönnunum verður skiljanlegra þegar haft er í huga að til þessa störfuðu vinstrimenn og hægrimenn hlið við hlið í flokknum. Saklaust nördayfirbragð Pírata gaf fólki átyllu til að þeim atkvæði sitt í skoðanakönnunum. Umræða síðustu daga gefur til kynna að þeir dagar séu taldir.

Uppgjör vinstri-pírata við hægri-pírata er hugmyndafræðilegt annars vegar og hins vegar persónulegt, líkt og ávallt í innanflokksdeilum. Það er einnig uppgjör á milli hugsjónafólks og raunsæismanna.

Baráttan stendur um fylgi sem við síðustu mælingu var 35 prósent. Innanflokksátök draga úr fylgi en fylgistap er einmitt eldsneyti slíkra átaka. Þegar barist er um síminnkandi gæði verður hver ný orusta mikilvægari en sú síðasta.


mbl.is Ráðist á þingmann með svikabrigslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband