Miðvikudagur, 25. nóvember 2009
Arion er ónýtt nafn á ónýtum banka
Raðbilun í dómgreind stjórnenda Arionbanka, áður Kaupþing, lýsir sér í nafngiftinni. Arion safnreikningur var notaður sem felulitur á hlutabréfakaup útrásarauðmanna. Dytti Landsbankanum í hug að taka sér nafnið Icesave?
Ónýtt nafn er eitt, dómgreindarlaus rekstur er annað. Málatilbúnaður Kaupþings/Arion gagnvart Baugsfeðgum og Högum er handvömm frá upphafi til enda. Hefði mátt ætla að stjórnendur bankans myndu hafa lært eitthvað af umræðunni fyrr á árinu um niðurfellingu skulda Björgólfsfeðga: Útrásarauðmenn eiga ekki að fá krónu afskrifaða.
Nei, Baugsfeðgum leyfist að hanga á einokun sinni á íslenskum matvælamarkaði með fullu leyfi ríkisbankans. Baugsfeðgar þyrla upp sögum um útlenda peninga í reksturinn og bankinn gleypir hrátt ævintýrið sem hvert barn sér að er skáldskapur.
Athugasemdir
Sammála
Andri Geir Arinbjarnarson, 25.11.2009 kl. 12:51
Hvernig getur Finnur Sveinbjörnsson hagað sér líkt og hann hefur gert síðastliðna daga, þegar hann sjálfur fékk 800 milljón króna lán í gegnum einkahlutafélag til að kaupa hlutabréf í Icebank. Þetta er tapað lán hjá banka sem er í eigu ríkisins, þannig að íslenskir skattgreiðendur þurfa að borga brúsann fyrir núverandi bankastjóra Arion banka. Það að maðurinn geti verið að dæma starfsfólk sitt, sem jafnvel hefur tekið húsnæðislán á eigin kennitölu, er algjörlega út í hött.
Björgúlfur Smárason (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 12:58
Hjartanlega sammála. Auk alls þess sem að má finna í þessum viðskiptabanka mínum til 25 ára, þá asnast þessir nýju forsvarsmenn á þetta innilega ógagnsæja og vonlausa nafn. Þetta fólk vafrar um í stjörnuþoku. Draga svo fram óljósar skýringar með hrafli úr samanrekinni, handunninni goðafræði. Gæfuleysið fellur þeim að síðum að öllu leyti. - Nú ætlaði ég að skipta umsvifalaust um banka og flytja mitt fjárhagslega hafurtask yfir í MP banka. Kemur þá ekki frétt um húsleit þar , í kvöldfréttum í gær. Hvaða banka er hægt að treysta? Ráðleggingar eru vel þegnar.
Guðrún Ægisdóttir (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 12:59
Maður er orlaus yfir meðferð Finns - Arion - Kauppings á málum Haga. Mér er spurn, hver ræður, er þetta rugl með velþóknun stjórnar bankans? ef svo er, er stjórn bankans að vinna eftir fyrirsögn frá Steingrími og Jóhönnu sem eiga að grípa inní þegar svona illa er staðið að málum. Þarna eru svo miklir hagsmunir fyrir almenning að stjórnmálamenn verða að taka í taumana. Nú dugar ekki lengur að skýla sér bakvið orðaleiki. Steingrímur gat sem betur fer tjáð skoðun sína á afskriftum til Björgólfana. Svo er það með hvernig maður finnur sér nýjann viðskiptabanka. Þeim tókst að rústa alla sparisjóði á suður og vestur landinu. Þá eru bara eftir nokkrir Sparisjóðir s.s. á Grenivík, Þingeyinga, Þórshafnar, Norfjarðar...... Ég vel þann kostinn að fara í einn af þessum.
Kristján Kristjánsson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 13:10
Já það er ekki sama Jón og AriJón.
Andri Geir Arinbjarnarson, 25.11.2009 kl. 13:38
Menn eru að reyna að Haga hlutum þannig að sem minnst á aumingjaskapnum beri, sem er auðvitað hreinn barnaskapur, menn eiga bara ekki að Haga sér svona
Tómas Ibsen Halldórsson, 25.11.2009 kl. 13:51
Þetta Arion er eitt risa "fökkjú" merki framan í venjulegt og sómakært fólk.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 14:30
Flott færsla hjá þér Páll eins og margar fleiri.
Mér skilst nú að Finnur sé bróðir eiginmanns Ingibjargar. Lesi hver sem er merkingu út úr því.
Skattfylkingin er sjálfri sér söm, það er klúður alls staðar þar sem hana ber niður. Skattfylkingin hefur einhverra hluta vegna mikla velþóknun á Baugsfeðgum og vill sennilega hugsa vel um þá fegða.
Ég held líka að ég hafi séð á fréttavef einum að Finnur hafi verið forstjóri einhvers fyrirtækis sem a.m.k. helmingur Baugsfeðga átti. Mér finnst því mjög vafasamt að telja hann hlutlausan í þessu máli. Að auki er fortíð hans með þeim hætti að hann ætti ekki að koma meira nálægt fjármálastarfsemi.
Hér vantar algerlega skýra stefnu frá ríkisstjórninni (í þessu máli eins og mörgum öðrum), útrásarauðmenn eiga ekki að fá uppgefnar skuldir. Hér á að ríkja jafnræði á milli þegnanna. Nú er kjörið tækifæri til að taka til hendinni í samkeppnismálum og skipta upp þessu bákni.
Steingrímur sagði skýrt í sumar að ekki ætti að afskrifa neitt af skuldum Björgúlfsfeðga en nú virðist vera annað uppi á teningnum með Baugsfeðga. Er Skattfylkingin enn og aftur að kúska hann til hlýðni? Situr hann og stendur eins og Skattfylkingin vill svo hann haldi nú örugglega ráðherrastólnum og geti "bjargað" þjóðinni? Eigum við ekki bara að rétta Björgúlfsfeðgum aftur Landsbankann fyrir slikk fyrst rétta á Baugsfegðum aftur Haga? Ekki getum við verið þekkt fyrir að mismuna útrásarvíkingunum!
Fólk þarf að senda Arion banka skýr skilaboð og hætta einfaldlega í viðskiptum við hann, það er hægt að gera ýmislegt meira en tuða út í horni.
Jon (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 20:54
Er þá ríkið (með alla sína banka) eitthvað skárra en hinn óhefti markaður?
Helgi (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.