Sunnudagur, 6. desember 2009
Vinstristjórn án vinstristefnu
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er sögð fyrsta hreina vinstristjórnin með því að flokkarnir tveir sem hana mynda eru til vinstri við miðju, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Þegar litið er á pólitík og málsmeðferð stjórnarinnar fer fjarska lítið fyrir vinstristjórnmálum.
Andstæðingar stjórnarinnar segja sjálfsagt að skattlagning til andskotans sé ekta vinstristefna og þar sverji Jóhönnustjórnin sig í ættina. En sé sanngirni gætt er ekki hægt að neita að skattahækkanir voru óhjákvæmilegar eftir hrun.
Það er í afstöðunni til eignarhalds fyrirtækja sem stefnuleysi stjórnarinnar er algjört. Í gamla daga var ríkisvæðing á dagskrá vinstriflokka. Blandaður búskapur einkarekstrar og ríkis kom þarnæst. Eftir það hættu vinstriflokkar að tala um rekstur, hvort heldur einkarekstur eða opinberan. Tækifærissinnar í Samfylkingu tóku upp inngöngu í Evrópusambandið sem mál málanna og Vg náttúruvernd. Hvorki ESB né náttúruvernd er sérstaklega vinstri eða hægri.
Hrunið leiddi til fjöldagjaldþrota einkafyrirtækja sem beint eða óbeint hafna hjá nýríkisvæddum bankastofnunum. Ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd hvað hún ætlar að gera í málinu. Skortur á stefnu í málaflokknum verður til þess að spilling grefur um sig hratt og örugglega.
Stjórnvöld með lágmarksmeðvitund fyrir atvinnulífi myndu leggja niður almenn viðmið fyrir þrotarekstur einkageirans. Við hvaða aðstæður eigi að halda lífi í rekstri og hvaða þjóðfélagsmarkmið skuli hafa í huga, s.s. er varðar samkeppni.
Vinstristjórnin er þögnin ein um atvinnulífið. Enda er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ekki vinstristjórn nema að nafninu til.
Athugasemdir
Þú sagðir það einu sinni í Silfrinu að þú hafir kosið VG þegar verið var að tala um ESB En eftir þessum texta að dæma varstu annað hvort að segja ósatt af því það hentaði tilefninu, eða þú vilt fá hrunaflokkana aftur til valda. Það sem mér finnst furðulegt í málflutningi þínum að þú bölsótast yfir skattahækkunum á sama tíma og þú kaust VG sem fóru ekki leynt með það að þeir myndu fara í skattahækkanir.
Valsól (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 12:33
Ég kaus Vg og hvatti aðra til þess vegna þess að ég hélt að Vg myndu halda okkur utan ESB. En Vg sveik.
Í textanum hér að ofan er ég ekki að gagnrýna skattastefnuna, fremur að bera af henni blak.
Ég er að gagnrýna stefnuleysi í málefnum atvinnulífsins.
Páll Vilhjálmsson, 6.12.2009 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.