Svíar telja Norðmenn nasista - pólitísk rétttrúnaðarumræða

Norðmenn, líkt og Íslendingar, halda upp á þjóðhátíðardaginn sinn með fánum, skrúðgöngum og útileikjum. Svíum finnst fánahylling nasísk og átelja þjóðina vestan Kjalar fyrir að vera halla undir þýsku helstefnuna sem margir Norðmenn gáfu líf sitt að berjast gegn - en fáir Svíar.

Norskur rithöfundur búsettur í Svíþjóð, Karl Ove Knausgård, á ýmislegt vantalað við sænskt samfélag, sem hann segir einkennast af pólitískum rétttrúnaði.

Í grein í Dagens Nyheter segir Knausgård að sænska umræðan þoli hvorki frávik né margræðni. Aðeins ein skoðun opinber skal vera á öllum helstu samfélagsmálum. Nýr stjórnmálaflokkur, Svíþjóðardemókratarnir, fékk á annan tug prósenta í þingkosningum. En pólitíska flokkakerfið tók sig saman, kallaði nýja flokkinn nasískan, og myndaði þjóðstjórn beinlínis til að þagga niður í Svíþjóðardemókrötum.

Knausgård segir sænska umræðumenningu stjórnast af hræðslu. Rithöfundar þora ekki að tjá sig af ótta við að vera stimplaðir nasistar, kvenfjandsamlegir og eitthvað þaðan af verra.

Knausgård talar af reynslu. Í skáldsögu skrifar hann um ást kennara og 13 ára nemanda. Í opinberri umræðu sænskri er norski rithöfundurinn sagður barnaníðingur.


Framsókn er jafnaðarmannaflokkur, ekki Samfylking

Forsætisráðherra og Framsóknarflokkurinn báru fram til sigurs kröfuna um 300 þúsund króna lágmarkslaun, sem fékkst viðurkennd í nýjum kjarasamningum. Samfylkingin hundsaði kröfuna í fyrstu en tók seint og um síðir hjárænulega undir.

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins rekur skilmerkilega hvernig Framsóknarflokkurinn ruddi brautina í þágu þeirra lægst launuðu.

Samfylking er flokkur langskólafólks sem krefst forréttinda vegna prófgráðu og óskar sér helst að starfa í skrifræðinu í Brussel.


Launajöfnuður, menntun og sanngirni

Nýir kjarasamningar stuðla að launajöfnuði í landinu. Þau tíðindi ættu að vekja jákvæð viðbrögð hjá þeim sem tíðast kenna sig við jöfnuð, þ.e. vinstriflokkana. En í stað fagnaðar kemur gagnrýni um að kjarasamningarnar séu ,,aðför að menntun í landinu."

Gagnrýnin byggir á þröngum skilningi á menntun, að hún sé til að fá hærra kaup. Menntun er annað og meira en klifur upp launatöflu. Menntun er tækifæri einstaklingsins að auðga sjálfan sig af skilningi, þekkingu og færni. Samfélagið nýtur góðs af menntun einstaklinganna með því að þeir skapa verðmæti, bæði óforgengileg á sviði menningar og efnisleg í formi tækni. Hvorttveggja stuðlar að bættum lífskjörum í viðum skilningi.

Það ber lýðveldinu fagurt vitni að jöfn tækifæri eru fyrir alla að afla sér menntunar með skólagöngu frá sex ára aldri til þrítugs.

Á hitt er engu að síður að líta að meðan einstaklingurinn menntar sig aflar hann ekki tekna, nema með aukastörfum. Allur þorri þeirra sem eiga að baki langskólanám eru stórskuldugir LÍN.

Sanngirnismál er að langskólafólk glími ekki við skuldaklafa í áravís eftir að námi lýkur. Til framtíðar ætti LÍN að verða SÍN - Styrktarsjóður íslenskra námsmanna. Þangað til gæti ríkisvaldið sýnt hug sinn til menntunar með því að greiða niður námsskuldir langskólafólks í tengslum við kjarasamninga.

Að þessu gefnu gætum við með góðri samvisku varið sjónarmið launajöfnuðar.


mbl.is Vigdís: Ekki aðför að menntun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband