Benedikt hafnar hægriflokki Árna Páls

Árni Páll Árnason reyndi nýverið að selja ESB-sinnum Samfylkinguna (12,9%) sem hægriflokk með frjálshyggjuskoðanir. Ekki voru undirtektir góðar meðal flokksmanna Árna Páls sem sökuðu hann um yfirstéttardekur.

Yfirstéttarmaðurinn Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður Nýherja, og áhugamaður um framsal á fullveldinu til Brussel hryggbrýtur Árna Pál með yfirlýsingu um að hann safni liði í nýjan hægriflokk.

ESB-sinnar í Sjálfstæðisflokknum mælast frá fimm til tíu prósent . Miðað við fylgi Sjálfstæðisflokksins gæti Benedikt átt von á eitt til tvö prósent fylgi á landsvísu.

Þegar menn vilja fremur róa á eitt til tvö prósent mið í stað þess að leggja lag sitt við Samfylkinguna þá segir það nokkra sögu um tiltrúna sem flokkur Árna Páls nýtur.


Heimssýn heldur málþing; ESB-sinnar mótmæla þingkosningum

Heimssýn efndi til málþings á laugardag um fullveldi og Evrópusamruna. Framsögumenn voru bæði innlendir og erlendir og nálguðust viðfangsefnið úr ólíkum áttum. Rauði þráðurinn var að fullveldi er sjálfstæð og sjálfbær auðlind sem getur ekki þrifist í Evrópusambandinu.

Sama dag og Heimssýn hélt málþing stóð sundurleitur hópur fyrir mótmælum á Austurvelli þar sem niðurstöðum alþingiskosninga fyrir tæpu ári var mótmælt. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flutti ávarp og sagði m.a.

Við erum alls konar fólk úr ólíkum áttum og höfum eflaust alls konar ólíka hagsmuni en ég held þó að við höfum öll hagsmuni af því að sjálft lýðræðiskerfið virki og að þegar menn komast til valda í krafti tiltekinna loforða reyni þeir að efna þau en láti ekki eins og móðgaðir gullfiskar þegar þeir eru minntir á þau.

Guðmundur Andri rukkaði ekki inn loforðin sem Steingrímur J. gaf fyrir kosningarnar 2009 um að VG myndi ekki standa að ESB-umsókn sem fór umboðslaus til Brussel þá um sumarið.

Guðmundur Andri og sundurlausi mótmælahópurinn á Austurvelli mótmæla niðurstöðum þingkosninga með þeim rökum að sumir frambjóðendur í þeim kosningum gáfu misvísandi loforð. Enginn gekk þó svo langt sem núverandi formaður Samfylkingar, þá þingmaður, Árni Páll Árnason sem lofaði 2008 að ESB-umsókn yrði töfralausn.

Laugardagurinn var lýsandi fyrir ólíka nálgun Heimssýnar annars vegar og hins vegar ESB-sinna á umræðuna um hvort Ísland eigi heima utan eða innan Evrópusambandsins.

 

 

 


Grænland og Ísland; Úkraína og Rússland

Afkomendur Íslendinga og Grænlendingar bjuggu hlið við hlið um aldir; önnur þjóðin stundaði landbúnað en hin veiðiskap. Sameiginleg ógæfa beggja þjóðanna var að komast undir yfirráð smáþjóðar á fastlandi Evrópu, sem raunar var nokkuð öflug á 13. öld.

Á þessa leið mæltist Jósef Motzfeldt, fyrrum ráðherra og forseta grænlenska þingsins, á fundi Heimssýnar á laugardag um fullveldi þjóða og Evrópusamruna.

Samskipti þjóða á Norður-Atlantshafi eru með öðrum brag en þau sem tíðkast meðal þjóða á meginlandi Evrópu. Innrásir, ofbeldi og stríð eru snar þáttur í sögu meginlandsþjóðanna.

Úkraína er vettvangur togstreitu Evrópusambandsins og Rússalands um stórveldaáhrif í Austur-Evrópu.  Úkraína er samkvæmt Jóni Baldvini Hannibalssyni rusl-ríki með ónýta innviði og íbúa sem eru sjálfum sér sundurþykkir.

Ólgan í  Austur-Evrópu er síðbúin leiðrétting á öryggishagsmunum ríkja álfunnar eftir fall járntjaldsins og endaloka Sovétríkjanna.

Hvorki Íslendingar né Grænlendingar eiga hlutdeild í landamæradeilum ríkja meginlanda Evrópu.

Norrænu Grænlendingarnir skildu eftir sig minningu um að þjóðir geti búið í samlyndi þótt ólíkar séu. Á þeim grunni hvatti Jósef Motzfeldt til samvinnu þjóða á Norður-Atlantshafi. Íshafsráð Grænlendinga, Íslendinga. Færeyinga  og Norðmanna eru nærtækari alþjóðasamskipti en innganga í Evrópusambandið til að deila við Rússa um áhrif í Úkraínu. 


mbl.is Krímskagi rafmagnslaus að hluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. mars 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband