Færsluflokkur: Dægurmál

Staða Maríu Sigrúnar, spjótin standa á Stefáni

Hálsmánaðar gömul frétt Maríu Sigrúnar um milljarðagjöf Reykjavíkurborgar til olíufélaganna verður sýnd á RÚV í kvöld. Vegna fréttarinnar var Maríu Sigrúnu vikið úr fréttateymi Kveiks með svívirðingum. Hún var sögð skjáfríð en ekki kunna ,,rannsóknafréttamennsku." Í reynd var frétt sem átti erindi við almenning tekin af dagskrá vegna pólitískra sjónarmiðla.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var áður borgarritari og staðgengill borgarstjóra. Hann lét sér vel líka að frétt Maríu Sigrúnar var tekin af dagskrá og ekki greip hann til varnar þegar fréttakonan var lítilsvirt af karlkyns yfirmönnum. Samtök erlendra blaðamanna hafa gagnrýnt RÚV fyrir meðferðina á fréttakonunni.

Einhverjar fréttir hljóta að berast úr Efstaleiti í dag um stöðu Maríu Sigrúnar. Er hún í fréttateymi Kveiks eða ekki? Biðst RÚV afsökunar að hafa afturkallað frétt af pólitískum ástæðum? Verður María Sigrún beðin afsökunar?

Það stendur upp á Stefán útvarpsstjóra að útskýra afturköllun fréttarinnar um spillingu í Reykjavíkurborg. Uppgefin ástæða var að frétt Maríu Sigrúnar héldi ekki máli faglega. Nú þegar fréttin er komin á dagskrá er ljóst að þar var um að ræða tylliástæðu. Stefán, vegna fyrri starfa sinna hjá borginni, liggur undir grun um að vera meðsekur um að fréttin var tekin af dagskrá. Þá þarf Stefán að útskýra hvaða ráðstafanir verða gerðar vegna lítilsvirðandi ummæla sem karlkyns yfirmaður lét falla um Maríu Sigrúnu.

Stefán getur ekki látið eins og ekkert hafi í skorist. Hann er yfirmaður ríkisfjölmiðils og þarf að gera almenningi grein fyrir stórundarlegum atburðum síðustu daga á Efstaleiti.

Ef Stefán reynir að þegja málið af sér hlýtur ráðuneytið að krefja Efstaleiti svara. Stjórn RÚV, sem á að hafa eftirlit með útvarpsstjóra, hlýtur einnig að taka málið á dagskrá.


Halla Hrund og Ástþór

Halla Hrund rak eigin utanríkisstefnu sem orkumálastjóri, gerði milliríkjasamning við argentínska vinukonu sína. Önnur vinkona Höllu Hrundar var í vinnu hjá henni á Orkustofnun samtímis sem hún undirbjó forsetaframboðið.

Halla Hrund sýnir sömu framtakssemi og eilífðarforsetaframbjóðandinn Ástþór Magnússon.  Helsti munurinn er að viðskiptasnilld Ástþórs er á markaðstorginu en Halla Hrund sýslar með opinbert fé. Hér kemur kynslóðabilið til sögunnar. Kynslóðin sem Ástþór tilheyrir fékk ekki allt upp í hendurnar. Í gamla daga var opinbert fé ætlað í almannaþágu, ekki einkaflipp.

Ástþór ætlar að virkja Bessastaði í þágu heimsfriðar; Halla Hrun virkjar í Argentínu í þágu vinkonu. Talandinn er áþekkur, orðasalat án merkingar er borið fram af djúpri einlægni. Með einlæga sannfæringu eitt vopna er blokkaríbúð og einbýlishús sami hluturinn, Harvard og íslenska hálendið fá samnefnara í lopapeysunni.

Sérstakar manneskjur báðar tvær, Halla Hrund og Ástþór. Lukkuriddarar tveggja kynslóða. 

 


mbl.is Ráðuneytið kannast ekki við samráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðasamtök gagnrýna RÚV vegna Maríu Sigrúnar

Samtökin Blaðamenn án landamæra gagnrýna RÚV fyrir hótanir og lítilsvirðingu í garð Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur fréttakonu sem vikið var af ritstjórn Kveiks eftir að hún gerði frétt um spillingu vinstrimeirihlutans í Reykjavik.

Gagnrýnin kemur fram í lokahluta nýrrar skýrslu Blaðamanna án landamæra, þar sem fjallað er um ógnir við líf og andlega heilsu blaðamanna. Í skýrslunni segir orðrétt:

Þótt blaðamann séu tiltölulega óhultir fyrir líkamlegu ofbeldi verða kvenkyns blaðamenn stundum fyrir hótunum með símtölum eða athugasemdum á félagsmiðlum. Vandamálið er vaxandi á síðari árum.

María Sigrún varð fyrir aðkasti yfirmanna sinna á RÚV eftir að hún gerði athugasemd við að fréttainnslag hennar um gjafagjörning borgaryfirvalda var tekið af dagskrá Kveiks. Borgaryfirvöld létu af hendi byggingarlóðir til olíufélaganna upp marga milljarða króna.

Yfirmaður Maríu Sigrúnar sagði hana snoppufríða á skjánum en hún kynni ekki ,,rannsóknarblaðamennsku". Nú þegar búið er að ákveða að sýna fréttainnslagið, sem var tilbúið fyrir tveim vikum, er ljóst að faglegir fyrirvarar voru fyrirsláttur. Pólitík en ekki fagleg sjónarmið lágu að baki.

Aðferðin við að tukta til fréttakonuna er gamalkunnug og oft kennd við feðraveldið. Allir yfirmenn fréttakonunnar eru karlkyns. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri lagði með þögninni blessun sína yfir meðferðina á Maríu Sigrúnu. Stefán var borgarritari áður en hann fékk embætti útvarpsstjóra, - með meðmælum frá borgaryfirvöldum.

Gagnrýni Blaðamanna án landamæra féll illa í kramið hjá RÚV. Í stað þess taka gagnrýnina til sín, játa mistök og biðjast afsökunar var enn á ný beitt blekkingum og fyrirslætti.

Gripið var til þess ráðs á Efstaleiti að skrifa falsfrétt um skýrslu alþjóðlegu samtakanna. Í fréttinni á RÚV segir að hótanir beinist ,,einkum í garð kvenkyns blaðamanna á samfélagsmiðlum og víðar." En það segir ekkert um kvenkyns blaðamenn á samfélagsmiðlum í skýrslunni, heldur: ,,women journalists are occasionally subjected to threats via telephone calls or comments on social media. This problem has been growing in recent years."

Falsfrétt RÚV er gagngert skrifuð til að drepa á dreif gagnrýni sem beinist ótvírætt að ríkisfjölmiðlinum vegna meðferðarinnar sem María Sigrún sætir. Þótt fréttainnslagið verði tekið til sýningar liggur tvennt fyrir um starfshætti ríkisfjölmiðilsins.

Í fyrsta lagi að pólitík en ekki fagleg sjónarmið ráða ferðinni í ritstjórnarstefnu RÚV. Í öðru lagi að alþjóðleg samtök blaðamanna fordæma meðferð ríkisfjölmiðilsins á fréttakonum.

Starfshættir RÚV kalla á opinbera rannsókn.


mbl.is Kveiksþáttur Maríu Sigrúnar sýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt Maríu Sigrúnar: RÚV ritskoðaði, mbl.is birti

RÚV neitaði að birta frétt Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um spillingu vinstrimeirihlutans í Reykjavík sem gaf olíufélögunum lóðir fyrir milljarða króna. Nú er fréttin komin á mbl.is

Maríu Sigrúnu var vikið úr fréttateymi Kveiks á RÚV eftir er hún lét sér ekki vel líka óeðlileg afskipti yfirmanna. Náin tengsl eru á milli útvarpsstjóra, Stefáns Eiríkssonar, og vinstrimeirihlutans í Reykjavík. Stefán var borgarritari áður en hann varð útvarpsstjóri.

Tilfallandi fjallaði um ritskoðað fréttainnslag Maríu Sigrúnar á sunnudag og sagði:

Innslagið fjallaði um gjafmildi vinstrimeirihlutans í Reykjavík gagnvart olíufélögunum. Um er að ræða dýrar lóðir í grónum hverfum. Bensínstöðvar eru á lóðunum en þær eiga að víkja. Borgin ætti að leysa lóðirnar til sín en gaf þær olíufélögum. Ef sjálfstæðismenn hefðu verið í meirihluta hefði RÚV fjallað grimmt um spillinguna. En vinstrimenn ráða Reykjavíkurborg og samkvæmt ritstjórnarstefnu Efstaleitis skal fréttum um spillingu í ráðhúsinu sópað undir teppið.

Nú er fréttainnslagið komið á mbl.is, sjá viðtengda frétt. Tilefnið er tillaga sjálfstæðismanna í borgarstjórn um að gjafagjörningur vinstrimeirihlutans verði rannsakaður.

Allir, sem minnsta skynbragð bera á fréttir, sjá í hendi sér að fréttainnslag Maríu Sigrúnar átti fullt erindi til almennings.

En RÚV starfar ekki í þágu almannahagsmuna.


mbl.is Olíufélögin fái milljarða í afslátt frá borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur: kæri Stebbi og tuddinn á skólalóðinni

Í viðtengdri frétt segir af lítilsvirtri fréttakonu á RÚV. María Sigrún fréttamaður fékk þá umsögn frá yfirmanni að hún væri skjáfríð en kynni ekki ,,rannsóknafréttamennsku" eins og það heitir á Efstaleiti. Hugtakið nær einnig til byrlunar og stuldar, samkvæmt viðurkenndu verklagi ríkisfjölmiðilsins. Fréttir án rannsóknar eru trúlega réttu megin við lögin. En þær má ekki segja.

María Sigrún vann frétt sem kom við kaunin á Degi fyrrum borgarstjóra og vinstrimeirihlutanum í ráðhúsinu við Tjörnina. Stefán útvarpsstjóri hefur ekki tjáð sig um meðferðina sem María Sigrún sætir. Áður en Stefán varð útvarpsstóri fyrir fjórum árum var hann staðgengill Dags borgarstjóra, bar titilinn borgarritari. 

Dagur gaf Stefáni bestu meðmæli fyrir fjórum árum enda kærleikar miklir millum þeirra félaga. ,,Til hamingju Rúv og gangi þér allt að sólu, kæri Stebbi!," skrifaði Dagur. Nú endurgeldur kæri Stebbi fyrrum yfirmanni sínum greiðann með þegjandi stuðningi við millistjórnendur RÚV sem úthúða Maríu Sigrúnu er vogaði sér að afhjúpa spillingu í ráðhúsinu.

Tilvitnunin hér að ofan er tekin úr umfjöllun Kjarnans fyrir fjórum árum. Þar segir að fulltrúar minnihlutans í Reykjavík, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir, guldu varhug við að Stefán yrði útvarpsstjóri. Þær stöllur höfðu staðið Stefán að undirferli, hann baktalaði kjörna fulltrúa er höfðu gert aðfinnslur við stjórnsýsluna í ráðhúsinu.

Stefán líkti kjörnum borgarfulltrúum við ,,tudda á skólalóðinni" vegna gagnrýni þeirra á embættismenn og kallaði eftir að siðanefnd tæki á málinu. Sem útvarpsstjóri lagði Stefán niður siðanefnd sem úrskurðaði ekki rétt að hans mati - með úrskurði yfir Helga Seljan.

Fjögur ár eru langur tími í lífi embættismanns. Stefán stjórnar í dag Glæpaleiti þar tveir fyrrum undirmenn hans eru sakborningar í  sakamálarannsókn lögreglu á byrlunar- og símastuldsmálinu. Sjálfur getur útvarpsstjóri átt von á að vera kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu sem vitni í málinu.

Fyrir fjórum árum kallað útvarpsstjóri kjörna fulltrúa tudda á skólalóð fyrir gagnrýni á stjórnsýslu. Hvaða orðfæri hefur hann um undirmenn sína sem eiga aðild, beina eða óbeina, að alvarlegum afbrotum, byrlun og þjófnaði? Og hvaða orð hefur útvarpsstjóri um millistjórnendur RÚV er opinberlega lítilsvirða fréttakonu? Tuddi á skólalóð er háttvísin uppmáluð í samanburði við einstaklinga sem Stefán útvarpsstjóri heldur yfir verndarhendi.

 


mbl.is Segir lítilsvirðingu gagnvart konum ekki eiga að líðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetakjör

Einstaklingar eru í framboði til forseta, ekki stjórnmálaflokkar eða félagasamtök. Að því sögðu leita frambjóðendur hófanna hjá stjórnmálaflokkum og ýmsum félagasamtökum. Í stjórnmálum er þekking að reka kosningabaráttu. Félagasamtök, einkum lífsskoðunarfélög, kunna að framkalla umræðu er gæti skilað atkvæðum.

Kvartað er undan persónulegri kosningabaráttu, þar sem ,,farið er í manninn en ekki boltann." En það er aðeins maður til að fara í - enginn málefnabolti. Embætti forseta lýðveldisins er undanþegið dægurþrasi, snýst ekki um málefni heldur virðingu.

Forsetaembættið er staða þjóðhöfðingja, ekki vettvangur til að stunda stjórnmál eða berjast fyrir sérgreindum lífsskoðunum. Best fer á að embættið sitji maður sem kann eitthvað fyrir sér í stjórnskipum landsins, er boðlegur fulltrúi þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og búinn að hlaupa af sér hornin, er þroskaður einstaklingur hagvanur opinberu lífi.

Að öllu samanlögðu, og þrátt fyrir að vera hjartanlega ósammála pólitík viðkomandi, er tilfallandi þeirrar sannfæringar að einn forsetaframbjóðandi uppfylli best skilyrðin til forsetakjörs. Það er Katrín Jakobsdóttir. 


mbl.is Fylgið á hreyfingu tvist og bast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögnin um spillingu fjölmiðla

Fréttamaður RÚV, Sunna Valgerðardóttir, hættir störfum og ræður sig til Vinstri grænna. Hún segir um blaðamennsku:

Blaðamennsk­unni fylgja þau for­rétt­indi að geta bent á það sem bet­ur má fara og látið svo aðra um að laga.

Trúlega getur margur blaðamaðurinn tekið undir með Sunnu. Fjölmiðlar benda á vanda/álitamál sem aðrir, eftir atvikum hið opinbera eða einkaaðilar, laga eða færa í betra horf. Eða upplýsa að ekki sé tilefni til aðgerða, fréttin hafi verið byggð á misskilningi.

Í lýðræðisþjóðfélagi hafa fjölmiðlar eftirlitshlutverk. Fyrirkomulagið er viðurkennt í vestrænni fjölmiðlun.

En hverjir benda á það sem miður fer hjá blaðamönnum og fjölmiðlum? Hverjir sjá um eftirlitið þegar út af bregður og blaðamenn komast í kast við lögin?

Fimm blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Fréttin fær litla sem enga umfjöllun fjölmiðla. Tilfallandi bloggari skrifar um málið og uppsker tvær málsóknir. Ekki einn einasti starfandi blaðamaður hefur stigið fram og efast um réttmæti þess að blaðamenn stefni bloggara og krefjist takmörkunar á tjáningarfrelsinu. Blaðamannastéttin lætur gott heita að blaðamenn með stöðu sakborninga í refsimáli gangi fram fyrir skjöldu og takmarki málfrelsið - beinlínis í því skyni að þagga niður fréttir um óhreint mjöl í pokahorni fimm blaðamanna.

Erlendis er tekið alvarlega ef misbrestur verður frammistöðu blaðamanna. Skytt-málið er nýlegt dæmi. Hér þegja menn skömmustulega og horfa í gaupnir sér þegar fimm blaðamenn á þrem fjölmiðlum eru til lögreglurannsóknar vegna alvarlegra afbrota, byrlunar og stuldar.

Heimildin er uppvís að stórfelldum blekkingum, prentar yfir 36 þúsund eintök, sem flest fara á haugana. Tilgangurinn er fela magnkaup auðmanna að áskriftum annars vegar og hins vegar ýkja útbreiðsluna til að ná í auglýsingafé á fölskum forsendum.

Bloggari greindi frá siðlausu athæfi Heimildarinnar, sjá hér og hér, en fjölmiðlar þegja. Ekkert eftirlit er með frammistöðu fjölmiðla - en þorri þeirra þiggur ríkisframlag. Opinbert fé án eftirlits er iðulega misnotað.

Fjölmiðlar þegja um skattsvik formanns Blaðamannafélags Íslands, láta formanninn komast upp með að senda út fréttatilkynningu um að skattsvikin sé einkamál. Þó vita allir blaðamenn að skattsvik eru opinbert fréttamál enda reglulega á dagskrá fjölmiðla. Það þykir aftur frétt er formaðurinn fær stungu hunangsflugu. Faglega kýlið sem blasir við fær enga stungu. Enda gerir það ekki annað en að vaxa.

Spillingin þrífst best í þögninni. Grafarþögnin um skemmdu eplin í fjölmiðlatunnunni spillir öllu innihaldinu. Íslensk blaðamennska er sú spilltasta á vesturlöndum. Til að fela ósómanna hratt Blaðamannafélagið úr vör auglýsingaherferð um mikilvægi blaðamennsku. Í herferðinni er ekki minnst einu orði á heiðarleika. Skiljanlega.

 


mbl.is Lætur af störfum hjá Ríkisútvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimildin prentar fyrir Sorpu

Vikuútgáfa Heimildarinnar er prentuð í 36.400 eintökum, samkvæmt Gallup. Vefútgáfa Heimildarinnar er einnig mæld af Gallup. Vikulegir notendur eru 15 þúsund og hafa verið það frá upphafsdögum útgáfunnar í febrúar á síðasta ári. Stöðug mæling í rúmt ár verður ekki vefengd. Netnotendur eru aðeins 15 þúsund.

Heimildin er fyrst og fremst áskriftarútgáfa, hreyfist varla í lausasölu. Prentað upplag á að vísa í seld eintök í áskrift. Áskrifendur að fjölmiðlum nota á hinn bóginn rafrænu útgáfuna mun oftar en prentútgáfu, ef um hana er að ræða. Prentað upplag Morgunblaðsins er t.d. 52 þúsund eintök, en vefútgáfan er með 220 þúsund notendur vikulega. Notendur mbl.is eru ríflega fjórum sinnum fleiri en áskrifendur Morgunblaðsins.

Heimildin er ekki í sama flokki og Morgunblaðið. En báðar útgáfurnar eru á sama fjölmiðlamarkaði og hegðun fjölmiðlaneytenda hvors miðils um sig er áþekk. Dæmigerður lesandi Heimildarinnar er háskólamenntaður vinstrimaður. Sá þjóðfélagshópur lifir hálfu sínu lífi á netinu. Varlega áætlað ættu vefnotendur Heimildarinnar að vera tvisvar til þrisvar sinnum fleiri en áskriftarfjöldi. 

En tilfellið er að í stað þess að netútgáfa Heimildar hafi 70 til 100 þúsund vikulega notendur eru þeir aðeins 15 þúsund. 

Raunverulegir áskrifendur Heimildarinnar, þ.e. einstaklingar og lögaðilar sem kaupa eina áskrift hver, eru líklega vel undir fimm þúsund. Auðmenn kaupa þúsundir áskrifta. Það er eina skýringin á misræminu.

En hvers vegna er Heimildin prentuð í rúmlega 36 þúsund eintökum þegar fimm þúsund myndu nægja? Ástæðan er bókhaldið. Auðmenn, sem kaupa áskriftir í þúsundavís, eru í reynd að styrkja Heimildina með mánaðarlegu framlagi upp á margar milljónir króna. En styrktarframlagið er ekki skráð sem slíkt heldur áskrift. Heimildin vill ekki að þess sjáist merki í bókhaldinu að útgáfunni er haldið á lífi með styrkjum auðmanna. Sjálfsímyndin gengur út á að útgáfan eigi erindi til almennings en sé ekki ómagi á framfæri valinna auðmanna er njóta nafnleyndar.

Hvers vegna ættu auðmenn að greiða framlag til Heimildarinnar? Ástæðurnar eru tvíþættar, líkt og rakið var í laugardagsbloggi. Í fyrst lagi til að styðja við ritstjórnarstefnu Heimildarinnar, vera til dæmis á móti fiskeldi en fylgjandi sportveiði, og í öðru lagi að kaupa sig undan illu umtali. Í síðasta tölublaði Heimildarinnar var neikvæð umfjöllun um auðmanninn Róbert Wessmann. Fjandvinur Róberts og fyrrum yfirmaður er Björgólfur Thor Björgólfsson. Björgólfur fær ekki neikvæða umfjöllun í Heimildinni. Líklega kaupir Björgólfur Thor styrktaráskrift en Róbert ekki.

Heimildin taldi sig fyrir ári afhjúpa risastórt hneyksli, að drykkjarfernur færu ekki í endurvinnslu heldur voru brenndar. Þórður Snær ritstjóri skrifaði leiðara um málið.

Mun Þórður Snær gera grein fyrir stórum hluta af prentupplagi Heimildarinnar sem fer beint í Sorpu? Eða fer endurvinnslan fram á öðrum og leynilegri stað?  


María Sigrún og bakdyr RÚV

Þóra Arnórs fór út bakdyramegin á RÚV, Rakel Þorbergs einnig og líkt fór fyrir Helga Seljan. Sigríður Dögg var send í ótímabundið leyfi. Fjórmenningarnir voru orðnir óþægilegir fyrir RÚV. María Sigrún lenti upp á kant við handhafa ritstjórnarvaldsins á Efstaleiti vegna innslags sem kom óþægilega við ríkjandi vinstrislagsíðu fréttastofu. Hverfur hún út um bakdyrnar?

Innslagið fjallaði um gjafmildi vinstrimeirihlutans í Reykjavík gagnvart olíufélögunum. Um er að ræða dýrar lóðir í grónum hverfum. Bensínstöðvar eru á lóðunum en þær eiga að víkja. Borgin ætti að leysa lóðirnar til sín en gaf þær olíufélögum. Ef sjálfstæðismenn hefðu verið í meirihluta hefði RÚV fjallað grimmt um spillinguna. En vinstrimenn ráða Reykjavíkurborg og samkvæmt ritstjórnarstefnu Efstaleitis skal fréttum um spillingu í ráðhúsinu sópað undir teppið.

Fréttastofa RÚV er faglega gjaldþrota. Fréttastofan hefur enn ekki gert grein fyrir aðkomu sinni að byrlunar- og símastuldsmálinu. Þóra er sakborningur og Rakel og Helgi urðu að hætta á fréttastofu vegna tengsla við málið. Sigríður Dögg er skattsvikari. Þegar skattsvikin voru upplýst sl. haust gat fréttastofa ekki gefið út einfalda yfirlýsingu um að skattsvik fréttamanns gerðu hann vanhæfan til fréttamennsku.

Mál Maríu Sigrúnar sýnir að fréttastofan getur ekki svarað faglegum álitamálum með öðru en skætingi, sbr. ,,María Sigrún ætti að vera þula" eða útúrsnúningi, að innslagið hafi ekki verið tilbúið.

Meinsemdin sem grafið hefur um sig á RÚV kallast aðgerðafréttamennska. Ritstjórnarstefnan er að leita uppi fréttir sem falla að fyrirframgefinni afstöðu. María Sigrún vann sér til vanhelgi að setja saman fréttainnslag er gekk í berhögg við fyrirframgefna forsendu - að spillingu og vinstriflokka megi aldrei nefna í sömu setningu. Það brýtur gegn ríkjandi frásagnarhefð á Efstaleiti.

 

 


mbl.is „Þetta þótti mér miður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-lesendur Heimildar afhjúpaðir

Heimildin prentar 36 þúsund eintök vikulega. En vikulegir notendur vefútgáfunnar eru helmingi færri og gott betur, eða 15 þúsund. Ef Heimildin seldi vikulega eitthvað nálægt 36 þúsund eintök, í áskrift og lausasölu, ættu að sjást þess merki í fjölda notenda vefmiðilsins. En svo er ekki.

Í bloggi gærdagsins var fjallað um stöðu Heimildar á fjölmiðlamarkaði. Í umræðu á Facebook vakti Ingunn Björnsdóttir athygli á misræminu milli prent- og netmiðils Heimildar. Hún skrifaði

Er það ekki rétt skilið hjá mér að áskrifendur prentútgáfu Heimildarinnar hafi jafnframt aðgang að vefútgáfunni? Og ef svo er, eru þá um 20.000 í þeim hópi fólk sem aldrei fer inn á vefinn...

Óhugsandi er að áskrifendur Heimildarinnar fari í stórum stíl ekki inn á vefútgáfuna. Umferðin er margfalt meiri á vefsvæði Morgunblaðsins en nemur fjölda áskrifenda. Hlutföllin eru öfug hjá Heimildinni, helmingi færri fara á vefsvæði útgáfunnar en nemur meintum fjölda áskrifenda. Fjölmiðlaneytendur haga sér ekki á þann hátt sem Heimildarmenn vilja vera láta.

Sá sem kaupir prentáskrift af fjölmiðli fylgist einnig með vefútgáfunni enda fær áskrifandinn lykilorð að vefmiðlinum. Ef rétt er að áskrifendur prentútgáfu Heimildar séu um 36 þúsund ættu notendur vefútgáfu að vera að minnsta kosti tvöfalt eða þrefalt fleiri, liggja á bilinu 70 til 100 þúsund á viku. En þeir eru aðeins 15 þúsund. Hér fer ekki saman hljóð og mynd.

Einboðið er að áskrifendur Heimildar eru til muna færri en gefið er upp. Tvær aðferðir eru notaðar til blekkja. Í fyrsta lagi með frídreifingu í verslunum og bensínsjoppum, líkt rakið var í bloggi gærdagsins.

Í öðru lagi að sami aðili kaupi áskriftir í hundrað- eða þúsundavís. Í raun er það ígildi mánaðarlegs framlags til að halda útgáfunni á floti.

Magnkaup áskrifta eru af tvennum toga. Sumir kaupa áskriftir af velvilja til útgáfunnar, aðrir óttast illvilja Heimildarinnar og kaupa sér frið, greiða verndarfé gegn illu umtali.

Heimildin líkt og forverar, Stundin og Kjarninn, stundar herskáa umfjöllun um menn og málefni eins og alþjóð veit. Til að verða ekki fyrir barðinu á óvæginni fréttaherferð freistast menn með fjárráð að kaupa af sér illmælgi. Ritstjórn Heimildarinnar er ekkert heilagt í þeim efnum, fjórir blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Önnur óhefðbundin háttsemi Heimildar er að stefna þeim fyrir dómstóla sem voga sér að gagnrýna fjölmiðilinn, eins og tilfallandi bloggari þekkir á eigin skinni. Fréttir og umfjöllun eru ekki forgangsmál Heimildarmanna, heldur harðdræg varðstaða sérhagsmuna eigenda og lykilstarfsmanna.

Hverjir gætu verið magnkaupendur áskrifta? Björgólfur Thor Björgólfsson auðmaður er nánast aldrei til umfjöllunar á Heimildinni. Umsvif hans ættu þó að kalla á áhuga hýenublaðamanna Heimildarinnar. En það er ekkert að frétta. Er skýringin að Björgólfur Thor kaupir nokkrar þúsundir áskrifta af Heimildinni? Hundar bíta ekki höndina sem fæðir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband